Höfuðþættir 1. Samúelsbókar
Orð Jehóva er lifandi
Höfuðþættir 1. Samúelsbókar
ÞAÐ er árið 1117 fyrir okkar tímatal. Um 300 ár eru liðin síðan Jósúa lauk við að leggja undir sig fyrirheitna landið. Öldungar Ísraels koma til spámanns Jehóva og bera fram óvenjulega bón. Spámaðurinn leggur málið fyrir Jehóva í bæn og Jehóva leyfir þjóðinni að fara sínu fram. Dómaratímabilinu er þar með lokið og konungatíminn tekur við. Í 1. Samúelsbók eru raktir atburðir sem eiga sér stað við þessi sérstöku tímamót í sögu Ísraelsmanna.
Það eru þeir Samúel, Natan og Gað sem skrifa 1. Samúelsbók en saga hennar spannar 102 ár, frá 1180 til 1078 f.o.t. (1. Kroníkubók 29:29) Fjórir leiðtogar koma við sögu á þessu tímabili. Tveir eru dómarar en tveir konungar. Tveir hlýða Jehóva en tveir ekki. Einnig koma við sögu tvær fyrirmyndarkonur og hugrakkur en mildur stríðsmaður. Við getum dregið verðmæta lærdóma af þessu fólki um viðhorf og verk sem eru verð eftirbreytni og önnur sem ber að forðast. Fyrri Samúelsbók getur því haft sterk áhrif á hugsanir okkar og hátterni. — Hebreabréfið 4:12.
SAMÚEL TEKUR VIÐ SEM DÓMARI AF ELÍ
Það er komið að uppskeruhátíðinni og Hanna, sem býr í Rama, er yfir sig glöð. * Jehóva hefur bænheyrt hana og hún hefur eignast son. Nú er hún komin í „hús Drottins“ og býður soninn Samúel fram til að þjóna þar eins og hún hafði heitið. Drengurinn gegnir síðan „þjónustu Drottins hjá Elí presti“. (1. Samúelsbók 1:24; 2:11) Hann er enn ungur að árum þegar Jehóva talar við hann og fellir dóm yfir ætt Elís. Eftir að Samúel er vaxinn úr grasi er hann viðurkenndur af allri þjóðinni sem spámaður Jehóva.
Nú gerist það að Filistar ráðast inn í Ísrael. Þeir taka örkina og fella tvo syni Elís. Honum eru flutt tíðindin og verður það hans bani, en hann „hafði verið dómari í Ísrael í fjörutíu ár“. (1. Samúelsbók 4:18) Það reynist Filistum þungt í skauti að hafa örkina og á endanum skila þeir henni til Ísraels. Samúel tekur nú við sem dómari í Ísrael og friður ríkir í landinu.
Biblíuspurningar og svör:
2:10 — Hvers vegna biður Hanna Jehóva þess að ‚veita kraft konungi sínum‘ meðan enginn maður fer með konungdóm í Ísrael? Í Móselögunum var sagt fyrir að Ísraelsmenn ættu eftir að eignast mennskan konung. (5. Mósebók 17:14-18) Jakob sagði í spádómi sem hann bar fram á dánarbeðinu: „Ekki mun veldissprotinn [sem táknar konunglegt vald] víkja frá Júda.“ (1. Mósebók 49:10) Og Jehóva sagði að Sara, formóðir Ísraelsmanna, myndi verða „ættmóðir þjóðkonunga“. (1. Mósebók 17:16) Hanna var því að biðja fyrir ókomnum konungi.
3:3 — Svaf Samúel í hinu allrahelgasta? Nei, Samúel var levíti af ætt Kahatíta en þeir gegndu ekki prestsstörfum. (1. Kroníkubók 6:33-38) Þar af leiðandi mátti hann ekki „ganga inn og sjá helgidóminn“. (4. Mósebók 4:17-20) Samúel hafði einungis aðgang að forgarði tjaldbúðarinnar. Hann hlýtur því að hafa sofið þar. Elí mun sömuleiðis hafa sofið einhvers staðar í forgarðinum. Orðalagið „þar sem Guðs örk var“ virðist því merkja tjaldbúðarsvæðið.
7:7-9, 17 — Nú átti aðeins að færa fórnir á reglulegum grundvelli á þeim stað sem Jehóva valdi. Af hverju færði Samúel þá brennifórn í Mispa og reisti altari í Rama? (5. Mósebók 12:4-7, 13, 14; Jósúabók 22:19) Nærveru Jehóva varð ekki vart í Síló eftir að örkin helga var tekin úr tjaldbúðinni þar. Samúel færði því brennifórn í Mispa og reisti einnig altari í Rama sem fulltrúi Jehóva. Greinilegt er að Jehóva lagði blessun sína yfir þetta.
Lærdómur:
1:11, 12, 21-23; 2:19. Hanna er öllum guðhræddum konum til fyrirmyndar með bænrækni sinni, auðmýkt, varanlegri móðurást og þakklæti fyrir gæsku Jehóva.
1:8. Elkana er góð fyrirmynd með því að styrkja aðra með orðum sínum. (Jobsbók 16:5) Fyrst spyr hann Hönnu af hverju liggi svona illa á henni, þó ekki í ásökunartón. Þetta hvetur hana til að tala um líðan sína. Elkana fullvissar hana um ást sína þegar hann spyr: „Er ég þér ekki betri en tíu synir?“
2:26; 3:5-8, 15, 19. Við verðum „æ þekkari“ bæði Guði og mönnum ef við vinnum af alúð að því sem Guð hefur falið okkur, þiggjum trúarlega uppfræðslu, erum kurteis og sýnum öðrum virðingu.
4:3, 4, 10. Þó að sáttmálsörkin væri háheilög var hún enginn verndargripur. Við verðum að ‚gæta okkar fyrir skurðgoðum‘. — 1. Jóhannesarbréf 5:21.
FYRSTI KONUNGUR ÍSRAELS — FARSÆLL EÐA MISHEPPNAÐUR?
Samúel er trúr Jehóva alla ævi en synir hans eru ekki guðræknir. Jehóva verður við óskum Ísraelsmanna þegar öldungar þeirra fara fram á að fá mennskan konung. Samúel fylgir handleiðslu Jehóva og smyr Sál til konungs en hann er myndarmaður af ætt Benjamíns. Sál treystir sig í sessi með því að sigra Ammóníta.
Jónatan, hugrakkur sonur Sáls, sigrar setulið Filista í Geba. Filistar ráðast á Ísrael með gríðarlega fjölmennu liði. Sál er dauðskelfdur og færir brennifórn þótt honum hafi verið sagt að gera það ekki sjálfur. Jónatan tekur með sér skjaldsvein sinn og þeir tveir ráðast á annan varðflokk Filista. Í fljótfærni lætur Sál liðið vinna eið sem hefur þær afleiðingar að sigurinn verður ekki alger. Hann ‚háði ófrið við alla óvini sína allt um kring‘. (1. Samúelsbók 14:47) En eftir að hafa sigrað Amalekíta óhlýðnast hann Jehóva með því að þyrma því sem var ‚bannfært‘ og átti að tortíma. (3. Mósebók 27:28, 29) Jehóva hafnar honum þá sem konungi.
Biblíuspurningar og svör:
9:9 — Hvað má álykta af orðalaginu: „Þeir, sem nú eru kallaðir spámenn, voru fyrrum kallaðir sjáendur“? Þetta bendir hugsanlega til þess að heitið „sjáandi“ hafi vikið fyrir heitinu „spámaður“ þegar meira fór að bera á spámönnum á dögum Samúels og á konungatímanum. Samúel er álitinn fyrsti spámaðurinn. — Postulasagan 3:24.
14:24-32, 44, 45 — Glataði Jónatan velþóknun Guðs þegar hann braut gegn eiði Sáls með því að borða hunang? Þetta virðist ekki hafa bakað honum vanþóknun Guðs. Í fyrsta lagi vissi hann ekki af eiði föður síns. Í öðru lagi olli eiðurinn erfiðleikum fyrir aðra, en hann var annaðhvort til kominn af uppgerðarkappsemi eða rangri sýn konungs á vald sitt. Hvernig gat slíkur eiður haft velþóknun Guðs? Jónatan var raunar fús til að taka afleiðingum þess að hann skyldi rjúfa eiðinn en lífi hans var þyrmt.
15:6 — Af hverju sýndi Sál Kenítum sérstaka velvild? Kenítar voru synir Jetrós, tengdaföður Móse en þeir veittu Ísraelsmönnum aðstoð eftir að þeir yfirgáfu Sínaífjall. (4. Mósebók 10:29-32) Kenítar settust einnig að í Kanaanlandi og bjuggu um skeið með sonum Júda. (Dómarabókin 1:16) Þeir voru alltaf vinsamlegir í garð Ísraelsmanna þó að þeir byggju síðar meðal Amalekíta og ýmissa annarra þjóða. Það var því gild ástæða fyrir því að Sál skyldi þyrma Kenítum.
Lærdómur:
9:21; 10:22, 27. Sál var hógvær og lítillátur fyrst eftir að hann varð konungur og það kom í veg fyrir að hann sýndi af sér fljótfærni þegar „hrakmenni nokkur“ vildu ekki viðurkenna konungstign hans. Þess konar hugarfar er okkur góð vernd gegn óskynsamlegu framferði.
12:20, 21. Látum ekki ‚fánýti‘ eins og traust á mönnum, tiltrú á hernaðarmátt þjóða eða skurðgoðadýrkun verða til þess að við hættum að þjóna Jehóva.
12:24. Til að óttast Jehóva, virða hann og þjóna honum af öllu hjarta er mikilvægt að ‚sjá hversu mikið hann hefur gert‘ fyrir þjóna sína í fortíð og nútíð.
13:10-14; 15:22-25, 30. Gætum þess að vera ekki ósvífin, hvorki með því að óhlýðnast né sýna af okkur hroka. — Orðskviðirnir 11:2.
UNGUR FJÁRHIRÐIR VALINN KONUNGUR
Samúel smyr Davíð af ættkvísl Júda til konungs. Skömmu síðar fellir Davíð risann Golíat með einum slöngvusteini. Davíð og Jónatan verða alúðarvinir. Sál setur Davíð yfir hermenn sína. Eftir að Davíð hefur unnið marga sigra syngja konurnar í Ísrael: „Sál felldi sín þúsund, en Davíð sín tíu þúsund.“ (1. Samúelsbók 18:7) Sál er gagntekinn af öfund, reynir að drepa Davíð en Davíð forðar sér eftir þriðju morðtilraunina og gerist flóttamaður.
Davíð þyrmir lífi Sáls tvisvar á þeim árum sem hann er á flótta. Hann hittir hina fögru Abígail og gengur síðar að eiga hana. Sál gengur til frétta við Jehóva þegar Filistar ráðast á Ísrael. En Jehóva er búinn að yfirgefa hann og Samúel er dáinn. Í örvæntingu leitar Sál þá til andamiðils sem segir honum að hann muni falla í bardaganum við Filista. Hann særist alvarlega í bardaganum og synir hans falla. Bókinni lýkur með því að Sál deyr sem misheppnaður konungur. Davíð er enn í felum.
Biblíuspurningar og svör:
16:14 — Hvaða illi andi sturlaði Sál? Illi andinn, sem rændi Sál hugarfriði, var illskan sem bjó í huga hans og hjarta — hin innri hvöt til að gera rangt. Heilagur andi hætti að vernda Sál þegar Jehóva tók anda sinn frá honum, og hin illa hvöt innra með honum tók völdin. Þar sem Jehóva leyfði að þessi hvöt kæmi í stað heilags anda er svo að orði komist að „illur andi frá Drottni“ hafi sturlað Sál.
17:55-58 — Af hverju spurði Sál hvers son Davíð væri, þegar mið er tekið af 1. Samúelsbók 16:17-23? Sál var ekki bara að spyrja hverra manna Davíð væri. Að öllum líkindum vildi hann fá að vita hvers konar maður ætti drenginn sem hafði unnið það þrekvirki að fella risa.
Lærdómur:
16:6, 7. Við ættum að sjá aðra sömu augum og Jehóva en ekki að hrífast af ytra útliti þeirra eða leggja fljótfærnislegt mat á þá.
17:47-50. Við getum verið hugrökk þegar óvinir, sem líkja má við Golíat, beita sér gegn okkur eða ofsækja okkur, vegna þess að „bardaginn er Drottins“.
18:1, 3; 20:41, 42. Við getum eignast sanna vini meðal þeirra sem elska Jehóva.
21:12, 13. Jehóva ætlast til þess að við beitum huga okkar og færni til að bregðast við erfiðleikum í lífinu. Hann hefur gefið okkur innblásið orð sitt sem veitir okkur hyggindi, þekkingu og aðgætni. (Orðskviðirnir 1:4) Safnaðaröldungar eru okkur einnig til hjálpar.
24:7; 26:11. Davíð er skínandi dæmi um mann sem bar ósvikna virðingu fyrir smurðum konungi Jehóva.
25:23-33. Hyggindi Abígail eru til fyrirmyndar.
28:8-19. Illir andar geta gert fólki mein eða villt um fyrir því með því að þykjast vera ákveðin látin manneskja. Við verðum að forðast spíritisma í hvaða mynd sem er. — 5. Mósebók 18:10-12.
30:23, 24. Þessi ákvörðun, sem er byggð á 4. Mósebók 31:27, sýnir að Jehóva kann að meta þá sem fara með stuðningshlutverk í söfnuðinum. Við skulum því gera alla hluti „af heilum huga, eins og Drottinn ætti í hlut, en ekki menn“. — Kólossubréfið 3:23.
Hvað er ‚betra en fórn‘?
Frásögurnar af Elí, Samúel, Sál og Davíð staðfesta þann grundvallarsannleika að „hlýðni er betri en fórn, gaumgæfni betri en feiti hrútanna. Þrjóska er ekki betri en galdrasynd, og þvermóðska er ekki betri en hjáguðadýrkun og húsgoð.“ — 1. Samúelsbók 15:22, 23.
Það er mikill heiður að fá að taka þátt í að boða ríki Guðs og gera menn að lærisveinum eins og gert er um allan heim. Um leið og við bjóðum Jehóva „ávöxt vara vorra“ þurfum við að gera okkar besta til að hlýða þeim leiðbeiningum sem hann gefur í rituðu orði sínu og fyrir atbeina safnaðar síns á jörð. — Hósea 14:2; Hebreabréfið 13:15.
[Neðanmáls]
^ gr. 3 Hægt er að finna ýmsa staði, sem nefndir eru í 1. Samúelsbók, á bls. 18-19 í bæklingnum „See the Good Land“ sem er gefinn út af Vottum Jehóva.
[Mynd á blaðsíðu 31]
Fyrsti konungur Ísraels breyttist úr auðmjúkum og hógværum stjórnanda í stoltan og ósvífinn einvald.
[Mynd á blaðsíðu 32]
Hverju getum við treyst þegar við eigum í höggi við óvini sem líkja má við Golíat?