Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Unglingar, lofið Jehóva

Unglingar, lofið Jehóva

Unglingar, lofið Jehóva

„Lofið Drottin af jörðu . . . bæði yngismenn og yngismeyjar.“ — SÁLMUR 148:7, 12.

1, 2. (a) Hvaða hömlur eru börn og unglingar oft mjög meðvituð um? (b) Af hverju þarf þeim ekki að gremjast þær hömlur sem foreldrarnir setja þeim?

BÖRN eru oft mjög meðvituð um það sem þau hafa ekki enn aldur til að gera. Mörg þeirra geta strax sagt þér hversu gömul þau þurfa að vera til að mega fara ein yfir umferðargötu, vaka lengur á kvöldin eða keyra bíl. Stundum finnst börnum og unglingum þau alltof oft fá sama svarið við því sem þau biðja um: „Bíddu þar til þú ert orðinn eldri.“

2 Þið unglingar vitið að foreldrum ykkar finnst skynsamlegt að setja ykkur slíkar hömlur og kannski er það ykkur til verndar. Þið vitið líka að þið gleðjið Jehóva þegar þið hlýðið foreldrum ykkar. (Kólossubréfið 3:20) En finnst þér stundum eins og þú sért að bíða eftir því að lífið byrji? Finnst þér að þú megir ekki gera neitt sem máli skiptir fyrr en þú ert orðinn eldri? Þannig er það alls ekki. Núna er verið að vinna starf sem er mikilvægara en allt annað sem þú hefur beðið eftir. Mega unglingar taka þátt í þessu starfi? Já, svo sannarlega. Hinn hæsti Guð hefur meira að segja boðið ykkur að taka þátt í því.

3. Hvaða einstaka tækifæri veitir Jehóva unglingum og hvaða spurningar ætlum við að skoða?

3 Um hvaða starf erum við að tala? Taktu eftir orðunum í biblíutextanum sem þessi grein er byggð á: „Lofið Drottin af jörðu . . . bæði yngismenn og yngismeyjar, öldungar og ungir sveinar!“ (Sálmur 148:7, 12) Já, þú hefur það einstaka tækifæri að mega lofa Jehóva. Finnst þér spennandi að taka þátt í því? Mörgum unglingum finnst það. Við skulum skoða þrjár spurningar til að athuga hvers vegna þetta starf er spennandi. Í fyrsta lagi, hvers vegna ættirðu að lofa Jehóva? Í öðru lagi, hvernig geturðu lofað hann sem best? Og í þriðja lagi, hvenær er tímabært fyrir þig að byrja að lofa Jehóva?

Hvers vegna ættirðu að lofa Jehóva?

4, 5. (a) Í hvaða einstöku stöðu erum við samkvæmt 148. sálminum? (b) Hvernig getur sköpunarverk, sem hvorki talar né rökhugsar, lofað Jehóva?

4 Ein mikilvægasta ástæðan til að lofa Jehóva er sú að hann er skaparinn. Sálmur 148 beinir athygli okkar að því. Ímyndaðu þér hvernig þér liði ef þú kæmir að stórum hópi fólks sem væri að syngja saman fallegt og hrífandi lag. Hvað myndirðu gera ef þú vissir að boðskapurinn í texta lagsins væri sannur og að þar kæmu fram mikilvægar hugmyndir sem væru mjög gleðilegar? Fyndirðu hjá þér löngun til að taka undir sönginn? Það myndu flest okkar gera. Í 148. sálminum kemur fram að við erum í svipaðri stöðu en hún er bara mun göfugri. Þar er lýst stórum hópi sem lofar Jehóva einum rómi. En þegar þú lest sálminn tekurðu kannski eftir nokkru óvenjulegu. Hverju?

5 Margt af því sem sálmurinn segir að lofi Jehóva getur hvorki talað né rökhugsað. Þar segir til dæmis að sólin, tunglið, stjörnurnar, snjórinn, stormbylurinn, fjöllin og hæðirnar lofi Jehóva. Hvernig geta þessi lífvana sköpunarverk gert það? (Vers 3, 8, 9) Þau geta það á sama hátt og trén, sjóskrímslin og villidýrin. (Vers 7, 9, 10) Hefurðu einhvern tíma séð hrífandi sólarlag eða fullt tungl og tindrandi stjörnur á næturhimni eða hlegið að dýrum að leik eða fyllst lotningu þegar þú sást stórbrotið landslag? Þá hefurðu „heyrt“ lofsöng sköpunarverksins. Allt sem Jehóva hefur gert minnir okkur á að hann er hinn alvaldi skapari og að enginn í öllum alheiminum er jafnmáttugur, vitur og kærleiksríkur og hann. — Rómverjabréfið 1:20; Opinberunarbókin 4:11.

6, 7. (a) Hvaða vitibornar sköpunarverur taka þátt í því að lofa Jehóva samkvæmt Sálmi 148? (b) Hvað gæti fengið okkur til að lofa Jehóva? Lýstu með dæmi.

6 Sálmur 148 talar líka um vitibornar sköpunarverur sem lofa Jehóva. Í öðru versinu er sagt að englarnir, eða himneskir herskarar Jehóva, lofi hann. Í 11. versi er valda- og áhrifamönnum, eins og konungum og dómurum, boðið að taka þátt í lofsöngnum. Getur nokkur maður sagst vera of mikilvægur til að lofa Jehóva fyrst voldugir englar hafa yndi af því? Í 12. og 13. versi er ykkur unga fólkinu síðan boðið að taka þátt í að lofa Jehóva. Finnurðu hjá þér löngun til að gera það?

7 Tökum dæmi. Ef þú ættir náinn vin sem hefði einstaka hæfileika, kannski á sviði íþrótta, lista eða tónlistar, myndirðu þá ekki segja fjölskyldunni og vinum þínum frá honum? Örugglega. Þegar við fáum að vita allt sem Jehóva hefur gert getur það haft svipuð áhrif á okkur. Sálmur 19:2, 3 bendir til dæmis á að himnarnir segi frá Guðs dýrð. Þegar við hugsum um þá stórkostlegu hluti sem Jehóva, Guð okkar, hefur gert getum við varla stillt okkur um að segja öðrum frá honum.

8, 9. Af hverju vill Jehóva að við lofum hann?

8 Önnur mikilvæg ástæða til að lofa Jehóva er sú að hann vill að við gerum það. Af hverju? Er það af því að hann þurfi að fá lof frá mönnum? Nei. Við mennirnir getum stundum þurft að fá lof og hrós frá öðrum en Jehóva er mun háleitari en við. (Jesaja 55:8) Hann efast aldrei um sjálfan sig né hæfni sína. (Jesaja 45:5) Samt sem áður vill hann að við lofum sig og það veitir honum gleði. Af hverju? Skoðum tvær ástæður. Í fyrsta lagi veit hann að við höfum þörf fyrir að lofa hann. Hann skapaði okkur með andlegar þarfir, þörf til að tilbiðja. (Matteus 5:3, NW ) Þegar við fullnægjum þessari þörf gleður það hann á svipaðan hátt og það gleður foreldra þína að sjá þig borða mat sem þeir vita að er hollur fyrir þig. — Jóhannes 4:34.

9 Í öðru lagi veit Jehóva að aðrir þurfa að heyra okkur lofa hann. Páll postuli skrifaði hinum unga Tímóteusi þessi orð: „Haf gát á sjálfum þér og fræðslunni. Ver stöðugur við þetta. Þegar þú gjörir það, muntu bæði gjöra sjálfan þig hólpinn og áheyrendur þína.“ (1. Tímóteusarbréf 4:16) Já, þegar þú fræðir aðra um Jehóva Guð með því að lofa hann geta þeir kynnst honum og lært að þekkja hann. Slík þekking getur veitt þeim eilíft hjálpræði. — Jóhannes 17:3.

10. Hvers vegna finnum við hjá okkur löngun til að lofa Guð okkar?

10 Við höfum líka aðra ástæðu til að lofa Jehóva. Manstu eftir líkingunni um hæfileikaríka vininn þinn. Fyndirðu ekki hjá þér enn sterkari löngun til að hrósa honum ef þú heyrðir aðra bera út lygar um hann og sverta nafn hans? Jehóva er víða rægður í þessum heimi. (Jóhannes 8:44; Opinberunarbókin 12:9) Þeir sem elska hann finna því hjá sér löngun til að segja öðrum sannleikann um hann og hreinsa nafn hans. Vilt þú líka tjá kærleika þinn og þakklæti til Jehóva og sýna að þú viljir hann sem stjórnanda frekar en erkióvin hans, Satan djöfulinn? Það geturðu gert með því að lofa hann. En hvernig er hægt að gera það?

Börn og unglingar sem lofuðu Jehóva

11. Hvaða dæmi úr Biblíunni sýna að það getur borðið mjög góðan árangur þegar unglingar lofa Jehóva?

11 Í Biblíunni kemur fram að það ber oft mjög góðan árangur þegar unglingar lofa Jehóva. Ísraelsk stúlka, sem var hertekin af Sýrlendingum, er gott dæmi um það. Hún var hugrökk og vitnaði fyrir húsmóður sinni um Elísa spámann. Orð hennar urðu til þess að kraftaverk var unnið og góður vitnisburður gefinn. (2. Konungabók 5:1-17) Jesús vitnaði líka djarflega þegar hann var barn. Af öllum þeim atburðum í æsku Jesú, sem Jehóva hefði getað látið rita í orð sitt, valdi hann frásöguna af því þegar Jesús var 12 ára og ræddi af hugrekki við trúarleiðtogana í musterinu í Jerúsalem. Þeir voru undrandi á því hve djúpan skilning hann hafði á vegum Jehóva. — Lúkas 2:46-49.

12, 13. (a) Hvað gerði Jesús í musterinu stuttu fyrir dauða sinn og hvaða áhrif hafði það á fólkið á staðnum? (b) Hvað fannst Jesú um lof barnanna?

12 Þegar Jesús varð eldri hvatti hann börn til að lofa Jehóva. Nokkrum dögum fyrir dauða sinn var hann til dæmis þó nokkra stund í musterinu í Jerúsalem. Biblían segir að þar hafi hann unnið mikil ‚dásemdarverk‘. Hann hrakti út þá sem gerðu þennan helga stað að ræningjabæli. Hann læknaði líka blinda og halta. Allir á staðnum, og þá sérstaklega trúarleiðtogarnir, hefðu átt að finna hjá sér hvöt til að lofa Jehóva og Messías, son hans. Því miður voru fáir á þeim dögum sem gerðu það. Þeir vissu að Jesús var sendur af Guði en voru hræddir við trúarleiðtogana. Einn hópur sýndi hins vegar hugrekki og lét í sér heyra. Veistu hverjir það voru? Biblían segir: „Æðstu prestarnir og fræðimennirnir sáu dásemdarverkin, sem [Jesús] gjörði, og heyrðu börnin hrópa í helgidóminum: ‚Hósanna syni Davíðs!‘ Þeir urðu gramir við og sögðu við hann: ‚Heyrir þú, hvað þau segja?‘“ — Matteus 21:15, 16; Jóhannes 12:42.

13 Prestarnir vonuðust til þess að Jesús myndi þagga niður í börnunum sem lofuðu hann. Gerði hann það? Nei, alls ekki. Hann svaraði prestunum: „Já, hafið þér aldrei lesið þetta: ‚Af barna munni og brjóstmylkinga býrðu þér lof.‘“ Jesús og faðir hans voru greinilega ánægðir með lof barnanna. Þau voru að gera það sem fullorðna fólkið hefði átt að gera. Þetta hlýtur allt að hafa verið mjög skýrt í hugum þeirra. Þau sáu þennan mann vinna dásemdarverk, tala af hugrekki og trú og sýna brennandi kærleika til Guðs og þjóðar hans. Hann var sá sem hann sagðist vera, Messías, ‚sonur Davíðs‘. Börnin hlutu blessun vegna trúar sinnar og fengu jafnvel þann heiður að uppfylla spádóm. — Sálmur 8:3.

14. Hvernig geta kraftar og hæfileikar barna og unglinga hjálpað þeim að lofa Guð?

14 Hvað lærum við af slíkum dæmum? Við lærum að börn og unglingar geta lofað Jehóva á mjög áhrifamikinn hátt. Oft sjá þau sannleikann mjög skýrt og greinilega og tjá trú sína af einlægni og eldmóði. Þau hafa líka annað til að bera sem talað er um í Orðskviðunum 20:29: „Krafturinn er ágæti ungra manna.“ Já ungt fólk hefur kraft og styrk sem nýtist vel til að lofa Jehóva. En hvernig geturðu notað slíka krafta og hæfileika?

Hvernig geturðu lofað Jehóva?

15. Hvaða hvöt þarf að búa að baki til að hægt sé að lofa Jehóva á áhrifamikinn hátt?

15 Til að lof þitt sé árangursríkt verður það að koma frá hjartanu. Þú getur ekki lofað Jehóva á áhrifamikinn hátt ef þú gerir það aðeins vegna þess að aðrir vilja að þú gerir það. Mundu eftir æðsta boðorðinu: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum.“ (Matteus 22:37) Hefurðu kynnst Jehóva persónulega með því að lesa og hugleiða orð hans? Slíkt nám ætti að vekja með þér kærleika til Jehóva. Eðlilega leiðin til að tjá þenna kærleika er að lofa hann. Þú ert tilbúinn til að lofa Jehóva af ákafa og eldmóði um leið og tilefnið er rétt og þú hefur sterka löngun til að þjóna honum.

16, 17. Hvernig er hægt að lofa Jehóva með hegðun sinni? Lýstu með dæmi.

16 En áður en þú ferð að hugsa um hvað þú eigir að segja skaltu leiða hugann að því hvernig þú eigir að koma fram. Heldurðu að sýrlensku húsbændur ísraelsku stúlkunnar á dögum Elísa hefðu hlustað á það sem hún sagði um spámann Jehóva ef hún hefði almennt verið dónaleg, ókurteis og undirförul? Sennilega ekki. Það eru einnig meiri líkur á að aðrir hlusti á þig ef þeir sjá að þú sýnir fólki virðingu, kemur heiðarlega fram og ert kurteis. (Rómverjabréfið 2:21) Lítum á dæmi.

17 Ellefu ára stúlka í Portúgal varð fyrir miklum þrýstingi í skólanum til að halda hátíðir sem brutu gegn biblíufræddri samvisku hennar. Hún útskýrði vinsamlega fyrir kennslukonunni hvers vegna hún gæti ekki haldið þessar hátíðir en hún hæddist að henni. Kennslukonan reyndi aftur og aftur að niðurlægja hana og gera grín að trú hennar en unga stúlkan var alltaf kurteis. Mörgum árum seinna var þessi unga systir stödd á móti og var þá orðin brautryðjandi, eða boðberi í fullu starfi. Þegar hún fylgdist með þeim sem létu skírast kannaðist hún allt í einu við einn skírþeganna. Þetta var fyrrverandi kennslukona hennar. Þegar þær hittust féllust þær í faðma og táruðust. Eldri konan sagði þeirri yngi að hún hefði aldrei gleymt því hvað hún kom vel fram. Seinna hafði vottur heimsótt hana og hún sagt honum hvað fyrrverandi nemandi hennar hefði alltaf verið kurteis. Í kjölfarið var biblíunámskeið hafið og kennslukonan tók við sannleika Biblíunnar. Já, þú getur lofað Jehóva mjög kröftuglega með hegðun þinni.

18. Hvað geta unglingar gert ef þeim finnst erfitt að koma að stað umræðum um Biblíuna eða Jehóva Guð?

18 Finnst þér stundum erfitt að koma af stað samræðum um trú þína í skólanum? Það finnst mörgum. En þú getur búið svo um hnútana að líklegra sé að aðrir spyrji þig um trú þína. Ef það er leyfilegt geturðu til dæmis tekið biblíutengd rit með þér í skólann og lesið þau í matartímum eða á öðrum tímum þegar það má. Skólafélagarnir gætu spurt hvað þú sért að lesa. Þú svarar þeim og útskýrir hvað þér finnst sérstaklega athyglisvert í greininni eða bókinni og áður en þú veist af er komið af stað gott samtal. Mundu líka að spyrja spurninga til að komast að því hverju skólafélagarnir trúa. Hlustaðu vandlega og útskýrðu hvað þú hefur lært í Biblíunni. Margir unglingar lofa Guð í skólanum. * Það gefur þeim mikla gleði og hjálpar þeim að kynnast Jehóva.

19. Hvernig geta unglingar tekið framförum í boðunarstarfinu hús úr húsi?

19 Boðunarstarfið hús úr húsi er mjög góð leið til að lofa Jehóva. Ef þú ert ekki farinn að taka þátt í því gætirðu haft það að markmiði. Ef þú tekur þegar þátt í því, eru þá fleiri markmið sem þú getur sett þér? Í stað þess að segja alltaf það sama við hverjar dyr gætirðu til dæmist reynt að finna leiðir til að bæta kynninguna þína og beðið foreldra þína eða aðra um ábendingar. Lærðu að nota Biblíuna meira, fara í árangursríkar endurheimsóknir og koma af stað biblíunámskeiði. (1. Tímóteusarbréf 4:15) Því meira sem þú nýtir þér slíkar leiðir til að lofa Jehóva, þeim mun meiri árangur muntu sjá og þeim mun skemmtilegra verður boðunarstarfið.

Hvenær ættirðu að byrja að lofa Jehóva?

20. Hvers vegna þarf unglingum ekki að finnast þeir of ungir til að lofa Jehóva?

20 Svarið við síðustu spurningunni af þeim þrem, sem við höfum haft til umræðu, er einfaldast. Taktu eftir beinu svari Biblíunnar: „Mundu eftir skapara þínum á unglingsárum þínum.“ (Prédikarinn 12:1) Já, núna er tíminn til að byrja að lofa Jehóva. En það er auðvelt að hugsa: „Ég er of ung(ur) til að lofa Jehóva og hef ekki nógu mikla reynslu. Ég ætti að bíða þar til ég er eldri.“ Þú værir ekki fyrsta manneskjan til að hugsa þannig. Þegar Jeremía var ungur sagði hann við Jehóva: „Æ, herra Drottinn! Sjá, ég kann ekki að tala, því að ég er enn svo ungur.“ En Jehóva fullvissaði hann um að hann þyrfti ekki að óttast. (Jeremía 1:6, 7) Við höfum ekki heldur neitt að óttast þegar við lofum Jehóva. Við getum ekki orðið fyrir neinum þeim skaða sem Jehóva getur ekki bætt að fullu. — Sálmur 118:6.

21, 22. Af hverju er unglingum, sem lofa Jehóva, líkt við dögg og hvers vegna er samlíkingin hvetjandi?

21 Því hvetjum við ykkur unga fólkið til að hika ekki við að lofa Jehóva. Núna, á meðan þið eruð ung, er besti tíminn til að taka þátt í mikilvægasta starfi sem unnið er á jörðinni nú á dögum. Þegar þú gerir það verður þú hluti af alheimsfjölskyldu þeirra sem lofa Jehóva. Hann er hæstánægður að þú skulir vera hluti af þessari fjölskyldu. Taktu eftir innblásnu orðunum sem sálmaritarinn beinir til Jehóva: „Þjóð þín kemur sjálfboða á valdadegi þínum. Í helgu skrauti frá skauti morgunroðans kemur dögg æskuliðs þíns til þín.“ — Sálmur 110:3.

22 Finnst þér ekki fallegt að sjá glitrandi daggardropa í morgunroðanum? Þeir eru ferskir og bjartir og svo margir að ekki verður tölu á komið. Þannig lítur Jehóva á ykkur unglingana sem lofið hann trúfastlega á þessum erfiðu tímum. Ákvörðun þín að lofa Jehóva gleður hjarta hans svo sannarlega. (Orðskviðirnir 27:11) Þið skuluð því fyrir alla muni lofa Jehóva.

[Neðanmáls]

^ gr. 18 Finna má frásögur af unglingum sem hafa lofað Guð í skólanum í Varðturninum á ensku 15. júní 2005, bls. 29.

Hvert er svarið?

• Nefndu nokkrar mikilvægar ástæður til að lofa Jehóva.

• Hvaða dæmi í Biblíunni sýna að börn og unglingar geta lofað Jehóva á mjög áhrifamikinn hátt?

• Hvernig geta unglingar nú á dögum lofað Jehóva?

• Hvenær ættu unglingar að byrja að lofa Jehóva og hvers vegna?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 24]

Ef vinur þinn hefði einstaka hæfileika myndirðu ekki segja öðrum frá honum?

[Mynd á blaðsíðu 26]

Skólafélagarnir gætu haft áhuga á trú þinni.

[Mynd á blaðsíðu 27]

Biddu reyndari votta um ábendingar ef þú vilt bæta þig í boðunarstarfinu.