Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Fagnaðarerindi handa fólki af öllum þjóðum

Fagnaðarerindi handa fólki af öllum þjóðum

Fagnaðarerindi handa fólki af öllum þjóðum

„Þér munuð verða vottar mínir . . . allt til endimarka jarðarinnar.“ — POSTULASAGAN 1:8.

1. Að hverju gefum við gaum þegar við kennum sannleika Biblíunnar og af hverju?

FÆRIR kennarar gefa ekki aðeins gaum að því hvað þeir segja nemendum sínum heldur einnig hvernig þeir koma því á framfæri. Þannig hugsum við líka þegar við kennum sannleika Biblíunnar. Við gefum bæði gaum að boðskapnum sem við prédikum og þeim aðferðum sem við beitum til þess. Boðskapurinn, fagnaðarerindið um ríkið, breytist ekki en við breytum stundum um aðferðir í þeim tilgangi að ná til eins margra og mögulegt er.

2. Hverjum líkjum við eftir þegar við lögum boðunaraðferðir okkar að þörfum fólks?

2 Við erum að líkja eftir þjónum Guðs forðum daga þegar við lögum aðferðir okkar að aðstæðum. Páll postuli er gott dæmi um þetta. Hann sagði: „Ég hef verið Gyðingunum sem Gyðingur . . . Hinum lögmálslausu hef ég verið sem lögmálslaus . . . Hinum óstyrku hef ég verið óstyrkur til þess að ávinna hina óstyrku. Ég hef verið öllum allt, til þess að ég geti að minnsta kosti frelsað nokkra.“ (1. Korintubréf 9:19-23) Páll náði góðum árangri með því að laga aðferðir sínar að aðstæðum. Við getum líka náð góðum árangri ef við tökum tillit til viðmælenda okkar og lögum kynningarorðin að þörfum þeirra.

Til ‚endimarka jarðarinnar‘

3. (a) Hvers vegna er það krefjandi verkefni að boða fagnaðarerindið? (b) Hvernig er Jesaja 45:22 að rætast núna?

3 Boðberar fagnaðarerindisins hafa þurft að taka á honum stóra sínum vegna þess hve víðáttumikið boðunarsvæðið er, það er að segja ‚öll heimsbyggðin‘. (Matteus 24:14) Á nýliðinni öld lögðu margir þjónar Jehóva hart að sér til að útbreiða fagnaðarerindið í nýjum löndum og á nýjum svæðum með þeim árangri að starfssvæðið stækkaði hratt uns það náði um allan heim. Við upphaf 20. aldar var aðeins prédikað í fáeinum löndum en núna starfa vottar Jehóva í 235 löndum. Ríki Guðs er sannarlega boðað til ‚endimarka jarðarinnar‘. — Jesaja 45:22.

4, 5. (a) Hverjir hafa gegnt mikilvægu hlutverki í útbreiðslu fagnaðarerindisins? (b) Hvað segja nokkrar deildarskrifstofur um starf aðfluttra boðbera?

4 Þessi framgangur á sér ýmsar orsakir. Trúboðar frá Biblíuskólanum Gíleað hafa gegnt þar stóru hlutverki ásamt rúmlega 20.000 bræðrum sem stundað hafa nám í Þjónustuþjálfunarskólanum. Hið sama er að segja um alla þá votta sem hafa á eigin kostnað flust til landa þar sem var mikil þörf fyrir boðbera Guðsríkis. Þessir fórnfúsu þjónar Guðs — karlar og konur, ungir sem aldraðir og einhleypir sem giftir — gegna mikilvægu hlutverki í því að boða boðskapinn um ríkið út um allan heim. (Sálmur 110:3; Rómverjabréfið 10:18) Framlag þeirra er mikils virði. Við skulum sjá hvað nokkrar deildarskrifstofur hafa að segja um starf boðbera sem flust hafa milli landa til að þjóna þar sem þörfin er meiri.

5 „Þessir ágætu vottar taka forystu í boðunarstarfinu á einangruðum svæðum, aðstoða við að mynda nýja söfnuði og stuðla að því að bræður og systur á staðnum taki framförum í trúnni.“ (Ekvador) „Söfnuðirnir væru mun verr settir ef þau hundruð útlendinga, sem starfa hér, myndu fara. Það er mikil blessun að hafa þá á meðal okkar.“ (Dóminíska lýðveldið) „Systur eru í meirihluta í mörgum af söfnuðunum, sums staðar allt upp í 70 af hundraði. (Sálmur 68:12) Flestar eru nýjar í sannleikanum en einhleypar brautryðjandasystur, sem hafa komið frá öðrum löndum, veita ómetanlega aðstoð með því að kenna þeim. Erlendu systurnar eru mjög verðmætar fyrir okkur.“ (Land í Austur-Evrópu) Hefurðu nokkurn tíma hugleitt hvort þú getir þjónað í öðru landi? * — Postulasagan 16:9, 10.

„Tíu menn af þjóðum ýmissa tungna“

6. Hvernig ýjar Sakaría 8:23 að þeim vanda að ná til fólks af öllum tungum?

6 Hinn mikli fjöldi tungumála, sem er talaður í heiminum, hefur einnig gert boðberum fagnaðarerindisins erfitt fyrir. Í orði Guðs er spáð: „Á þeim dögum munu tíu menn af þjóðum ýmissa tungna taka í kyrtilskaut eins Gyðings og segja: ‚Vér viljum fara með yður, því að vér höfum heyrt, að Guð sé með yður.‘“ (Sakaría 8:23) Í nútímauppfyllingu þessa spádóms tákna mennirnir tíu múginn mikla sem spáð er um í Opinberunarbókinni 7:9. Og við tökum eftir að þessir „tíu menn“ í spádómi Sakaría koma ekki aðeins af öllum þjóðum heldur af „þjóðum ýmissa tungna“. Höfum við séð þennan þýðingarmikla þátt spádómsins rætast? Já, vissulega.

7. Hvaða tölur sýna að fagnaðarerindið nær til fólks ‚af ýmsum tungum‘?

7 Lítum á nokkrar tölur. Fyrir 50 árum voru rit Votta Jehóva gefin út á 90 tungumálum. Nú er talan komin yfir 400. Hinn „trúi og hyggni þjónn“ hefur jafnvel lagt kapp á að gefa út rit fyrir mjög fámenn málsamfélög. (Matteus 24:45) Til dæmis eru gefin út rit á grænlensku (töluð af 47.000 manns), paláeysku (töluð af 15.000 manns) og yapeysku (töluð af innan við 7.000 manns).

„Víðar dyr“ nýrra tækifæra

8, 9. Hvað hefur opnað okkur „víðar dyr“ á síðustu árum og hvernig hafa þúsundir votta brugðist við þessari þróun?

8 En nú er ekki víst að við þurfum að fara til útlanda lengur til að boða fagnaðarerindið meðal fólks af öllum tungum. Á undanförnum árum hafa milljónir manna sest að í hinum efnameiri löndum, annaðhvort sem innflytjendur eða flóttamenn, þannig að þar hafa myndast mörg erlend samfélög þar sem töluð eru fjölmörg tungumál. Í París eru til dæmis töluð um 100 tungumál. Í Tórontó eru tungumálin 125 og í Lundúnum eru töluð meira en 300 erlend tungumál! Þegar fólk frá öðrum löndum sest að á safnaðarsvæðinu opnast þar „víðar dyr“ nýrra tækifæra til að koma fagnaðarerindinu til margra þjóða. — 1. Korintubréf 16:9.

9 Þúsundir votta hafa brugðist við þessari nýju stöðu með því að læra nýtt tungumál. Fyrir flesta er erfitt að læra nýtt tungumál en boðberunum finnst það meira en næg umbun að mega hjálpa innflytjendum og flóttamönnum að kynnast sannleikanum í orði Guðs. Ekki alls fyrir löngu var aðflutt fólk næstum 40 prósent þeirra sem létu skírast á umdæmismótum eitt sumarið í landi nokkru í Vestur-Evrópu.

10. Hvernig hefurðu notað bæklinginn Good News for People of All Nations? (Sjá rammagreinina „Helstu þættir nýja bæklingsins Good News for People of All Nations“ á bls. 18.)

10 Að vísu eru fæst okkar í aðstöðu til að læra erlent tungumál. Engu að síður getum við átt þátt í að hjálpa innflytjendum með því að notfæra okkur nýlegan bækling sem nefnist Good News for People of All Nations (Fagnaðarerindi fyrir fólk af öllum þjóðum). * Í honum er að finna stuttan biblíulegan boðskap á mörgum tungumálum. (Jóhannes 4:37) Notarðu þennan bækling í boðunarstarfinu?

Þegar fáir taka við fagnaðarerindinu

11. Hvaða vanda er við að glíma á sumum svæðum?

11 Sums staðar er við annan vanda að glíma sem ágerist eftir því sem áhrif Satans aukast á jörðinni. Hér er átt við lítil viðbrögð við fagnaðarerindinu. Þetta kemur svo sem ekki á óvart því að Jesús spáði þessu ástandi. „Vegna þess að lögleysi magnast, mun kærleikur flestra kólna,“ sagði hann og var þá að tala um okkar daga. (Matteus 24:12) Trúin á Guð og virðing fyrir Biblíunni hefur dvínað víða um lönd. (2. Pétursbréf 3:3, 4) Þar af leiðandi er frekar fátt um nýja lærisveina Krists sums staðar í heiminum. En það merkir ekki að það sé til einskis fyrir bræður okkar og systur að prédika dyggilega á þessum svæðum. (Hebreabréfið 6:10) Af hverju? Lítum á eftirfarandi.

12. Hvaða tvíþætta markmiði þjónar boðunarstarfið?

12 Í Matteusarguðspjalli kemur fram að markmiðið með boðunarstarfinu sé í meginatriðum tvíþætt. Annars vegar er markmiðið að ‚gera allar þjóðir að lærisveinum‘ og hins vegar að prédika boðskapinn um ríkið „til vitnisburðar“. (Matteus 24:14; 28:19) Bæði markmiðin eru mikilvæg en hið síðara þó mikilvægara. Af hverju?

13, 14. (a) Hvað átti að vera áberandi þáttur táknsins um nærveru Krists? (b) Hvað ættum við að hafa hugfast, sérstaklega á svæðum þar sem fáir taka við fagnaðarerindinu?

13 Biblíuritarinn Matteus segir frá því að postularnir hafi spurt Jesú: „Hvert mun tákn komu þinnar og endaloka veraldar?“ (Matteus 24:3) Jesús svaraði því til að einn áberandi þáttur táknsins væri prédikun fagnaðarerindisins um allan heim. Var hann þá að tala um það að gera fólk að lærisveinum? Nei, hann sagði: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar.“ (Matteus 24:14) Jesús benti þannig á að prédikunin sem slík yrði mikilvægur þáttur táknsins.

14 Þegar við prédikum fagnaðarerindið um ríkið höfum við í huga að okkur tekst að minnsta kosti að prédika „til vitnisburðar“ þó að okkur takist ekki alltaf að gera fólk að lærisveinum. Óháð því hvernig fólk bregst við boðuninni veit það hvað við erum að gera og þar með eigum við þátt í að uppfylla spádóm Jesú. (Jesaja 52:7; Opinberunarbókin 14:6, 7) Jordy er ungur vottur búsettur í Vestur-Evrópu. Hann segir: „Það gleður mig að vita að Jehóva skuli nota mig til að taka þátt í að uppfylla Matteus 24:14.“ (2. Korintubréf 2:15-17) Þér er áreiðanlega eins innanbrjósts.

Þegar fólk er andsnúið

15. (a) Við hverju varaði Jesús fylgjendur sína? (b) Hvað gerir okkur kleift að prédika þrátt fyrir andstöðu?

15 Það reynir ekki síður á boðbera fagnaðarerindisins þegar fólk er þeim andsnúið. Jesús sagði fylgjendum sínum til viðvörunar: „Allar þjóðir munu hata yður vegna nafns míns.“ (Matteus 24:9) Fylgjendur Jesú nú á tímum hafa orðið fyrir andstöðu og verið hataðir og ofsóttir líkt og frumkristnir menn. (Postulasagan 5:17, 18, 40; 2. Tímóteusarbréf 3:12; Opinberunarbókin 12:12, 17) Sums staðar hafa stjórnvöld bannað starf þeirra. Kristnir menn í þessum löndum halda engu að síður áfram að boða fagnaðarerindið um ríkið af því að þeir vilja hlýða Guði. (Amos 3:8; Postulasagan 5:29; 1. Pétursbréf 2:21) Hvað gerir þeim þetta kleift, rétt eins og öllum öðrum vottum alls staðar í heiminum? Það er Jehóva sem gefur þeim kraft með heilögum anda sínum. — Sakaría 4:6; Efesusbréfið 3:16; 2. Tímóteusarbréf 4:17.

16. Hvernig benti Jesús á tengslin milli boðunarstarfsins og anda Guðs?

16 Jesús benti á hin nánu tengsl milli anda Guðs og boðunarstarfsins þegar hann sagði fylgjendum sínum: „Þér munuð öðlast kraft, er heilagur andi kemur yfir yður, og þér munuð verða vottar mínir . . . allt til endimarka jarðarinnar.“ (Postulasagan 1:8; Opinberunarbókin 22:17) Hér skiptir máli tímaröðin sem kemur fram í þessum ritningarstað. Fyrst fengu lærsveinarnir heilagan anda og síðan réðust þeir í það að vitna um allan heim. Það var aðeins með stuðningi heilags anda Guðs að þeir höfðu kraft og úthald til að prédika „öllum þjóðum til vitnisburðar“. (Matteus 24:13, 14; Jesaja 61:1, 2) Þess vegna talaði Jesús um heilagan anda sem ‚hjálpara‘. (Jóhannes 15:26) Hann sagði að andi Guðs myndi kenna lærisveinunum og leiðbeina þeim. — Jóhannes 14:16, 26; 16:13.

17. Hvernig hjálpar heilagur andi okkur þegar við mætum harðri andstöðu?

17 Hvernig hjálpar andi Guðs okkur þegar hörð andstaða er gegn boðun fagnaðarerindisins? Andi Guðs styrkir okkur og hann vinnur gegn þeim sem ofsækja okkur. Við skulum sýna fram á þetta með því að líta á atburð úr ævi Sáls konungs.

Andi Guðs rís gegn þeim

18. (a) Hvað breyttist til hins verra hjá Sál? (b) Hvernig ofsótti Sál Davíð?

18 Sál fór vel af stað sem fyrsti konungur Ísraels en varð síðar óhlýðinn Jehóva Guði með þeim afleiðingum að andi Guðs hætti að styðja hann. (1. Samúelsbók 10:1, 24; 11:14, 15; 15:17-23) Sál reiddist Davíð heiftarlega en Davíð hafði verið smurður til að verða næsti konungur og andi Guðs var með honum. (1. Samúelsbók 16:1, 13, 14) Davíð virtist auðveld bráð. Hann var einungis með hörpu í hendi en Sál var með spjót. Dag nokkurn, þegar Davíð var að leika á hörpuna, „reiddi Sál spjótið og hugsaði með sér: ‚Ég skal reka það gegnum Davíð og inn í vegginn.‘ En Davíð skaut sér tvívegis undan.“ (1. Samúelsbók 18:10, 11) Eftir að Sál hafði hlustað á Jónatan, son sinn, sem var vinur Davíðs, sór hann: „Svo sannarlega sem Drottinn lifir, þá skal [Davíð] ekki verða drepinn.“ En síðar reyndi Sál aftur að „reka Davíð í gegn með spjótinu upp við vegginn“. Davíð „skaut sér undan Sál, svo að hann rak spjótið inn í vegginn“. Davíð flúði en Sál elti hann. Það var á þessari ögurstund sem andi Guðs reis gegn Sál. Hvernig þá? — 1. Samúelsbók 19:6, 10.

19. Hvernig verndaði andi Guðs Davíð?

19 Davíð flúði til Samúels spámanns en Sál sendi menn sína til að handsama hann. Þegar þeir komu þangað sem Davíð var í felum „kom Guðs andi yfir sendimenn Sáls, svo að þeir komust einnig í spámannlegan guðmóð“. Andi Guðs gagntók þá svo að þeir steingleymdu tilgangi fararinnar. Sál gerði út menn tvívegis eftir þetta en allt fór á sömu leið. Loks fór Sál sjálfur af stað til að handsama Davíð en megnaði ekki að standa gegn anda Guðs því að heilagur andi lamaði hann „allan þennan dag og alla nóttina“ þannig að Davíð gafst nægur tími til að komast undan. — 1. Samúelsbók 19:20-24.

20. Hvaða lærdóm getum við dregið af frásögninni um ofsóknir Sáls á hendur Davíð?

20 Þessi frásaga af Sál og Davíð kennir okkur að þeir sem ofsækja þjóna Guðs megna ekkert þegar andi Guðs stendur á móti þeim. (Sálmur 46:12; 125:2) Þetta er trústyrkjandi til að vita. Jehóva hafði ákveðið að Davíð yrði konungur yfir Ísrael. Enginn gat breytt því. Jehóva hefur ákveðið að ‚fagnaðarerindið um ríkið verði prédikað‘ nú á tímum. Enginn getur komið í veg fyrir það. — Postulasagan 5:40, 42.

21. (a) Hvað gera sumir andstæðingar? (b) Hverju treystum við?

21 Sumir leiðtogar trúmála og stjórnmála beita lygum og ofbeldi til að reyna að bregða fæti fyrir okkur. En Jehóva verndar þjóna sína nú á tímum, rétt eins og hann verndaði Davíð. (Malakí 3:6) Við getum því sagt með trúartrausti eins og Davíð: „Guði treysti ég, ég óttast eigi, hvað geta menn gjört mér?“ (Sálmur 56:12; 121:1-8; Rómverjabréfið 8:31) Með hjálp Jehóva skulum við halda áfram að takast á við þau krefjandi verkefni sem fylgja því að boða fagnaðarerindið um ríkið meðal allra þjóða eins og Guð hefur falið okkur að gera.

[Neðanmáls]

^ gr. 5 Sjá rammagreinina „Djúpstæð ánægjukennd“ hér að neðan.

^ gr. 10 Gefinn út af Vottum Jehóva.

Manstu?

• Af hverju lögum við boðunaraðferðir okkar að aðstæðum?

• Hvaða ‚víðu dyr‘ hafa opnast?

• Hverju áorkum við með boðunarstarfinu, jafnvel þar sem fáir taka við fagnaðarerindinu?

• Af hverju getur enginn andstæðingur stöðvað boðun fagnaðarerindisins um ríkið?

[Spurningar]

[Rammagrein á blaðsíðu 14]

Djúpstæð ánægjukennd

„Þau eru ánægð og njóta þess að þjóna Jehóva saman.“ Þessi orð lýsa vel fjölskyldu sem fluttist frá Spáni til Bólivíu. Sonur hjónanna hafði flust þangað til að styðja einangraðan hóp. Gleði hans hafði slík áhrif á foreldrana að innan skamms var öll fjölskyldan flutt þangað, þeirra á meðal fjórir drengir á aldrinum 14 til 25 ára. Þrír þeirra eru brautryðjendur núna og sá sem fór þangað fyrstur er nýlega búinn að fara í Þjónustuþjálfunarskólann.

„Þetta er krefjandi á margan hátt,“ segir Angelica en hún er þrítug og fluttist frá Kanada til Austur-Evrópu til að þjóna þar. „Ég hef hins vegar mikla ánægju af því að hjálpa fólki í boðunarstarfinu. Ég er líka snortin af þakklæti vottanna á staðnum sem þakka mér oft fyrir að ég skuli hafa komið til að hjálpa þeim.“

„Við þurftum að venjast alls konar nýjum siðum,“ segja tvær systur á þrítugsaldri sem fluttust frá Bandaríkjunum til Dóminíska lýðveldisins. „Við höfum hins vegar haldið ótrauðar áfram og núna sækja sjö af biblíunemendum okkar samkomur.“ Systurnar tvær hafa átt þátt í að skipuleggja boðberahóp í bæ þar sem enginn söfnuður er.

Laura er á þrítugsaldri og hefur þjónað erlendis í meira en fjögur ár. „Ég gæti þess að lifa einföldu lífi,“ segir hún. „Þetta sýnir boðberunum að fábrotið líferni snýst ekki um fátækt heldur um meðvitað val og heilbrigt hugarfar. Að geta hjálpað öðrum, sérstaklega unglingum, hefur veitt mér þvílíka gleði að það meira en bætir upp þrautirnar sem fylgja því að þjóna erlendis. Ég myndi ekki vilja skipta á þjónustu minni hér fyrir nokkuð annað og ég ætla að vera hérna eins lengi og Jehóva leyfir.“

[Rammi/mynd á blaðsíðu 18]

Bæklingurinn Good News for People of All Nations

Í bæklingnum Good News for People of All Nations er að finna einnar blaðsíðu erindi á allt að 92 tungumálum. Lesandinn er ávarpaður í fyrstu persónu þannig að það er eins og þú sért að tala við hann þegar hann les textann.

Á innri kápusíðum er prentað heimskort sem þú getur notað til að mynda ákveðin tengsl við viðmælandann. Þú gætir bent á heimaland þitt og gefið til kynna að þig langi til að vita hvaðan hann sé. Þannig tekst þér kannski að skapa vingjarnlegt og afslappað andrúmsloft.

Í formálanum er stutt lýsing á því hvernig hægt er að bera sig að við að koma boðskapnum á framfæri við fólk sem talar tungumál sem við skiljum ekki. Lestu innganginn vandlega og fylgdu leiðbeiningunum samviskusamlega.

Í efnisyfirlitinu er skrá um öll tungumál, sem er að finna í bæklingnum, ásamt táknum hvers tungumáls. Þessi tákn geta auðveldað þér að finna smárit eða önnur rit á máli viðmælandans.

[Mynd]

Notarðu þennan bækling í boðunarstarfinu?

[Myndir á blaðsíðu 15]

Biblíuskýringarit okkar eru nú fáanleg á meira en 400 tungumálum.

GANA

LAPPLAND (SVÍÞJÓÐ)

FILIPPSEYJAR

[Myndir á blaðsíðu 16, 17]

Geturðu þjónað þar sem meiri þörf er fyrir boðbera Guðsríkis?

EKVADOR

DÓMINÍSKA LÝÐVELDIÐ