Vísindin og trúarbrögðin — átökin hefjast
Vísindin og trúarbrögðin — átökin hefjast
SJÖTUGUR stjörnufræðingur streittist við að lesa þar sem hann lá á dánarbeðinu. Hann hafði í höndum handrit sem var tilbúið til útgáfu. Hvort sem hann vissi það eða ekki átti bók hans eftir að gerbylta heimsmynd manna. Hún átti einnig eftir að valda harðvítugum deilum innan kristindómsins og enn þann dag í dag gætir áhrifa frá þeim.
Þetta var árið 1543 og maðurinn á dánarbeðinu hét Nikulás Kóperníkus en hann var kaþólskur Pólverji. Samkvæmt bók Kóperníkusar, De Revolutionibus Orbium Coelestium, libri VI (Um snúninga himintunglanna), var sólin en ekki jörðin í miðju sólkerfisins. Í einni svipan sópaði hann burt hinni firnaflóknu jarðmiðjukenningu og kom með mjög einfalda kenningu í staðinn.
Í fyrstu bar ekki mikið á þeim ágreiningi sem síðar varð. Ein ástæðan var sú að Kóperníkus var varkár þegar hann kom hugmyndum sínum á framfæri. Auk þess virtist kaþólska kirkjan, sem hafði tekið upp jarðmiðjukenninguna, vera umburðarlyndari gagnvart vísindakenningum á þessum tíma. Jafnvel páfinn hvatti Kóperníkus til að gefa út bókina. Þegar Kóperníkus gaf hana að lokum út skrifaði smeykur ritstjóri sinn eigin formála þar sem hann sagði sólmiðjukenninguna vera stærðfræðilega hugsjón en ekki endilega stjarnfræðilegan sannleika.
Það hitnar í kolunum
Næst kemur til sögunnar ítalskur stjörnufræðingur, stærðfræðingur og eðlisfræðingur að nafni Galíleó Galíleí (1564-1642) en hann var einnig kaþólskur. Hann smíðaði sér sjónauka með því að nota hina nýtilkomnu linsu og með þeim gat hann rannsakað himininn af meiri nákvæmni en áður hafði þekkst. Athuganir hans sannfærðu hann um að Kóperníkus hefði haft á réttu að standa. Galíleó sá einnig bletti á sólinni (sólbletti) og storkaði þannig annarri rótgróinni heimspeki- og trúarkenningu, þeirri að sólin gæti ekki breyst eða eyðst upp.
Ólíkt Kóperníkusi kom Galíleó hugmyndum sínum á framfæri af hugrekki og ákafa. Auk þess hafði hann hin trúarlegu öfl á móti *
sér því að kaþólska kirkjan hafði opinberlega andmælt sólmiðjukenningu Kóperníkusar. Þegar Galíleó hélt því fram að sólmiðjukenningin væri ekki aðeins rétt heldur einnig í samræmi við Ritninguna fannst kirkjunni það bera keim af trúvillu.Galíleó fór til Rómar til að verja sig, en án árangurs. Árið 1616 skipaði kirkjan honum að hætta að halda sólmiðjukenningu Kóperníkusar á lofti. Þaggað hafði verið niður í Galíleó um tíma. Hann gaf síðan út annað rit árið 1632 sem studdi sólmiðjukenninguna. Árið eftir dæmdi rannsóknarrétturinn hann í ævilangt fangelsi. En vegna aldurs var dóminum fljótlega breytt í stofufangelsi.
Margir líta á átök Galíleós við kirkjuna sem stórsigur vísindanna yfir trúarbrögðum og þar með yfir Biblíunni. En eins og við munum sjá í næstu grein er horft fram hjá mörgum staðreyndum ef dregin er sú einfalda ályktun.
[Neðanmáls]
^ gr. 7 Galíleó skapaði sér valdamikla óvini að óþörfu með því að vera meinhæðinn og fljótur til að svara fyrir sig. Auk þess lét hann í veðri vaka að hann væri vel að sér í trúmálum með því að fullyrða að sólmiðjukenningin samræmdist Ritningunni og það ögraði kirkjunnar mönnum enn frekar.
[Mynd á blaðsíðu 3]
Kóperníkus
[Credit line]
Tekið úr Giordano Bruno und Galilei.
[Mynd á blaðsíðu 3]
Galíleó ver sig frammi fyrir rannsóknarréttinum í Róm.
[Credit line]
Úr bókinni The Historian’s History of the World, IX. bindi, 1904.
[Credit line á blaðsíðu 3]
Bakgrunnur: Kort sem sýnir hugmyndir Kóperníkusar um sólkerfið.