Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Treystu orði Jehóva

Treystu orði Jehóva

Treystu orði Jehóva

„Þínu orði treysti ég.“ — Sálmur 119:42.

1. Hvaða vísbendingar höfum við um höfund 119. sálmsins og hvers konar persóna var hann?

HÖFUNDUR 119. sálmsins mat orð Jehóva mikils. Hugsanlegt er að Hiskía Júdaprins hafi ort hann. Tilfinningarnar, sem tjáðar eru í þessum innblásna sálmi, eiga vel við Hiskía en hann „hélt sér fast við Drottin“ þegar hann var konungur í Júda. (2. Konungabók 18:3-7) En eitt er víst: Höfundurinn gerði sér grein fyrir andlegri þörf sinni.

2. Hvert er inntak 119. sálmsins og hvernig er hann uppbyggður?

2 Sálmur 119 leggur höfuðáherslu á gildi orðs Guðs. * Sálmaritarinn raðaði hinum 176 versum sálmsins í stafrófsröð eftir hebreska stafrófinu, líklega svo að auðveldara væri að leggja hann á minnið. Í frummálinu er sálminum skipt niður í 22 erindi og í hverju þeirra eru 8 línur sem byrja allar á sama staf. Í sálminum er talað um orð Guðs, lög hans, reglur, vegi, fyrirmæli, skipanir, boð, ákvæði og fyrirheit. Í þessari grein og þeirri næstu ætlum við að fara ítarlega yfir 119. sálminn. Þegar við veltum fyrir okkur æviskeiðum þjóna Jehóva bæði fyrr og nú öðlumst við dýpri skilning á þessum innblásna sálmi og verðum þakklátari fyrir ritað orð Guðs, Biblíuna.

Við verðum hamingjusöm ef við hlýðum orði Guðs

3. Útskýrðu hvað það merkir að vera grandvar og bentu á dæmi um grandvaran mann.

3 Til að njóta sannrar hamingju þurfum við að fara eftir lögum Guðs. (Sálmur 119:1-8) Ef við gerum það lítur Jehóva svo á að við séum ,grandvör‘. (Sálmur 119:1) Að vera grandvar þýðir ekki að maður sé fullkominn en það gefur í skyn að maður leggi sig allan fram um að gera vilja Jehóva Guðs. Nói var grandvar maður, „réttlátur og vandaður á sinni öld“ og hann „gekk með Guði“. Þessi trúfasti ættfaðir lifði flóðið af ásamt fjölskyldu sinni vegna þess að hann fetaði þann veg sem Jehóva markaði honum. (1. Mósebók 6:9; 1. Pétursbréf 3:20) Við þurfum einnig að ,halda skipanir Guðs vandlega‘ og gera vilja hans til þess að lifa af endalok þessa heimskerfis. — Sálmur 119:4.

4. Hvað þurfum við að gera til að vera hamingjusöm og farsæl?

4 Jehóva yfirgefur okkur aldrei ef við ,þökkum honum af einlægu hjarta og gætum laga hans‘. (Sálmur 119:7, 8) Guð yfirgaf ekki ísraelska leiðtogann Jósúa sem fór eftir þeim ráðleggingum að ,hugleiða lögmálsbókina um daga og nætur til þess að gæta þess að gjöra allt sem í henni var skrifað‘. Fyrir vikið varð hann farsæll og breytti viturlega. (Jósúabók 1:8) Jósúa hélt áfram að lofa Jehóva allt til dauðadags og gat sagt Ísraelsmönnum skömmu áður en hann dó: „Þér skuluð vita af öllu hjarta yðar og af allri sálu yðar, að ekkert hefir brugðist af öllum þeim fyrirheitum, er Drottinn Guð yðar hefir gefið yður.“ (Jósúabók 23:14) Við getum verið hamingjusöm og farsæl með því að lofa Jehóva og treysta orði hans eins og Jósúa og ritari 119. sálmsins gerðu.

Orð Jehóva heldur okkur hreinum

5. (a) Útskýrðu hvernig hægt er að halda sér andlega hreinum. (b) Hvaða hjálp getur unglingur, sem syndgar alvarlega, fengið?

5 Við getum verið andlega hrein ef við gefum gaum að orði Guðs. (Sálmur 119:9-16) Það er hægt jafnvel þótt foreldrar okkar hafi ekki gefið okkur gott fordæmi til eftirbreytni. Þó að faðir Hiskía hafi verið skurðgoðadýrkandi ,hélt Hiskía vegi sínum hreinum‘ og þurfti hugsanlega að losa sig við heiðin áhrif. Segjum sem svo að unglingur, sem þjónar Guði, syndgi alvarlega. Með því að iðrast, biðja og fá hjálp frá foreldrum sínum og umhyggjusömum öldungum getur hann verið eins og Hiskía, ‚haldið vegi sínum hreinum og gefið gaum að orði Guðs‘. — Jakobsbréfið 5:13-15.

6. Hvaða konur ‚héldu vegi sínum hreinum og gáfu gaum að orði Guðs‘?

6 Rahab og Rut ,héldu vegi sínum hreinum‘ en þær voru uppi löngu áður en Sálmur 119 var saminn. Rahab var kanversk vændiskona en varð seinna þekkt fyrir trú sína sem tilbiðjandi Jehóva. (Hebreabréfið 11:30, 31) Rut hin móabíska yfirgaf guði sína, þjónaði Jehóva og fór eftir lögmálinu sem hann gaf Ísraelsmönnum. (Rutarbók 1:14-17; 4:9-13) Báðar þessar konur ,gáfu gaum að orði Guðs‘ og fengu þann mikla heiður að verða formæður Jesú Krists þótt þær væru ekki ísraelskar. — Matteus 1:1, 4-6.

7. Hvernig gáfu Daníel og þrír aðrir hebreskir unglingar gott fordæmi um að halda sér andlega hreinum?

7 „Hugrenningar mannshjartans eru illar frá bernsku hans,“ en ungt fólk getur haldið sig á hreinni braut, jafnvel í þessum spillta heimi sem Satan stjórnar. (1. Mósebók 8:21; 1. Jóhannesarbréf 5:19) Daníel og þrír aðrir hebreskir unglingar, sem voru í útlegð í Babýlon, ,gáfu gaum að orði Guðs‘. Þeir vildu til dæmis ekki saurga sig á „matnum frá konungsborði“. (Daníel 1:6-10) Babýloníumenn borðuðu dýr sem voru óhrein samkvæmt Móselögunum. (3. Mósebók 11:1-31; 20:24-26) Þeir lögðu ekki í vana sinn að blóðga dýrin og með því að borða óblóðgað kjöt brutu þeir lög Guðs um blóð. (1. Mósebók 9:3, 4) Það er því engin furða að Hebrearnir fjórir hafi ekki viljað borða mat frá konungsborði. Þessir guðræknu unglingar héldu sér andlega hreinum og settu þannig gott fordæmi.

Orð Guðs hjálpar okkur að vera trúföst

8. Hvaða viðhorf og þekkingu þurfum við að hafa svo að við getum skilið og farið eftir lögum Guðs?

8 Til að sýna Jehóva trúfesti er mikilvægt að láta sér innilega annt um orð hans. (Sálmur 119:17-24) Ef við erum eins og innblásna sálmaskáldið þráum við að öðlast skilning á ,dásemdunum í lögmáli Guðs‘. Við munum stöðugt ‚þrá ákvæði hans og hafa unun af reglum hans‘. (Sálmur 119:18, 20, 24) Sækjumst við eftir „hinni andlegu, ósviknu mjólk“ þó svo að við höfum kannski ekki verið vígð Jehóva lengi? (1. Pétursbréf 2:1, 2) Við þurfum að skilja grundvallarkenningar Biblíunnar til að geta öðlast skilning á lögum Guðs og farið eftir þeim.

9. Hvað ættum við að gera þegar kröfur manna stangast á við lög Guðs?

9 Við höfum kannski unun af reglum Guðs en hvað gerum við ef „þjóðhöfðingjar“ berjast gegn okkur, einhverra hluta vegna? (Sálmur 119:23, 24) Valdamenn reyna oft að neyða okkur til að taka lög manna fram yfir lög Guðs. Hvað gerum við þegar kröfur manna stangast á við vilja Guðs? Ef okkur er annt um orð Guðs eigum við auðveldara með að vera honum trúföst. Við tökum undir orð postula Jesú Krists sem sögðu þegar þeir voru ofsóttir: „Framar ber að hlýða Guði en mönnum.“ — Postulasagan 5:29.

10, 11. Útskýrðu hvernig við getum verið Jehóva ráðvönd jafnvel við erfiðustu aðstæður.

10 Við getum verið Jehóva trúföst jafnvel við mjög erfiðar aðstæður. (Sálmur 119:25-32) Ef við ætlum okkur að vera Guði ráðvönd þurfum við að biðja hann einlæglega að leiðbeina okkur og vera tilbúin til að taka við kennslu hans. Við verðum líka að velja „veg sannleikans“. — Sálmur 119:26, 30.

11 Hiskía, sem kann að hafa ort Sálm 119, valdi „veg sannleikans“. Það gerði hann jafnvel þótt hann væri umkringdur falstilbiðjendum og ýmsir við hirðina hafi hugsanlega haft hann að háði og spotti. Mjög líklega hefur ,sál hans tárast af trega‘ vegna þessara aðstæðna. (Sálmur 119:28) En Hiskía treysti á Guð, var góður konungur og „gjörði það, sem rétt var í augum Drottins“. (2. Konungabók 18:1-5) Með því að treysta á Guð getum við einnig staðist prófraunir og verið ráðvönd. — Jakobsbréfið 1:5-8.

Orð Jehóva veitir okkur hugrekki

12. Hvernig getum við heimfært Sálm 119:36, 37 upp á líf okkar?

12 Með því að fylgja leiðsögninni í orði Guðs fáum við hugrekki til að standast prófraunir lífsins. (Sálmur 119:33-40) Við leitum auðmjúklega leiðbeininga Jehóva svo að við getum haldið lög hans „af öllu hjarta“. (Sálmur 119:33, 34) Líkt og sálmaritarinn biðjum við til Guðs: „Beyg hjarta mitt að reglum þínum, en eigi að ranglátum ávinningi.“ (Sálmur 119:36) Við „viljum í öllum greinum breyta vel“ eins og Páll postuli gerði. (Hebreabréfið 13:18) Ef vinnuveitandi biður okkur að gera eitthvað óheiðarlegt söfnum við kjarki til að fylgja leiðbeiningum Guðs og vitum að hann blessar alltaf slíka ráðvendni. Hann hjálpar okkur einnig að halda öllum slæmum tilhneigingum í skefjum. Við ættum því að biðja: „Snú augum mínum frá því að horfa á hégóma.“ (Sálmur 119:37) Við viljum aldrei líta velþóknunaraugum á nokkuð sem Guð hatar. (Sálmur 97:10) Þessi bæn fær okkur meðal annars til að forðast klám og spíritisma. — 1. Korintubréf 6:9, 10; Opinberunarbókin 21:8.

13. Hvernig fengu lærisveinar Jesú hugrekki til að vitna af djörfung?

13 Nákvæm þekking á orði Guðs veitir okkur sjálfstraust til að vitna djarfmannlega. (Sálmur 119:41-48) Við þurfum vissulega hugrekki til að svara ,þeim er smána okkur‘. (Sálmur 119:42) Okkur gæti stundum liðið eins og lærisveinum Jesú sem báðu þegar þeir voru ofsóttir: „Drottinn . . . veit þjónum þínum fulla djörfung að tala orð þitt.“ Hver varð árangurinn? „Þeir fylltust allir heilögum anda og töluðu orð Guðs af djörfung.“ Alvaldur Drottinn gefur okkur einnig kjark til að tala orð sitt af djörfung. — Postulasagan 4:24-31.

14. Hvað hjálpar okkur að vitna djarflega eins og Páll gerði?

14 Við höfum kjark til að vitna og getum borið höfuðið hátt ef við metum „sannleikans orð“ mikils og ,varðveitum stöðugt lögmál Guðs‘. (Sálmur 119:43, 44) Ef við erum iðin við að rannsaka ritað orð Guðs getum við ,talað um reglur hans frammi fyrir konungum‘. (Sálmur 119:46) Bænin og andi Jehóva hjálpa okkur einnig að mæla rétt orð á réttan hátt. (Matteus 10:16-20; Kólossubréfið 4:6) Páll talaði djarflega um lög Guðs við stjórnendur á fyrstu öldinni. Hann vitnaði til dæmis fyrir rómverska landstjóranum Felix sem „hlýddi á mál hans um trúna á Krist Jesú“. (Postulasagan 24:24, 25) Páll vitnaði einnig fyrir Festusi landstjóra og Agrippu konungi. (Postulasagan 25:22–26:32) Með stuðningi Jehóva getum við líka verið hugrakkir vottar sem skammast sín aldrei fyrir fagnaðarerindið. — Rómverjabréfið 1:16.

Orð Guðs hughreystir okkur

15. Hvernig getur orð Guðs hughreyst okkur þegar aðrir spotta okkur?

15 Í orði Jehóva er að finna óbrigðula hughreystingu. (Sálmur 119:49-56) Það koma stundir þegar við þurfum sérstaklega á hughreystingu að halda. Við tölum af hugrekki sem vottar Guðs en „ofstopamenn“, sem sýna Guði hroka, ‚spotta okkur stundum ákaflega‘. (Sálmur 119:51) En þegar við biðjum munum við hugsanlega eftir jákvæðum orðum úr Biblíunni og ,látum huggast‘. (Sálmur 119:52) Þegar við förum með bæn minnumst við kannski biblíulegra laga eða meginreglna sem veita okkur hughreystingu og hugrekki sem við þurfum til að takast á við erfiðar aðstæður.

16. Hvað hafa þjónar Guðs ekki gert þrátt fyrir ofsóknir?

16 Ofstopamennirnir, sem smánuðu sálmaritarann, voru Ísraelsmenn — menn sem tilheyrðu vígðri þjóð Guðs. Hvílík skömm! Við skulum hins vegar vera staðráðin í að víkja aldrei frá lögum Guðs. (Sálmur 119:51) Þúsundir þjóna Guðs hafa neitað að víkja frá lögum og meginreglum Biblíunnar þrátt fyrir ofsóknir nasista og illa meðferð af öðru tagi í gegnum tíðina. (Jóhannes 15:18-21) Og það er engin byrði að hlýða Jehóva því að lög hans eru eins og sefandi ljóð fyrir okkur. — Sálmur 119:54; 1. Jóhannesarbréf 5:3.

Verum þakklát fyrir orð Jehóva

17. Hvað gerum við ef við kunnum virkilega að meta orð Guðs?

17 Við sýnum þakklæti okkar fyrir orð Guðs með því að fara eftir því. (Sálmur 119:57-64) Sálmaritarinn ,hafði ákveðið að varðveita orð Jehóva‘ og jafnvel um miðnætti ‚reis hann upp til þess að þakka honum fyrir hans réttlátu ákvæði‘. Ef við erum andvaka höfum við gott tækifæri til að færa Guði þakkir í bæn. (Sálmur 119:57, 62) Svo mikils metum við orð Guðs að við sækjumst eftir kennslu hans og erum fyrir vikið hamingjusamir ,félagar þeirra er óttast Jehóva‘, það er að segja þeirra sem bera óttablandna virðingu fyrir honum. (Sálmur 119:63, 64) Hvergi á jörð gætum við fundið betri félagsskap.

18. Hvernig svarar Jehóva bænum okkur þegar ,snörur óguðlegra lykja um okkur‘?

18 Þegar við biðjum Jehóva auðmjúklega og af öllu hjarta að kenna okkur erum við að ,leita hylli hans‘. Við þurfum sérstaklega á bæninni að halda þegar ,snörur óguðlegra lykja um okkur‘. (Sálmur 119:58, 61) Jehóva getur slitið snörur andstæðinga sem hamla okkur og frelsað okkur til að við getum haldið áfram að boða fagnaðarerindið og gera menn að lærisveinum. (Matteus 24:14; 28:19, 20) Þetta hefur sýnt sig ítrekað í löndum þar sem starfið er bannað.

Treystu á orð Guðs

19, 20. Hvernig getur það verið til góðs að þola erfiðleika?

19 Traust á Guði og orði hans hjálpar okkur að þola erfiðleika og gera vilja hans. (Sálmur 119:65-72) Þó að ,ofstopamenn hafi spunnið upp lygar‘ gegn sálmaritaranum söng hann: „Það varð mér til góðs, að ég var beygður.“ (Sálmur 119:66, 69, 71) Hvernig getur það verið gott fyrir nokkurn þjón Jehóva að lenda í erfiðleikum?

20 Þegar við verðum fyrir erfiðleikum biðjum við einlæglega til Jehóva og það styrkir sambandið við hann. Þá notum við hugsanlega meiri tíma til að rannsaka ritað orð Guðs og leggjum okkur enn betur fram um að fara eftir því. Þetta gerir lífið hamingjuríkara. En hvað ef viðbrögð okkar við erfiðleikum svipta hulunni af óæskilegum eiginleikum eins og óþolinmæði og stolti? Við getum með einlægri bæn og hjálp frá orði og anda Guðs sigrast á slíkum göllum og ‚íklæðst hinum nýja‘ manni enn betur. (Kólossubréfið 3:9-14) Auk þess styrkist trúin þegar við glímum við erfiðleika. (1. Pétursbréf 1:6, 7) Páll naut góðs af þrengingum sínum þar sem hann lærði að reiða sig meira á Jehóva. (2. Korintubréf 1:8-10) Látum við erfiðleika hafa góð áhrif á okkur?

Treystu ávallt á Jehóva

21. Hvað gerist þegar Guð lætur ofstopamenn verða sér til skammar?

21 Orð Guðs gefur okkur góða ástæðu til að treysta á hann. (Sálmur 119:73-80) Ef við treystum virkilega skapara okkar höfum við enga ástæðu til að skammast okkar. En vegna þess sem aðrir gera þurfum við á hughreystingu að halda og okkur gæti langað til að biðja: „Lát ofstopamennina verða til skammar.“ (Sálmur 119:76-78) Þegar Jehóva lætur slíka menn verða sér til skammar kemur illska þeirra í ljós og nafn hans verður helgað. Við megum vera viss um að þeim sem ofsækja þjóna Guðs verður ekkert ágengt. Þeim hefur til dæmis aldrei tekist — og mun aldrei takast — að útrýma vottum Jehóva sem treysta honum af öllu hjarta. — Orðskviðirnir 3:5, 6.

22. Í hvaða skilningi var sálmaritarinn eins og „belgur í reykhúsi“?

22 Orð Guðs styrkir traust okkar á honum þegar við erum ofsótt. (Sálmur 119:81-88) Sálmaritaranum leið eins og ‚belg í reykhúsi‘ vegna þess að ofstopamenn ofsóttu hann. (Sálmur 119:83, 86) Á biblíutímanum voru belgir úr dýraskinni notaðir til að geyma vatn, vín og aðra vökva. Þegar ekki var verið að nota þá gátu þeir skroppið saman ef þeir héngu nálægt eldi í húsi með engan reykháf. Hefur þér einhvern tíma liðið eins og ,belg í reykhúsi‘ vegna erfiðleika eða ofsókna? Þá skaltu treysta á Jehóva og biðja: „Lát mig lífi halda sakir miskunnar þinnar, að ég megi varðveita reglurnar af munni þínum.“ — Sálmur 119:88.

23. Hvað höfum við lært af því að fara yfir Sálm 119:1-88 og að hverju gætum við spurt okkur þegar við förum yfir vers 89-176?

23 Við sjáum af því sem við höfum farið yfir í fyrri hluta 119. sálmsins að Jehóva sýnir þjónum sínum ástúðlega umhyggju vegna þess að þeir treysta orði hans og þeim er annt um lög hans, reglur og fyrirmæli. (Sálmur 119:16, 47, 64, 70, 77, 88) Hann gleðst yfir því að þeir sem hafa helgað sig honum gefa gaum að orði hans. (Sálmur 119:9, 17, 41, 42) Þegar þú ferð yfir hinn helminginn af þessum fallega sálmi gætirðu velt fyrir þér spurningunni: „Læt ég orð Guðs lýsa mér veginn?“

[Neðanmáls]

^ gr. 2 Hér er verið að tala um boðskap Jehóva en ekki alla Biblíuna sem kölluð er orð Guðs.

Hverju svarar þú?

• Hvað veitir sanna hamingju?

• Hvernig heldur orð Jehóva okkur andlega hreinum?

• Hvernig veitir orð Guðs hugrekki og hughreystingu?

• Hvers vegna ættum við að treysta á Jehóva og orð hans?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 19]

Rut, Rahab og hebresku unglingarnir í útlegðinni í Babýlon ,gáfu gaum að orði Guðs‘.

[Mynd á blaðsíðu 20]

Páll ,talaði djarflega um reglur Guðs frammi fyrir konungum‘.