Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Höfuðþættir 1. Konungabókar

Höfuðþættir 1. Konungabókar

Orð Jehóva er lifandi

Höfuðþættir 1. Konungabókar

„ÞEGAR réttlátum fjölgar, gleðst þjóðin, en þegar óguðlegir drottna, andvarpar þjóðin.“ (Orðskviðirnir 29:2) Fyrri Konungabók vitnar vel um sannleiksgildi þessa orðskviðar. Bókin rekur ævisögu Salómons en það er í stjórnartíð hans sem Ísrael býr við öryggi og mikla velsæld. Fyrri Konungabók segir jafnframt frá því hvernig þjóðin skiptist í tvennt eftir dauða Salómons, og hún rekur sögu 14 konunga sem komu eftir hann, ýmist í Ísrael eða Júda. Aðeins tveir þessara konunga voru Jehóva trúir alla ævi. Auk þess greinir bókin frá starfi sex spámanna, þeirra á meðal Elía.

Bókin er skrifuð í Jerúsalem og Júda af Jeremía spámanni. Hún spannar 129 ára sögu, frá 1040 f.o.t. til 911 f.o.t. Jeremía virðist hafa stuðst við fornar heimildir, svo sem ‚Annála Salómons‘, en þessar heimildir eru nú glataðar. — 1. Konungabók 11:41; 14:19; 15:7.

VITUR KONUNGUR STUÐLAR AÐ FRIÐI OG VELMEGUN

(1. Konungabók 1:1–11:43)

Fyrri Konungabók hefst á athyglisverðri frásögu af því þegar Adónía, sonur Davíðs, reynir að ræna völdum af föður sínum. Skjót viðbrögð Natans spámanns afstýra valdaráninu og Salómon Davíðsson er skipaður konungur í staðinn. Jehóva hefur velþóknun á beiðni hins nýkrýnda konungs og gefur honum bæði „hyggið og skynugt hjarta“ og „auðlegð og heiður“. (1. Konungabók 3:12, 13) Viska konungs er engu lík og auður hans sömuleiðis. Ísrael býr við frið og velmegun.

Af framkvæmdum Salómons má nefna að hann reisir musteri Jehóva og ýmsar stjórnarbyggingar. Jehóva lofar honum að ‚staðfesta hásæti konungdóms hans yfir Ísrael að eilífu‘, svo framarlega sem konungur reynist hlýðinn. (1. Konungabók 9:4, 5) Jehóva varar hann jafnframt við afleiðingum þess að óhlýðnast. En Salómon tekur sér margar erlendar konur og undir áhrifum þeirra snýst hann til skurðgoðadýrkunar á efri árum. Jehóva segir fyrir að ríki hans verði skipt. Salómon deyr árið 997 f.o.t. eftir 40 ára stjórnartíð. Rehabeam, sonur hans, tekur við af honum.

Biblíuspurningar og svör:

1:5 — Af hverju reyndi Adónía að hrifsa völd meðan Davíð var enn á lífi? Það er ósagt látið í Biblíunni. Ætla má að Adónía hafi hugsað sem svo að hann ætti rétt á hásætinu sem elsti lifandi sonur Davíðs, en Amnon og Absalon, eldri bræður hans, voru báðir dánir og Kíleab sennilega líka. (2. Samúelsbók 3:2-4; 13:28, 29; 18:14-17) Adónía hafði tryggt sér stuðning hins volduga Jóabs hershöfðingja og hins áhrifamikla Abjatars æðstaprests og hefur líklega þóst viss um að tilraunin tækist. Þess er ekki getið í Biblíunni hvort hann vissi að Davíð ætlaði sér að láta Salómon erfa hásætið. Adónía bauð þó hvorki Salómon né öðrum, sem voru hollir Davíð, til fórnarveislu sem hann hélt. (1. Konungabók 1:9, 10) Það bendir til þess að hann hafi litið á Salómon sem keppinaut.

1:49-53; 2:13-25 — Af hverju lét Salómon taka Adónía af lífi eftir að hafa gefið honum upp sakir? Batseba gerði sér ekki grein fyrir því hvað vakti fyrir Adónía þegar hann bað hana að óska eftir því við konung að hann gæfi honum Abísag fyrir konu. Salómon vissi hins vegar hvað var á seyði. Þó að Davíð hefði ekki haft mök við hina fögru Abísag var engu að síður litið á hana sem hjákonu hans. Í samræmi við hefðir þess tíma átti aðeins löglegur erfingi Davíðs að eignast hana. Kannski hélt Adónía að hann gæti aftur reynt að ná hásætinu ef hann fengi Abísag fyrir konu. Salómon túlkaði beiðni Adónía á þann veg að hann sæktist eftir konungdómi og afturkallaði sakaruppgjöfina.

6:37–8:2 — Hvenær var musterið vígt? Musterið var fullgert í áttunda mánuði ársins 1027 f.o.t., á 11. stjórnarári Salómons. Uppsetning húsbúnaðar og annar frágangur virðist hafa tekið 11 mánuði þannig að vígslan hlýtur að hafa farið fram í 7. mánuði ársins 1026 f.o.t. Í bókinni er sagt frá öðrum byggingarframkvæmdum eftir að smíði musterisins lauk en áður en minnst er á vígslu þess, sennilega til að ljúka umfjölluninni um byggingarframkvæmdirnar. — 2. Kroníkubók 5:1-3.

9:10-13 — Samræmdist það Móselögunum að Salómon skyldi gefa Híram konungi í Týrus 20 borgir í Galíleuhéraði? Ef til vill var litið svo á að ákvæðið í 3. Mósebók 25:23, 24 ætti aðeins við það svæði sem Ísraelsmenn byggðu. Hugsanlegt er að borgirnar, sem Salómon gaf Híram, hafi verið byggðar annarra þjóða fólki þótt þær lægju innan landamæra fyrirheitna landsins. (2. Mósebók 23:31) Þessi aðgerð Salómons kann einnig að merkja að hann hafi ekki fylgt lögmálinu í einu og öllu, rétt eins og hann gerði þegar hann fékk sér „marga hesta“ og tók sér margar konur. (5. Mósebók 17:16, 17) Á hvorn veginn sem var var Híram óánægður með gjöfina. Hugsanlegt er að heiðnir íbúar borganna hafi ekki haldið þeim vel við eða þær hafi ekki verið vel staðsettar.

11:4 — Voru það elliglöp hjá Salómon að vera Guði ótrúr á gamals aldri? Svo er ekki að sjá. Salómon tók við völdum mjög ungur og náði ekki sérlega háum aldri þótt hann ríkti í 40 ár. Og hann hætti ekki með öllu að tilbiðja Jehóva heldur virðist hann hafa reynt að stunda einhvers konar blendingstrú.

Lærdómur:

2:26, 27, 35. Spár Jehóva rætast alltaf. Abjatar var afkomandi Elís, og með því að víkja honum úr embætti rættust „orð Drottins . . . þau er hann talaði um hús Elí“. Með því að skipa Sadók af ætt Pínehasar í embætti rættist 4. Mósebók 25:10-13. — 2. Mósebók 6:25; 1. Samúelsbók 2:31; 3:12; 1. Kroníkubók 24:3.

2:37, 41-46. Það er hættulegt að ímynda sér að maður geti komist upp með að sniðganga lög Guðs. Þeir sem fara af ásettu ráði út af ‚mjóa veginum sem liggur til lífsins‘ verða að taka afleiðingum þessarar óviturlegu ákvörðunar. — Matteus 7:14.

3:9, 12-14. Jehóva verður við einlægum bænum þjóna sinna um hyggindi, visku og leiðsögn í þjónustu hans. — Jakobsbréfið 1:5.

8:22-53Salómon fór með innilega þakkarbæn til Jehóva sem er ástríkur Guð, uppfyllir loforð sín og heyrir bænir. Við getum orðið þakklátari fyrir þessa eiginleika Jehóva og fleiri ef við hugleiðum vígslubæn Salómons.

11:9-14, 23, 26. Jehóva vakti upp mótstöðumenn þegar Salómon varð óhlýðinn á efri árum. „Guð stendur gegn dramblátum, en auðmjúkum veitir hann náð,“ eins og Pétur postuli segir. — 1. Pétursbréf 5:5.

11:30-40Salómon konungur reyndi að ráða Jeróbóam af dögum vegna þess sem Ahía spáði um Jeróbóam. Þetta var harla ólíkt viðbrögðum hans um 40 árum áður þegar hann vildi ekki koma fram hefndum á Adónía og öðrum samsærismönnum. (1. Konungabók 1:50-53) Hugarfarsbreytingin stafaði af því að Salómon hafði yfirgefið Jehóva.

HIÐ SAMEINAÐA RÍKI SKIPTIST

(1. Konungabók 12:1–22:53)

Jeróbóam og söfnuður Ísraels koma til Rehabeams og biðja hann að létta byrðarnar sem Salómon faðir hans hafði lagt á þjóðina. Rehabeam neitar að verða við bóninni og hótar að þyngja byrðarnar. Tíu ættkvíslir gera þá uppreisn og taka sér Jeróbóam fyrir konung. Ríkið er nú tvískipt. Rehabeam ræður yfir syðra ríkinu með ættkvíslum Júda og Benjamíns en Jeróbóam yfir norðurríkinu Ísrael með tíu ættkvíslum.

Jeróbóam vill letja þjóðina þess að fara til Jerúsalem til að tilbiðja Jehóva og setur upp tvo gullkálfa, annan í Dan og hinn í Betel. Af konungum, sem ríkja í Ísrael eftir hann, má nefna Nadab, Basa, Ela, Simrí, Tibní, Omrí, Akab og Ahasía. Á eftir Rehabeam komu þeir Abía, Asa, Jósafat og Jóram í Júdaríkinu. Meðal spámanna, sem starfa á dögum þessara konunga, eru þeir Ahía, Semaja og ónafngreindur guðsmaður, að ógleymdum þeim Jehú, Elía og Míka.

Biblíuspurningar og svör:

18:21 — Hvers vegna þögðu menn þegar Elía sagði þeim að velja hvort þeir vildu fylgja Jehóva eða Baal? Ef til vill gerðu þeir sér grein fyrir að þeir hefðu ekki sýnt Jehóva óskipta hollustu og fundu til sektarkenndar. Einnig má vera að samviskan hafi verið svo forhert að þeir hafi ekki séð neitt athugavert við að tilbiðja Baal en segjast dýrka Jehóva. Það var ekki fyrr en Jehóva hafði sýnt mátt sinn sem þeir sögðu: „Drottinn er hinn sanni Guð, Drottinn er hinn sanni Guð!“ — 1. Konungabók 18:39.

20:34 — Af hverju þyrmdi Akab Benhadad konungi eftir að hafa sigrað Sýrlendinga? Í stað þess að taka Benhadad af lífi gerði Akab sáttmála við hann þess efnis að hann mætti gera sér torg, sennilega markaðstorg, í Damaskus, höfuðborg Sýrlands. Faðir Benhadads hafði með svipuðum hætti gert sér torg í Samaríu til að stunda þar viðskipti. Benhadad var því sleppt svo að Akab gæti stundað viðskipti í Damaskus.

Lærdómur:

12:13, 14. Þegar við tökum mikilvægar ákvarðanir ættum við að leita ráða hjá vitrum og þroskuðum einstaklingum sem eru gagnkunnugir Ritningunni og bera djúpa virðingu fyrir meginreglum Guðs.

13:11-24. Ef við fáum ráðleggingar eða tillögu sem virðist vafasöm ættum við að skoða hana með hliðsjón af hinum áreiðanlegu leiðbeiningum Biblíunnar, jafnvel þótt tillagan komi fá velviljuðu trúsystkini. — 1. Jóhannesarbréf 4:1.

14:13. Jehóva rannsakar okkur vandlega til að leita að einhverju góðu í fari okkar. Jafnvel þó að það virðist lítilfjörlegt getur hann látið það vaxa ef við gerum okkar besta til að þjóna honum.

15:10-13. Við verðum að hafna fráhvarfi einarðlega og efla sanna tilbeiðslu.

17:10-16. Ekkjan í Sarefta vissi að Elía væri spámaður og tók við honum sem slíkum. Jehóva blessaði trúarverk hennar. Jehóva tekur eftir trúarverkum okkar og umbunar þeim sem styðja boðunarstarfið með ýmsum hætti. — Matteus 6:33; 10:41, 42; Hebreabréfið 6:10.

19:1-8. Við getum treyst á stuðning Jehóva þegar við verðum fyrir harðri andstöðu. — 2. Korintubréf 4:7-9.

19:10, 14, 18Sannir guðsdýrkendur eru aldrei einir. Þeir eiga Jehóva og hið alþjóðlega bræðrafélag að.

19:11-13. Jehóva er ekki einhver persónugervingur náttúruaflanna.

20:11. Þegar Benhadad stærir sig af því að hafa eytt Samaríu svarar Ísraelskonungur: „Eigi skyldi sá, er hervæðist, hrósa sér sem sá, er leggur af sér vopnin“ eftir að hann hefur sigrað í bardaga og er kominn heim. Við verðum að forðast oftraust gortarans þegar við tökumst á hendur nýtt verkefni. — Orðskviðirnir 27:1; Jakobsbréfið 4:13-16.

Bókin er mikils virði fyrir okkur

Þegar Móse greindi frá því hvernig lögmálið var gefið við Sínaífjall sagði hann Ísraelsmönnum: „Sjá, ég legg fyrir yður í dag blessun og bölvun: blessunina, ef þér hlýðið skipunum Drottins Guðs yðar, sem ég býð yður í dag, en bölvunina, ef þér hlýðið ekki skipunum Drottins Guðs yðar og víkið af þeim vegi, sem ég býð yður í dag.“ — 5. Mósebók 11:26-28.

Fyrri Konungabók sýnir okkur ákaflega skýrt fram á þennan mikilvæga sannleika. Eins og við höfum séð má einnig draga af henni marga aðra lærdóma. Boðskapur hennar er bæði lifandi og kröftugur. — Hebreabréfið 4:12.

[Mynd á blaðsíðu 29]

Musterið og aðrar byggingar Salómons.

[Mynd á blaðsíðu 30]

„Drottinn er hinn sanni Guð,“ hrópaði fólkið eftir að Jehóva hafði sýnt mátt sinn.