Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Vísindin og Biblían — stangast þau á?

Vísindin og Biblían — stangast þau á?

Vísindin og Biblían — stangast þau á?

ÁGREININGURINN milli Galíleós og kaþólsku kirkjunnar átti rætur að rekja til kenninga sem komu fram löngu fyrir daga Kóperníkusar og Galíleós. Forn-Grikkir voru þeirrar skoðunar að jörðin væri miðja alheimsins og bæði heimspekingurinn Aristóteles (384-322 f.o.t.) og stjörnufræðingurinn og stjörnuspekingurinn Ptólemeos (á annarri öld e.o.t.) héldu þeirri kenningu á lofti. *

Heimsmynd Aristótelesar varð fyrir áhrifum af hugmyndum Pýþagórasar en hann var grískur stærðfræðingur og heimspekingur á sjöttu öld f.o.t. Aristóteles tileinkaði sér þá hugmynd hans að hringur og kúla væru fullkomin form og af því dró hann þá ályktun að himnarnir væru gerðir úr kúlum hver inni í annarri, rétt eins og laukur sem samanstendur af mörgum lögum. Hann áleit öll lögin vera úr kristal og jörðina vera í miðjunni. Stjörnurnar hreyfðust þá eftir hringferli og fengju hreyfiafl sitt frá ysta himinhvolfinu þar sem guðlegt afl hefði aðsetur. Aristóteles taldi einnig að sólin og önnur himintungl væru fullkomin, hefðu engin lýti og breyttust ekki.

Heimsmynd Aristótelesar var afsprengi heimspeki en ekki vísinda. Honum fannst það brjóta gegn heilbrigðri skynsemi að jörðin gæti verið á hreyfingu. Hann hafnaði líka hugmyndinni um geim eða tómarúm og hélt því fram að væri jörðin á hreyfingu myndi hún verða fyrir núningsmótstöðu og stöðvast, nema stöðugur kraftur verkaði á hana. Þar sem hugmyndir Aristótelesar virtust rökréttar miðað við almenna þekkingu á þeim tíma héldu þær velli í meginatriðum í næstum 2000 ár. Þessi hugmynd var vinsæl alveg fram á 16. öld og franski heimspekingurinn Jean Bodin tók undir hana: „Enginn með fullu viti eða með minnstu þekkingu á eðlisfræði mun nokkurn tíma halda að jörðin, eins þung og fyrirferðarmikil og hún er . . . , skjögri . . . um möndul sinn og sólina, því að við minnstu hreyfingu jarðarinnar myndu fjöll, borgir, virki og bæir hrynja til grunna.“

Kirkjan tekur upp kenningar Aristótelesar

Annað sem stuðlaði að ágreiningnum milli Galíleós og kirkjunnar tengdist áhrifamiklum kaþólskum guðfræðingi á 13. öld sem kallaður er Tómas frá Aquino (1225-74). Hann bar mikla virðingu fyrir Aristótelesi og kallaði hann Heimspekinginn. Tómas streittist í fimm ár við að sníða heimspekikenningar Aristótelesar að kenningum kirkjunnar. Wade Rowland segir í bókinni Galileo’s Mistake að á dögum Galíleós hafi „guðfræði Tómasar verið orðin ein af grundvallarkenningum kirkjunnar í Róm en þar var heimspeki Aristótelesar blandað saman við kenningar kirkjunnar“. Einnig ber að hafa í huga að í þá daga var ekki til neitt vísindasamfélag sem slíkt. Kirkjan sá að mestu leyti um alla menntun og var yfirleitt einráð um trúmál og vísindi.

Nú var jarðvegurinn undirbúinn fyrir ágreining kirkjunnar og Galíleós. Jafnvel áður en Galíleó fór að snúa sér að stjörnufræði skrifaði hann ritgerð um hreyfifræði. Í henni véfengdi hann margt af því sem hinn virti Aristóteles hélt fram. En það sem varð til þess að hann var leiddur fyrir rannsóknarréttinn árið 1633 var hve ákaft hann studdi sólmiðjukenninguna og sú fullyrðing hans að hún samræmdist Ritningunni.

Sér til varnar lýsti Galíleó yfir sterkri trú á að Biblían væri innblásið orð Guðs. Hann sagði einnig að Biblían væri skrifuð fyrir venjulegt fólk og að ekki bæri að túlka bókstaflega biblíuvers sem virtust lýsa hreyfingu sólarinnar. Röksemdir hans skiluðu engum árangri. Galíleó var sakfelldur fyrir það eitt að hafna túlkun á Biblíunni sem var byggð á grískri heimspeki. Það var ekki fyrr en árið 1992 að kaþólska kirkjan viðurkenndi opinberlega að hafa dæmt Galíleó ranglega.

Lærdómurinn

Hvað getum við lært af þessu? Meðal annars að Galíleó efaðist ekki um áreiðanleika Biblíunnar. Hann dró hins vegar kenningar kirkjunnar í efa. Höfundur, sem skrifar um trúmál, sagði: „Svo virðist sem lærdómurinn af máli Galíleós sé ekki sá að kirkjan hafi haldið sig of fast við sannleika Biblíunnar heldur að hún hafi ekki haldið sér nógu fast við hann.“ Með því að leyfa grískri heimspeki að hafa áhrif á kenningar sínar lét kirkjan erfikenningar ráða ferðinni í stað þess að fara eftir því sem í Biblíunni stóð.

Allt þetta minnir okkur á viðvörun Biblíunnar: „Gætið þess, að enginn verði til að hertaka yður með heimspeki og hégómavillu, sem byggist á mannasetningum, er runnið frá heimsvættunum, en ekki frá Kristi.“ — Kólossubréfið 2:8.

Enn þann dag í dag halda margir innan kristna heimsins áfram að tileinka sér kenningar og heimspeki sem eru í mótsögn við Biblíuna. Sem dæmi má nefna þróunarkenningu Darwins sem þeir trúa á í staðinn fyrir sköpunarsöguna í 1. Mósebók. Segja má að kirkjurnar hafi þannig stillt Darwin á stall rétt eins og Aristótelesi forðum daga og gert þróunarkenninguna að trúarkenningu. *

Sönn vísindi samræmast Biblíunni

Það sem fram kemur hér á undan ætti engan veginn að draga úr áhuga á vísindum. Biblían hvetur okkur meira að segja til að læra af sköpunarverki Guðs og koma auga á hvað það segir okkur um eiginleika hans. (Jesaja 40:26; Rómverjabréfið 1:20) Biblían er auðvitað ekki hugsuð sem kennslubók í vísindum. Hún lýsir siðferðisreglum Guðs, fyrirætlun hans með mennina og eiginleikum hans sem sköpunin ein sér gæti ekki opinberað. (Sálmur 19:8-12; 2. Tímóteusarbréf 3:16) En þegar Biblían minnist á náttúrufyrirbrigði er hún ávallt nákvæm. Galíleó sagði sjálfur: „Bæði Heilög ritning og náttúran koma frá Guði . . . Tvenn sannindi geta aldrei verið í mótsögn hvor við önnur.“ Lítum á nokkur dæmi.

Allt efni í alheiminum stjórnast af lögmálum, meðal annars þyngdarlögmálinu. Þetta gildir til dæmis um hreyfingu stjarna og reikistjarna. Talið er að Pýþagóras hafi verið fyrstur manna, fyrir utan biblíuritarana, til að skírskota til eðlisfræðilögmála en hann trúði að hægt væri að útskýra alheiminn með tölum. Tvö þúsund árum síðar sönnuðu Galíleó, Kepler og Newton að allt efni stjórnast af rökréttum lögmálum.

Í Biblíunni er elstu vísunina í eðlisfræðilögmál að finna í Jobsbók. Um árið 1600 f.o.t. spurði Guð Job: „Þekkir þú lög himinsins?“ (Jobsbók 38:33) Í Jeremíabók, sem var skrifuð á sjöundu öld f.o.t., er talað um að Jehóva hafi skapað lög ‚himins og jarðar‘. (Jeremía 33:25) Biblíuskýrandinn George Rawlinson sagði í sambandi við þessi vers: „Ritarar Biblíunnar héldu því ekki síður fram en vísindamenn nú á dögum að hinn efnislegi heimur stjórnist af lögmálum.“

Ef við notum Pýþagóras sem viðmið eru orðin í Jeremía þúsund árum á undan sinni samtíð. Hafa ber í huga að Biblían er ekki skrifuð fyrst og fremst til að opinbera vísindalegar staðreyndir heldur til að sýna okkur fram á að Jehóva er skapari allra hluta, sá sem getur búið til eðlisfræðilögmál. — Jobsbók 38:4, 12; 42:1, 2.

Annað dæmi, sem við getum tekið, er að vatn jarðarinnar er í stöðugri hringrás. Í stuttu máli gufar vatn upp úr sjónum, myndar ský, fellur sem rigning eða snjór niður til jarðar og rennur að lokum aftur í sjóinn. Elstu varðveittu heimildir utan Biblíunnar, sem nefna þessa hringrás, eru frá fjórðu öld f.o.t. En Biblían sagði frá hringrás vatnsins mörg hundruð árum áður. Salómon Ísraelskonungur skrifaði til dæmis á elleftu öld f.o.t.: „Allar ár renna í sjóinn, en sjórinn verður aldrei fullur, þangað sem árnar renna, þangað halda þær ávallt áfram að renna.“ — Prédikarinn 1:7.

Spámaðurinn Amos, sem var fjárhirðir og garðyrkjumaður, skrifaði sömuleiðis í kringum árið 800 f.o.t. að Jehóva væri sá „sem kallaði á vötn sjávarins og jós þeim yfir jörðina“. (Amos 5:8) Salómon og Amos lýstu hringrás vatnsins af nákvæmni frá örlítið ólíku sjónarhorni en án þess þó að nota flókið og tæknilegt orðalag.

Í Biblíunni kemur líka fram að Guð „lætur jörðina svífa í tómum geimnum“. (Jobsbók 26:7) Miðað við almenna þekkingu árið 1600 f.o.t., um það leyti er þessi orð voru sögð, hefði þurft merkilegan mann til að halda því fram að fast efni gæti svifið í tómum geimnum án þess að nokkuð héldi því uppi. Eins og fyrr var getið hafnaði sjálfur Aristóteles hugmyndinni um tómarúm en hann var uppi heilum 1200 árum síðar.

Finnst þér ekki sérstakt að hugsa til þess að í Biblíunni skuli vera svona nákvæmar staðhæfingar, einkum í ljósi rangra hugmynda samtímans sem virtust samt vera réttar? Margt hugsandi fólk lítur á þetta sem enn eina sönnunina fyrir því að Biblían sé innblásin af Guði. Það er því viturlegt að láta ekki kenningar, sem stangast á við orð Guðs, hafa of mikil áhrif á sig. Heimspekikenningar manna, jafnvel hinna mestu hugsuða, koma og fara eins og sagan hefur svo oft sýnt, en „orð Drottins varir að eilífu“. — 1. Pétursbréf 1:25.

[Neðanmáls]

^ gr. 2 Á þriðju öld f.o.t. setti Grikkinn Aristarkos frá Samos fram þá kenningu að sólin væri miðja alheimsins en hugmyndir Aristótelesar voru teknar fram yfir þá kenningu.

^ gr. 12 Nánari umfjöllun um þetta má finna í bókinni Lífið — varð það til við þróun eða sköpun?, kafla 15, „Hvers vegna trúa margir þróunarkenningunni?“. Bókin er gefin út af Vottum Jehóva.

[Rammi/myndir á blaðsíðu 6]

Afstaða Mótmælenda

Leiðtogar siðaskiptanna voru einnig á móti sólmiðjukenningunni. Þar má nefna menn eins og Martein Lúter (1483-1546), Filippus Melankton (1497-1560) og Jóhann Kalvín (1509-64). Lúter sagði um Kóperníkus: „Þessi vitleysingur vill breyta allri stjörnufræðinni.“

Siðbótarmenn byggðu röksemdir sínar á bókstaflegri túlkun á ákveðnum ritningarstöðum, eins og frásögunni í 10. kafla Jósúabókar þar sem sagt er að sólin og tunglið hafi ,staðið kyrr‘. * Af hverju tóku þeir þessa afstöðu? Bókin Galileo’s Mistake segir að þótt siðbótarmenn hafi brotist undan oki páfavaldsins hafi þeim ekki tekist að „losna undan valdi“ Aristótelesar og Tómasar frá Aquino en „bæði kaþólikkar og mótmælendur samsinntu“ hugmyndum þeirra.

[Neðanmáls]

^ gr. 28 Strangt til tekið eru hugtökin „sólarupprás“ og „sólsetur“ ekki vísindalega rétt. En í daglegu tali eru þau viðurkennd og teljast nákvæm frá sjónarhóli manna. Jósúa var sömuleiðis ekki að fjalla um stjörnufræði heldur einfaldlega að greina frá atburðum eins og hann sá þá.

[Myndir]

Lúter

Kalvín

[Rétthafi]

Úr bókinni Servetus and Calvin, 1877.

[Mynd á blaðsíðu 4]

Aristóteles

[Rétthafi]

Úr bókinni A General History for Colleges and High Schools, 1900.

[Mynd á blaðsíðu 5]

Tómas frá Aquino

[Rétthafi]

Úr bókinni Encyclopedia of Religious Knowledge, 1855.

[Mynd á blaðsíðu 6]

Isaac Newton

[Mynd á blaðsíðu 7]

Biblían lýsti hringrás vatnsins fyrir meira en 3000 árum.