Lifum ekki framar sjálfum okkur
Lifum ekki framar sjálfum okkur
„[Kristur] er dáinn fyrir alla, til þess að þeir, sem lifa, lifi ekki framar sjálfum sér.“ — 2. KORINTUBRÉF 5:15.
1, 2. Hvað var fylgjendum Jesú á fyrstu öld hvatning til að sigrast á eigingirni?
ÞETTA var síðasta kvöld Jesú á jörðinni. Eftir aðeins nokkra klukkutíma myndi hann gefa líf sitt í þágu allra sem sýndu trú á hann. Þetta sama kvöld sagði Jesús trúföstum fylgjendum sínum margt mikilvægt. Meðal annars sagði hann þeim að sýna ákveðinn eiginleika sem yrði einkennandi fyrir fylgjendur hans. Hann sagði: „Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hver annan. Eins og ég hef elskað yður, skuluð þér einnig elska hver annan. Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.“ — Jóhannes 13:34, 35.
2 Sannkristnir menn eiga að sýna hver öðrum fórnfúsan kærleika og taka þarfir trúsystkina sinna fram yfir sínar eigin. Þeir ættu jafnvel ekki að hika við að „leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína“. (Jóhannes 15:13) Hvernig brugðust frumkristnir menn við þessu nýja boðorði? Í hinu fræga varnarriti sínu, Apologeticum, vitnaði Tertúllíanus, rithöfundur á annarri öld, í ummæli annarra sem sögðu um kristna menn: ,Sjáið hversu þeir elska hver annan og hvernig þeir eru jafnvel fúsir til að deyja hver fyrir annan.‘
3, 4. (a) Hvers vegna ættum við að vinna gegn eigingirni? (b) Um hvað verður fjallað í þessari grein?
3 Við verðum líka að ,bera hver annars byrðar og uppfylla þannig lögmál Krists‘. (Galatabréfið 6:2) Eigingirni er hins vegar ein stærsta hindrunin í vegi fyrir því að hlýða lögmáli Krists og ,elska Drottin, Guð okkar, af öllu hjarta, allri sálu og öllum huga og elska náunga okkar eins og sjálf okkur‘. (Matteus 22:37-39) Þar sem við erum ófullkomin höfum við tilhneigingu til að vera sjálfselsk. Þar við bætast annir hversdagslífsins, samkeppnisandi í skólanum eða vinnunni og baráttan við að láta enda ná saman. Allt þetta getur aukið þessa tilhneigingu. Og sjálfselskan er ekki á undanhaldi. Páll postuli sagði að á „síðustu dögum“ yrðu mennirnir „sérgóðir“. — 2. Tímóteusarbréf 3:1, 2.
4 Þegar leið að lokum þjónustu Jesú á jörðinni hjálpaði hann lærisveinum sínum að skilja
hvernig þeir gætu yfirunnið eigingirni. Skipta má ráðleggingum hans í þrennt. Hvað ráðlagði hann þeim og hvernig getum við haft gagn af því?Áhrifaríkt mótefni
5. Hvað sagði Jesús lærisveinunum þegar hann var að prédika í norðurhluta Galíleu og hvers vegna fékk það mjög á þá?
5 Jesús var að prédika nærri Sesareu Filippí í norðurhluta Galíleu. Þetta friðsæla og fallega svæði virtist ef til vill betur fallið til að hafa það náðugt en til að afneita sjálfum sér. Meðan á dvölinni stóð fór Jesús að segja lærisveinunum að „hann ætti að fara til Jerúsalem, líða þar margt af hendi öldunga, æðstu presta og fræðimanna og verða líflátinn, en rísa upp á þriðja degi“. (Matteus 16:21) Þetta hlýtur að hafa fengið mjög á lærisveinana því að fram til þessa höfðu þeir búist við að leiðtogi þeirra myndi stofnsetja ríki sitt á jörðinni. — Lúkas 19:11; Postulasagan 1:6.
6. Hvers vegna ávítaði Jesús Pétur harðlega?
6 Þegar í stað tók Pétur Jesú „á einmæli og fór að átelja hann: ,Herra, þetta má aldrei fyrir þig koma.‘“ Hvernig brást Jesús við? „Jesús sneri sér við og mælti til Péturs: ,Vík frá mér, Satan, þú ert mér til ásteytingar, þú hugsar ekki um það, sem Guðs er, heldur það, sem manna er.‘“ Það var himinn og haf á milli þessara tveggja viðhorfa. Jesús var fús til að feta þá braut sem Guð lagði fyrir hann en það myndi leiða til dauða hans á kvalarstaur innan nokkurra mánaða. Þetta krafðist fórnfýsi. Pétur mælti með þægilegri leið. „Guð náði þig,“ sagði hann. Ásetningur Péturs var eflaust góður. En Jesús ávítaði hann vegna þess að hann leyfði Satan að hafa áhrif á sig við þetta tækifæri. Pétur ,hugsaði ekki um það sem Guðs er heldur um það sem manna er‘. — Matteus 16:22, 23.
7. Hvað sagði Jesús fylgjendum sínum að gera samkvæmt Matteusi 16:24?
7 Svipaðar raddir heyrast nú á dögum. Heimurinn hvetur fólk oft til að dekra við sjálft sig eða fara auðveldustu leiðina. Jesús mælti hins vegar með allt öðru hugarfari. Hann sagði við lærisveinana: „Hver sem vill fylgja mér, afneiti sjálfum sér, taki kross [„kvalastaur“, NW ] sinn og fylgi mér.“ (Matteus 16:24) „Þarna er ekki verið að bjóða þeim sem eru ekki þegar orðnir lærisveinar að gerast lærisveinar,“ segir The New Interpreter’s Bible, „heldur er verið að bjóða þeim sem hafa svarað kalli Krists að hugleiða hvað það merkir að vera lærisveinn.“ Þessu þrennu, sem Jesús nefndi í þessum ritningarstað, er beint til þeirra sem tekið hafa trú. Athugum hvert atriði fyrir sig.
8. Útskýrðu hvað það merkir að afneita sjálfum sér.
8 Í fyrsta lagi verðum við að afneita sjálfum okkur. Gríska orðið, sem þýtt er ,að afneita sjálfum sér‘, gefur til kynna að maður hafni fúslega eigingjörnum löngunum eða eigin þægindum. Að afneita sjálfum sér er ekki aðeins spurning um að neita sér endrum og eins um vissan munað og það merkir heldur ekki meinlæti eða sjálfspíningar. Við erum ekki lengur ,okkar eign‘ af því að við leggjum líf okkar og allt sem því tilheyrir í hendur Jehóva. (1. Korintubréf 6:19, 20) Í stað þess að líf okkar snúist um okkur sjálf fer það að snúast um að þjóna Guði. Að afneita sjálfum sér gefur í skyn að maður sé ákveðinn í að gera vilja Guðs jafnvel þó að það stríði gegn ófullkomnum tilhneigingum okkar. Við sýnum að við erum algerlega helguð Jehóva þegar við vígjum okkur honum og látum skírast. Síðan kappkostum við að lifa í samræmi við vígsluheit okkar það sem eftir er.
9. (a) Hvað táknaði kvalastaur þegar Jesús var á jörðinni? (b) Á hvaða hátt tökum við kvalastaur okkar?
9 Í öðru lagi þurfum við að taka kvalastaur okkar. Á fyrstu öldinni var kvalastaur tákn fyrir þjáningu, smán og dauða. Alla jafna voru aðeins glæpamenn líflátnir á kvalastaur eða lík þeirra hengd upp á staur. Með þessu sýndi Jesús fram á að kristinn maður verður að vera tilbúinn til að þola ofsóknir, fyrirlitningu eða jafnvel dauða sökum þess að hann tilheyrir ekki heiminum. (Jóhannes 15:18-20) Kristið siðferði greinir okkur frá öðrum í heiminum þannig að okkur er kannski ,hallmælt‘. (1. Pétursbréf 4:4) Þetta gæti átt sér stað í skólanum, á vinnustaðnum eða jafnvel meðal ættingja. (Lúkas 9:23) En við erum reiðubúin að þola fyrirlitningu heimsins þar sem við lifum ekki framar fyrir sjálf okkur. Jesús sagði: „Sælir eruð þér, þá er menn smána yður, ofsækja og ljúga á yður öllu illu mín vegna. Verið glaðir og fagnið, því að laun yðar eru mikil á himnum.“ (Matteus 5:11, 12) Það sem máli skiptir er að hafa velþóknun Guðs.
10. Hvað er fólgið í því að fylgja Jesú?
10 Í þriðja lagi sagði Jesús Kristur að við yrðum að fylgja sér. Samkvæmt biblíuorðabókinni An Expository Dictionary of New Testament Words, eftir W. E. Vine, merkir það ,að fylgja‘ að vera félagi — „sá sem fer í sömu átt“. Í 1. Jóhannesarbréfi 2:6 segir: „Þeim sem segist vera stöðugur í [Guði], honum ber sjálfum að breyta eins og [Kristur] breytti.“ Hvernig breytti Jesús? Kærleikur hans til föður síns á himnum og til lærisveinanna útilokaði sjálfselsku. „Kristur hugsaði ekki um sjálfan sig,“ skrifaði Páll. (Rómverjabréfið 15:3) Jafnvel þegar Jesús var þreyttur og hungraður setti hann þarfir annarra framar sínum eigin. (Markús 6:31-34) Hann lagði sig líka kröftuglega fram í boðunar- og kennslustarfinu. Ættum við ekki að líkja eftir honum með því að vera iðin við að sinna verkefni okkar að ,gera allar þjóðir að lærisveinum og kenna þeim að halda allt það sem hann hefur boðið‘? (Matteus 28:19, 20) Jesús lét okkur eftir fyrirmynd á öllum þessum sviðum og við verðum að „feta í hans fótspor“. — 1. Pétursbréf 2:21.
11. Hvers vegna er mikilvægt að við afneitum sjálfum okkur, tökum kvalastaur okkar og fylgjum Jesú Kristi stöðuglega?
11 Það er mikilvægt að við afneitum sjálfum okkur, tökum kvalastaur okkar og fylgjum fyrirmynd okkar, Jesú Kristi, stöðuglega. Þannig vinnum við gegn eigingirni en hún stendur í vegi fyrir fórnfúsum kærleika. Jesús sagði: „Hver sem vill bjarga lífi sínu, mun týna því, og hver sem týnir lífi sínu mín vegna, mun finna það. Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn og fyrirgjöra sálu sinni? Eða hvað gæti maður látið til endurgjalds fyrir sálu sína?“ — Matteus 16:25, 26.
Við getum ekki þjónað tveimur herrum
12, 13. (a) Hvað var unga höfðingjanum, sem spurði Jesú um ráð, ofarlega í huga? (b) Hvað ráðlagði Jesús unga manninum og hvers vegna?
12 Nokkrum mánuðum eftir að Jesús lagði áherslu á hve mikilvægt væri að lærisveinarnir afneituðu sjálfum sér kom ríkur, ungur höfðingi að máli við hann og sagði: „Meistari, hvað gott á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf?“ Jesús sagði honum að ,halda boðorðin‘ og nefndi svo nokkur þeirra. Ungi maðurinn sagði: „Alls þessa hef ég gætt.“ Maðurinn var greinilega einlægur og hafði haldið lögmálið eftir bestu getu. Hann spurði því: „Hvers er mér enn vant?“ Jesús svaraði honum: „Ef þú vilt vera fullkominn, skaltu fara, selja eigur þínar og gefa fátækum, og munt þú fjársjóð eiga á himnum. Kom síðan, og fylg mér.“ Þetta var sérstakt boð frá Jesú. — Matteus 19:16-21.
13 Jesús sá að ef ungi maðurinn ætlaði að þjóna Jehóva heilshugar þyrfti hann að losa sig við stóra hindrun — auðinn. Sannur lærisveinn Krists getur ekki þjónað tveimur herrum. Hann ,getur ekki þjónað Guði og mammón‘. (Matteus 6:24) Hann þarf að hafa ,heilt auga‘ og einbeita sér að andlegum málum. (Matteus 6:22) Það er merki um fórnfýsi að losa sig við eignir sínar og gefa fátækum. Jesús bauð unga höfðingjanum þann ómetanlega heiður að safna fjársjóði á himnum í skiptum fyrir þessa efnislegu fórn. Þessi fjársjóður myndi hafa eilíft líf í för með sér fyrir hann og leiða til þess að hann fengi von um að ríkja með Kristi á himnum. Ungi maðurinn var ekki fús til að afneita sjálfum sér. „Fór hann brott hryggur, enda átti hann miklar eignir.“ (Matteus 19:22) Aðrir fylgjendur Jesú brugðust hins vegar öðruvísi við.
14. Hvernig brugðust fjórir fiskimenn við þegar Jesús bauð þeim að fylgja sér?
14 Um tveimur árum áður höfðu fjórir fiskimenn, þeir Pétur, Andrés, Jakob og Jóhannes, fengið svipað boð frá Jesú. Tveir þeirra voru við veiðar og hinir tveir voru önnum kafnir við að Matteus 4:18-22.
búa net sín. Jesús sagði við þá: „Komið og fylgið mér, og mun ég láta yður menn veiða.“ Nokkru síðar yfirgáfu þeir allir vinnu sína og fylgdu Jesú það sem eftir var. —15. Hvaða fórnir færði þjónn Jehóva nú á dögum til að geta fylgt Jesú?
15 Margir kristnir menn nú á dögum hafa fetað í fótspor þessara fjögurra fiskimanna í stað þess að fara að fordæmi ríka höfðingjans. Þeir hafa fórnað auðlegð og frama í heiminum til þess að geta þjónað Jehóva. „Þegar ég var 22 ára þurfti ég að taka mikilvæga ákvörðun,“ segir Deborah. Hún heldur áfram: „Ég hafði kynnt mér Biblíuna í um það bil hálft ár og mig langaði til að vígja líf mitt Jehóva. Fjölskyldan var hins vegar mjög mótfallin því. Þau voru milljónamæringar og þeim fannst að það yrði þeim til smánar ef ég gerðist vottur. Ég fékk sólarhring til að ákveða hvort ég kysi fremur — munaðinn eða sannleikann. Ef ég sliti ekki öllu sambandi við vottana myndi fjölskyldan gera mig arflausa. Jehóva hjálpaði mér að taka rétta ákvörðun og gaf mér styrk til að vinna í samræmi við hana. Síðustu 42 árin hef ég þjónað í fullu starfi og ég sé ekki eftir neinu. Með því að snúa baki við eigingjörnu munaðarlífi hef ég sloppið við tómleikann og óhamingjuna sem ég sé á meðal ættingja minna. Við hjónin höfum hjálpað yfir hundrað einstaklingum að læra sannleikann. Þessi andlegu börn eru mér mun verðmætari en efnislegur auður.“ Milljónir annarra votta Jehóva eru á sama máli. Hvað um þig?
16. Hvernig getum við sýnt að við lifum ekki fyrir sjálf okkur?
16 Þúsundir votta Jehóva þjóna sem brautryðjendur, eða boðberar fagnaðarerindisins í fullu starfi, þar sem þá langar ekki að lifa fyrir sjálfa sig. Aðrir sem geta ekki þjónað í fullu starfi aðstæðna sinna vegna glæða með sér brautryðjandaanda og styðja boðunarstarfið eftir bestu getu. Foreldrar sýna svipað hugarfar þegar þeir nota mikið af tíma sínum til að ala börnin upp í trúnni og fórna til þess ýmsu. Við getum öll sýnt á einn eða annan hátt að hagsmunir Guðsríkis skipi fyrsta sætið í lífinu. — Matteus 6:33.
Kærleikur Krists knýr okkur
17. Hver er hvötin að baki fórnum okkar?
17 Það er hægara sagt en gert að sýna fórnfúsan kærleika. En hugsaðu um hvað það er sem knýr okkur. Páll skrifaði: „Kærleiki Krists knýr oss, því að vér höfum ályktað svo: . . . Einn er dáinn fyrir alla . . . Og hann er dáinn fyrir alla, til þess að þeir, sem lifa, lifi ekki framar sjálfum sér, heldur honum, sem fyrir þá er dáinn og upprisinn.“ (2. Korintubréf 5:14, 15) Það er kærleikur Krists sem knýr okkur til að lifa ekki framar fyrir sjálf okkur. Þetta er sterk hvatning. Finnst okkur ekki að okkur beri siðferðileg skylda til að lifa fyrir Krist þar sem hann dó fyrir okkur? Var það ekki einmitt þakklæti fyrir þann mikla kærleika Guðs og Krists sem fékk okkur til að vígja líf okkar Guði og verða lærisveinar Krists? — Jóhannes 3:16; 1. Jóhannesarbréf 4:10, 11.
18. Hvers vegna er það þess virði að vera fórnfús?
18 Er það þess virði að lifa ekki framar fyrir sjálf okkur? Eftir að ríki höfðinginn hafnaði boði Jesú og fór sagði Pétur við Jesú: „Vér yfirgáfum allt og fylgdum þér. Hvað munum vér hljóta?“ (Matteus 19:27) Pétur og hinir postularnir höfðu með sanni afneitað sjálfum sér. Hvað fengju þeir að launum? Jesús talaði fyrst um þann heiður sem þeir fengju, að ríkja með honum á himnum. (Matteus 19:28) Við þetta sama tækifæri talaði Jesús um þá blessun sem allir fylgjendur hans gætu fengið. Hann sagði: ,Enginn hefur yfirgefið heimili, bræður eða systur, móður eða föður, börn eða akra vegna mín og fagnaðarerindisins, án þess að hann fái það hundraðfalt aftur nú á þessum tíma . . . og í hinum komandi heimi eilíft líf.‘ (Markús 10:29, 30) Við fáum langt umfram það sem við höfum fórnað. Eru ekki andlegir feður, mæður, bræður, systur og börn mun verðmætari en nokkuð sem við höfum fórnað sökum Guðsríkis? Hvor lifði innihaldsríkara lífi — Pétur eða ríki höfðinginn?
19. (a) Á hverju byggist sönn hamingja? (b) Um hvað verður fjallað í næstu grein?
19 Jesús sýndi með orðum sínum og verkum að það er ekki eigingirni sem veitir hamingju heldur það að gefa og þjóna. (Matteus 20:28; Postulasagan 20:35) Þegar við lifum ekki framar fyrir sjálf okkur heldur fylgjum Kristi stöðuglega lifum við innihaldsríku lífi og höfum von um eilíft líf í framtíðinni. Þegar við afneitum sjálfum okkur verður Jehóva eigandi okkar. Þannig verðum við þjónar Guðs. Hvers vegna er þessi þjónusta auðgandi? Hvaða áhrif hefur hún á þær ákvarðanir sem við tökum í lífinu? Þessar spurningar verða til umfjöllunar í næstu grein.
Manstu?
• Hvers vegna ættum við að vinna gegn eigingjörnum tilhneigingum?
• Hvað merkir það að afneita sjálfum okkur, taka kvalastaur okkar og fylgja Jesú?
• Hvað hvetur okkur til að lifa ekki framar fyrir sjálf okkur?
• Hvers vegna er það þess virði að vera fórnfús?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 21]
„Guð náði þig, herra.“
[Mynd á blaðsíðu 22]
Hvað hindraði unga höfðingjann í að fylgja Jesú?
[Myndir á blaðsíðu 23]
Kærleikur knýr votta Jehóva til að boða fagnaðarerindið af kappi.