Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Varðveitum kristna sjálfsmynd okkar

Varðveitum kristna sjálfsmynd okkar

Varðveitum kristna sjálfsmynd okkar

„Þér eruð mínir vottar, segir Drottinn.“ — JESAJA 43:10.

1. Hvers konar fólk dregur Jehóva til sín?

HORFÐU vel í kringum þig þegar þú ert í ríkissalnum. Hverja sérðu á þessum tilbeiðslustað? Þú sérð hugsanlega einlæga unglinga hlusta með athygli á biblíuleg heilræði. (Sálmur 148:12, 13) Líklega tekurðu einnig eftir fjölskyldufeðrum sem leggja sig fram um að þóknast Guði þótt þeir búi í heimi sem gerir fjölskyldum erfitt fyrir. Ef til vill kemurðu auga á aldraða sem halda staðfastlega vígsluheit sitt við Jehóva þrátt fyrir þá krankleika sem fylgja aldrinum. (Orðskviðirnir 16:31) Allt þetta fólk elskar Jehóva heitt og hann ákvað að draga það til sín. Sonur Guðs sagði: „Enginn getur komið til mín, nema faðirinn, sem sendi mig, dragi hann.“ — Jóhannes 6:37, 44, 65.

2, 3. Hvers vegna getur verið erfitt fyrir kristinn mann að varðveita sterka sjálfsmynd?

2 Við getum svo sannarlega glaðst yfir því að tilheyra hópi fólks sem hefur velþóknun Jehóva og blessun. En á þessum ‚örðugu tíðum‘ getur verið erfitt að varðveita sterka sjálfsmynd sem kristnir menn. (2. Tímóteusarbréf 3:1) Þetta á sérstaklega við unglinga sem hafa alist upp í kristinni fjölskyldu. „Þó að ég færi á safnaðarsamkomur hafði ég engin sérstök andleg markmið og satt að segja enga raunverulega löngun til að þjóna Jehóva,“ viðurkennir unglingur nokkur.

3 Sumir sem vilja einlæglega þjóna Jehóva láta mikinn hópþrýsting, áhrif frá heiminum og syndugar tilhneigingar aftra sér. Þegar kristnir menn verða fyrir þrýstingi getur hann smátt og smátt orðið til þess að sjálfsmynd þeirra veikist. Margir í heiminum nú á tímum telja til dæmis siðferðisreglur Biblíunnar vera gamaldags og óraunhæfar í nútímaþjóðfélagi. (1. Pétursbréf 4:4) Sumum finnst ekki nauðsynlegt að tilbiðja Guð eins og hann segir að eigi að gera. (Jóhannes 4:24) Í bréfi sínu til Efesusmanna talar Páll um að heimurinn hafi ákveðinn „anda“, það er að segja ríkjandi viðhorf. (Efesusbréfið 2:2) Þessi andi þrýstir á fólk að laga sig að hugsunarhætti þjóðfélags sem þekkir ekki Jehóva.

4. Hvernig lagði Jesús áherslu á að við þyrftum að varðveita kristna eiginleika?

4 En vígðir þjónar Jehóva gera sér grein fyrir því að það væri sorglegt ef einhver þeirra, hvort sem hann er ungur eða aldinn, glataði kristnum einkennum sínum. Heilbrigð sjálfsmynd kristins manns getur aðeins mótast af siðferðisreglum Jehóva og væntingum hans til okkar. Það er rökrétt vegna þess að við erum öll sköpuð í hans mynd. (1. Mósebók 1:26; Míka 6:8) Biblían líkir kristnum eiginleikum við klæði sem allir geta séð. Jesús sagði um okkar tíma: „Sjá, ég kem eins og þjófur. Sæll er sá sem vakir og varðveitir klæði sín, til þess að hann gangi ekki nakinn um og menn sjái blygðun hans.“ * (Opinberunarbókin 16:15) Við viljum alls ekki kasta frá okkur kristnum eiginleikum og hegðunarreglum og leyfa heimi Satans að móta okkur. Ef það gerðist myndum við glata þessum ‚klæðum‘. Það væri mjög sorglegt og skammarlegt.

5, 6. Hvers vegna er mikilvægt að vera stöðugur í trúnni?

5 Sterk sjálfsmynd kristins manns hefur mikil áhrif á þá stefnu sem hann tekur í lífinu. Hvernig þá? Ef tilbiðjandi Jehóva missti sjónar á því hvað það er að vera kristinn gæti hann orðið stefnulaus og markmið hans orðið óskýr. Biblían varar ítrekað við því að vera hikandi og óákveðinn. Lærisveinninn Jakob sagði: „Sá sem efast er líkur sjávaröldu, er rís og hrekst fyrir vindi. Sá maður, tvílyndur og reikull á öllum vegum sínum, má eigi ætla, að hann fái nokkuð hjá Drottni.“ — Jakobsbréfið 1:6-8; Efesusbréfið 4:14; Hebreabréfið 13:9.

6 Hvernig getum við varðveitt kristna sjálfsmynd okkar? Hvað getur skerpt vitund okkar um hvílíkur heiður það er að vera tilbiðjandi hins hæsta? Við skulum athuga málið nánar.

Styrktu kristna sjálfsmynd þína

7. Hvers vegna er gagnlegt að biðja Jehóva að rannsaka okkur?

7 Styrktu sífellt samband þitt við Jehóva. Það dýrmætasta, sem kristinn maður á, er samband hans við Guð. (Sálmur 25:14; Orðskviðirnir 3:32) Ef óþægilegar spurningar um hvernig við stöndum sem kristnir menn fara að leita á okkur er kominn tími til að athuga hversu gott og náið samband við eigum við Guð. Sálmaritarinn bað: „Rannsaka mig, Drottinn, og reyn mig, prófa hug minn og hjarta.“ (Sálmur 26:2) Hvers vegna er það mikilvægt? Vegna þess að við getum ekki metið sjálf á áreiðanlegan hátt hverjar innstu hvatir okkar og tilhneigingar eru. Jehóva einn getur skilið til fulls okkar innri mann, það er að segja hvatir okkar, hugsanir og tilfinningar. — Jeremía 17:9, 10.

8. (a) Hvernig getum við haft gagn af því að láta Jehóva reyna okkur? (b) Hvaða hjálp hefur þú fengið til að taka framförum sem kristinn maður?

8 Með því að biðja Jehóva að rannsaka okkur erum við að bjóða honum að reyna okkur. Hann getur leyft aðstæðum að þróast sem leiða í ljós hvernig hjartalag og hvatir okkar raunverulega eru. (Hebreabréfið 4:12, 13; Jakobsbréfið 1:22-25) Við ættum að fagna því að vera reynd af því að það gefur okkur tækifæri til að sýna hve trúföst við erum Jehóva. Þá kemur í ljós hvort við erum ‚fullkomin og algjör og okkur sé í engu ábótavant‘. (Jakobsbréfið 1:2-4) Um leið styrkjumst við líka í trúnni. — Efesusbréfið 4:22-24.

9. Hvers vegna verðum við að sannfæra okkur um sannleika Biblíunnar?

9 Sannfærðu þig um sannleika Biblíunnar. Við þurfum að hafa staðgóða þekkingu á Biblíunni til að vera viss um að við séum raunverulega þjónar Jehóva. (Filippíbréfið 1:9, 10) Allir kristnir menn, bæði ungir sem aldnir, verða að sanna fyrir sjálfum sér að það sem þeir trúa sé sannleikurinn eins og hann kemur fram í Biblíunni. Páll hvatti trúsystkini sín: „Prófið allt, haldið því, sem gott er.“ (1. Þessaloníkubréf 5:21) Kristnir unglingar, sem eiga guðrækna foreldra, verða að gera sér grein fyrir því að þeir geta ekki reitt sig bara á trú foreldra sinna. Davíð hvatti Salómon, son sinn: „Lær að þekkja Guð föður þíns og þjóna honum af öllu hjarta.“ (1. Kroníkubók 28:9) Það hefði ekki verið nóg fyrir Salómon að fylgjast með því hvernig faðir hans ræktaði með sér sterka trú á Jehóva. Hann þurfti að kynnast Jehóva sjálfur og það gerði hann. Hann bað innilega til Guðs: „Gef mér þá visku og þekkingu, að ég megi ganga út og inn frammi fyrir lýð þessum.“ — 2. Kroníkubók 1:10.

10. Hvers vegna er ekkert að því að spyrja einlægra spurninga?

10 Þekking er undirstaða sterkrar trúar. „Svo kemur þá trúin af boðuninni,“ fullyrti Páll. (Rómverjabréfið 10:17) Við hvað átti hann með því? Hann átti við að við styrkjum trú okkar og traust á Guð, loforð hans og söfnuð með því að næra okkur af orði Guðs. Með því að spyrja einlægra spurninga um Biblíuna getum við fengið traustvekjandi svör. Páll hvatti kristna menn líka til að ,reyna hver væri vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna‘. (Rómverjabréfið 12:2) Hvernig förum við að því? Með því að afla okkur ,þekkingar á sannleikanum‘. (Títusarbréfið 1:1) Andi Jehóva getur hjálpað okkur að skilja jafnvel flókin mál. (1. Korintubréf 2:11, 12) Við ættum að biðja Guð um hjálp þegar okkur gengur erfiðlega að skilja eitthvað. (Sálmur 119:10, 11, 27) Jehóva vill að við skiljum orð hans, trúum því og förum eftir því. Hann er ánægður með einlægar spurningar sem bornar eru fram af réttum hvötum.

Verum staðráðin í að þóknast Guði

11. (a) Hvaða eðlilega löngun getur orðið okkur að falli? (b) Hvernig getum við safnað kjarki til að standast hópþrýsting?

11 Leggðu þig fram um að þóknast Guði en ekki mönnum. Það er ósköp eðlilegt að vilja að einhverju leyti skilgreina hver við erum með því að tilheyra einhverjum hópi. Allir þurfa á vinum að halda og okkur líður vel ef við njótum viðurkenningar annarra. Hópþrýstingur á unglingsárunum, sem og seinna á lífsleiðinni, getur haft mikil áhrif og kveikt sterka löngun til að líkja eftir öðrum og þóknast þeim. En vinir og jafnaldrar hugsa ekki alltaf um það sem okkur er fyrir bestu. Stundum vilja þeir bara fá einhvern með sér til að gera það sem rangt er. (Orðskviðirnir 1:11-19) Þegar kristinn unglingur lætur undan hópþrýstingi reynir hann yfirleitt að leyna því hver hann er. „Látið ekki umheiminn þröngva ykkur í sitt mót,“ sagði Páll postuli. (Rómverjabréfið 12:2, Phillips) Jehóva veitir okkur þann innri styrk sem við þurfum til að takast á við utanaðkomandi þrýsting. — Hebreabréfið 13:6.

12. Hvaða meginregla og hvaða fordæmi getur styrkt þann ásetning okkar að treysta á Guð?

12 Þegar hætta er á að álit annarra hafi áhrif á sjálfsmynd okkar er gott að muna að trúfesti við Guð er mun mikilvægari en almenningsálitið og skoðun meirihlutans. Í 2. Mósebók 23:2 er mikilvæg meginregla: „Þú skalt ekki fylgja fjöldanum til illra verka.“ Þegar meirihluti Ísraelsmanna efaðist um að Jehóva gæti staðið við loforð sín stóð Kaleb fastur á sínu og neitaði að fylgja fjöldanum. Hann var viss um að loforð Guðs væru áreiðanleg og hann hlaut ríkulega blessun fyrir. (4. Mósebók 13:30; Jósúabók 14:6-11) Ert þú líka tilbúinn að standast hópþrýsting til að varðveita samband þitt við Guð?

13. Hvers vegna er viturlegt að láta aðra vita að við erum kristin?

13 Láttu aðra vita að þú sért kristinn. Máltækið „sókn er besta vörnin“ má vel heimfæra á það að vera óhræddur að segjast vera kristinn. Þegar trúfastir Ísraelsmenn á dögum Esra lögðu sig fram um að gera vilja Jehóva og mættu andstöðu af þeim sökum sögðu þeir: „Vér erum þjónar Guðs himinsins og jarðarinnar.“ (Esrabók 5:11) Ef við látum viðbrögð og gagnrýni óvingjarnlegs fólks á okkur fá getum við orðið lömuð af ótta. Það er ekki vænlegt til árangurs að reyna alltaf að þóknast öllum. Láttu því ekki draga úr þér kjarkinn. Það er alltaf gott að láta aðra vita að þú sért vottur Jehóva. Þú getur útskýrt fyrir þeim á virðulegan en ákveðinn hátt hvaða gildismat og trúarskoðanir þú hefur og sagt þeim hvaða afstöðu þú tekur sem kristinn maður. Láttu aðra vita að þú sért staðráðinn í að halda háleitar siðferðiskröfur Jehóva. Taktu skýrt fram að þú hvikar hvergi frá ráðvendni þinni við Guð. Sýndu að þú sért stoltur af því að halda þessar siðferðiskröfur. (Sálmur 64:11) Ef þú skerð þig úr sem staðfastur kristinn einstaklingur getur það styrkt og verndað þig og jafnvel orðið til þess að aðrir fari að spyrjast fyrir um Jehóva og þjóna hans.

14. Ættu andstaða og spott að draga úr okkur kjarkinn? Skýrðu svarið.

14 Sumir gætu að vísu hæðst að þér eða andmælt þér. (Júdasarbréfið 18) En láttu það ekki draga úr þér kjarkinn þó að aðrir taki því ekki vel þegar þú segir þeim frá þeim lífsreglum sem þú lifir eftir. (Esekíel 3:7, 8) Þú nærð aldrei að sannfæra fólk sem vill ekki láta sannfærast, sama hve ákveðinn þú ert. Mundu eftir faraó. Hvorki kraftaverk né plágur gátu sannfært hann um að Móse væri fulltrúi Jehóva, ekki einu sinni þótt hann missti frumburðinn sinn. Láttu því ekki ótta við menn draga úr þér allan þrótt. Þú getur sigrast á ótta með því að trúa og treysta á Guð. — Orðskviðirnir 3:5, 6; 29:25.

Lærðu af því liðna og horfðu til framtíðar

15, 16. (a) Hver er andleg arfleifð okkar? (b) Hvernig getum við haft gagn af því að íhuga hvað orð Guðs segir um andlega arfleifð okkar?

15 Mettu andlega arfleifð þína að verðleikum. Kristnir menn hafa gagn af því að íhuga hvað orð Guðs segir um þá ríkulegu andlegu arfleifð sem þeir hafa fengið. Þessi arfleifð felur meðal annars í sér sannleikann í orði Jehóva, vonina um eilíft líf og þann heiður að fá að vera fulltrúar Jehóva og boða fagnaðarerindið. Sérðu hvaða hlutverki þú gegnir sem einn af vottum Jehóva sem boða hið lífgandi fangaðarerindi? Mundu að það er enginn annar en Jehóva sem segir: „Þér eruð mínir vottar.“ — Jesaja 43:10.

16 Það getur verið gott að spyrja sig: „Hve dýrmæt er mér þessi andlega arfleifð? Hef ég nógu miklar mætur á henni til að setja vilja Guðs framar öllu öðru í lífinu? Met ég hana svo mikils að ég stenst hverja þá freistingu sem gæti orðið til þess að ég glataði henni?“ Andleg arfleifð okkar getur einnig vakið með okkur andlega öryggistilfinningu sem er aðeins að finna í söfnuði Jehóva. (Sálmur 91:1, 2) Með því að skoða athyglisverða atburði úr sögu safnaðar Jehóva nú á tímum sjáum við að enginn og ekkert getur upprætt fólk Jehóva af jörðinni. — Jesaja 54:17; Jeremía 1:19.

17. Hvað meira þarf til en að treysta á andlega arfleifð okkar?

17 Við getum auðvitað ekki reitt okkur eingöngu á andlega arfleifð okkar. Við verðum öll að eignast náið samband við Guð. Eftir að hafa lagt sig allan fram um að styrkja trú kristinna manna í Filippí skrifað Páll til þeirra: „Þess vegna, mínir elskuðu, þér sem ætíð hafið verið hlýðnir, vinnið nú að sáluhjálp yðar með ugg og ótta eins og þegar ég var hjá yður, því fremur nú, þegar ég er fjarri.“ (Filippíbréfið 2:12) Við getum ekki reitt okkur á aðra til að öðlast hjálpræði.

18. Hvernig getur þátttaka í safnaðarstarfinu styrkt sjálfsmynd kristinna manna?

18 Leggðu þig allan fram í þjónustunni við Guð. Sagt hefur verið að „einstaklingurinn einkennist af iðju sinni“. Kristnum mönnum nú á tímum hefur verið falið það mikilvæga starf að prédika fagnaðarerindið um stofnsett ríki Guðs. Páll sagði: „Að því leyti sem ég er postuli heiðingja, vegsama ég þjónustu mína.“ (Rómverjabréfið 11:13) Boðunarstarfið aðgreinir okkur frá heiminum og er eitt af því sem einkennir okkur. Við getum styrkt kristna sjálfsmynd okkar með því að taka fullan þátt í starfi safnaðarins eins og að sækja samkomur, reisa ríkissali, hjálpa nauðstöddum og fleira. — Galatabréfið 6:9, 10; Hebreabréfið 10:23, 24.

Skýr sjálfsmynd er til blessunar

19, 20. (a) Hvaða blessun hefur þú hlotið fyrir að vera kristinn? (b) Af hverju ræðst manngildi okkar?

19 Hugleiddu um stund hvað við njótum mikilla gæða vegna þess að við erum kristin. Jehóva heiðrar okkur með því að kannast við okkur hvert og eitt. Spámaðurinn Malakí sagði: „Þá mæltu þeir hver við annan, sem óttast Drottin, og Drottinn gaf gætur að því og heyrði það, og frammi fyrir augliti hans var rituð minnisbók fyrir þá, sem óttast Drottin og virða hans nafn.“ (Malakí 3:16) Við teljumst til vina Guðs. (Jakobsbréfið 2:23) Við lifum tilgangsríku og innhaldsríku lífi og höfum heilnæm og gefandi markmið. Þar að auki hefur okkur verið gefin von um eilíft líf. — Sálmur 37:9.

20 Mundu að manngildi þitt ræðst ekki af því hvað öðrum finnst um þig heldur hvernig Guð metur þig. Við getum fengið hrós fyrir eitthvað sem mönnum finnst mikilsvert. En við erum raunverulega mikils virði vegna þess að við tilheyrum Guði og hann elskar okkur og hefur áhuga á okkur. (Matteus 10:29-31) Kærleikur okkar til Guðs getur styrkt sjálfsmynd okkar meira en nokkuð annað og veitt okkur bestu leiðsögn í lífinu. „Ef einhver elskar Guð, þá er hann þekktur af honum.“ — 1. Korintubréf 8:3.

[Neðanmáls]

^ gr. 4 Þessi orð vísa hugsanlega til skyldustarfa varðforingja á musterishæðinni í Jerúsalem. Á næturvöktum fór hann um musterissvæðið til að athuga hvort levítarnir, sem stóðu vörð þar, væru vakandi eða sofandi. Ef varðmaður fannst sofandi var hann barinn með staf og klæði hans jafnvel brennd í refsingarskyni honum til skammar.

Manstu?

• Hvers vegna er nauðsynlegt að varðveita kristna sjálfsmynd sína?

• Hvernig getum við styrkt kristna sjálfsmynd okkar?

• Hvað getur hjálpað okkur að taka rétta ákvörðun þegar við þurfum að velja hverjum við viljum þóknast?

• Hvaða áhrif getur sterk sjálfsmynd haft á framtíð okkar?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 27]

Með því að leggja okkur öll fram í þjónustunni við Guð einkennum við okkur sem kristna menn.