Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Of miklar upplýsingar fyrir okkur?

Of miklar upplýsingar fyrir okkur?

Of miklar upplýsingar fyrir okkur?

Trúboðahjón sátu á strönd í Vestur-Afríku og horfðu á silfurlitað tunglið á næturhimninum. „Hve mikið veit maðurinn um tunglið og hve mikið er hægt að vita um það?“ spurði eiginmaðurinn.

Konan svaraði: „Ímyndaðu þér að við gætum horft á jörðina svona úr fjarlægð — hversu mikla þekkingu er nú þegar að finna á jörðinni og hversu mikið meira er hægt að læra? Og hugsaðu þér. Það er ekki aðeins að jörðin snúist í kringum sólina heldur er allt sólkerfið á hreyfingu. Það þýðir að við verðum líklega aldrei aftur á nákvæmlega sama stað í alheiminum. Auk þess getum við aðeins staðsett okkur í geimnum miðað við þekkt himintungl. Við vitum mjög mikið um sum en í vissum skilningi má segja að við vitum ekki einu sinni hvar við erum.“

ÞESSAR vangaveltur tengjast ákveðnum grundvallarsannindum. Það virðist vera svo mikið sem hægt er að læra. Við lærum auðvitað öll eitthvað nýtt á hverjum degi. En hversu mikið sem við lærum virðumst við ekki ná að halda í við það sem við vildum læra.

Geta okkar til að safna upplýsingum, bæði gömlum og nýjum, hefur stóraukist. Uppsöfnuð þekking mannkynsins er orðin óhemjumikil að vöxtum vegna tækninnar. Harðir diskar í tölvum geta geymt svo mikið magn upplýsinga að finna hefur þurft ný stærðarhugtök til að lýsa því. Venjulegur geisladiskur getur geymt ógrynni upplýsinga og geymslugetan er sögð vera 680 megabæti eða meira. Á venjulegum mynddiski (DVD) er hægt að geyma næstum sjöfalt meira og seinna munu koma á markað geisladiskar með enn meiri geymslugetu.

Núverandi leiðir til að koma upplýsingum á framfæri eru næstum ofvaxnar skilningi okkar. Öflugar prentvélar framleiða dagblöð, tímarit og bækur á ótrúlegum hraða. Nálgast má næstum ótakmarkað magn upplýsinga á Netinu með því einu að smella á hnapp. Með þessum og öðrum hætti er upplýsingum miðlað hraðar en nokkur getur meðtekið. Þessu óhemjumagni upplýsinga hefur stundum verið líkt við haf sem er svo mikið að við verðum að læra að synda í því en ekki drekka það allt. Þar sem upplýsingamagnið er svo gríðarlegt þurfum við að vera vandfýsin.

Önnur ástæða fyrir því að vera vandfýsinn er sú að mikið af þeim upplýsingum, sem eru í boði, eru ekki sérlega gagnlegar. Sumt af því er jafnvel óæskilegt eða ekki þess virði að vita. Mundu að þekking tengist upplýsingum, hvort sem þær eru góðar eða slæmar, jákvæðar eða neikvæðar. Það getur líka ruglað menn í ríminu að sumt sem margir halda að séu hreinar staðreyndir er einfaldlega ekki rétt. Með tímanum kemur oft í ljós að fullyrðingar reynast rangar, jafnvel fullyrðingar virtra manna. Tökum sem dæmi borgarritarann í Efesus til forna, en hann var svo sannarlega talinn fróður maður. Hann sagði: „Hver er sá maður, að hann viti ekki, að borg Efesusmanna geymir musteri hinnar miklu Artemisar og steininn helga af himni?“ (Postulasagan 19:35, 36) Þó að þetta hafi líklega talist almenn vitneskja á þeim tíma og jafnvel óumdeilanleg staðreynd að margra mati var það ekki rétt að steinninn hefði fallið af himni. Það er því góð ástæða fyrir því að Biblían skuli hvetja kristna menn til að forðast ‚hina rangnefndu þekkingu‘. — 1. Tímóteusarbréf 6:20.

Þar sem lífið er svo stutt er full ástæða til að vera vandfýsin á þær upplýsingar sem við öflum okkur. Hversu lengi sem við höfum lifað hefðum við örugglega gaman af því að afla okkur þekkingar á mörgum sviðum en við gerum okkur grein fyrir því að við eigum ekki eftir að lifa nógu lengi til þess.

Verður þetta vandamál einhvern tíma úr sögunni? Gæti einhver ákveðin tegund þekkingar lengt lífið verulega, jafnvel svo að það yrði eilíft? Gæti sú þekking verið til staðar nú þegar? Ef svo er, verður þá öllum gefinn kostur á að öðlast hana? Ætli sá dagur komi að öll þekking verði sannleikanum samkvæm eins og við væntum? Trúboðahjónin, sem minnst var á hér að ofan, hafa fundið fullnægjandi svör við þessum spurningum og þú getur það líka. Í næstu grein er bent á að við eigum möguleika á því að afla okkur þekkingar að eilífu.