Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Vinna — blessun eða bölvun?

Vinna — blessun eða bölvun?

Vinna — blessun eða bölvun?

„Það er ekkert betra til með mönnum en að . . . njóta fagnaðar af striti sínu.“ — Prédikarinn 2:24.

„UPPGEFINN í lok vinnudags.“ Samkvæmt nýlegri könnun líður 1 af hverjum 3 starfsmönnum mjög oft þannig. Þetta kemur ekki á óvart í umhverfi þar sem fólk þjáist af streitu. Það vinnur lengur og tekur meiri vinnu með sér heim. Og í þokkabót hrósa yfirmennirnir því sjaldan.

Fjöldaframleiðsla hefur haft það í för með sér að mörgum finnst þeir ekki vera annað en tannhjól í gríðarstórri og ópersónulegri vél. Þetta bælir oft niður sköpunargleði sem hefur óneitanlega áhrif á viðhorf fólks til vinnu. Áhugi fólks á vinnunni dvínar auðveldlega. Löngunin til að fullkomna verkkunnáttu sína getur dofnað. Slíkt getur valdið óánægju með starfið sjálft og jafnvel orðið til þess að einstaklingurinn fái óbeit á því.

Hvernig lítur þú á vinnu?

Auðvitað getum við ekki alltaf breytt aðstæðum okkar. En ertu ekki sammála því að við getum breytt viðhorfum okkar? Ef þér finnst neikvæð viðhorf gagnvart vinnu hafa haft einhver áhrif á þig er gagnlegt að íhuga afstöðu og meginreglur Guðs varðandi þetta mál. (Prédikarinn 5:18) Margir hafa komist að raun um að það hefur hjálpað þeim að hafa vissa ánægju af vinnunni.

Guð er starfssamur í æðsta skilningi. Guð er starfssamur. Við höfum kannski ekki hugsað um hann á þann hátt en þannig kynnir hann sig til sögunnar í Biblíunni. Frásögnin í 1. Mósebók byrjar á því að Jehóva skapar himin og jörð. (1. Mósebók 1:1) Hugsaðu um þau fjölmörgu hlutverk sem Guð tók sér við sköpunina. Hann var hönnuður, skipuleggjandi, verkfræðingur, listamaður, efnisfræðingur, verkefnisstjóri, efnafræðingur, líffræðingur, dýrafræðingur, forritari og málvísindamaður, svo fátt eitt sé nefnt. — Orðskviðirnir 8:12, 22-31.

Af hvaða gæðaflokki voru verk Guðs? Frásaga Biblíunnar segir að þau hafi verið ,góð‘, ,harla góð‘. (1. Mósebók 1:4, 31) Já, sköpunarverkið ,segir frá Guðs dýrð‘ og við ættum sömuleiðis að lofa hann. — Sálmur 19:2; 148:1.

En Jehóva Guð hætti ekki að vinna þegar hann lauk við að skapa efnishimininn og jörðina og fyrstu hjónin. Jesús Kristur, sonur hans, sagði: „Faðir minn starfar til þessarar stundar.“ (Jóhannes 5:17) Já, Jehóva heldur áfram að sjá fyrir sköpunarverum sínum, halda sköpunarverkinu gangandi og frelsa trúfasta tilbiðjendur sína. (Nehemíabók 9:6; Sálmur 36:7; 145:15, 16) Hann notar jafnvel fólk, „samverkamenn“ sína, til að hjálpa til við að vinna ákveðin verk. — 1. Korintubréf 3:9.

Vinna getur verið blessun. Segir Biblían ekki að vinna sé bölvun? Af 1. Mósebók 3:17-19 mætti kannski ætla að Guð hafi refsað Adam og Evu fyrir uppreisnina með því að leggja á þau það böl að vinna. Þegar Guð dæmdi þessi fyrstu hjón sagði hann við Adam: „Í sveita andlitis þíns skalt þú neyta brauðs þíns, þangað til þú hverfur aftur til jarðarinnar.“ Var Guð að fordæma vinnu með öllu?

Nei. Þar sem Adam og Eva voru ótrú myndi paradísargarðurinn ekki verða stækkaður á þeim tíma. Guð lagði bölvun á jörðina þannig að menn þurftu að strita við að yrkja hana til að geta dregið fram lífið. — Rómverjabréfið 8:20, 21.

Í stað þess að lýsa vinnu sem bölvun bendir Biblían á að hún sé blessun sem ætti að meta mikils. Eins og fram kom hér á undan er Guð starfssamur. Hann skapaði mennina í sinni mynd og gaf þeim hæfileika og vald til að hafa umsjón með jarðnesku sköpunarverki sínu. (1. Mósebók 1:26, 28; 2:15) Mönnum var fengið þetta verkefni áður en Guð sagði orðin sem skráð eru í 1. Mósebók 3:19. Ef vinna væri bölvun hefði Jehóva aldrei hvatt fólk til að vinna. Nói og fjölskylda hans höfðu mikið að gera bæði fyrir og eftir flóðið. Lærisveinar Jesú Krists voru líka hvattir til að vinna. — 1. Þessaloníkubréf 4:11.

En við vitum öll að vinna getur verið íþyngjandi nú á dögum. Streita, áhætta, leiði, vonbrigði, samkeppni, blekkingar og óréttlæti eru aðeins sumir af þeim ,þyrnum og þistlum‘ sem tengjast vinnu núna. En vinna sem slík er ekki bölvun. Í Prédikaranum 3:13 er vinna og árangurinn af henni kallað gjöf frá Guði. — Sjá rammagreinina „Að takast á við vinnustreitu“.

Þú getur lofað Guð með vinnu þinni. Góð og vönduð vinnubrögð hafa ávallt verið í hávegum höfð. Biblían leggur mikla áherslu á gæði. Guð gerir allt afburðavel. Hann hefur gefið okkur gáfur og hæfileika og vill að við notum færni okkar sem best. Þegar tjaldbúðin var gerð í Forn-Ísrael gaf Jehóva mönnum eins og Besalel og Oholíab visku, skilning og þekkingu sem gerði þeim kleift að vinna ákveðin listræn og hagnýt verk. (2. Mósebók 31:1-11) Þetta sýnir að Guð hafði sérstakan áhuga á hönnun, fagmennsku, vönduðum frágangi og öðrum þáttum í starfi þeirra.

Þetta gefur okkur góða vísbendingu um það hvernig við ættum að líta á hæfileika okkar og vinnuvenjur — sem gjöf frá Guði en ekki sem sjálfsagðan hlut. Kristnir menn eru því hvattir til að vinna eins og Guð sjálfur væri að fylgjast með frammistöðu þeirra: „Hvað sem þér gjörið, þá vinnið af heilum huga, eins og Drottinn ætti í hlut, en ekki menn.“ (Kólossubréfið 3:23) Þjónum Guðs er sagt að vinna vel og gera þannig boðskap kristninnar meira aðlaðandi fyrir vinnufélaga og aðra. — Sjá rammagreinina „Að fara eftir meginreglum Biblíunnar á vinnustað“.

Með hliðsjón af þessu er viturlegt að spyrja sig hversu vandvirkur og iðinn maður sé í vinnu. Yrði Guð ánægður með frammistöðu okkar? Erum við fullkomlega sátt við það hvernig við vinnum verkefni okkar? Ef svo er ekki getum við bætt okkur. — Orðskviðirnir 10:4; 22:29.

Hafðu jafnvægi á milli vinnu og trúar. Þó að iðni sé hrósverð er annað sem er mikilvægt til að finna til ánægju í starfi sínu og lífinu almennt. Það er trúrækni. Salómon konungur vann hörðum höndum og naut auðlegðar og allra þeirra þæginda sem lífið hafði upp á að bjóða. Hann komst að eftirfarandi niðurstöðu: „Óttastu Guð og haltu hans boðorð, því að það á hver maður að gjöra.“ — Prédikarinn 12:13.

Við verðum augljóslega að taka mið af vilja Guðs í öllu sem við gerum. Vinnum við í samræmi við vilja hans eða vinnum við kannski gegn honum? Leggjum við okkur fram um að þóknast Guði eða reynum við aðeins að þóknast sjálfum okkur? Ef við gerum ekki vilja Guðs munum við að lokum uppskera örvæntingu, einmanaleika og tómleika.

Steven Berglas mælir með að kulnaðir yfirmenn ,finni sér einhvern málstað sem þeir hafi brennandi áhuga á og geri hann að föstum þætti í lífinu‘. Enginn annar málstaður er göfugri en sá að þjóna þeim sem gaf okkur hæfileikana og getuna til að vinna innihaldsrík störf. Þegar við vinnum verk sem gleðja skapara okkar verðum við ekki fyrir vonbrigðum. Jesú fannst að verkið, sem Jehóva fékk honum að vinna, væri eins og næringarríkur, saðsamur og endurnærandi matur. (Jóhannes 4:34; 5:36) Og mundu að Guð, sem er starfssamur í æðsta skilningi, býður okkur að verða „samverkamenn“ sínir. — 1. Korintubréf 3:9.

Við búum okkur undir að axla ábyrgð og vinna gefandi störf með því að tilbiðja Guð og rækta trú okkar. Þar sem vinnustaðurinn einkennist oft af álagi, ósætti og kröfum getur sterk trú og andlegt hugarfar gefið okkur þann styrk sem við þurfum til að verða betri starfsmenn eða vinnuveitendur. Hins vegar getur veruleiki lífsins í þessum óguðlega heimi vakið okkur til vitundar um það á hvaða sviðum við þurfum að styrkja trúna. — 1. Korintubréf 16:13, 14.

Þegar vinna verður blessun

Þeir sem þjóna Guði af kappi núna horfa fram til þess tíma þegar hann endurreisir paradís og öll vinna verður innihaldsrík og gefandi. Jesaja, spámaður Jehóva, spáði um lífið eins og það verður þá: „Þeir munu reisa hús og búa í þeim, og þeir munu planta víngarða og eta ávöxtu þeirra. Eigi munu þeir reisa og aðrir í búa, eigi munu þeir planta og aðrir eta . . . mínir útvöldu skulu sjálfir njóta handaverka sinna.“ — Jesaja 65:21-23.

Þá verður vinna mikil blessun. Ef þú kynnir þér vilja Jehóva með okkur og vinnur í samræmi við hann blessar hann þig og þú munt alltaf ,njóta fagnaðar af öllu striti þínu‘. — Prédikarinn 3:13.

[Innskot á blaðsíðu 8]

Guð er starfssamur í æðsta skilningi: 1. Mósebók 1:1, 4, 31; Jóhannes 5:17.

[Innskot á blaðsíðu 8]

Vinna getur verið blessun: 1. Mósebók 1:28; 2:15; 1. Þessaloníkubréf 4:11.

[Innskot á blaðsíðu 8]

Þú getur lofað Guð með vinnu þinni: 2. Mósebók 31:1-11; Kólossubréfið 3:23.

[Innskot á blaðsíðu 8]

Hafðu jafnvægi á milli vinnu og trúar: Prédikarinn 12:13; 1. Korintubréf 3:9.

[Rammi/mynd á blaðsíðu 6]

AÐ TAKAST Á VIÐ VINNUSTREITU

Sérfræðingar í heilbrigðismálum hafa flokkað vinnustreitu sem atvinnusjúkdóm. Hún getur valdið magasári og þunglyndi og getur jafnvel leitt til sjálfsvígs. Japanar kalla hana karoshi, „dauða af völdum of mikillar vinnu“.

Það er ýmislegt í vinnunni sem valdið getur streitu, til dæmis breyttur vinnutími eða vinnuaðstæður, erjur við yfirmenn, breytingar á ábyrgð eða eðli vinnunnar, starfslok og uppsögn. Sumir bregðast við streitunni með því að reyna að flýja og skipta um vinnu eða umhverfi. Aðrir reyna að bæla slíka streitu niður en komast þá að raun um að hún kemur fram annars staðar, yfirleitt í fjölskyldunni. Sumt fólk þjáist jafnvel tilfinningalega og veldur það oft þunglyndi og örvæntingu.

Kristnir menn eru vel undir það búnir að kljást við vinnustreitu. Í Biblíunni er að finna fjölda meginreglna sem geta hjálpað okkur á erfiðum tímum og haft jákvæð áhrif á trú okkar og tilfinningalíf. Jesús sagði til dæmis: „Hafið . . . ekki áhyggjur af morgundeginum. Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur. Hverjum degi nægir sín þjáning.“ Hér erum við hvött til að hugsa um vandamál dagsins í dag en ekki vandamál morgundagsins. Þá gerum við ekki of mikið úr vandamálunum sem myndi einungis auka streituna. — Matteus 6:25-34.

Það er mikilvægt að kristnir menn reiði sig á styrk Guðs en ekki sinn eigin. Þegar okkur finnst við vera að niðurlotum komin getur Guð veitt okkur innri frið og gleði og gefið okkur visku til að takast á við hvaða erfiðleika sem er. „Styrkist nú í Drottni og í krafti máttar hans,“ skrifaði Páll postuli. — Efesusbréfið 6:10; Filippíbréfið 4:7.

Aðstæður, sem valda streitu, geta jafnvel haft jákvæðar afleiðingar. Erfiðleikar geta hvatt okkur til að snúa okkur til Jehóva, leita hans og treysta á hann. Þeir geta einnig hvatt okkur til að halda áfram að þroska með okkur kristinn persónuleika og þann hæfileika að vera þrautseig þegar á reynir. Páll sagði: „Vér fögnum líka í þrengingunum, með því að vér vitum, að þrengingin veitir þolgæði, en þolgæðið fullreynd, en fullreyndin von.“ — Rómverjabréfið 5:3, 4.

Þannig getur streita jafnvel örvað andlegan þroska í stað þess að valda aðeins örvæntingu og sorg.

[Rammi/mynd á blaðsíðu 7]

AÐ FARA EFTIR MEGINREGLUM BIBLÍUNNAR Á VINNUSTAÐ

Viðhorf og hegðun kristins manns í vinnunni geta laðað vinnufélaga og aðra að boðskap Biblíunnar. Í bréfi sínu til Títusar hvetur Páll postuli þá sem eru í svipaðri aðstöðu og starfsmenn að vera „undirgefnir [yfirmönnum] sínum og í öllu geðþekkir, ekki svörulir, ekki hnuplsamir, heldur skulu þeir auðsýna hvers konar góða trúmennsku, til þess að þeir prýði kenningu Guðs frelsara vors í öllum greinum“. — Títusarbréfið 2:9, 10.

Taktu til dæmis eftir hvað kaupsýslumaður sagði í bréfi til höfuðstöðva Votta Jehóva: „Ég skrifa til að biðja um leyfi til að ráða votta Jehóva í vinnu. Mig langar til að ráða þá þar sem ég veit að þeir eru heiðarlegir, einlægir og áreiðanlegir og svindla ekki á manni. Vottar Jehóva eru eina fólkið sem ég treysti í raun og veru. Getið þið aðstoðað mig?“

Kyle er kristin kona sem vinnur í móttöku einkaskóla. Sökum misskilnings blótaði samstarfskona henni fyrir framan nokkra nemendur. „Ég varð að gæta þess að varpa ekki smán á nafn Jehóva,“ segir Kyle. Næstu fimm dagana hugsaði Kyle um það hvernig hún gæti farið eftir meginreglum Biblíunnar. Eina af þeim er að finna í Rómverjabréfinu 12:18: „Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á yðar valdi.“ Hún sendi tölvupóst til samstarfskonu sinnar og baðst afsökunar á spennunni sem var á milli þeirra. Kyle bað hana um að tala við sig eftir vinnu til að hreinsa andrúmsloftið. Eftir að þær höfðu gert það mildaðist samstarfskonan og viðurkenndi að Kyle hefði farið viturlega að. „Þetta hlýtur að tengjast trú þinni,“ sagði hún og faðmaði Kyle að sér um leið og þær kvöddust. Niðurstaða Kyle er sú að það sé „alltaf rétt að fara eftir meginreglum Biblíunnar“.

[Mynd á blaðsíðu 4, 5]

Mörgum starfsmönnum líður eins og þeir séu tannhjól í ópersónulegri vél.

[Rétthafi]

Japan Information Center, Consulate General of Japan in NY.

[Mynd rétthafi á blaðsíðu 8]

Ljósmynd af hnetti: NASA.