Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Láttu orð Guðs lýsa þér veginn

Láttu orð Guðs lýsa þér veginn

Láttu orð Guðs lýsa þér veginn

„Þitt orð er . . . ljós á vegum mínum.“ — SÁLMUR 119:105.

1, 2. Hvað þurfum við að gera til að orð Jehóva lýsi okkur veginn?

ORÐ JEHÓVA lýsir okkur veginn ef við leyfum það. Til að njóta góðs af þessu andlega ljósi þurfum við að vera dugleg að rannsaka ritað orð Guðs og fara eftir ráðleggingum þess. Þá fyrst getum við tekið undir orð sálmaritarans: „Þitt orð er lampi fóta minna og ljós á vegum mínum.“ — Sálmur 119:105.

2 Við skulum nú skoða hvað við getum lært af Sálmi 119:89-176. Í þessum versum, sem skipt er í 11 erindi, er að finna mikinn fróðleik. Þau geta hjálpað okkur að halda okkur á veginum til eilífs lífs. — Matteus 7:13, 14.

Hafðu unun af orði Guðs

3. Hvernig sýnir Sálmur 119:89, 90 fram á að við getum reitt okkur á orð Guðs?

3 Við verðum stöðug í trúnni ef við höfum yndi af orði Jehóva. (Sálmur 119:89-96) Sálmaskáldið söng: „Orð þitt, Drottinn, varir að eilífu, það stendur stöðugt á himnum. . . . Þú hefir grundvallað jörðina, og hún stendur.“ (Sálmur 119:89, 90) Fyrirmæli Guðs, það er að segja „lög himinsins“, tryggja að himintunglin ferðast fullkomlega eftir sporbraut sinni og jörðin stendur að eilífu. (Jobsbók 38:31-33; Sálmur 104:5) Við getum treyst algerlega hverju orði sem Jehóva mælir því að það sem hann segir rætist alltaf og orð hans ,kemur fyrirætlun hans til vegar‘. — Jesaja 55:8-11.

4. Hvers vegna er gott fyrir þjóna Guðs, sem verða fyrir erfiðleikum, að láta sér annt um orð hans?

4 Sálmaritarinn ,hefði farist í eymd sinni ef lögmál Guðs hefði ekki verið unun hans‘. (Sálmur 119:92) Það voru ekki útlendingar sem ofsóttu hann heldur ísraelskir lögbrjótar sem hötuðu hann. (3. Mósebók 19:17) En þetta bugaði hann ekki því að hann elskaði lög Guðs og þau styrktu hann. Í Korintu var Páll postuli „í háska . . . meðal falsbræðra“ og þeirra á meðal voru hugsanlega ,hinir stórmiklu postular‘ sem komu með ásakanir á hendur honum. (2. Korintubréf 11:5, 12-14, 26) En Páll hélt ótrauður áfram því að honum var annt um orð Guðs. Þar sem okkur er annt um ritað orð Jehóva og við förum eftir því elskum við trúsystkini okkar. (1. Jóhannesarbréf 3:15) Jafnvel hatur heimsins fær okkur ekki til að gleyma neinum leiðbeiningum Guðs. Við höldum áfram að gera vilja hans í einingu með trúsystkinum okkar og hlökkum til að þjóna honum að eilífu með gleði. — Sálmur 119:93.

5. Hvernig leitaði Asa konungur Jehóva?

5 Við gætum tjáð Jehóva hollustu okkar í bæn eins og sálmaritarinn: „Þinn er ég, hjálpa þú mér, því að ég leita fyrirmæla þinna.“ (Sálmur 119:94) Asa konungur leitaði Guðs og upprætti fráhvarfstilbeiðslu í Júda. Á fjöldafundi á 15. ríkisári Asa (963 f.o.t.) „bundust [íbúar Júda] þeim sáttmála, að leita Drottins“. „Gaf Drottinn þeim því kost á að finna sig og veitti þeim frið allt um kring.“ (2. Kroníkubók 15:10-15) Þetta dæmi ætti að hvetja alla þá sem hafa fjarlægst kristna söfnuðinn til að leita Guðs að nýju. Hann mun vernda og blessa þá sem verða aftur virkir í þjónustu hans.

6. Hvað getur verndað okkur gegn andlegum hættum?

6 Í orði Jehóva er að finna visku sem getur verndað okkur gegn andlegum hættum. (Sálmur 119:97-104) Boð Guðs gera okkur vitrari en óvini okkar. Við verðum hyggin með því að íhuga reglur hans og ,skynsamari en öldungar með því að halda fyrirmæli hans‘. (Sálmur 119:98-100) Ef fyrirheit Jehóva eru ,sætari gómi okkar en hunang munni okkar‘ hötum við og forðumst „sérhvern lygaveg“. (Sálmur 119:103, 104) Þetta verndar okkur gegn andlegum hættum þegar við hittum hrokafullt, grimmt og óguðlegt fólk á þessum síðustu dögum. — 2. Tímóteusarbréf 3:1-5.

Lampi fóta okkar

7, 8. Hvað þurfum við að gera til að lifa í samræmi við Sálm 119:105?

7 Orð Guðs er óþrjótandi uppspretta andlegs ljóss. (Sálmur 119:105-112) Hvort sem við erum andasmurð eða tilheyrum ,öðrum sauðum‘ segjum við: „Þitt orð er lampi fóta minna og ljós á vegum mínum.“ (Jóhannes 10:16; Sálmur 119:105) Orð Guðs er eins og lampi sem lýsir okkur veginn svo að við hrösum ekki í andlegum skilningi. (Orðskviðirnir 6:23) En við verðum sjálf að láta orð Jehóva vera lampa fóta okkar.

8 Við þurfum að vera jafnstaðföst og höfundur 119. sálmsins. Hann var staðráðinn í að hvika hvergi frá boðum Guðs. „Ég hefi svarið og haldið það að varðveita þín réttlátu ákvæði,“ sagði hann við Jehóva. (Sálmur 119:106) Vanmetum aldrei það gagn sem við höfum af reglulegu biblíunámi og þátttöku í safnaðarsamkomum.

9, 10. Hvernig vitum við að vígðir þjónar Jehóva geta ,villst frá fyrirmælum hans‘ og hvernig má koma í veg fyrir það?

9 Sálmaritarinn ,villtist eigi frá fyrirmælum Guðs‘. Það getur hins vegar komið fyrir vígðan þjón Jehóva. (Sálmur 119:110) Upphaflega lét Salómon konungur visku frá Guði stýra skrefum sínum og tilheyrði þjóð sem var vígð honum. Hann villtist hins vegar frá fyrirmælum hans. „En einnig hann teygðu útlendar konur til syndar“ með því að tæla hann til að tilbiðja falsguði. — Nehemíabók 13:26; 1. Konungabók 11:1-6.

10 ,Fuglarinn‘ Satan leggur margar gildrur. (Sálmur 91:3) Fyrrverandi félagi í söfnuðinum gæti til dæmis reynt að lokka okkur út af veginum, þar sem andlega ljósið lýsir, út í fráhvarfsmyrkur. Í söfnuðinum í Þýatíru var „Jessabel“ sem var hugsanlega hópur kvenna sem kenndi öðrum að stunda skurðgoðadýrkun og drýgja hór. Jesús umbar ekki slíka illsku og það ættum við ekki heldur að gera. (Opinberunarbókin 2:18-22; Júdasarbréfið 3, 4) Biðjum því Jehóva um hjálp svo að við höldum okkur í ljósi hans og villumst ekki frá fyrirmælum hans. — Sálmur 119:111, 112.

Orð Guðs styrkir okkur

11. Hvernig lítur Guð á óguðlega samkvæmt Sálmi 119:119?

11 Guð mun styrkja okkur ef við víkjum aldrei frá lögum hans. (Sálmur 119:113-120) Við höfum ekki velþóknun á þeim „er haltra til beggja hliða“, rétt eins og Jesús hafnar hálfvolgum mönnum nú á tímum sem segjast kristnir. (Sálmur 119:113; Opinberunarbókin 3:16) Jehóva er ,skjól okkar‘ og styrkir okkur af því að við þjónum honum af öllu hjarta. Hann „hafnar öllum þeim, er villast frá lögum“ hans og gerast svikulir og falskir. (Sálmur 119:114, 117, 118; Orðskviðirnir 3:32) Hann lítur á slíka óguðlega menn sem „sora“, það er að segja gjall sem er skilið frá verðmætum málmum eins og silfri og gulli. (Sálmur 119:119; Orðskviðirnir 17:3) Við skulum alltaf sýna að við elskum reglur Guðs af því að við viljum alls ekki vera með óguðlegum mönnum sem enda á gjallhaugi eyðingarinnar.

12. Hvers vegna er mikilvægt að óttast Jehóva?

12 „Hold mitt nötrar af hræðslu fyrir þér,“ sagði sálmaskáldið við Jehóva. (Sálmur 119:120) Ef við viljum að Guð styrki okkur er nauðsynlegt að óttast hann á heilnæman hátt en það birtist í því að við forðumst það sem hann hefur vanþóknun á. Óttablandin virðing fyrir Jehóva fékk Job til að lifa réttlátlega. (Jobsbók 1:1; 23:15) Ótti við Guð getur gert okkur kleift að halda okkur á þeirri braut sem hann hefur velþóknun á, hvað svo sem við þurfum að þola. En til að vera þolgóð þurfum við að biðja einlæglega og í trú. — Jakobsbréfið 5:15.

Biðjum í trú

13-15. (a) Hvers vegna getum við verið viss um að Guð heyri bænir okkar? (b) Hvað getur gerst ef við vitum ekki hvað við eigum að segja í bæn? (c) Hvernig gæti Sálmur 119:121-128 tengst andvörpum sem við komum ekki orðum að í bæn?

13 Við getum beðið til Guðs í trausti þess að hann komi okkur til hjálpar. (Sálmur 119:121-128) Eins og sálmaritarinn erum við fullviss um að Guð heyri bænir okkar vegna þess að við elskum boð hans „framar en gull og skíragull“. ,Þess vegna höldum við beina leið eftir öllum fyrirmælum hans.‘ — Sálmur 119:127, 128.

14 Jehóva heyrir bænir okkar vegna þess að við biðjum í trú og höldum okkur fast við fyrirmæli hans. (Sálmur 65:3) En hvað ef vandamál okkar eru svo yfirþyrmandi að við vitum ekki hvernig við eigum að koma orðum að þeim í bæn? Þá biður „sjálfur andinn . . . fyrir oss með andvörpum, sem ekki verður orðum að komið“. (Rómverjabréfið 8:26, 27) Á slíkum stundum lítur Guð svo á að orð, sem standa í Biblíunni, komi í staðinn fyrir bænir sem við komum ekki orðum að.

15 Í Biblíunni eru margar bænir og hugsanir sem geta tengst „andvörpum [okkar], sem ekki verður orðum að komið“. Lítum til dæmis á Sálm 119:121-128. Þessi lýsing gæti passað við aðstæður okkar. Ef við óttumst til dæmis að verða kúguð eða svikin gætum við beðið Guð um hjálp rétt eins og sálmaritarinn gerði. (Vers 121-123) Segjum sem svo að við þurfum að taka mjög erfiða ákvörðun. Þá gætum við beðið þess að andi Jehóva hjálpi okkur að muna eftir reglum hans og fara eftir þeim. (Vers 124, 125) Þó að við ,hötum sérhvern lygaveg‘ gætum við þurft að biðja Guð að hjálpa okkur svo að við látum ekki undan freistingu til að brjóta lög hans. (Vers 126-128) Ef við lesum daglega í Biblíunni getur verið að við munum eftir gagnlegum ritningarstöðum þegar við biðjum til Jehóva.

Reglur Jehóva hjálpa okkur

16, 17. (a) Hvers vegna þurfum við á reglum Guðs að halda og hvernig ættum við að líta á þær? (b) Hvernig líta aðrir hugsanlega á okkur en hvað skiptir raunverulega máli?

16 Við verðum að hlýða reglum Guðs ef við viljum að hann heyri bænir okkar og hafi velþóknun á okkur. (Sálmur 119:129-136) Þar sem við erum gleymin þurfum við á hinum góðu áminningum Guðs að halda til að minna okkur á leiðbeiningar hans og fyrirmæli. Við kunnum auðvitað að meta andlega ljósið sem við fáum með nýjum útskýringum á orði Guðs. (Sálmur 119:129, 130) Við erum líka þakklát fyrir það að Jehóva skuli hafa ‚látið ásjónu sína lýsa yfir okkur‘ með velþóknun þó að ,augu okkar fljóti í tárum‘ vegna þess að aðrir brjóta lögmál hans. — Sálmur 119:135, 136; 4. Mósebók 6:25.

17 Við getum verið viss um að við höfum velþóknun Guðs áfram ef við förum eftir réttlátum reglum hans. (Sálmur 119:137-144) Sem þjónar Jehóva viðurkennum við að það er rétt af honum að vekja athygli okkar á réttlátum reglum sínum og ætlast til að við hlýðum fyrirmælum hans. (Sálmur 119:138) Hvers vegna sagði sálmaritarinn að hann væri „lítilmótlegur og fyrirlitinn“ fyrst hann hlýddi fyrirmælum Guðs? (Sálmur 119:141) Hann var greinilega að tala um það hvernig óvinir hans litu á hann. Ef við erum staðráðin í að hvika hvergi frá því sem rétt er getur verið að aðrir líti niður á okkur. En það sem skiptir raunverulega máli er að Jehóva lítur á okkur með velþóknun vegna þess að við lifum í samræmi við réttlátar reglur hans.

Örugg og í friði

18, 19. Hvað hefur það í för með sér að halda reglur Guðs?

18 Við eigum náið samband við Guð vegna þess að við höldum reglur hans. (Sálmur 119:145-152) Þar sem við tökum mark á reglum Jehóva erum við óhrædd við að ákalla hann af öllu hjarta og megum búast við því að hann heyri bænir okkar. Við vöknum kannski „fyrir dögun“ og biðjum um hjálp. Morgunstundirnar eru góður tími til að biðja. (Sálmur 119:145-147) Guð er einnig nálægur okkur vegna þess að við forðumst siðleysi og lítum á orð hans sem sannleika, eins og Jesús gerði. (Sálmur 119:150, 151; Jóhannes 17:17) Sambandið við Jehóva styrkir okkur í þessum hrjáða heimi og verður til þess að við lifum af hið mikla Harmagedónstríð. — Opinberunarbókin 7:9, 14; 16:13-16.

19 Þar sem við berum mikla virðingu fyrir orði Guðs búum við við raunverulegt öryggi. (Sálmur 119:153-160) Ólíkt hinum óguðlegu ,höfum við ekki vikið frá reglum Guðs‘. Við elskum fyrirmæli hans og erum því örugg í miskunn hans, ást og umhyggju. (Sálmur 119:157-159) Áminningar Jehóva örva minni okkar svo að við munum hvers hann ætlast til af okkur við ákveðnar aðstæður. Fyrirmæli Guðs eru hins vegar skipanir og við viðurkennum fúslega rétt skapara okkar til að segja okkur fyrir verkum. Við þiggjum fúslega handleiðslu Guðs þar sem við gerum okkur grein fyrir því að „allt orð [Guðs] samanlagt er trúfesti“ og að við getum ekki stýrt skrefum okkar sjálf. — Sálmur 119:160; Jeremía 10:23.

20. Hvers vegna höfum við „gnótt friðar“?

20 Við njótum mikils friðar ef við elskum lög Jehóva. (Sálmur 119:161-168) Ofsóknir ræna okkur ekki hinum óviðjafnanlega ,friði Guðs‘. (Filippíbréfið 4:6, 7) Við kunnum svo vel að meta réttlát ákvæði hans að við lofum hann oft fyrir þau, jafnvel „sjö sinnum á dag“. (Sálmur 119:161-164) „Gnótt friðar hafa þeir er elska lögmál þitt, og þeim er við engri hrösun hætt,“ söng sálmaskáldið. (Sálmur 119:165) Ef við hvert og eitt elskum lög Jehóva og höldum þau látum við hvorki verk annarra né nokkuð annað verða til þess að við hrösum í andlegum skilningi.

21. Hvaða dæmi úr Biblíunni sýna að við þurfum ekki að láta það verða okkur til hrösunar þótt erfiðleikar komi upp í söfnuðinum?

21 Biblían segir frá mörgum sem gættu þess að láta ekkert verða sér til hrösunar til langs tíma litið. Kristni maðurinn Gajus lét ekki vond verk Díótrefesar verða sér til hrösunar, svo dæmi sé tekið, heldur hélt áfram að ,lifa í sannleika‘. (3. Jóhannesarbréf 1-3, 9, 10) Páll áminnti Evodíu og Sýntýke, sem voru kristnar, um að „vera samlyndar vegna Drottins“, en líklega hafði verið ósætti milli þeirra. Þær fengu greinilega hjálp til að greiða úr vandamálinu og þær héldu áfram að þjóna Jehóva trúfastlega. (Filippíbréfið 4:2, 3) Við þurfum því ekki að láta það verða okkur til hrösunar þótt einhvers konar erfiðleikar komi upp í söfnuðinum. Við skulum einbeita okkur að því að halda fyrirmæli Jehóva og munum ávallt að ,allir okkar vegir eru honum augljósir‘. (Sálmur 119:168; Orðskviðirnir 15:3) Þá mun ekkert ræna okkur „gnótt friðar“ til langs tíma litið.

22. (a) Hvaða heiður getum við hlotið ef við hlýðum Guði? (b) Hvernig ættum við að líta á suma sem hafa villst frá kristna söfnuðinum?

22 Ef við hlýðum Jehóva skilyrðislaust fáum við þann heiður að halda áfram að lofa hann. (Sálmur 119:169-176) Ef við lifum í samræmi við lög Guðs búum við ekki aðeins við andlegt öryggi heldur ,streymir lof um hann af vörum okkar‘. (Sálmur 119:169-171, 174) Þetta er mesti heiður sem við getum fengið á þessum síðustu dögum. Sálmaritarinn vildi halda áfram að lifa og lofa Jehóva en á einhvern ónefndan hátt ,villtist hann sem týndur sauður‘. (Sálmur 119:175, 176) Sumir sem hafa villst frá kristna söfnuðinum elska Guð enn og vilja lofa hann. Gerum því allt sem við getum til að hjálpa þeim að öðlast andlegt öryggi á ný og finna fyrir gleðinni sem hlýst af því að lofa Jehóva með þjónum hans. — Hebreabréfið 13:15; 1. Pétursbréf 5:6, 7.

Varanlegt ljós á vegi okkar

23, 24. Hvaða gagn hefur þú haft af Sálmi 119?

23 Sálmur 119 getur gert okkur gott á marga vegu. Hann getur til dæmis styrkt traust okkar á Guði því að hann sýnir fram á að það veitir sanna hamingju að „fram ganga í lögmáli Drottins“. (Sálmur 119:1) Sálmaritarinn minnir okkur á að „allt orð [Guðs] samanlagt er trúfesti“. (Sálmur 119:160) Þetta ætti svo sannarlega að gera okkur þakklátari fyrir allt ritað orð Guðs. Þegar við hugleiðum Sálm 119 ætti að kvikna hjá okkur löngun til að rannsaka Ritningarnar af kappi. Sálmaritarinn bað Guð ítrekað: „Kenn mér lög þín.“ (Sálmur 119:12, 68, 135) Hann bað einnig: „Kenn mér góð hyggindi og þekkingu, því að ég trúi á boð þín.“ (Sálmur 119:66) Við skulum einnig gera þetta að bænarefni okkar.

24 Kennsla frá Jehóva gerir okkur kleift að eignast náið samband við hann. Sálmaritarinn kallar sig margoft þjón Guðs. Hann sagði jafnvel þessi hjartnæmu orð við Jehóva: „Þinn er ég.“ (Sálmur 119:17, 65, 94, 122, 125; Rómverjabréfið 14:8) Það er mikill heiður að þjóna Jehóva og lofa hann sem einn af vottum hans. (Sálmur 119:7) Þjónar þú Guði með gleði sem boðberi Guðsríkis? Ef svo er máttu vera viss um að Jehóva heldur áfram að styðja þig og blessa í þessu starfi, haldir þú ávallt áfram að treysta orði hans og láta það lýsa þér veginn.

Hverju svarar þú?

• Af hverju ættum við að hafa unun af orði Guðs?

• Hvernig styrkir orð Guðs okkur?

• Hvernig hjálpa reglur Jehóva okkur?

• Af hverju búa þjónar Jehóva við frið og öryggi?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 24]

Orð Guðs er uppspretta andlegs ljóss.

[Mynd á blaðsíðu 25]

Ef við elskum reglur Jehóva mun hann aldrei líta á okkur sem „sora“.

[Myndir á blaðsíðu 26]

Ef við lesum daglega í Biblíunni geta gagnlegir ritningarstaðir auðveldlega komið upp í hugann þegar við biðjum.