Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Flytjið gleðitíðindi

Flytjið gleðitíðindi

Flytjið gleðitíðindi

„Hversu yndislegir eru á fjöllunum fætur fagnaðarboðans, sem . . . gleðitíðindin flytur.“ — JESAJA 52:7.

1, 2. (a) Hvaða skelfilegu atburðir eiga sér stað daglega? (b) Hvernig bregðast margir við stöðugu flóði slæmra frétta?

FÓLKI finnst það vera að drukkna í slæmum fréttum og gildir þá einu hvar í heimi það býr. Það kveikir á útvarpinu og heyrir óhugnanlegar fréttir af banvænum sjúkdómum sem hrjá mannfólkið. Það horfir á sjónvarpsfréttir og sér átakanlegar myndir af vannærðum börnum sem sárþarfnast hjálpar. Það grípur niður í dagblað og les um sprengjuárásir sem eyðileggja heilu byggingarnar og drepa saklaust fólk í tugatali.

2 Já, hræðilegir atburðir eiga sér stað á hverjum degi. Mynd þessa heims er sannarlega að breytast til hins verra. Fréttatímarit í Vestur-Evrópu sagði að stundum virtist sem allur heimurinn væri „að verða ein rjúkandi rúst“. Það er engin furða að sífellt fleiri skuli vera miður sín yfir ástandinu. Sennilega myndu milljónir manna taka undir með manninum sem vitnað var til í skoðanakönnun sem gerð var í Bandaríkjunum varðandi efni sjónvarpsfrétta: ‚Ég verð mjög niðurdreginn við að horfa á fréttirnar. Þær eru allar slæmar. Þær eru yfirþyrmandi.‘

Tíðindi sem allir þurfa að heyra

3. (a) Hvaða gleðitíðindi boðar Biblían? (b) Hvers vegna kanntu að meta fagnaðarerindið um ríkið?

3 Er einhver góð tíðindi að fá í þessum niðurdrepandi heimi? Já, vissulega. Það er hughreystandi til þess að vita að Biblían flytur góðar fréttir, þær að ríki Guðs eigi eftir að binda enda á sjúkdóma, hungursneyðir, glæpi, stríð og hvers kyns kúgun. (Sálmur 46:10; 72:12) Eru þetta ekki fréttir sem allir þurfa að heyra? Vottar Jehóva eru þeirrar skoðunar. Þess vegna eru þeir þekktir út um allt fyrir að boða fólki af öllum þjóðum fagnaðarerindið um ríki Guðs. — Matteus 24:14.

4. Hvaða þætti boðunarstarfsins ætlum við að skoða í þessari grein og þeirri næstu?

4 En hvað getum við gert til að halda áfram að boða fagnaðarerindið af alvöru og heilum huga, jafnvel á svæðum þar sem fólk sýnir lítinn áhuga? (Lúkas 8:15) Það hjálpar okkur eflaust að líta á þrjá mikilvæga þætti boðunarstarfsins. Við getum skoðað (1) tilefni okkar, það er að segja hvers vegna við prédikum, (2) boðskapinn eða hvað við prédikum og (3) aðferðir okkar, það er að segja hvernig við prédikum. Með því að hafa rétt tilefni og gæta þess að boðskapurinn sé alltaf skýr og aðferðir okkar áhrifaríkar getum við veitt alls konar fólki um alla jörðina tækifæri til að heyra bestu fréttir sem hugsast getur — fagnaðarerindið um ríki Guðs. *

Hvers vegna boðum við fagnaðarerindið?

5. (a) Af hvaða hvötum boðum við fagnaðarerindið fyrst og fremst? (b) Af hverju má segja að við séum að sýna Guði kærleika með því að hlýða boði Biblíunnar um að prédika?

5 Við skulum byrja á því að fjalla um tilefni okkar. Hvers vegna boðum við fagnaðarerindið? Við gerum það af sömu ástæðu og Jesús. „Ég elska föðurinn,“ sagði hann. (Jóhannes 14:31; Sálmur 40:9) Það er fyrst og fremst kærleikur til Guðs sem er okkur hvöt til að boða fagnaðarerindið. (Matteus 22:37, 38) Biblían setur boðunarstarfið í samband við kærleikann til Guðs því að hún segir: „Í þessu birtist elskan til Guðs, að vér höldum hans boðorð.“ (1. Jóhannesarbréf 5:3; Jóhannes 14:21) Er það eitt af boðorðum Guðs að ‚gera menn að lærisveinum‘? (Matteus 28:19) Já, það var að vísu Jesús sem sagði þetta en orðin eru frá Jehóva komin. Hvernig þá? Jesús sagði: „Ég gjöri ekkert af sjálfum mér, heldur tala ég það eitt, sem faðirinn hefur kennt mér.“ (Jóhannes 8:28; Matteus 17:5) Þess vegna sýnum við að við elskum Jehóva með því að fylgja fyrirmælum hans um að prédika.

6. Hvernig er kærleikurinn til Guðs okkur hvöt til að prédika?

6 Kærleikurinn til Jehóva er okkur einnig hvöt til að prédika vegna þess að okkur langar til að sporna við þeim lygum sem Satan hefur í frammi. (2. Korintubréf 4:4) Satan hefur véfengt að Guð stjórni með réttlæti. (1. Mósebók 3:1-5) Sem vottar Jehóva þráum við heitt að afhjúpa þennan róg og eiga þátt í að helga nafn hans frammi fyrir mannkyni. (Jesaja 43:10-12) Við tökum einnig þátt í boðunarstarfinu vegna þess að við höfum kynnst eiginleikum og starfsháttum Jehóva. Við finnum til nálægðar við hann og okkur langar mjög til að segja öðrum frá honum. Gæska hans og réttlæti vekur slíka gleði í brjóstum okkar að við getum ekki hætt að tala um hann. (Sálmur 145:7-12) Við finnum fyrir sterkri löngun til að lofa hann og „víðfrægja dáðir hans“ meðal þeirra sem vilja hlusta. — 1. Pétursbréf 2:9; Jesaja 43:21.

7. Hvaða aðra mikilvæga ástæðu höfum við til að taka þátt í boðunarstarfinu?

7 Það er önnur mikilvæg ástæða fyrir því að halda boðunarstarfinu áfram. Okkur langar til að hughreysta þá sem finnst öll ótíðindin í heiminum vera að kaffæra sig og þá sem þjást einhverra orsaka vegna. Þannig leggjum við okkur fram um að líkja eftir Jesú. Við skulum skoða dæmi sem er að finna í 6. kaflanum hjá Markúsi.

8. Hvernig er umhyggju Jesú fyrir fólki lýst í Markúsi 6. kafla?

8 Postularnir eru komnir aftur úr boðunarferð og segja Jesú frá öllu sem hefur drifið á daga þeirra og þeir hafa kennt. Jesús gerir sér grein fyrir að þeir eru þreyttir og segir þeim að koma með sér til að ,hvílast um stund‘. Þeir stíga því á bát og taka stefnuna á kyrrlátan stað. En fólkið hleypur með fram bakkanum og verður á undan þeim. Hvað gerir Jesús þá? „Sá hann þar mikinn mannfjölda,“ segir frásagan, „og hann kenndi í brjósti um þá, því að þeir voru sem sauðir, er engan hirði hafa. Og hann kenndi þeim margt.“ (Markús 6:31-34) Jesús heldur áfram að segja fólki frá fagnaðarerindinu þótt þreyttur sé. Augljóst er að hann finnur til með þessu fólki og ber mikla umhyggju fyrir því.

9. Hvað lærum við af Markúsi 6. kafla um rétta tilefnið til að prédika?

9 Hvað lærum við af þessari frásögu? Kristnum mönnum finnst sér vera skylt að boða fagnaðarerindið og gera menn að lærisveinum. Við viðurkennum ábyrgð okkar að boða fagnaðarerindið vegna þess að Guð „vill að allir menn verði hólpnir“. (1. Tímóteusarbréf 2:4) En við förum ekki aðeins í boðunarstarfið af skyldukvöð heldur einnig vegna þess að við berum umhyggju fyrir fólki. Ef við kennum í brjósti um fólk eins og Jesús gerði knýr hjartað okkur til að gera allt sem við getum til að halda áfram að segja því frá fagnaðarerindinu. (Matteus 22:39) Ef við förum í boðunarstarfið af þessu tilefni langar okkur til að prédika fagnaðarerindið án afláts.

Boðskapur okkar — fagnaðarerindið um ríki Guðs

10, 11. (a) Hvernig lýsir Jesaja boðskapnum sem við boðum? (b) Hvernig flutti Jesús gleðitíðindi og hvernig hafa nútímaþjónar Guðs fylgt fordæmi hans?

10 Við skulum nú líta á annan þátt boðunarstarfsins — boðskap okkar. Hvað prédikum við? Spámaðurinn Jesaja gaf þessa fögru lýsingu á boðskapnum sem við færum fólki: „Hversu yndislegir eru á fjöllunum fætur fagnaðarboðans, sem friðinn kunngjörir, gleðitíðindin flytur, hjálpræðið boðar og segir við Síon: ‚Guð þinn er setstur að völdum!‘“ — Jesaja 52:7.

11 Lykilorðin í þessum ritningarstað, „Guð þinn er setstur að völdum“, minna á boðskapinn sem við eigum að boða, það er að segja fagnaðarerindið um ríki Guðs. (Markús 13:10) Tökum líka eftir að versið bendir á hinn jákvæða tón boðskaparins. Jesaja notar orð eins og hjálpræði, fagnaðarboði, friður og gleðitíðindi. Jesús Kristur uppfyllti þennan spádóm á framúrskarandi hátt öldum eftir daga Jesaja með því að flytja gleðitíðindin um hið komandi ríki Guðs. (Lúkas 4:43) Þjónar Guðs nú á tímum, og þá sérstaklega eftir 1919, hafa fetað í fótspor Jesú með því að boða fagnaðarerindið um stofnsett ríki Guðs af miklu kappi og segja frá þeirri blessun sem það mun hafa í för með sér.

12. Hvaða áhrif hefur fagnaðarerindið um ríkið á þá sem taka við því?

12 Hvaða áhrif hefur fagnaðarerindið um ríkið á þá sem taka við því nú á tímum? Það veitir fólki von og hughreystingu, rétt eins og það gerði á dögum Jesú. (Rómverjabréfið 12:12; 15:4) Það veitir hjartahreinum mönnum von því að þeir uppgötva að það eru gildar ástæður til að trúa á betri tíma fram undan. (Matteus 6:9, 10; 2. Pétursbréf 3:13) Slík von hjálpar guðræknum mönnum að vera bjartsýnir. Sálmaskáldið segir að þeir ‚óttist eigi ill tíðindi‘. — Sálmur 112:1, 7.

Boðskapur sem ‚græðir þá sem hafa sundurmarið hjarta‘

13. Hvernig lýsir Jesaja spámaður þeirri blessun sem fagnaðarerindið veitir fólki þegar í stað?

13 Fagnaðarerindið hughreystir þá sem hlusta á það og er þeim strax til góðs. Hvernig þá? Jesaja spámaður gaf vísbendingu um það þegar hann spáði: „Andi Drottins er yfir mér, af því að Drottinn hefir smurt mig. Hann hefir sent mig til að flytja nauðstöddum gleðilegan boðskap og til að græða þá, sem hafa sundurmarið hjarta, til að boða herteknum frelsi og fjötruðum lausn, til að boða náðarár Drottins og hefndardag Guðs vors, til að hugga alla hrellda.“ — Jesaja 61:1, 2; Lúkas 4:16-21.

14. (a) Hvað segir orðalagið „græða þá, sem hafa sundurmarið hjarta“, um boðskapinn um ríkið? (b) Hvernig endurspeglum við umhyggju Jehóva fyrir þeim sem hafa sundurmarið hjarta?

14 Samkvæmt spádóminum átti Jesús að „græða þá, sem hafa sundurmarið hjarta“, með því að boða fagnaðarerindið. Jesaja notar hér einstaklega myndræna lýsingu. Að sögn biblíuorðabókar er hebreska orðið, sem hér er þýtt „græða“, „oft notað um það að binda um sár, það er að segja að gefa hinum særða lyf og lækna hann“. Natin hjúkrunarkona bindur um særðan líkamshluta með sárabindi og leggur við grisjuþófa til stuðnings. Þegar umhyggjusamir boðberar prédika boðskapinn um ríkið finna þeir oft fólk sem þjáist með einhverjum hætti en er móttækilegt fyrir boðskapnum um ríkið. Þeir leitast við að styðja og styrkja þetta fólk og þannig endurspegla þeir umhyggju Jehóva. (Esekíel 34:15, 16) Sálmaskáldið segir um Guð: „Hann læknar þá, er hafa sundurkramið hjarta, og bindur um benjar þeirra.“ — Sálmur 147:3.

Boðskapurinn um ríkið er verðmætur fyrir fólk

15, 16. Hvaða tvö dæmi sýna hvernig boðskapurinn um ríkið styður og styrkir nauðstadda?

15 Mörg raunsönn dæmi vitna um það hvernig boðskapurinn um ríkið styður og styrkir þá sem eru niðurbeygðir. Oreanna er öldruð kona í Suður-Ameríku. Hún var búin að missa lífslöngunina þegar vottur Jehóva fór að heimsækja hana og lesa fyrir hana upp úr Biblíunni og Biblíusögubókinni minni. * Í fyrstu hlustaði hin niðurdregna kona á lesturinn með lokuð augun liggjandi uppi í rúmi og stundi af og til. En áður en langt um leið var hún farin að setjast upp í rúminu meðan hún hlustaði á lesturinn. Nokkru síðar fór hún að sitja á stól í stofunni og bíða eftir vottinum. Síðan fór hún að sækja samkomur í ríkissalnum. Það sem hún lærði á samkomunum hafði svo hvetjandi áhrif á hana að hún fór að bjóða öllum sem litu við hjá henni biblíurit. Að lokum lét Oreanna skírast sem vottur Jehóva 93 ára að aldri. Boðskapurinn um ríkið hafði gefið henni lífslöngunina aftur. — Orðskviðirnir 15:30; 16:24.

16 Boðskapurinn um ríkið styður og styrkir jafnvel þá sem vita að þeir ganga með banvænan sjúkdóm og eiga skammt eftir ólifað. Maria er dæmi um það en hún bjó í Vestur-Evrópu. Hún var búin að missa alla von og var djúpt sokkin í þunglyndi þegar vottar Jehóva komust í samband við hana. En þegar hún kynntist fyrirætlun Guðs öðlaðist líf hennar tilgang á ný. Hún lét skírast og lagði sig alla fram í boðunarstarfinu. Augu hennar geisluðu af gleði og von síðustu tvö árin sem hún lifði. Hún dó með bjargfasta upprisuvon í hjarta. — Rómverjabréfið 8:38, 39.

17. (a) Hvernig skiptir boðskapurinn um ríkið sköpum fyrir þá sem taka við honum? (b) Hvernig hefur þú kynnst því af eigin raun að Jehóva ‚reisi upp alla niðurbeygða‘?

17 Frásagnir sem þessar vitna um það hvernig boðskapurinn um ríkið getur skipt sköpum fyrir þá sem þrá sannleika Biblíunnar. Þeir sem misst hafa ástvin fá nýjan kraft þegar þeir kynnast upprisuvoninni. (1. Þessaloníkubréf 4:13) Fólk, sem býr við fátækt og á í basli við að brauðfæða fjölskylduna, fær hugrekki og nýja reisn þegar það kemst að raun um að Jehóva yfirgefur aldrei þá sem eru honum trúfastir. (Sálmur 37:28) Margir sem hafa átt við alvarlegt þunglyndi að stríða hafa smám saman fengið nægan styrk frá Jehóva til að takast á við sjúkdóm sinn og í sumum tilfellum hafa þeir jafnvel sigrast á honum. (Sálmur 40:2, 3) Jehóva er á þessari stundu að ‚reisa upp alla niðurbeygða‘ með þeim krafti sem býr í orði hans. (Sálmur 145:14) Þegar við sjáum hvernig fagnaðarerindið um ríkið hughreystir niðurdregna á svæðinu og í söfnuðinum erum við aftur og aftur minnt á að við flytjum fólki bestu fréttir sem til eru! — Sálmur 51:19.

„Ósk mín og bæn til Guðs“

18. Hvaða áhrif hafði það á Pál að Gyðingar skyldu hafna fagnaðarerindinu og hvers vegna?

18 Margir hafna boðskapnum sem við flytjum þó að við færum fólki bestu fréttir sem hugsast getur. Þetta gæti haft sömu áhrif á okkur og það hafði á Pál postula. Hann prédikaði oft fyrir Gyðingum en flestir þeirra höfnuðu hjálpræðisboðskapnum. Páli féll það þungt og hann viðurkenndi að hann hefði „hryggð mikla og sífellda kvöl“ í hjarta sínu. (Rómverjabréfið 9:2) Honum var annt um Gyðingana sem hann prédikaði fyrir og það hryggði hann að þeir skyldu hafna fagnaðarerindinu.

19. (a) Af hverju er skiljanlegt að við verðum stundum dauf í dálkinn? (b) Hvað hjálpaði Páli að halda boðun sinni áfram?

19 Við boðum líka fagnaðarerindið vegna þess að okkur er annt um fólk. Það er því skiljanlegt að okkur finnist það stundum letjandi þegar margir taka ekki við boðskapnum um ríkið. Þessi viðbrögð okkar sýna að okkur er einlæglega annt um andlega velferð þeirra sem við prédikum fyrir. En við ættum að hafa fordæmi Páls postula í huga. Hvað hjálpaði honum að halda áfram að prédika? Hann gafst ekki upp á Gyðingum þó að þeir höfnuðu fagnaðarerindinu og yllu honum miklum harmi og sársauka. Hann hugsaði ekki sem svo að Gyðingum upp til hópa væri ekki viðbjargandi heldur bar þá von í brjósti að einhverjir þeirra myndu samt sem áður taka við Kristi. Þess vegna skrifaði hann um tilfinningar sínar í garð einstakra Gyðinga: „Það er hjartans ósk mín og bæn til Guðs, að þeir megi hólpnir verða.“ — Rómverjabréfið 10:1.

20, 21. (a) Hvernig getum við líkt eftir Páli í boðunarstarfinu? (b) Um hvaða þátt boðunarstarfsins er fjallað í greininni á eftir?

20 Við tökum eftir tvennu sem Páll lagði áherslu á. Það var hjartans ósk hans að einhverjir úr hópi Gyðinga yrðu hólpnir og hann bað til Guðs að svo mætti verða. Við förum að dæmi Páls. Við varðveitum löngunina til að finna þá sem kunna enn þá að vera jákvæðir gagnvart fagnaðarerindinu. Við höldum áfram að biðja Jehóva þess að við getum fundið þetta fólk og hjálpað því að fylgja þeim vegi sem leiðir til hjálpræðis. — Orðskviðirnir 11:30; Esekíel 33:11; Jóhannes 6:44.

21 En til að koma boðskapnum um ríkið til sem flestra er ekki nóg að huga að því hvers vegna við prédikum og hvað heldur einnig hvernig við gerum það. Það er viðfangsefni greinarinnar á eftir.

[Neðanmáls]

^ gr. 4 Í þessari grein skoðum við fyrstu tvo þættina en lítum á hinn þriðja í greininni á eftir.

^ gr. 15 Gefin út af Vottum Jehóva.

Hvað hefurðu lært?

• Af hverju tökum við þátt í boðunarstarfinu?

• Hvert er inntak boðskaparins sem við boðum?

• Hvaða blessun hljóta þeir sem taka við boðskapnum um ríkið?

• Hvað hjálpar okkur að halda boðunarstarfinu áfram?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 10]

Boðskapurinn um ríkið styrkir þá sem eru niðurbeygðir.

[Myndir á blaðsíðu 12]

Bænin hjálpar okkur að halda boðunarstarfinu áfram.