Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jehóva verndar þá sem vona á hann

Jehóva verndar þá sem vona á hann

Jehóva verndar þá sem vona á hann

„Lát náð þína og trúfesti ætíð vernda mig.“ — SÁLMUR 40:12.

1. Um hvað bað Davíð konungur Jehóva og hvernig hefur Jehóva orðið við beiðni hans?

DAVÍÐ konungur í Forn-Ísrael ‚setti alla von sína‘ á Jehóva og sagði að hann hefði ‚lotið niður að sér og heyrt kvein sitt‘. (Sálmur 40:2) Hann sá oft með eigin augum hvernig Jehóva verndaði þá sem elskuðu hann. Hann gat því beðið Jehóva að vernda sig ætíð. (Sálmur 40:12) Davíð er talinn í hópi trúfastra karla og kvenna sem er heitið „betri upprisu“ og er á þessari stundu geymdur í minni Guðs þar til að upprisunni kemur. (Hebreabréfið 11:32-35) Framtíð hans er því tryggð sem best má verða. Hann á nafn sitt ritað í „minnisbók“ Jehóva. — Malakí 3:16.

2. Hvernig kemur fram í Biblíunni hvað það merkir að hljóta vernd Jehóva?

2 Þó að hinir trúföstu þjónar Guðs, sem eru nefndir í 11. kafla Hebreabréfsins, hafi verið uppi áður en Jesús kom til jarðar lifðu þeir engu að síður í samræmi við orð hans þegar hann sagði: „Sá sem elskar líf sitt, glatar því, en sá sem hatar líf sitt í þessum heimi, mun varðveita það til eilífs lífs.“ (Jóhannes 12:25) Vernd Jehóva merkir því augljóslega ekki að menn séu óhultir fyrir þjáningum eða ofsóknum heldur er hún andlegs eðlis og gerir þeim kleift að varðveita gott samband við hann.

3. Hvað er til vitnis um að Jehóva hafi verndað Jesú Krist og hvað hlaust af því?

3 Jesús mátti sæta grimmilegum ofsóknum og háðung, og óvinum hans tókst að lokum að taka hann af lífi með smánarlegum og kvalafullum hætti. Það var þó alls ekki í mótsögn við loforð Guðs um að vernda Messías. (Jesaja 42:1-6) Jehóva reisti Jesú upp á þriðja degi eftir smánarlegan dauða hans og það sannar að hann heyrði ákall hans um hjálp, rétt eins og hann heyrði ákall Davíðs. Jehóva svaraði áköllum Jesú með því að styrkja hann þannig að hann gæti verið ráðvandur. (Matteus 26:39) Sökum þessarar verndar hlaut Jesús ódauðleika á himnum og milljónir manna, sem trúa á lausnargjaldið, eiga eilíft líf í vændum.

4. Hvaða loforð fá bæði andasmurðir kristnir menn og ‚aðrir sauðir‘?

4 Við getum treyst að Jehóva er jafnfús til að vernda þjóna sína núna og hann var á dögum Davíðs og Jesú og er fyllilega fær um það. (Jakobsbréfið 1:17) Þeir tiltölulega fáu sem eru eftir af andasmurðum bræðrum Jesú á jörðinni, geta treyst á loforð Jehóva um ‚óforgengilega, flekklausa og ófölnandi arfleifð sem þeim er geymd á himnum‘. Í framhaldinu er þeim lofað: „Kraftur Guðs varðveitir yður fyrir trúna til þess að þér getið öðlast hjálpræðið, sem er þess albúið að opinberast á síðasta tíma.“ (1. Pétursbréf 1:4, 5) ‚Aðrir sauðir‘, sem eiga jarðneska von, geta sömuleiðis treyst á Guð og loforð hans fyrir munn sálmaritarans: „Elskið Drottin, allir þér hans trúuðu, Drottinn verndar trúfasta.“ — Jóhannes 10:16; Sálmur 31:24.

Andleg vernd

5, 6. (a) Hvernig hefur Guð verndað þjóna sína á síðari tímum? (b) Hvert er samband hinna andasmurðu við Jehóva og hvaða samband eiga ‚aðrir sauðir‘ við hann?

5 Jehóva hefur gert ráðstafanir nú á tímum til að vernda þjóna sína andlega. Hann hlífir þeim að vísu ekki við ofsóknum eða við erfiðleikum og áföllum sem fylgja lífinu núna en hann hjálpar þeim engu að síður dyggilega til að varðveita náið samband við sig og hvetur þá eftir þörfum. Undirstaða þessa sambands er trúin á hið kærleiksríka lausnargjald sem hann lét í té. Guð hefur smurt suma af þessum trúföstu kristnu mönnum með anda sínum til að stjórna með Kristi á himnum. Þeir hafa verið lýstir réttlátir sem andlegir synir Guðs og sagt er um þá: „Hann hefur frelsað oss frá valdi myrkursins og flutt oss inn í ríki síns elskaða sonar. Í honum eigum vér endurlausnina, fyrirgefningu synda vorra.“ — Kólossubréfið 1:13, 14.

6 Milljónum annarra kristinna manna er heitið því að þeir geti líka notið góðs af lausnarfórninni sem Guð lét í té. Við lesum: „Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér, heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir marga.“ (Markús 10:45) Þessir trúföstu kristnu menn hlakka til að hljóta ‚dýrðarfrelsi Guðs barna‘. (Rómverjabréfið 8:21) En þangað til hlúa þeir að vináttusambandi sínu við Guð og leggja sig einlæglega fram við að treysta það og styrkja.

7. Hvernig verndar Jehóva þjóna sína andlega?

7 Jehóva verndar þjóna sína meðal annars með því að kenna þeim jafnt og þétt þannig að þeir fái sífellt nákvæmari þekkingu á sannleikanum. Hann veitir líka stöðuga leiðsögn í orði sínu, fyrir milligöngu safnaðarins og með heilögum anda. Fólk Guðs um allan heim er eins og alþjóðleg fjölskylda undir handleiðslu hins ‚trúa og hyggna þjóns‘. Þjónninn lítur eftir andlegum þörfum þjóna Jehóva, og einnig efnislegum þörfum þegar ástæða er til, óháð þjóðerni þeirra eða þjóðfélagsstöðu. — Matteus 24:45.

8. Hvaða traust sýnir Jehóva trúum þjónum sínum og hvaða trygging er fólgin í því?

8 Jehóva hlífir ekki kristnum mönnum við beinum árásum, ekki frekar en hann hlífði Jesú við árásum óvina. En þetta er alls ekki merki um vanþóknun Guðs heldur undirstrikar það traust hans á því að þeir taki málstað hans í deilumálinu um alheimsdrottinvaldið. (Jobsbók 1:8-12; Orðskviðirnir 27:11) Jehóva yfirgefur aldrei trúfasta þjóna sína því að hann „hefir mætur á réttlæti og yfirgefur ekki sína trúuðu. Þeir verða eilíflega varðveittir.“ — Sálmur 37:28.

Náð og trúfesti Jehóva vernda

9, 10. (a) Hvernig er trúfesti Jehóva fólki hans til verndar? (b) Hvernig sýnir Biblían fram á að miskunn Jehóva er dyggum þjónum hans til verndar?

9 Davíð bað þess í bæn sinni í Sálmi 40 að náð og trúfesti Jehóva mættu vernda sig. Trúfesti Jehóva og réttlætisást útheimta að hann útlisti mælikvarða sinn vel. Þeir sem lifa í samræmi við mælikvarða hans eru að miklu leyti lausir við þær sorgir, ótta og erfiðleika sem hljótast af því að hunsa reglur hans. Við getum til dæmis hlíft okkur og ástvinum okkar við margs konar sorgum og erfiðleikum ef við misnotum ekki áfengi og forðumst fíkniefni, siðleysi og ofbeldi. Og jafnvel þeir sem villast út af réttlátum vegi Jehóva, eins og Davíð gerði stundum, geta treyst því að Jehóva sé eftir sem áður „skjól“ fyrir iðrandi syndara. Þeir geta hrópað fagnandi: „Þú leysir mig úr nauðum.“ (Sálmur 32:7) Hvílíkt merki um náð Guðs og ástúðlega umhyggju!

10 Annað dæmi um náð Guðs og ástríka umhyggju er að hann skuli hvetja þjóna sína til að halda sér aðgreindum frá hinum illa heimi sem hann ætlar að eyða bráðlega. Við lesum: „Elskið ekki heiminn, ekki heldur þá hluti, sem í heiminum eru. Sá sem elskar heiminn, á ekki í sér kærleika til föðurins. Því að allt það, sem í heiminum er, fýsn holdsins og fýsn augnanna og auðæfa-oflæti, það er ekki frá föðurnum, heldur er það frá heiminum.“ Með því að fara eftir viðvörun hans getum við bókstaflega varðveitt líf okkar að eilífu vegna þess að í framhaldinu segir: „Og heimurinn fyrirferst og fýsn hans, en sá, sem gjörir Guðs vilja, varir að eilífu.“ — 1. Jóhannesarbréf 2:15-17.

Aðgætni, hyggindi og viska vernda

11, 12. Hvernig geta aðgætni, hyggindi og viska verndað okkur?

11 Salómon, syni Davíðs, var innblásið að skrifa þeim sem vonast eftir velþóknun Guðs: „Aðgætni mun vernda þig, og hyggindin varðveita þig.“ Hann hvatti: „Afla þér visku . . . Hafna henni eigi, þá mun hún varðveita þig, elska hana, þá mun hún vernda þig.“ — Orðskviðirnir 2:11; 4:5, 6.

12 Við sýnum aðgætni ef við hugleiðum það sem við lærum af orði Guðs. Þá verðum við hyggnari og getum forgangsraðað rétt í lífinu. Þetta er mikilvægt vegna þess að flest vitum við, kannski af eigin reynslu, að það er ávísun á erfiðleika að forgangsraða ekki rétt, annaðhvort vitandi eða óafvitandi. Heimur Satans reynir að tæla okkur með von um fé, frama og völd en Jehóva leggur áherslu á andleg gildi sem eru miklu mikilvægari. Ef við tökum hið fyrra fram yfir hið síðara eigum við á hættu að fjölskyldan sundrist, vinátta slitni og andleg markmið renni út í sandinn. Ef svo færi ættum við kannski ekkert eftir annað en hinn dapurlega veruleika sem Jesús lýsti: „Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn, en fyrirgjöra sálu sinni?“ (Markús 8:36) Það er viturlegt að hlýða ráðleggingu Jesú: „Leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki.“ — Matteus 6:33.

Hættan að verða upptekinn af sjálfum sér

13, 14. Af hverju er óviturlegt að vera upptekinn af sjálfum sér?

13 Það liggur í eðli mannsins að hafa áhuga á sjálfum sér. Það er hins vegar ávísun á vandræði ef okkar eigin langanir og áhugamál fara að skipta mestu máli í lífinu. Jehóva bendir okkur á að ef við viljum vernda vináttusambandið við sig megum við ekki verða upptekin af sjálfum okkur, að hugsa ekki um annað en eigin langanir, þarfir eða áhugamál. Er það ekki staðreynd að margir hugsa aðallega um sjálfa sig? Í Biblíunni er því spáð að „á síðustu dögum“ hins illa heimskerfis Satans verði mennirnir „sérgóðir“, það er að segja eigingjarnir eða sjálfselskir. — 2. Tímóteusarbréf 3:1, 2.

14 Kristnir menn gera sér grein fyrir því að það er viturlegt að hlýða þeim fyrirmælum Biblíunnar að sýna öðrum áhuga, að elska aðra eins og sjálfa sig. (Lúkas 10:27; Filippíbréfið 2:4) Fólki almennt finnst kannski ekki raunhæft að lifa þannig en það er engu að síður nauðsynlegt ef við viljum búa í farsælu hjónabandi og eiga hamingjusama fjölskyldu og góða vini. Sannir þjónar Jehóva mega aldrei láta hinn eðlilega áhuga á sjálfum sér ráða svo miklu í lífinu að það sem mikilvægara er verði út undan. Og það mikilvægasta í lífinu snýr að Jehóva Guði sem við tilbiðjum.

15, 16. (a) Hvað getur gerst ef maður er upptekinn af sjálfum sér? Nefndu dæmi. (b) Hvað erum við í rauninni að gera ef við erum fljót að dæma aðra?

15 Sá sem er upptekinn af sjálfum sér getur orðið sjálfumglaður en það getur síðan gert hann þröngsýnan, hrokafullan og ósvífinn. Biblían segir með réttu: „Fyrir því hefur þú, maður, sem dæmir, hver sem þú ert, enga afsökun. Um leið og þú dæmir annan, dæmir þú sjálfan þig, því að þú, sem dæmir, fremur hið sama.“ (Rómverjabréfið 2:1; 14:4, 10) Trúarleiðtogarnir á dögum Jesú voru svo sannfærðir um eigið réttlæti að þeir þóttust vera þess umkomnir að setja ofan í við Jesú og fylgjendur hans. En um leið gerðu þeir sig að dómurum. Þeir voru blindir á eigin galla þannig að þeir dæmdu sjálfa sig.

16 Júdas, sem fylgdi Jesú en sveik hann svo, setti sig í dómarasæti. Einhverju sinni gerðist það í Betaníu að María, systir Lasarusar, smurði Jesú með ilmolíu. Júdas mótmælti harkalega. Hann spurði hneykslaður í bragði: „Hví voru þessi smyrsl ekki seld fyrir þrjú hundruð denara og gefin fátækum?“ En síðan kemur eftirfarandi skýring: „Ekki sagði hann þetta af því, að hann léti sér annt um fátæka, heldur af því, að hann var þjófur. Hann hafði pyngjuna og tók það, sem í hana var látið.“ (Jóhannes 12:1-6) Verðum aldrei eins og Júdas eða trúarleiðtogarnir sem voru fljótir til að dæma aðra en dæmdu sjálfa sig um leið.

17. Sýndu fram á hættuna sem fylgir stærilæti eða oftrausti á sjálfum sér.

17 Því miður urðu sumir hinna kristnu á fyrstu öld stærilátir þótt þeir gerðust að vísu ekki þjófar eins og Júdas. Jakob skrifaði um þá: „Nú stærið þér yður í oflátungsskap. Allt slíkt stærilæti er vont.“ (Jakobsbréfið 4:16) Við værum að gera sjálfum okkur ógagn ef við færum að stæra okkur af verkefnum okkar eða því sem við höfum afrekað í þjónustu Jehóva. (Orðskviðirnir 14:16) Við munum hvernig fór fyrir Pétri postula þegar honum varð einu sinni á að treysta sjálfum sér einum of og sagði þá borginmannlegur: „Þótt allir hneykslist á þér, skal ég aldrei hneykslast. . . . Þótt ég ætti að deyja með þér, þá mun ég aldrei afneita þér.“ Sannleikurinn er sá að við höfum ekkert til að stæra okkur af. Við ættum ekkert ef það væri ekki fyrir ást og umhyggju Jehóva. Ef við minnum okkur á það er síður hætta á að við verðum stærilát. — Matteus 26:33-35, 69-75.

18. Hvernig lítur Jehóva á stærilæti?

18 „Drambsemi er undanfari tortímingar, og oflæti veit á fall,“ segir í Biblíunni. Jehóva tiltekur ástæðuna: „Drambsemi og ofdramb . . . það hata ég.“ (Orðskviðirnir 8:13; 16:18) Það er því ekkert undarlegt að Jehóva skyldi reiðast „ofmetnaðinum í hjarta Assýríukonungs og hins hrokafulla drembilætis augna hans“. (Jesaja 10:12) Jehóva lét hann gjalda þess. Innan skamms verður heimur Satans í heild líka látinn svara til saka ásamt drambsömum og stærilátum leiðtogum sínum, bæði sýnilegum og ósýnilegum. Látum það aldrei gerast að við endurspeglum þrjósku og þverúð óvina Jehóva.

19. Í hvaða skilningi eru þjónar Guðs bæði stoltir og lítillátir?

19 Sannkristnir menn hafa fullt tilefni til að vera stoltir af því að vera þjónar Jehóva. (Jeremía 9:24) En þeir hafa jafnframt ærna ástæðu til að vera lítillátir. Af hverju? Af því að „allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð“. (Rómverjabréfið 3:23) Til að varðveita stöðu okkar sem þjónar Jehóva verðum við sem sagt að hugsa eins og Páll postuli sem sagði að ‚Kristur Jesús hefði komið í heiminn til að frelsa synduga menn‘ og bætti svo við: „Er ég þeirra fremstur.“ — 1. Tímóteusarbréf 1:15.

20. Hvernig verndar Jehóva þjóna sína núna og hvernig mun hann vernda þá í framtíðinni?

20 Það er öruggt að Jehóva heldur áfram að vernda þjóna sína andlega af því að þeir eru meira en fúsir til að láta eigin hugðarefni víkja fyrir hagsmunum hans. Við megum treysta að Jehóva verndar fólk sitt bæði andlega og líkamlega þegar þrengingin mikla skellur á. Þegar nýr heimur Guðs gengur í garð geta þeir hrópað fagnandi: „Sjá, þessi er vor Guð, vér vonuðum á hann, að hann mundi frelsa oss. Þessi er Drottinn, vér vonuðum á hann. Fögnum og gleðjumst yfir hjálpræði hans!“ — Jesaja 25:9.

Manstu?

• Hvernig verndaði Jehóva Davíð konung og Jesú Krist?

• Hvernig verndar Jehóva þjóna sína nú á tímum?

• Af hverju ættum við ekki að gera of mikið úr sjálfum okkur?

• Hvers vegna getum við bæði verið stolt og lítillát?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 9]

Hvernig verndaði Jehóva Davíð og Jesú?

[Myndir á blaðsíðu 10, 11]

Hvernig verndar Jehóva þjóna sína andlega nú á tímum?

[Myndir á blaðsíðu 12]

Við verðum alltaf að vera lítillát þó að við séum stolt af því að þjóna Jehóva.