Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Upprisan dásamleg von

Upprisan dásamleg von

Upprisan dásamleg von

TRÚ á upprisu er algeng. Í Kóraninum, sem er heilög bók íslams, er heill þáttur sem fjallar um upprisuna. Þáttur 75 segir að hluta til: „Ég kalla til vitnis Dag Upprisunnar . . . Hyggur hinn dauðlegi maður, að Oss sé um megn að setja bein hans saman að nýju? . . . Hann spyr: ,Hvenær verður þessi Dagur Upprisunnar?‘ Er honum þá um megn að vekja hina dauðu til lífs?“ — 75. þáttur 1-9, 40. *

Alfræðibókin The New Encyclopædia Britannica segir að í „zaraþústratrú séu kenningar um lokasigur yfir hinu illa, almenna upprisu, hinsta dóm og að hreinsaður heimur verði endurreistur fyrir hina réttlátu.“

Encyclopaedia Judaica skilgreinir upprisuna sem „þá trú að hinir dánu muni að lokum verða reistir upp í líkama sínum og fái að lifa aftur á jörð“. Þar segir einnig að trúin á ódauðlega sál, sem gyðingdómurinn tók upp á arma sína, hafi komið mönnum í ógöngur. Bókin segir: „Kenningarnar um upprisu og ódauðlega sál eru í grundvallaratriðum í mótsögn hvor við aðra.“

Hindúatrú kennir að maðurinn endurfæðist eða endurholdgist mörgum sinnum. Til að þetta geti staðist verður maðurinn að hafa sál sem lifir af líkamsdauðann. Bhagavadgita, sem er helg bók hindúa, segir: „Það sem fyllir allan líkamann eyðist ekki. Enginn getur eytt hinni óforgengilegu sál.“

Búddatrú er frábrugðin hindúatrú að því leyti að þar er tilvist ódauðlegrar sálar afneitað. Engu að síður trúa margir búddistar í Austurlöndum fjær á flakk ódauðlegrar sálar. *

Ruglingur varðandi upprisukenninguna

Við jarðarfarir í kristna heiminum er oft vísað bæði til upprisu og sálar sem lifir af líkamsdauðann. Prestar í ensku biskupakirkjunni fara til dæmis oft með eftirfarandi orð: „Þar sem almáttugum Guði hefur í mikilli miskunn sinni þóknast að taka til sín sál látins bróður okkar felum við jörðinni líkama hans; frá jörð til jarðar, ösku til ösku, mold til moldar; í öruggri von um upprisu til eilífs lífs í Drottni Jesú Kristi.“ — The Book of Common Prayer.

Þessi orð vekja ef til vill þá spurningu hjá mörgum hvort Biblían kenni að látnir verði reistir upp eða að maðurinn hafi ódauðlega sál. Taktu eftir orðum Oscars Cullmanns guðfræðiprófessors en hann er franskur mótmælandi. Hann skrifar í bók sinni Immortality of the Soul or Resurrection of the Dead?: „Það er reginmunur á von kristinna manna um upprisu dauðra og grísku kenningunni um ódauðleika sálarinnar. . . . Þó að kristnin hafi síðar meir tengt þessar tvær kenningar saman og að kristnir menn geri almennt engan greinarmun á þeim sé ég enga ástæðu til að fela það sem ég og flestir fræðimenn telja vera sannleikann. . . . Trúin á upprisuna er gegnumgangandi stef í Nýja testamentinu. . . . Maðurinn allur, sem er sannarlega dáinn, fær lífið aftur með því að Guð skapar hann á ný.“

Það er ekki að undra að fólk almennt sé ruglað í ríminu varðandi dauðann og upprisuna. Til að greiða úr flækjunni þurfum við að leita til Biblíunnar en þar er að finna sannindi frá skapara mannsins, Jehóva Guði. Fjallað er um nokkur dæmi um upprisu í Biblíunni. Skoðum fjórar af þessum frásögum og athugum hvað þær segja okkur um upprisuna.

„Konur heimtu aftur sína framliðnu upprisna“

Páll postuli sagði í bréfi sínu til Gyðinga sem tekið höfðu kristna trú að trúfastar konur hefðu ,heimt aftur sína framliðnu upprisna‘. (Hebreabréfið 11:35) Ein þessara kvenna bjó í Sarefta sem er bær í Föníkíu nærri Sídon á strönd Miðjarðarhafs. Hún var ekkja sem tók á móti Elía, spámanni Guðs, og gaf honum að borða þó svo að mikil hungursneyð ríkti. Því miður veiktist sonur konunnar og dó. Elía fór þegar með hann upp á loft þar sem hann hélt til og bað Jehóva að gefa drengnum lífið aftur. Kraftaverk átti sér stað og drengurinn „lifnaði við“. Elía færði móðurinni hann og sagði: „Sjá þú, sonur þinn er lifandi.“ Hvernig brást hún við? Hún sagði glöð: „Nú veit ég, að þú ert guðsmaður og að orð Drottins í munni þínum er sannleikur.“ — 1. Konungabók 17:22-24.

Hátt í 100 kílómetra suður af Sarefta bjuggu örlát hjón sem önnuðust Elísa spámann, eftirmann Elía. Konan var vel þekkt í heimabæ sínum, Súnem. Hún og maður hennar féllust á að hýsa Elísa uppi á lofti í húsi sínu. Þau voru sorgmædd yfir því að eiga ekki börn en sorg þeirra breyttist í gleði þegar konan fæddi son. Þegar drengurinn stækkaði fór hann oft með kornskurðarmönnunum að hitta föður sinn úti á akri. Dag einn átti harmleikur sér stað. Drengurinn emjaði og sagðist vera með höfuðverk. Einn úr hópnum fór í snatri með hann heim. Móðir drengsins hélt á honum í kjöltu sér en nokkru síðar dó hann. Hún var buguð af sorg og ákvað að leita hjálpar Elísa. Hún fór ásamt fylgdarmanni í norðvesturátt til Karmelsfjalls þar sem Elísa hafðist við.

Spámaðurinn sendi þá Gehasí, þjón sinn, á undan og komst hann að raun um að drengurinn var látinn. Elísa og konan fylgdu á eftir. En hvað átti sér stað þegar þau komu loks til Súnem? Frásagan í 2. Konungabók 4:32-37 er á þessa leið: „Þegar Elísa kom inn í húsið, þá lá sveinninn dauður í rekkju hans. Þá gekk hann inn og lokaði dyrunum að þeim báðum og bað til Drottins. Síðan steig hann upp í og lagðist yfir sveininn, lagði sinn munn yfir hans munn, sín augu yfir hans augu og sínar hendur yfir hans hendur og beygði sig yfir hann. Hitnaði þá líkami sveinsins. Þá kom hann aftur, gekk einu sinni aftur og fram um húsið, fór síðan upp og beygði sig yfir hann. Þá hnerraði sveinninn sjö sinnum. Því næst lauk hann upp augunum. Þá kallaði Elísa á Gehasí og sagði: ,Kalla þú á súnemsku konuna.‘ Og hann kallaði á hana, og hún kom til hans. Þá sagði hann: ,Tak við syni þínum!‘ Þá kom hún og féll til fóta honum og laut til jarðar. Síðan tók hún son sinn og fór burt.“

Líkt og ekkjan í Sarefta vissi konan frá Súnem að það var kraftur Guðs sem var að verki. Báðar þessar konur upplifðu mikla gleði þegar Guð reisti upp drengina þeirra sem þær elskuðu svo heitt.

Jesús reisir upp dána

Um 900 árum síðar átti sér stað upprisa ekki langt norður af Súnem fyrir utan borgina Nain. Jesús Kristur og lærisveinar hans voru á leið frá Kapernaum og nálguðust borgarhlið Nain þegar þeir mættu hópi manna við útför. Jesús kom auga á ekkju sem hafði misst einkason sinn. Hann sagði henni að hætta að gráta. Lúkas, sem var læknir, lýsir því sem gerðist næst: „[Jesús] gekk að og snart líkbörurnar, en þeir, sem báru, námu staðar. Þá sagði hann: ,Ungi maður, ég segi þér, rís þú upp!‘ Hinn látni settist þá upp og tók að mæla, og Jesús gaf hann móður hans.“ (Lúkas 7:14, 15) Þeir sem urðu vitni að þessu kraftaverki vegsömuðu Guð. Fréttir af upprisunni bárust suður til Júdeu og nálægra héraða. Lærisveinar Jóhannesar skírara fréttu af kraftaverkinu og sögðu honum frá. Hann sagði þeim þá að fara til Jesú og spyrja hvort hann væri sá Messías sem menn væntu. Jesús sagði við þá: „Farið og kunngjörið Jóhannesi það, sem þið hafið séð og heyrt: Blindir fá sýn, haltir ganga, líkþráir hreinsast og daufir heyra, dauðir rísa upp og fátækum er flutt fagnaðarerindi.“ — Lúkas 7:22.

Eitt þekktasta kraftaverk Jesú átti sér stað þegar hann reisti upp Lasarus, náinn vin sinn. Í þessu tilfelli leið nokkur tími frá því að Lasarus dó og þar til Jesús kom til fjölskyldu hans. Þegar Jesús kom loks til Betaníu hafði Lasarus verið dáinn í fjóra daga. Jesús sagði mönnum að taka steininn frá gröfinni. Marta andmælti því og sagði: „Herra, það er komin nálykt af honum, það er komið á fjórða dag.“ (Jóhannes 11:39) Þó að lík Lasarusar hafi verið byrjað að rotna kom það ekki í veg fyrir upprisu. Jesús sagði Lasarusi að koma út og „hinn dáni kom út vafinn líkblæjum á fótum og höndum og með sveitadúk bundinn um andlitið“. Augljóst var af viðbrögðum óvina Jesú síðar meir að það var Lasarus sem hafði vaknað aftur til lífsins. — Jóhannes 11:43, 44; 12:1, 9-11.

Hvað getum við lært af þessum fjórum upprisufrásögum? Allir sem reistir voru upp voru sömu persónurnar þegar þeir lifnuðu við. Bæði nánustu ættingjar og annað fólk þekkti þá aftur. Engir hinna upprisnu töluðu um að eitthvað hefði gerst þann stutta tíma sem þeir voru dánir. Þeir töluðu ekki um að hafa ferðast til annars heims. Þeir voru greinilega við góða heilsu þegar þeir sneru aftur til lífsins. Það var engu líkara en að þeir hefðu sofið um stund og síðan vaknað, rétt eins og Jesús gaf í skyn. (Jóhannes 11:11) Þessir einstaklingar dóu samt aftur þegar fram liðu stundir.

Endurfundir ástvina — dásamleg von

Stuttu eftir hörmulegan dauða Owens, sem fjallað var um í greininni á undan, heimsótti faðir hans nágranna sinn. Þar á borðinu var miði þar sem auglýstur var fyrirlestur á vegum Votta Jehóva. Heiti fyrirlestrarins, „Hvar eru hinir dánu?“, höfðaði til hans. Þetta var einmitt það sem hann hafði spurt sig að. Hann sótti fyrirlesturinn og fann sanna huggun í Biblíunni. Hann lærði að hinir dánu, þar á meðal Owen, þjást ekki. Þeir kveljast ekki í vítiseldi eða eru teknir til Guðs til að verða englar á himnum heldur bíða þeir í gröfinni þangað til að tíminn er kominn að þeir verði vaktir upp til lífsins í upprisunni. — Prédikarinn 9:5, 10; Esekíel 18:4.

Hefur harmleikur átt sér stað í þinni fjölskyldu? Veltir þú fyrir þér, líkt og faðir Owens, hvar látnir ástvinir þínir eru núna og hvort þú getir séð þá aftur? Ef svo er hvetjum við þig til að athuga nánar hvað Biblían segir um upprisuna. Þú spyrð kannski: „Hvenær verður upprisan? Hverjir njóta góðs af henni?“ Greinarnar á eftir fjalla um þessar og aðrar spurningar.

[Neðanmáls]

^ gr. 2 Kóran. 1993. Helgi Hálfdanarson íslenskaði. Mál og menning, Reykjavík.

^ gr. 6 Sjá bókina Mankind’s Search for God, bls. 150-54, gefin út af Vottum Jehóva.

[Mynd á blaðsíðu 5]

Elía bað Jehóva um að vekja dreng aftur til lífs.

[Mynd á blaðsíðu 5]

Jehóva notaði Elísa til að reisa upp son konunnar frá Súnem.

[Mynd á blaðsíðu 6]

Jesús reisti upp son ekkjunnar í Nain.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Í upprisunni mun fólk sameinast ástvinum sínum.