Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Foreldrar, verndið börnin ykkar

Foreldrar, verndið börnin ykkar

Foreldrar, verndið börnin ykkar

„Spekin veitir forsælu . . . , [hún] heldur lífinu í þeim sem hana á.“ — PRÉDIKARINN 7:12.

1. Hvers vegna ættu foreldrar að líta á börnin sem gjöf?

NÝFÆTT barn, sem kemur í heiminn, líkist foreldrum sínum í útliti og persónuleika. Börn eru kölluð „gjöf frá Drottni“ í Biblíunni. (Sálmur 127:3) Þar sem Jehóva er hinn sanni lífgjafi má segja að hann eigi börnin í raun og veru en hafi falið foreldrunum að annast þau. (Sálmur 36:10) Foreldrar, hvernig lítið þið á þessa dýrmætu gjöf frá Guði?

2. Hver voru viðbrögð Manóa þegar hann frétti að þau hjónin ættu von á barni?

2 Vissulega ber að taka á móti slíkri gjöf með þakklæti og auðmýkt. Fyrir röskum 3000 árum kom engill til konu Ísraelsmannsins Manóa og sagði henni að þau ættu von á barni. Þegar Manóa fékk fagnaðartíðindin bað hann: „Æ, herra! Lát guðsmanninn, sem þú sendir, koma til okkar aftur, svo að hann megi kenna okkur, hvernig við eigum að fara með sveininn, sem fæðast á.“ (Dómarabókin 13:8) Foreldrar, hvað getið þið lært af Manóa?

Hvers vegna er þörf fyrir hjálp Guðs núna?

3. Hvers vegna er sérstaklega mikilvægt nú á tímum að fá hjálp Jehóva við barnauppeldið?

3 Foreldrar þurfa meira en nokkru sinni fyrr á hjálp Jehóva að halda við barnauppeldið. Ástæðan er sú að Satan djöflinum og englum hans hefur verið varpað niður til jarðar. Biblían aðvarar: „Vei sé jörðunni því að djöfullinn er stiginn niður til yðar í miklum móð, því að hann veit, að hann hefur nauman tíma.“ (Opinberunarbókin 12:7-9, 12) Sagt er í Biblíunni að Satan sé eins og „öskrandi ljón, leitandi að þeim, sem hann geti gleypt“. (1. Pétursbréf 5:8) Ljón ráðast venjulega á varnarlausustu dýrin sem er oft ungviðið. Því leita kristnir foreldrar leiðsagnar Jehóva um hvernig þeir geti verndað börnin sín. Hvað leggur þú mikið á þig til þess?

4. (a) Hvernig ættu foreldrar að bregðast við ef þeir fréttu að ljón léki lausum hala í nágrenninu? (b) Hvað þurfa börnin sér til verndar?

4 Ef þú vissir að ljón léki lausum hala í nágrenninu væri þér auðvitað efst í huga að vernda börnin þín. Satan er eins og rándýr. Hann reynir að spilla fólki Guðs svo það missi velþóknun hans. (Jobsbók 2:1-7; 1. Jóhannesarbréf 5:19) Börn eru auðveld bráð. Til að þau geti forðast snörur Satans verða þau að kynnast Jehóva og hlýða honum. Biblíuþekking er nauðsynleg. Jesús sagði: „Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ (Jóhannes 17:3) Auk þess þurfa börnin á visku að halda — þau þurfa að skilja það sem þau læra og fara eftir því. Þar sem „spekin heldur lífinu í þeim sem hana á“ þurfið þið foreldrarnir að kenna börnunum á þann hátt að sannleikurinn festi rætur í hjarta þeirra. (Prédikarinn 7:12) Hvernig getið þið farið að?

5. (a) Hvernig er hægt að kenna börnunum visku? (b) Hvernig er mikilvægi viskunnar lýst í Orðskviðunum?

5 Þú getur lesið fyrir börnin þín úr orði Guðs og þú ættir að gera það. En til að hjálpa þeim að elska og hlýða Jehóva þarf meira til — þau verða að skilja það sem þeim er kennt. Tökum dæmi: Barni er ef til vill sagt að það megi ekki fara yfir götuna nema líta fyrst til beggja hliða. Samt sem áður óhlýðnast sum börn. Hvernig stendur á því? Ef til vill hefur afleiðingum þess að verða fyrir bíl ekki verið lýst nógu oft fyrir barninu eða á þann hátt að það geri sér grein fyrir hættunni og láti af „fíflskunni“ sem getur valdið slysi. Það krefst bæði tíma og mikillar þolinmæði að kenna börnum visku. En viskan er svo sannarlega mikils virði. „Vegir hennar eru yndislegir vegir,“ segir í Biblíunni, „og allar götur hennar velgengni. Hún er lífstré þeim, sem grípa hana, og sæll er hver sá, er heldur fast í hana.“ — Orðskviðirnir 3:13-18; 22:15.

Kennsla sem miðlar visku

6. (a) Hvers vegna haga börn sér oft óskynsamlega? (b) Hvaða barátta á sér stað?

6 Börn haga sér oft illa, ekki vegna þess að þeim hafi ekki verið kennt að haga sér vel heldur vegna þess að kennslan náði ekki til hjartans — hún snerti þau ekki. Satan reynir að ná tökum á hjörtum barnanna. Hann reynir að láta þau verða fyrir óguðlegum áhrifum heimsins. Hann færir sér auk þess í nyt arfgenga tilhneigingu þeirra til að gera það sem er rangt. (1. Mósebók 8:21; Sálmur 51:7) Foreldrar verða að átta sig á því að það er barist um hjörtu barnanna.

7. Hvers vegna er ekki nóg að segja barni hvað er rétt og hvað rangt?

7 Foreldrar segja yfirleitt barninu hvað er rétt og hvað rangt og halda að þeir hafi kennt því ákveðna lífsreglu. Þeir segja barninu ef til vill að það sé rangt að ljúga, stela eða hafa kynmök við einstakling sem maður er ekki giftur. En barnið ætti ekki aðeins að hlýða af því að foreldrarnir segja því að gera það. Það ætti að vilja hlýða lögum Jehóva. Barnið ætti að læra að það er viturlegt að hlýða boðorðum hans. — Orðskviðirnir 6:16-19; Hebreabréfið 13:4.

8. Hvers konar fræðsla getur hjálpað börnum að breyta viturlega?

8 Undur alheimsins, fjölbreytileiki lífríkisins, árstíðaskiptin — allt slíkt getur hjálpað litlu barni að skilja að til er alvitur skapari. (Rómverjabréfið 1:20; Hebreabréfið 3:4) Auk þess ætti að kenna barninu að Guði þyki vænt um það og að hann geti veitt því eilíft líf á grundvelli lausnarfórnar sonar síns og að barnið geti glatt Guð með því að fara eftir því sem hann segir. Þá er sennilegt að barnið langi til að þjóna Jehóva þrátt fyrir að Satan reyni að hindra það. — Orðskviðirnir 22:6; 27:11; Jóhannes 3:16.

9. (a) Hvað þarf til að veita börnunum fræðslu sem verndar þau? (b) Hvað er feðrum sagt að gera og hvað felur það í sér?

9 Sú fræðsla, sem verndar börnin og vekur með þeim löngun til að gera það sem rétt er, kostar tíma, athygli og skipulagningu. Hún útheimtir að foreldrar fylgi leiðbeiningum Guðs. Biblían segir: „Þér feður . . . alið [börn ykkar] upp með aga og umvöndun Drottins.“ (Efesusbréfið 6:4) Hvað merkir það? Gríska orðið, sem er þýtt „umvöndun“, felur í sér þá hugmynd að „setja huga inn í“. Því má segja að feður séu hvattir til að kenna börnunum hugsunarhátt Jehóva. Það er börnunum vissulega mikil vernd. Ef þeim hefur verið innprentaður hugsunarháttur Guðs verndar það þau gegn rangri breytni.

Löngun byggð á kærleika

10. Hvað er mikilvægt fyrir þig að vita til að geta kennt barninu á áhrifaríkan hátt?

10 Þig langar auðvitað til að ala barnið þitt vel upp en til að svo megi verða þarf uppeldið að vera byggt á kærleika. Góð tjáskipti skipta miklu máli. Reyndu að komast að því hvað líf barnsins snýst um og hvaða skoðanir það hefur. Þegar vel stendur á skaltu nærfærnislega fá barnið til að tjá hug sinn. Þér gæti brugðið öðru hvoru að heyra hvað barnið segir. En gættu þess að bregðast ekki of harkalega við. Hlustaðu frekar af athygli.

11. Hvernig geta foreldrar hjálpað börnunum að tileinka sér hugsunarhátt Guðs?

11 Þú gætir hafa lesið fyrir barnið upp úr Biblíunni, og það oftar en einu sinni, að lög Guðs banni kynferðislegt siðleysi. (1. Korintubréf 6:18; Efesusbréfið 5:5) Þannig hafa börnin ef til vill lært hvað Jehóva er þóknanlegt og hvað ekki. En það þarf meira en þetta til að þau tileinki sér hugsunarhátt Guðs. Það þarf að hjálpa þeim að skilja hvað lög hans eru mikilvæg. Þau þurfa að sannfærast um að lög Guðs séu rétt og gagnleg og að það sé rétt og kærleiksríkt að fara eftir þeim. Ef þú fræðir börnin með hjálp Ritningarinnar og þau eru sammála sjónarmiðum Guðs, þá má segja að þú hafir hjálpað þeim að tileinka sér hugsunarhátt Guðs.

12. Hvernig geta foreldrar hjálpað barninu sínu að hafa sér rétt viðhorf til kynmaka?

12 Þegar þú ræðir um kynferðismál gætir þú spurt: „Heldur þú að Jehóva sé að spilla ánægju fólks með því að banna því að hafa kynmök fyrir hjónaband?“ Hvettu barnið til að útskýra svarið. Eftir að hafa talað um hve tilurð barns er stórkostleg gjöf frá Guði gætir þú spurt: „Heldur þú að kærleiksríkur Guð myndi setja lög sem svipta okkur lífsgleði? Eða setti hann lögin til að gera okkur hamingusöm og til að vernda okkur?“ (Sálmur 119:1, 2; Jesaja 48:17) Reyndu að komast að því hvað barninu finnst um þetta mál. Síðan gætirðu bent á dæmi um þá sorg og erfiðleika sem kynferðislegt siðleysi hefur haft í för með sér. (2. Samúelsbók 13:1-33) Ef þú ræðir við barnið á þann hátt að það skilji sjónarmið Guðs og sé sammála þeim, þá hefur þú hjálpað því að það tileinka sér hugsunarhátt Guðs að miklu leyti. En það er annað sem þú getur gert.

13. Hvað þurfa börn að skilja til að þau vilji hlýða Jehóva?

13 Þú þarft bæði að fræða barnið þitt um afleiðingar þess að óhlýðnast Jehóva og útskýra hvernig líferni okkar snertir hann. Sýndu barninu með hjálp Biblíunnar að við getum hryggt Jehóva þegar við förum ekki eftir vilja hans. (Sálmur 78:41) Þú gætir spurt: „Hvers vegna myndir þú ekki vilja hryggja Jehóva?“ Segðu síðan: „Satan, óvinur Guðs, heldur því fram að við þjónum Jehóva af eigingjörnum hvötum en ekki af kærleika.“ Bentu síðan á að Job gladdi hjarta Guðs með trúfesti sinni og gat svarað rangri ásökun Satans. (Jobsbók 1:9-11; 27:5) Barnið verður að skilja að hegðun þess getur annaðhvort glatt Jehóva eða hryggt hann. (Orðskviðirnir 27:11) Þessar og aðrar mikilvægar lexíur er hægt að kenna börnum með því að nota bókina Lærum af kennaranum mikla. *

Góð áhrif

14, 15. (a) Nefndu dæmi um efni í Kennarabókinni sem hefur haft áhrif á börn. (b) Hvaða góðu reynslu hefur þú haft af bókinni? (Sjá einnig rammagrein hér á opnunni.)

14 Króatískur afi, sem les í Kennarabókinni fyrir sjö ára barnabarn sitt, skrifaði útgefendum og skýrði frá því sem drengurinn sagði honum: „Mamma bað mig um að gera svolítið, en ég vildi það ekki. En þá mundi ég eftir kaflanum ‚Hlýðni verndar þig‘, svo að ég fór aftur til hennar og sagði að ég ætlaði að hlýða henni.“ Hjón í Flórída í Bandaríkjunum sögðu um kaflann „Af hverju er rangt að ljúga“: „Það eru spurningar í kaflanum sem fá börnin til að opna sig og viðurkenna mistök sem þau hefðu annars ekki viðurkennt.“

15 Það eru rúmlega 230 myndir í Kennarabókinni og hverri mynd eða myndaseríu fylgir myndatexti eða lýsing. „Syni mínum verður oft starsýnt á einhverja mynd og vill þá ekki láta fletta blaðsíðunni við,“ segir þakklát móðir. „Myndirnar eru ekki aðeins fallegar heldur má líka draga lærdóm af þeim einum og sér og þær fá börnin auk þess til að spyrja spurninga. Sonur minn spurði í tengslum við mynd af barni sem er að horfa á sjónvarp í dimmu herbergi: ‚Mamma, hvað er strákurinn að gera?‘ Tónninn gaf til kynna að hann vissi að eitthvað var að.“ Í myndatextanum segir: „Hver getur séð allt sem við gerum?“

Nauðsynleg fræðsla nú á tímum

16. Hvað er mikilvægt að kenna börnum nú á tímum og hvers vegna?

16 Börn verða að vita hvað telst rétt og röng notkun kynfæranna. En það getur stundum verið erfitt að ræða þessi mál. Dálkahöfundur nokkur sagði að það hefði þótt dónaskapur að nota orð yfir kynfæri þar sem hann ólst upp. Hann skrifaði í sambandi við fræðslu barnanna sinna: „Ég verð að hætta að fara hjá mér.“ Það verndar ekki barnið að foreldrar þess fari hjá sér og forðist að ræða um kynferðismál. Kynferðisafbrotamenn notfæra sér vanþekkingu barna. Í bókinni Lærum af kennaranum mikla er tekið uppbyggilega og virðulega á efninu. Það rænir börnin ekki sakleysinu að fræða þau um kynferðismál. Hins vegar gæti svo farið að þau verði rænd sakleysinu sé það ekki gert.

17. Hvernig geta foreldrar notað Kennarabókina til að fræða börnin um kynferðismál?

17 Í 10. kafla er fjallað um illu englana sem komu til jarðar og gátu börn. Síðan er barnið spurt: „Hvað veist þú um kynmök?“ Bókin veitir einfalt og virðulegt svar. Síðar í bókinni, í 32. kafla, er útskýrt hvernig börn geta varist barnaníðingum. Mörg lesendabréf hafa sýnt fram á nauðsyn slíkrar fræðslu. Í einu þeirra segir: „Í síðustu viku, þegar Javan sonur minn var hjá barnalækni, spurði læknirinn hvort við hefðum rætt við hann um rétta notkun kynfæranna. Læknirinn var mjög hrifinn að heyra að við hefðum notað nýju bókina okkar til að ræða þessi mál.“

18. Hvernig fjallar Kennarabókin um hollustu gagnvart þjóðernistáknum?

18 Þá er kafli í bókinni sem fjallar um frásögn Biblíunnar af ungu Hebreunum þrem, þeim Sadrak, Mesak og Abed-Negó, en þeir neituðu að falla fram fyrir líkneski sem táknaði Babýloníuríki. (Daníel 3:1-30) Sumir sjá ef til vill ekkert skylt með því að hylla fánann og að lúta líkneski en í Kennarabókinni er bent á að tengsl séu þar á milli. Taktu eftir hvað rithöfundurinn Edward Gaffney sagði í viðtali við tímaritið U.S. Catholic. Hann nefndi að eftir fyrsta daginn í grunnskóla hefði dóttir sín sagt að hún hefði lært „nýja bæn í skólanum“. Hann bað hana um að fara með bænina. „Hún lagði höndina á hjartastað,“ sagði Gaffney, „og þuldi svo stolt: ‚Ég sver fánanum hollustueið . . . ‘.“ Hann hélt áfram: „Allt í einu rann upp fyrir mér að vottar Jehóva hafa rétt fyrir sér. Það er verið að móta nokkurs konar þjóðernistilbeiðslu hjá mjög ungum börnum í skólum okkar — blinda og takmarkalausa hollustu.“

Erfiðisins virði

19. Hvaða umbun hefur það í för með sér að kenna börnunum?

19 Það er vissulega erfiðisins virði að kenna börnunum vel. Móðir í Kansas í Bandaríkjunum táraðist yfir bréfi sem hún fékk frá syni sínum. Hann skrifaði: „Mér finnst ég mjög lánsamur að hafa hlotið þannig uppeldi að ég er tiltölulega heilbrigður tilfinningalega og heilsteyptur. Þið pabbi eigið svo sannarlega hrós skilið.“ (Orðskviðirnir 31:28) Bókin Lærum af kennaranum mikla getur hjálpað ótal foreldrum til viðbótar að kenna börnunum og vernda þannig þessa dýrmætu gjöf.

20. Hvað ættu foreldrar stöðugt að hafa í huga og hvaða áhrif ætti það að hafa á þau?

20 Börnin okkar verðskulda allan þann tíma, athygli og fyrirhöfn sem við getum látið þeim í té. Æskan varir svo stutt. Notið sérhvert tækifæri til að vera með þeim og hjálpa þeim. Þið sjáið aldrei eftir því. Börnunum mun þykja vænt um ykkur. Hafið stöðugt í huga að þið hafið fengið þau að gjöf frá Guði og þau eru afar verðmæt gjöf. (Sálmur 127:3-5) Annist börnin eins og þið væruð ábyrg fyrir uppeldi þeirra gagnvart Guði, því staðreyndin er sú að þið eruð ábyrg gagnvart honum.

[Neðanmáls]

^ gr. 13 Gefin út af Vottum Jehóva. Sjá 40. kafla, „Hvernig getum við glatt Guð?

Hvert er svarið?

• Hvers vegna er sérstaklega mikilvægt núna að foreldrar verndi börnin sín?

• Hvers konar fræðsla miðlar visku?

• Hvaða málefni er nauðsynlegt að ræða við börn nú á dögum?

• Hvernig hefur Kennarabókin hjálpað foreldrum að fræða börnin sín?

[Spurningar]

[Rammagrein/mynd á blaðsíðu 16, 17]

Bók fyrir alla

Bókin Lærum af kennaranum mikla var samin til að hjálpa foreldrum eða öðrum að lesa fyrir börn um kennslu Jesú Krists og ræða um efnið. En fullorðið fólk, sem hefur lesið bókina sjálft, hefur látið í ljós innilegt þakklæti fyrir það sem það lærði.

Maður, sem býr í Texas í Bandaríkjunum, segir: „Bókin Lærum af kennaranum mikla er mjög áhrifamikil þótt hún sé einföld í framsetningu. Hún er hvetjandi fyrir fólk á öllum aldri, jafnvel 76 ára gamlan mann eins og mig. Innilegar þakkir frá manni sem hefur þjónað Jehóva frá æsku.“

Kona í Lundúnum í Englandi segir: „Þessar fallegu myndir hljóta að hrífa hjörtu foreldra jafnt sem barna. Spurningarnar eru alveg frábærar og sömuleiðis framsetning bókarinnar. Það var gott að sjá hvernig tekið er á viðkvæmu efni eins og í 32. kafla, ‚Jehóva verndaði Jesú‘.“ Að lokum segir hún: „Þótt bókin sé örugglega skrifuð með börn votta Jehóva í huga get ég ímyndað mér að kennarar og aðrir vilji gjarnan fá eintak. Ég hlakka til þess að nota hana á komandi mánuðum og árum.“

Kona í Massachusetts í Bandaríkjunum minnist á hinar mörgu „úthugsuðu myndir“. Hún segir líka: „Ég tók eftir því að þótt bókin sé ætluð börnum getur efnið einnig hjálpað fullorðnum að hugsa um samband sitt við Jehóva.“

„Vá! Þetta er frábær bók,“ segir kona í Maine í Bandaríkjunum. „Hún er ekki bara fyrir börnin heldur okkur öll sem erum börn Guðs. Bókin snerti mig dýpra en ég hélt að væri mögulegt. Hún hreyfði við tilfinningum og sefaði þær síðan svo að ég fann innri frið. Mér finnst ég svo náin Jehóva, föður mínum. Hann hefur fjarlægt allan sársauka sem ég hef upplifað í gegnum tíðina og gert fyrirætlun sína svo skýra.“ Að lokum segir hún: „Ég hvet alla sem ég hitti til að lesa hana.“

Kona í Kýótó í Japan segir að þegar hún las bókina fyrir barnabörnin hafi þau spurt spurninga eins og: „‚Hvað er strákurinn að gera? Af hverju er verið að skamma stelpuna? Hvað er mamman að gera? Hvað með ljónið?‘ Bókin kennir það sem við höfum áhuga á og þess vegna finnst mér hún skemmtilegri en allar aðrar bækur sem ég gæti fundið á bókasafni.“

Faðir í Calgary í Kanada segir að um leið og hann fékk bókina hafi hann farið að lesa hana fyrir sex ára gamla dóttur sína og níu ára gamlan son sinn. „Viðbrögðin voru strax mjög góð,“ segir hann. „Börnin fylgdust með og svöruðu spurningunum frá eigin brjósti. Þeim fannst þau vera þátttakendur í náminu og fá tækifæri til að tjá sig. Það hefur lifnað yfir þeim og dóttir mín segist vilja lesa í bókinni á hverju kvöldi.“

Eftir eina námsstund sagði faðirinn: „Við sonur minn töluðum klukkustundum saman um Jehóva og fyrirætlun hans. Bókin vakti mjög margar spurningar hjá honum. Mér vöknaði um augu þegar hann bauð mér góða nótt og spurði: ‚Getum við gert þetta aftur, pabbi? Ég hef svo margar spurningar og ég vil vita allt um Jehóva.‘“

[Mynd á blaðsíðu 14]

Börn og unglingar, hvað getið þið lært af fordæmi Hebreanna þriggja?

[Myndir á blaðsíðu 15, 16]

Myndirnar og myndatextarnir í „Kennarabókinni“ eru áhrifamikil kennslutæki.

Hverju er Ananías að ljúga að Pétri?

Hver getur séð allt sem við gerum?