Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Börn eru dýrmæt gjöf

Börn eru dýrmæt gjöf

Börn eru dýrmæt gjöf

„Sjá, synir eru gjöf frá Drottni, ávöxtur móðurkviðarins er umbun.“ — SÁLMUR 127:3.

1. Hvernig varð fyrsta barnið til?

TILURÐ barns er stórkostlegt ferli sem Jehóva Guð gerði mögulegt þegar hann skapaði fyrsta manninn og fyrstu konuna. Adam og Eva gátu bæði lagt til hluta af sjálfu sér sem síðan þroskaðist í móðurkviði Evu og varð fullmynduð mannvera — fyrsta barnið. (1. Mósebók 4:1) Tilurð og fæðing barns vekur með okkur lotningu enn þann dag í dag og við köllum þetta ferli stundum algert kraftaverk.

2. Hvers vegna má kalla það kraftaverk sem gerist í móðurkviði barnshafandi konu?

2 Fruman, sem myndast í líkama móðurinnar við getnað, breytist á einungis 270 dögum í barn sem er myndað af þúsundum milljarða frumna. Í upprunalegu frumunni eru allar þær upplýsingar sem þarf til að mynda yfir 200 frumutegundir. Þessar upplýsingar, sem eru ofvaxnar skilningi okkar mannanna, leiða til þess að allar þessar ótrúlega flóknu frumur verða til á hárréttum tíma og á nákvæmlega réttan hátt til að mynda nýja mannveru.

3. Hvers vegna finnst mörgu hugsandi fólki að Guð hljóti að standa að því kraftaverki að ný mannvera verður til?

3 Hver er raunverulegur lífgjafi barnsins? Það er enginn annar en skapari lífsins. Sálmaritari Biblíunnar söng: „Vitið, að Drottinn er Guð, hann hefir skapað oss.“ (Sálmur 100:3) Foreldrar, þið vitið að það er ekki snilligáfu ykkar að þakka að þið eignuðust barn. Aðeins Guð, sem býr yfir ótakmarkaðri visku, gæti staðið að því mikla kraftaverki sem á sér stað þegar ný mannvera myndast. Hugsandi fólk hefur um árþúsundir þakkað skaparanum fyrir að barn geti þroskast í móðurkviði. En hvað með þig? — Sálmur 139:13-16.

4. Hvaða mannlegan ágalla er aldrei hægt að eigna Jehóva?

4 Er Jehóva tilfinningalaus skapari sem kom bara af stað líffræðilegu ferli sem gerði körlum og konum kleift að geta af sér afkvæmi? Sumt fólk er tilfinningalaust en það er Jehóva ekki. (Sálmur 78:38-40) Biblían segir í Sálmi 127:3: „Sjá, synir [og dætur] eru gjöf frá Drottni, ávöxtur móðurkviðarins er umbun.“ Athugum nú hvað er fólgið í gjöf og hvað gjafir gefa til kynna.

Gjöf og umbun

5. Hvers vegna má segja að börn séu gjöf?

5 Foreldrar leggja oft mikið á sig til að geta gefið börnum sínum gjafir eða eftirlátið þeim arf. Gjafirnar geta verið í formi peninga eða fasteigna, og eins getur verið um að ræða eitthvað annað sem foreldrunum þykir sérstaklega verðmætt. Hver sem gjöfin er ber hún vott um ást foreldranna. Biblían segir að börn séu gjöf sem foreldrarnir hafa fengið frá Guði, og þessi gjöf ber vott um kærleika hans. Sýnir þú í verki að þú lítir á börnin þín sem gjöf frá skapara alheims, gjöf sem hann hefur persónulega falið þér?

6. Hvert var markmið Guðs með því að gera mönnunum kleift að eignast börn?

6 Markmið Jehóva með þessari gjöf var að jörðin yrði byggð afkomendum Adams og Evu. (1. Mósebók 1:27, 28; Jesaja 45:18) Jehóva skapaði ekki hverja manneskju fyrir sig eins og hann skapaði englana í milljónatali. (Sálmur 104:4; Opinberunarbókin 4:11) Hann ákvað þess í stað að skapa mennina þannig að þeir gætu getið börn sem líktust þeim. Það er einstök reynsla að eignast barn og annast það. Foreldrar, þakkið þið Jehóva fyrir að gera ykkur kleift að eignast þessa dýrmætu gjöf?

Lærum af fordæmi Jesú

7. Hvernig sýndi Jesús „mannanna börnum“ áhuga, ólíkt sumum foreldrum?

7 Því miður líta ekki allir foreldrar á börn sem umbun. Margir bera litla umhyggju fyrir afkvæmum sínum. Slíkir foreldrar endurspegla ekki hugarfar Jehóva og sonar hans. (Sálmur 27:10; Jesaja 49:15) Aftur á móti sýndi Jesús börnum áhuga. Áður en hann kom til jarðar sem maður, þegar hann var máttug andavera á himni, hafði hann „yndi . . . af mannanna börnum“ eins og segir í Biblíunni. (Orðskviðirnir 8:31) Kærleikur hans til mannanna var svo mikill að hann gaf líf sitt fúslega sem lausnargjald til þess að við gætum öðlast eilíft líf. — Matteus 20:28; Jóhannes 10:18.

8. Á hvaða hátt var Jesús foreldrum góð fyrirmynd?

8 Jesús var foreldrum einstaklega góð fyrirmynd þegar hann var á jörðinni. Taktu eftir því sem hann gerði. Hann gaf sér tíma fyrir börnin jafnvel þótt hann væri undir álagi og mjög upptekinn. Hann horfði á þau leika sér á markaðstorginu og notaði leiki þeirra sem dæmi þegar hann kenndi. (Matteus 11:16, 17) Jesús vissi í síðustu ferð sinni til Jerúsalem að hann myndi þjást og verða tekinn af lífi. Þegar fólk kom með börn til hans ætluðu lærisveinarnir eflaust að hlífa honum við frekara álagi og reyndu þess vegna að vísa börnunum frá. En Jesús ávítaði lærisveinana. Hann sýndi hve mikið „yndi“ hann hafði af börnum þegar hann sagði: „Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi.“ — Markús 10:13, 14.

9. Hvers vegna eru verkin oft mikilvægari en orðin?

9 Við getum lært af fordæmi Jesú. Hver eru viðbrögð okkar þegar börnin koma til okkar, jafnvel þegar við erum mjög upptekin? Eru þau eins og viðbrögð Jesú? Hann var fús til að veita börnunum það sem þau þarfnast sérstaklega frá foreldrum sínum — tíma og athygli. Auðvitað er mikilvægt að þú segir börnunum að þér þyki vænt um þau. En láttu samt verkin tala. Ást þín kemur betur fram í verkum en orðum og birtist í umhyggjunni, athyglinni og tímanum sem þú veitir börnunum. En þótt þú gerir allt þetta kemur árangurinn ekki alltaf í ljós, að minnsta kosti ekki eins fljótt og þú vonast eftir. Það þarf að sýna þolinmæði. Við getum lært að sýna þolinmæði með því að taka okkur til fyrirmyndar hvernig Jesús kom fram við lærisveinana.

Þolinmæði og ástúð Jesú

10. Hvernig kenndi Jesús lærisveinunum lexíu í auðmýkt og hver var árangurinn til að byrja með?

10 Jesús vissi að lærisveinar hans voru sífellt að metast sín á milli um hver þeirra væri fremstur. Dag nokkurn, þegar hann kom til Kapernaum ásamt lærisveinunum, spurði hann þá: „‚Hvað voruð þér að ræða á leiðinni?‘ En þeir þögðu. Þeir höfðu verið að ræða það sín á milli á leiðinni, hver væri mestur.“ Í stað þess að ávíta þá hranalega sýndi Jesús þeim þolinmæði og notaði áþreifanlegt dæmi til að kenna þeim auðmýkt. (Markús 9:33-37) Ætli það hafi borið tilætlaðan árangur? Ekki alveg strax. Um hálfu ári seinna fengu þeir Jakob og Jóhannes móður sína til að biðja Jesú um áhrifastöður í Guðsríki. Enn og aftur leiðrétti Jesús hugsanahátt þeirra af þolinmæði. — Matteus 20:20-28.

11. (a) Hvað gerðu postular Jesús ekki þegar þeir komu í loftstofuna með honum? (b) Hvað gerði Jesús og bar það strax tilætlaðan árangur?

11 Brátt leið að páskum árið 33 og Jesús hitti lærisveina sína á laun til að halda hátíðina. Þegar þeir komu í loftstofuna tók enginn postulanna tólf að sér að þvo rykið af fótum hinna eins og venja var að gera, en það var lítilmótlegt starf þjónustufólks eða kvenna á heimilinu. (1. Samúelsbók 25:41; 1. Tímóteusarbréf 5:10) Það hlýtur að hafa hryggt Jesú að sjá að lærisveinar hans sóttust enn þá eftir titlum og stöðum. Hann þvoði þess vegna fætur hvers og eins þeirra og hvatti þá einlæglega til að fylgja fordæmi sínu og þjóna öðrum. (Jóhannes 13:4-17) En gerðu þeir það? Biblían segir að þeir hafi seinna um kvöldið farið að „metast um, hver þeirra væri talinn mestur“. — Lúkas 22:24.

12. Hvernig gætu foreldrar tekið Jesú sér til fyrirmyndar þegar þeir kenna börnunum?

12 Foreldrar, þegar börnin ykkar hlýða ekki, getið þið þá gert ykkur í hugarlund hvernig Jesú hlýtur að hafa liðið? Takið eftir að hann gafst ekki upp á postulunum þótt þeir væru seinir að leiðrétta gallana. Þolinmæði hans bar að lokum árangur. (1. Jóhannesarbréf 3:14, 18) Takið kærleika og þolinmæði Jesú ykkur til fyrirmyndar og gefist aldrei upp á að kenna börnunum.

13. Hvers vegna eiga foreldrar ekki að bæja spurningum barna sinna höstuglega frá sér?

13 Börn þurfa að finna að foreldrunum þyki vænt um þau og hafi áhuga á þeim. Jesús vildi vita um hvað lærisveinar hans voru að hugsa. Þess vegna hlustaði hann á spurningar þeirra. Hann spurði þá álits á vissum málum. (Matteus 17:25-27) Já, góð kennsla felur í sér að hlusta gaumgæfilega og sýna einlægan áhuga. Foreldrar ættu varast þá tilhneigingu að segja hranalega við spyrjandi barn: „Farðu frá, sérðu ekki að ég er upptekinn?“ Ef foreldrarnir eru raunverulega uppteknir ætti barnið að fá að vita að málið verði rætt seinna. Foreldrarnir verða þá líka að sjá til þess að það sé gert. Þannig skynjar barnið að foreldrar þess hafa einlægan áhuga á því og það leitar þá frekar til þeirra með trúnaðarmál sín.

14. Hvað geta foreldrar lært af Jesú um hlýju og ástúð í garð barnanna?

14 Er viðeigandi að foreldrar taki utan um börnin og faðmi þau til að sýna þeim ástúð? Enn og aftur má læra af Jesú. „Hann tók [börnin] sér í faðm, lagði hendur yfir þau og blessaði þau,“ segir í Biblíunni. (Markús 10:16) Hvernig heldur þú að börnin hafi tekið því? Þeim hefur örugglega hlýnaði um hjartarætur og þau hændust að Jesú. Ef einlægur kærleikur og ástúð ríkir á milli foreldra og barna þá hlýða börnin frekar og fara eftir því sem þeim er kennt.

Hvað á að verja miklum tíma með börnunum?

15, 16. Hvaða hugmynd í uppeldismálum hefur notið vinsælda og hver er hvati hennar?

15 Sumir hafa dregið í efa að börn þurfi mikið af tíma og umhyggju foreldra sinna. Svokallaðar gæðastundir er hugmynd á sviði uppeldismála sem mikið hefur verið hampað. Talsmenn þessarar hugmyndar segja að börnin þurfi í rauninni ekki svo mikið af tíma foreldranna, svo framarlega sem sá tími, sem foreldrar verji með börnunum, sé innihaldsríkur, vel skipulagður og úthugsaður. En er þessi gæðastundahugmynd skynsamleg og börnunum fyrir bestu?

16 Rithöfundur, sem hefur talað við mörg börn, segir að það sem þau „vilji helst frá foreldrum sínum sé meiri tími,“ ásamt „óskiptri athygli“. Orð prófessors nokkurs eru eftirtektarverð: „Hugtakið [gæðastundir] er sprottið af sektarkennd foreldra. Fólk var að veita sjálfu sér leyfi til að vera minna með börnunum.“ Hve miklum tíma ættu foreldrar að verja með börnunum?

17. Hvers þarfnast börnin frá foreldrum sínum?

17 Biblían tilgreinir það ekki. En ísraelskir foreldrar voru hvattir til að tala við börnin heima, á ferðalögum, þegar lagst var til hvíldar og þegar farið var á fætur. (5. Mósebók 6:7) Þetta merkir augljóslega að foreldrar þurfa að hafa gott samband við börnin og vera stöðugt að kenna þeim á hverjum degi.

18. Hvernig nýtti Jesús tækifæri til að kenna lærisveinum sínum og hvað geta foreldrar lært af því?

18 Jesús kenndi lærisveinunum með góðum árangri þegar þeir borðuðu saman, ferðuðust og jafnvel þegar þeir hvíldust. Hann notaði þannig hvert einasta tækifæri til að kenna þeim. (Markús 6:31, 32; Lúkas 8:1; 22:14) Kristnir foreldrar ættu á sama hátt að vera vakandi fyrir því að nota hvert tækifæri til samræðna og skoðanaskipta við börnin sín og til að kenna þeim vegi Jehóva.

Hvað á að kenna börnunum og hvernig?

19. (a) Hvað þurfa börnin annað en tíma með foreldrum sínum? (b) Hvað er það sem foreldrar þurfa fyrst og fremst að kenna börnunum?

19 Til að uppeldi barnanna takist vel er ekki nóg að gefa sér tíma fyrir þau og kenna þeim. Það skiptir líka höfuðmáli hvað þeim er kennt. Taktu eftir því sem Biblían leggur áherslu á: „Þessi orð, sem ég legg fyrir þig í dag, skulu vera þér hugföst. Þú skalt brýna þau fyrir börnum þínum.“ Hvaða „orð“ á að brýna fyrir börnunum? Greinilega er átt við orðin rétt á undan: „Þú skalt elska Drottin Guð þinn af öllu hjarta þínu og af allri sálu þinni og af öllum mætti þínum.“ (5. Mósebók 6:5-7) Jesús sagði að þetta væri æðsta boðorð Guðs. (Markús 12:28-30) Foreldrar verða því að leggja megináherslu á að fræða börnin um Jehóva Guð og útskýra fyrir þeim af hverju hann einn er þess verður að við elskum hann af allri sálu og sýnum honum heilshugar tryggð.

20. Hvað var foreldrum fyrr á tímum boðið að kenna börnum sínum?

20 En „þessi orð“ sem foreldrar eru hvattir til að brýna fyrir börnunum fela meira í sér en að elska Guð af öllum mætti. Í kaflanum á undan í 5. Mósebók má sjá að Móse endurtekur lögin sem Guð ritaði á steintöflurnar, það er að segja boðorðin tíu. Í þessum lögum er meðal annars tekið fram að ekki megi ljúga, stela, myrða eða drýgja hór. (5. Mósebók 5:11-22) Með þessu var foreldrum fyrr á tímum gert ljóst að þeir þurftu að innprenta börnunum siðferðileg gildi. Kristnir foreldrar nú á tímum þurfa að veita börnum sínum svipaðar leiðbeiningar til að tryggja þeim örugga og farsæla framtíð.

21. Hvað merkir boðið um að „brýna“ orð Guð fyrir börnunum?

21 Taktu eftir að foreldrum er sagt hvernig þeir eigi að kenna börnunum „þessi orð“ eða boðorð: „Þú skalt brýna þau fyrir börnum þínum.“ Að „brýna“ merkir að leggja ríkt á um, setja fyrir sjónir með tíðum endurtekningum eða áminningum. Guð er því í rauninni að segja foreldrum að þeir eigi að koma á skipulagðri biblíufræðslu sem hefur þann eindregna tilgang að innprenta börnunum andleg gildi.

22. Hvað var foreldrum í Ísrael sagt að gera til að kenna börnunum og hvað fól það í sér?

22 Foreldrar verða að eiga frumkvæðið að því að skipuleggja slíka kennslu. Biblían segir: „Þú skalt binda þau [„þessi orð“ eða boðorð Guðs] til merkis á hönd þér og hafa þau sem minningarbönd á milli augna þinna og þú skalt skrifa þau á dyrastafi húss þíns og á borgarhlið þín.“ (5. Mósebók 6:8, 9) Þetta merkir ekki að foreldrar eigi bókstaflega að skrifa lög Guðs á dyrastafi og borgarhlið eða binda afrit af þeim á hönd barnanna eða setja milli augnanna á þeim. Þetta merkir að þeir eiga að minna börnin stöðugt á orð Guðs. Þeir eiga að kenna þeim á svo reglulegan og markvissan hátt að segja mætti að boðorð Guðs séu fyrir augum barnanna öllum stundum.

23. Hvað verður tekið fyrir í námsefni næstu viku?

23 Hvað er sérlega mikilvægt að foreldrar kenni börnum sínum? Hvers vegna er nauðsynlegt að kenna börnunum að verja sig? Hvaða hjálpargögnum hafa foreldrar nú aðgang að til að kenna börnunum á áhrifaríkan hátt? Þessar og fleiri spurningar, sem snerta marga foreldra, verða teknar fyrir í næstu grein.

Hvernig svarar þú?

• Hvers vegna ætti foreldrum að finnast börnin sín vera dýrmæt?

• Hvað geta foreldrar og aðrir lært af Jesú?

• Hvað eiga foreldrar að verja miklum tíma með börnunum?

• Hvað á að kenna börnunum og hvernig ætti kennslan að fara fram?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 10]

Hvað geta foreldrar lært af kennsluaðferðum Jesú?

[Myndir á blaðsíðu 11]

Hvenær og hvernig áttu foreldrar í Ísrael að kenna börnum sínum?

[Myndir á blaðsíðu 12]

Foreldrar eiga að halda boðum Guðs að börnunum.