Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hólpin af náð en ekki aðeins verkum

Hólpin af náð en ekki aðeins verkum

Hólpin af náð en ekki aðeins verkum

„Þér [eruð] hólpnir orðnir fyrir trú. . . . Ekki byggt á verkum, enginn skal geta miklast af því.“ — EFESUSBRÉFIÐ 2:8, 9.

1. Af hverju þurfa kristnir menn að líta öðruvísi á afrek sín en algengt er í heiminum?

MARGIR eru stoltir af verkum sínum og miklast gjarnan af þeim. Kristnir menn verða að forðast það. Þeir ættu ekki að leggja of mikla áherslu á afrek sín, ekki einu sinni þau verk sem tengjast sannri tilbeiðslu. Þeir gleðjast vissulega yfir því sem þjónar Jehóva áorka í heild en gera ekki mikið úr framlagi sjálfra sín. Þeir vita að í þjónustu Jehóva skipta réttar hvatir meira máli en það hverju hver og einn áorkar. Þeir sem hljóta eilíft líf þegar þar að kemur hljóta það ekki fyrir afrek sín heldur fyrir trú sína og óverðskuldaða gæsku Guðs. — Lúkas 17:10; Jóhannes 3:16.

2, 3. Hverju hrósaði Páll sér af og hvers vegna?

2 Páll postuli vissi þetta mætavel. Eftir að hann hafði beðið þess þrívegis að losna við ‚flein í holdinu‘ svaraði Jehóva honum: „Náð mín nægir þér; því að mátturinn fullkomnast í veikleika.“ Páll undi auðmjúkur ákvörðun Jehóva og sagði: „Því vil ég helst hrósa mér af veikleika mínum, til þess að kraftur Krists megi taka sér bústað í mér.“ Við ættum að líkja eftir lítillæti Páls. — 2. Korintubréf 12:7-9.

3 Páll var vissulega framúrskarandi ötull í hinni kristnu þjónustu en viðurkenndi að það væri ekki sérstökum hæfileikum sínum að þakka. Hann sagði hógværlega: „Mér, sem minnstur er allra heilagra, var veitt sú náð að boða heiðingjunum fagnaðarerindið um hinn órannsakanlega ríkdóm Krists.“ (Efesusbréfið 3:8) Páll var hvorki sjálfsánægður né yfirlætislegur. „Guð stendur í gegn dramblátum, en auðmjúkum veitir hann náð.“ (Jakobsbréfið 4:6; 1. Pétursbréf 5:5) Líkjum við eftir Páli og metum jafnvel minnstu bræður okkar meira en sjálf okkur?

„Metið aðra meira en sjálfa yður“

4. Af hverju getur stundum verið erfitt að meta aðra meira en sjálfan sig?

4 Páll ráðlagði kristnum mönnum að ‚gera ekkert af eigingirni eða hégómagirnd heldur vera lítillátir og meta aðra meira en sjálfa sig‘. (Filippíbréfið 2:3) Þetta getur verið þrautin þyngri, sérstaklega ef við gegnum ábyrgðarstarfi. Hugsanlega stafar það af því að samkeppnisandinn í heiminum hefur haft viss áhrif á okkur. Kannski var okkur kennt í barnæsku að keppa við aðra, annaðhvort við systkini eða bekkjarfélaga. Ef til vill vorum við hvött sí og æ til að sækjast eftir þeim heiðri sem fylgir því að skara fram úr í íþróttum eða námi. Auðvitað er hrósvert að við gerum okkar besta á öllum sviðum. En kristnir menn gera það ekki til að beina óviðeigandi athygli að sjálfum sér heldur til að þeir sjálfir, og kannski aðrir líka, hafi sem mest gagn af starfi þeirra. En það fylgir því viss hætta að vilja sífellt skara fram úr. Af hverju?

5. Hvaða afleiðingar getur samkeppnishugur haft ef ekkert er að gert?

5 Samkeppnishugur eða sjálfselska geta gert mann frekan og hrokafullan ef maður gætir ekki að sér. Maður gæti farið að öfunda aðra af hæfileikum þeirra eða verkefnum. Orðskviðirnir 28:22 segja: „Öfundsjúkur maður flýtir sér að safna auði og veit ekki að örbirgð muni yfir hann koma.“ Hann gæti jafnvel farið að seilast með ósvífni eftir stöðu sem hann á ekkert erindi í. Síðan gæti hann reynt að réttlæta sig með því að mögla og gagnrýna aðra en það eiga kristnir menn einmitt að forðast. (Jakobsbréfið 3:14-16) Að minnsta kosti er sú hætta fyrir hendi að hann fari að hugsa fyrst og fremst um sjálfan sig.

6. Hvernig varar Biblían við samkeppnishug?

6 Biblían hvetur því kristna menn: „Verum ekki hégómagjarnir, svo að vér áreitum hver annan [„keppum hver við annan“, NW ] og öfundum hver annan.“ (Galatabréfið 5:26) Jóhannes postuli nefnir trúbróður sinn sem varð greinilega fórnarlamb þessa hugarfars. „Ég hef ritað nokkuð til safnaðarins,“ skrifaði hann, „en Díótrefes, sem vill vera fremstur meðal þeirra, tekur eigi við oss. Þess vegna ætla ég, ef ég kem, að minna á verk þau er hann vinnur. Hann lætur sér ekki nægja að ófrægja oss með vondum orðum.“ Það væri dapurlegt ef kristinn maður yrði svona. — 3. Jóhannesarbréf 9, 10.

7. Hvað ætti kristinn maður að forðast í samkeppnisumhverfi vinnumarkaðarins?

7 Það er auðvitað ekki raunhæft að halda að kristinn maður geti forðast samkeppni með öllu. Í vinnunni gæti hann til dæmis þurft að keppa við önnur fyrirtæki eða einstaklinga sem bjóða til sölu sams konar vöru eða þjónustu. En jafnvel þó að svo hátti til ætti kristinn maður að vinna störf sín í anda virðingar, kærleika og tillitssemi. Hann beitir ekki ólöglegum eða ókristilegum aðferðum og hann forðast að fá á sig orð fyrir miskunnarlausa samkeppni. Hann hugsar ekki sem svo að aðalatriðið í lífinu sé að vera fremstur á öllum sviðum. Fyrst kristinn maður þarf að gæta þessa úti á vinnumarkaðinum þarf hann svo sannarlega að gæta þess á vettvangi tilbeiðslunnar.

„Ekki miðað við aðra“

8, 9. (a) Af hverju hafa öldungar safnaðarins enga ástæðu til að keppa hver við annan? (b) Hvers vegna á 1. Pétursbréf 4:10 við alla þjóna Guðs?

8 Hin innblásnu orð í Galatabréfinu 6:4 lýsa því hugarfari sem kristnir menn ættu að hafa í tilbeiðslu sinni: „Sérhver rannsaki breytni sjálfs sín og þá mun hann hafa hrósunarefni í samanburði við sjálfan sig, en ekki miðað við aðra.“ Öldungar safnaðarins vita að þeir eiga ekki í samkeppni hver við annan þannig að þeir vinna náið saman sem ein heild. Þeir gleðjast yfir því sem aðrir geta gert í þágu safnaðarins. Þannig forðast þeir samkeppnisanda sem myndi valda sundrungu, og eining þeirra er öðrum í söfnuðinum til eftirbreytni.

9 Öldungar safnaðarins eru misjafnlega afkastamiklir og sumir búa yfir meira innsæi en aðrir. Oft má rekja þetta til aldurs, reynslu og meðfæddra hæfileika. Af þessum sökum hafa öldungarnir mismunandi skyldum að gegna í söfnuði Jehóva. En þeir bera sig ekki saman hver við annan heldur hafa hugfast það sem Pétur sagði í 1. Pétursbréfi 4:10: „Þjónið hver öðrum með þeirri náðargáfu, sem yður hefur verið gefin, sem góðir ráðsmenn margvíslegrar náðar Guðs.“ Reyndar á þetta vers við alla þjóna Jehóva því að allir hafa fengið nákvæma þekkingu í einhverjum mæli og allir fá þann heiður að taka þátt í hinni kristnu þjónustu.

10. Hvernig þurfum við að þjóna Jehóva til að hafa velþóknun hans?

10 Við þóknumst Jehóva því aðeins með heilagri þjónustu okkar að við veitum hana af kærleika og hollustu en ekki í þeim tilgangi að upphefja sjálf okkur. Þess vegna verðum við að sjá störf okkar og stuðning við sanna tilbeiðslu í réttu ljósi. Enginn maður getur dæmt nákvæmlega um hvatir annarra en Jehóva „vegur hjörtun“. (Orðskviðirnir 24:12; 1. Samúelsbók 16:7) Við ættum því að líta í eigin barm af og til og spyrja okkur af hvaða hvötum við þjónum Jehóva. — Sálmur 24:3, 4; Matteus 5:8.

Rétt mat á verkum okkar

11. Hvaða spurninga gætum við spurt varðandi þátttöku okkar í boðunarstarfinu?

11 Hversu mikið ættum við að hugsa um trúarverkin fyrst það eru hvatir okkar sem velþóknun Jehóva byggist á? Er virkilega nauðsynlegt að halda skrá um það hvað við gerum og hve mikið, svo framarlega sem við þjónum Jehóva af réttu tilefni? Þetta eru eðlilegar spurningar af því að við viljum ekki að tölur og skýrslur skyggi á trúarverkin. Við viljum ekki taka þátt í boðunarstarfinu aðallega til að geta skilað góðri starfsskýrslu.

12, 13. (a) Nefndu nokkrar ástæður fyrir því að halda skýrslu um boðunarstarfið. (b) Af hverju er ánægjulegt að sjá heildarskýrsluna um boðunarstarfið í heiminum?

12 Tökum eftir hvað segir í bókinni Organized to Do Jehovah’s Will (Söfnuður skipulagður til að gera vilja Jehóva): „Fylgjendur Jesú á fyrstu öld fylgdust með hvernig boðunarstarfinu miðaði áfram. (Mark. 6:30) Postulasagan segir frá því að um 120 manns hafi verið viðstaddir þegar heilögum anda var úthellt yfir lærisveinana á hvítasunnu. Á skömmum tíma fjölgaði lærisveinunum upp í 3000 og síðar 5000. . . . (Post. 1:15; 2:5-11, 41, 47; 4:4; 6:7) Það hlýtur að hafa verið mjög hvetjandi fyrir lærisveinana að frétta af þessari aukningu!“ Það er af sömu ástæðu sem Vottar Jehóva nú á tímum leggja sig fram við að halda nákvæmar skrár um það sem gerist í heiminum til uppfyllingar á orðum Jesú: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ (Matteus 24:14) Slíkar skrár og skýrslur gefa raunhæfa mynd af því sem gerist á akrinum um allan heim. Þær sýna hvar hjálpar er þörf, hvers konar rit þarf og hve mikið, til að boðunarstarfið fái framgang.

13 Við getum gert boðun fagnaðarerindisins um ríkið betri skil ef við gefum skýrslu um starf okkar. Og auk þess er alltaf hvetjandi að frétta af starfi bræðranna annars staðar í heiminum. Fréttir af vexti og aukningu um allan heim gleðja okkur, hvetja okkur til að starfa meira og veita okkur vissu fyrir blessun Jehóva. Og er ekki ánægjulegt að vita til þess að framlag okkar er talið með í skýrslunni um boðunarstarfið í heiminum? Auðvitað er framlag okkar ósköp smátt í samanburði við heildartöluna en Jehóva veit samt af því sem við gerum. (Markús 12:42, 43) Og mundu að heildarskýrslan væri ófullkomin ef skýrsluna þína vantaði.

14. Hvað fleira en boðun og kennsla er fólgið í tilbeiðslu okkar?

14 Auðvitað kemur ekki fram í starfsskýrslunni nema hluti af því sem sérhver vígður þjónn Jehóva gerir til að rækja skyldur sínar. Þar segir ekkert um reglulegt sjálfsnám í Biblíunni, um samkomusókn og þátttöku í samkomunum, um verkefni í söfnuðinum, stuðning við trúsystkini eða um fjárframlög til boðunarstarfsins í heiminum, svo fáein dæmi séu nefnd. Þó að starfsskýrslan hjálpi okkur að vissu marki að vera kostgæfin í boðunarstarfinu og slá ekki slöku við verðum við að sjá hana í réttu ljósi. Við megum ekki líta á hana sem eins konar andlegt vegabréf eða skírteini upp á það að við séum hæf til að hljóta eilíft líf.

‚Kostgæfin til góðra verka‘

15. Hvers vegna eru verk nauðsynleg þó að hjálpræði okkar byggist ekki einvörðungu á þeim?

15 Ljóst er að verkin eru nauðsynleg þó að hjálpræði okkar byggist ekki einvörðungu á þeim. Það er þess vegna sem kristnir menn eru kallaðir ‚eignarlýður, kostgæfinn til góðra verka‘ og eru hvattir til að ‚gefa gætur hver að öðrum og hvetja hver annan til kærleika og góðra verka‘. (Títusarbréfið 2:14; Hebreabréfið 10:24) Biblíuritarinn Jakob orðar þetta mjög hnitmiðað og segir blátt áfram: „Eins og líkaminn er dauður án anda, eins er og trúin dauð án verka.“ — Jakobsbréfið 2:26.

16. Hvað er enn mikilvægara en verkin og hvað ættum við að varast?

16 Þó að það sé mikilvægt að vinna góð verk er enn mikilvægara að vinna þau af réttum hvötum. Þess vegna er skynsamlegt af okkur að líta í eigin barm af og til og kanna af hvaða hvötum við þjónum Jehóva. Enginn maður getur vitað með vissu hvaða hvatir búa með öðrum þannig að við verðum að vara okkur á því að dæma aðra. „Hver ert þú, sem dæmir annars þjón?“ er spurt og svarið er augljóst: „Hann stendur og fellur herra sínum.“ (Rómverjabréfið 14:4) Jehóva, sem er herra allra, og Jesús Kristur, sem hann hefur skipað dómara, munu dæma okkur, ekki aðeins eftir verkum okkar heldur einnig eftir hvötum okkar, möguleikum, kærleika og hollustu. Enginn nema Jehóva og Jesús Kristur geta dæmt örugglega um það hvort við höfum gert það sem kristnir menn eru hvattir til að gera samkvæmt orðum Páls postula: „Legg kapp á að reynast hæfur fyrir Guði sem verkamaður, er ekki þarf að skammast sín og fer rétt með orð sannleikans.“ — 2. Tímóteusarbréf 2:15; 2. Pétursbréf 1:10; 3:14.

17. Af hverju ættum við að hafa Nehemabók 9:13 í huga?

17 Jehóva gerir ekki nema sanngjarnar kröfur til okkar. Samkvæmt Nehemíabók 9:13 gefur hann þjónum sínum „sanngjörn ákvæði“. Væri ekki viturlegt og visst afrek að líkja eftir þessum þætti í fari Jehóva? Við ættum því ekki að gera ósanngjarnar og óraunhæfar kröfur til sjálfra okkar eða trúsystkina okkar.

18. Til hvers getum við hlakkað þegar við sjáum trúarverk okkar og óverðskuldaða gæsku Jehóva í réttu ljósi?

18 Svo framarlega sem við sjáum trúarverk okkar og óverðskuldaða gæsku Jehóva í réttu ljósi varðveitum við gleðina sem er einkennandi fyrir sanna þjóna Jehóva. (Jesaja 65:13, 14) Við getum glaðst yfir þeirri gæfu sem Jehóva veitir þjónum sínum í heild, óháð því hverju við getum áorkað sjálf. Höldum áfram „bæn og beiðni og þakkargjörð“ og biðjum Jehóva að hjálpa okkur að gera eins vel og við getum. Þá er öruggt að ‚friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu okkar og hugsanir í Kristi Jesú‘. (Filippíbréfið 4:4-7) Já, vitneskjan um að við getum verið hólpin af náð Jehóva en ekki aðeins verkum okkar getur verið hughreystandi og hvetjandi.

Geturðu útskýrt hvers vegna kristnir menn

• forðast að stæra sig af afrekum sínum?

• forðast samkeppnisanda?

• gefa skýrslu um þátttöku sína í boðunarstarfinu?

• forðast að dæma trúsystkini sín?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 13]

„Náð mín nægir þér.“

[Myndir á blaðsíðu 14, 15]

Öldungar fagna því sem samöldungar þeirra geta gert í þágu safnaðarins.

[Myndir á blaðsíðu 16, 17]

Heildarskýrslan væri ófullkomin ef skýrsluna þína vantaði.