Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Verið þolin í þrautum

Verið þolin í þrautum

Verið þolin í þrautum

„Þjónn Drottins á ekki að eiga í ófriði, heldur á hann að vera ljúfur við alla, . . . þolinn í þrautum.“ — 2. TÍMÓTEUSARBRÉF 2:24.

1. Hvers vegna hittum við stundum einstaklinga í boðunarstarfinu sem hreyta í okkur ónotum?

HVERNIG bregstu við þegar þú hittir fólk sem er ekki jákvætt gagnvart þér eða því sem þú ert að koma á framfæri? Þegar Páll lýsti hinum síðustu dögum sagði hann að menn yrðu „lastmælendur, . . . rógberandi, taumlausir [og] grimmir“. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5, 12) Þú gætir hitt slíkt fólk í boðunarstarfinu eða við önnur tækifæri.

2. Hvaða ritningarstaðir geta hjálpað okkur að bregðast viturlega við þegar aðrir skeyta skapi sínu á okkur?

2 Þótt fólk skeyti skapi sínu á okkur er ekki víst að það skorti algerlega áhuga á því sem er rétt. Miklir erfiðleikar eða gremja getur orðið til þess að fólk ræðst á þá sem eru í kringum það með skömmum og svívirðingum. (Prédikarinn 7:7) Margir hegða sér svona vegna þess að þeir búa og starfa í umhverfi þar sem gróft málfar er algengt. Það þýðir ekki að kristnir menn leyfi sér að nota slíkt tal en það hjálpar okkur að skilja hvers vegna aðrir gera það. Hvernig ættum við að bregðast við þegar aðrir hella sér yfir okkur? Orðskviðirnir 19:11 segja: „Hyggni mannsins gjörir hann seinan til reiði.“ Og Rómverjabréfið 12:17, 18 ráðleggur: „Gjaldið engum illt fyrir illt. . . . Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á yðar valdi.“

3. Hvernig tengist friðsemi boðskapnum sem við höfum fram að færa?

3 Ef við leggjum okkur einlæglega fram um að hafa frið við alla birtist það í viðmóti okkar. Það sést á því sem við segjum og gerum og jafnvel líka á svipbrigðum okkar og raddblæ. (Orðskviðirnir 17:27) Þegar Jesús sendi postulana út að prédika ráðlagði hann þeim: „Þegar þér komið í hús, þá árnið því góðs, og sé það verðugt, skal friður yðar koma yfir það, en sé það ekki verðugt, skal friður yðar aftur hverfa til yðar.“ (Matteus 10:12, 13) Boðskapurinn sem við færum fólki er fagnaðarboðskapur. Biblían kallar hann „fagnaðarboðskap friðarins“, ‚fagnaðarerindi um Guðs náð‘ og „fagnaðarerindi um ríkið“. (Efesusbréfið 6:15; Postulasagan 20:24; Matteus 24:14) Markmið okkar er ekki að gagnrýna trúarsannfæringu viðmælanda okkar eða deila við hann um skoðanir hans heldur segja honum frá fagnaðarerindinu í orði Guðs.

4. Hvað gætirðu sagt ef húsráðandi segist ekki hafa áhuga, áður en þú færð tækifæri til að bera upp erindi þitt?

4 Húsráðandi gæti gripið fram í fyrir þér og sagst ekki hafa áhuga án þess að vera í rauninni að hlusta. Þá er oft hægt að segja: „En mætti ég nokkuð lesa fyrir þig einn stuttan ritningarstað úr Biblíunni?“ Kannski hefur hann ekkert á móti því. Við önnur tækifæri gæti verið viðeigandi að segja: „Ég hafði hugsað mér að segja þér frá því þegar óréttlæti heyrir sögunni til og fólk lærir að elska hvert annað.“ Ef hann gefur ekki fljótt í skyn að hann vilji vita meira gætirðu bætt við: „En það stendur kannski ekki vel á hjá þér.“ Jafnvel þótt húsráðandi bregðist illa við ættum við ekki að draga þá ályktun að hann sé ‚ekki verðugur‘. Við ættum að muna eftir ráðum Biblíunnar og vera ‚ljúf við alla og þolin í þrautum‘ óháð þeim viðbrögðum sem við fáum. — 2. Tímóteusarbréf 2:24.

„Smánari“ en hafði ekki réttan skilning

5, 6. Hvernig kom Sál fram við fylgjendur Jesú og hvers vegna?

5 Á fyrstu öldinni var uppi maður að nafni Sál sem var þekktur fyrir að vera orðhvass og jafnvel ofbeldisfullur. Biblían segir að hann hafi blásið „ógnum og manndrápum gegn lærisveinum Drottins“. (Postulasagan 9:1, 2) Hann viðurkenndi seinna að hann hefði verið „lastmælandi, ofsóknari og smánari“. (1. Tímóteusarbréf 1:13) Þótt sumir ættingjar hans hafi kannski verið búnir að taka kristna trú sagði hann sjálfur um viðhorf sitt til fylgjenda Krists: „Svo freklega æddi ég gegn þeim, að ég fór til borga erlendis að ofsækja þá.“ (Postulasagan 23:16; 26:11; Rómverjabréfið 16:7, 11) Þótt Sál hafi hegðað sér svona er samt ekkert sem bendir til þess að lærisveinarnir hafi reynt að deila við hann á opinberum vettvangi.

6 Hvers vegna kom Sál svona fram? Mörgum árum seinna skrifaði hann: „Ég gjörði það í vantrú, án þess að vita, hvað ég gjörði.“ (1. Tímóteusarbréf 1:13) Hann var farísei sem hafði hlotið „fyllstu uppfræðslu í lögmáli feðra [sinna]“. (Postulasagan 22:3) Þótt Gamalíel, kennari hans, hafi greinilega verið frekar umburðarlyndur umgekkst Sál Kaífas æðstaprest sem var mjög ofstækisfullur. Kaífas hafði verið forystumaður í samsærinu um að ráða Jesú Krist af dögum. (Matteus 26:3, 4, 63-66; Postulasagan 5:34-39) Seinna sá hann til þess að postular Jesú væru húðstrýktir og bannaði þeim að tala í nafni Jesú. Kaífas var líka yfir æðstaráðinu þegar heiftug réttarhöld voru haldin yfir Stefáni og hann grýttur. (Postulasagan 5:27, 28, 40; 7:1-60) Sál fylgdist með aftökunni og Kaífas heimilaði honum síðan að fylgja aðgerðum þeirra eftir með því að handtaka fylgjendur Jesú í Damaskus til að reyna að stöðva starf þeirra. (Postulasagan 8:1; 9:1, 2) Sál var undir áhrifum Kaífasar og hélt að hegðun sín væri merki um eldmóð gagnvart Guði en í rauninni skorti hann sanna trú. (Postulasagan 22:3-5) Þess vegna skildi hann ekki að Jesús væri hinn sanni Messías. En hann lét sér segjast þegar hinn upprisni Jesús opinberaðist honum og talaði við hann á veginum til Damaskus. — Postulasagan 9:3-6.

7. Hvernig breyttist Sál eftir að Jesús birtist honum á veginum til Damaskus?

7 Stuttu eftir þetta fékk lærisveinninn Ananías það verkefni að vitna fyrir Sál. Hefðir þú verið jákvæður fyrir því verkefni? Þótt Ananías hafi verið kvíðinn var hann samt vingjarnlegur þegar hann talaði við Sál. Viðhorf Sáls hafði breyst eftir að Jesús opinberaðist honum á veginum til Damaskus. (Postulasagan 9:10-22) Hann varð þekktur sem kappsamur kristinn trúboði, kallaður Páll postuli.

Hógvær en hugrakkur

8. Hvernig endurspeglaði Jesús viðhorf föður síns til þeirra sem höfðu breytt illa?

8 Jesús var ötull boðberi Guðsríkis og var hógvær en hugrakkur í samskiptum við fólk. (Matteus 11:29) Hann sýndi sama viðhorf og himneskur faðir hans sem hvetur hina vondu til að láta af illri breytni. (Jesaja 55:6, 7) Þegar Jesús átti samskipti við syndara tók hann eftir öllum merkjum um breytingu til batnaðar og uppörvaði þá. (Lúkas 7:37-50; 19:2-10) Hann dæmdi aðra ekki út frá ytra útliti heldur líkti eftir föður sínum og sýndi gæsku, umburðarlyndi og langlyndi og vildi leiða alla til iðrunar. (Rómverjabréfið 2:4) Jehóva vill að allir menn iðrist og verði hólpnir. — 1. Tímóteusarbréf 2:3, 4.

9. Hvað getum við lært af því hvernig Jesaja 42:1-4 rættist á Jesú?

9 Guðspjallaritarinn Matteus vitnaði í þessi spádómlegu orð til að lýsa því hvernig Jehóva lítur á Jesú Krist: „Sjá þjón minn, sem ég hef útvalið, minn elskaða, sem sál mín hefur þóknun á. Ég mun láta anda minn koma yfir hann, og hann mun boða þjóðunum rétt. Eigi mun hann þrátta né hrópa, og eigi mun raust hans heyrast á strætum. Brákaðan reyr brýtur hann ekki, og rjúkandi hörkveik mun hann ekki slökkva, uns hann hefur leitt réttinn til sigurs. Á nafn hans munu þjóðirnar vona.“ (Matteus 12:17-21; Jesaja 42:1-4) Jesús hegðaði sér í samræmi við þessi spádómlegu orð og tók ekki þátt í háværum deilum. Jafnvel þegar hann var undir álagi setti hann sannleikann þannig fram að það höfðaði til hjartahreinna manna. — Jóhannes 7:32, 40, 45, 46.

10, 11. (a) Hvers vegna vitnaði Jesús fyrir sumum faríseum þótt farísear hafi almennt verið með hörðustu andstæðingum hans? (b) Hvernig svaraði Jesús stundum andstæðingum sínum en hvað gerði hann ekki?

10 Jesús talaði við marga farísea á þjónustuferli sínum. Þótt sumir þeirra hafi reynt að veiða hann í orðum dró hann ekki þá ályktun að þeir hefðu allir slæmar hvatir. Símon var farísei og frekar gagnrýninn en vildi samt kynnast Jesú betur og bauð honum því í mat. Jesús þáði boðið og vitnaði fyrir viðstöddum. (Lúkas 7:36-50) Við annað tækifæri kom þekktur farísei að nafni Nikódemus til Jesú í skjóli nætur. Jesús ávítaði hann ekki fyrir að bíða til myrkurs heldur vitnaði fyrir honum um kærleikann sem Guð sýndi með því að senda son sinn til jarðar til að opna trúföstu fólki leið til hjálpræðis. Hann benti honum líka vingjarnlega á mikilvægi þess að fylgja fyrirkomulagi Guðs. (Jóhannes 3:1-21) Seinna hélt Nikódemus uppi vörnum fyrir Jesú þegar aðrir farísear gerðu lítið úr jákvæðum ummælum um hann. — Jóhannes 7:46-51.

11 Jesús var ekki blindur á hræsni þeirra sem reyndu að veiða hann í gildru. Hann leyfði andstæðingum sínum ekki að draga sig inn í tilgangslausar þrætur. Þegar við átti gaf hann hins vegar stutt en kröftug svör með því að vitna í ákveðna meginreglu eða ritningarstað eða nota líkingu. (Matteus 12:38-42; 15:1-9; 16:1-4) Við önnur tækifæri svaraði hann einfaldlega ekki þegar ljóst var að það hefði ekkert upp á sig. — Markús 15:2-5; Lúkas 22:67-70.

12. Hvernig gat Jesús hjálpað fólki jafnvel þegar það æpti á hann?

12 Einstaka sinnum æpti fólk á Jesú því að það var á valdi óhreinna anda. Þegar það gerðist sýndi hann sjálfstjórn og notaði jafnvel kraft frá Guði til að hjálpa þessu fólki. (Markús 1:23-28; 5:2-8, 15) Ef við hittum einhvern í boðunarstarfinu sem verður reiður og æpir á okkur verðum við líka að sýna sjálfstjórn og reyna að bregðast við á vingjarnlegan og nærgætinn hátt. — Kólossubréfið 4:6.

Innan fjölskyldunnar

13. Af hverju er fjölskyldan stundum andsnúin þeim sem fara að kynna sér Biblíuna með hjálp votta Jehóva?

13 Oft reynir mest á fylgjendur Jesú að sýna sjálfstjórn innan fjölskyldunnar. Þegar sannleikur Biblíunnar hefur haft mikil áhrif á einhvern vill hann að fjölskyldan bregðist eins við. En eins og Jesús sagði getur fjölskyldan verið okkur andsnúin. (Matteus 10:32-37; Jóhannes 15:20, 21) Fyrir því eru ýmsar ástæður. Tökum dæmi. Þótt við lærum af Biblíunni að vera heiðarleg, ábyrgðarfull og kurteis lærum við líka að við eigum fyrst og fremst að vera ábyrg gagnvart skapara okkar. (Prédikarinn 12:1, 13; Postulasagan 5:29) Maki eða ættingi gæti orðið móðgaður ef honum finnst áhrif sín innan fjölskyldunnar hafa dvínað vegna trúfesti okkar við Guð. Við slíkar aðstæður er mjög mikilvægt að fylgja fordæmi Jesú og sýna sjálfstjórn. — 1. Pétursbréf 2:21-23; 3:1, 2.

14-16. Hvað breytti viðhorfum sumra sem voru áður andsnúnir ástvinum sínum?

14 Margir sem nú þjóna Jehóva áttu maka eða annan ættinga sem var mótfallinn þeim breytingum sem þeir gerðu þegar þeir fóru að rannsaka Biblíuna. Þessir ættingjar höfðu kannski heyrt neikvæð ummæli um votta Jehóva og voru ef til vill hræddir um að þetta hefði óæskileg áhrif á heimilislífið. Hvað varð til þess að þeir breyttu um afstöðu? Oft átti góð hegðun hins trúaða stóran þátt í því. Stundum hefur andstaða fjölskyldunnar dvínað vegna þess að hinn trúaði fór staðfastlega eftir leiðbeiningum Biblíunnar. Það gerði hann með því að mæta reglulega á samkomur og taka þátt í boðunarstarfinu jafnframt því að sinna skyldum sínum á heimilinu og svara ekki í sömu mynt þegar ættingi hreytti í hann ónotum. — 1. Pétursbréf 2:12.

15 Mótfallinn maki eða ættingi gæti líka neitað að hlusta á biblíulegar útskýringar vegna fordóma eða stolts. Það gerði maður í Bandaríkjunum sem sagðist vera mjög þjóðrækinn. Eitt sinn þegar konan hans var á umdæmismóti pakkaði hann niður öllum fötunum sínum og flutti út. Við annað tækifæri fór hann að heiman með byssu og hótaði að fyrirfara sér. Í hvert skipti sem hann hegðaði sér óviturlega kenndi hann trú konunnar sinnar um. En hún lagði sig fram um að fylgja stöðuglega leiðbeiningum Biblíunnar. Tuttugu árum eftir að hún gerðist vottur tók hann líka við trúnni. Kona nokkur í Albaníu var reið vegna þess að dóttir hennar fór að lesa Biblíuna með vottum Jehóva og lét síðan skírast. Tólf sinnum eyðilagði móðirin biblíur sem dóttirin átti. En dag einn opnaði hún nýja biblíu sem dóttir hennar hafði skilið eftir á borðinu. Fyrir tilviljun opnaði hún biblíuna á Matteusi 10:36 og gerði sér grein fyrir að það sem þar stóð átti við hana. Samt sem áður hafði hún áhyggjur af dóttur sinni og fylgdi henni til skips sem hún ætlaði að fara með til Ítalíu til að sækja mót ásamt fleiri vottum. Þegar móðirin heyrði hláturinn og sá kærleikann, faðmlögin og brosin meðal hópsins fór viðhorf hennar að breytast. Stuttu seinna samþykkti hún að fá biblíunámskeið og núna hjálpar hún þeim sem eru mótfallnir í fyrstu.

16 Einu sinni gekk maður nokkur að eiginkonu sinni þegar hún var að ganga inn í ríkissalinn, hélt hnífi á lofti og hreytti í hana bitrum ásökunum. Hún svaraði mildilega: „Komdu inn í ríkissalinn og dæmdu um það sjálfur.“ Hann gerði það og varð seinna safnaðaröldungur.

17. Hvaða biblíulegu leiðbeiningar geta hjálpað kristnum fjölskyldum ef andrúmsloftið á heimilinu verður þvingað?

17 En jafnvel þótt allir í fjölskyldunni séu kristnir getur mannlegur ófullkomleiki stundum orðið til þess að andrúmsloftið á heimilinu verði þvingað af og til og hörð orð séu látin falla. Taktu eftir leiðbeiningunum sem kristnir menn í Efesus fengu: „Látið hvers konar beiskju, ofsa, reiði, hávaða og lastmæli vera fjarlægt yður og alla mannvonsku yfirleitt.“ (Efesusbréfið 4:31) Umhverfið í Efesus, ófullkomleiki fólks og jafnvel fyrri lífsstefna virðist hafa haft áhrif á kristna menn. Hvað gat hjálpað þeim að breyta sér? Þeir þurftu að „endurnýjast í anda og hugsun“. (Efesusbréfið 4:23) Ef þeir læsu í orði hans, hugleiddu hvernig það ætti að hafa áhrif á líf þeirra, umgengjust trúsystkini og bæðu í einlægni myndi ávöxtur anda Guðs koma enn betur fram í lífi þeirra. Þá myndu þeir læra að vera „góðviljaðir hver við annan, miskunnsamir, fúsir til að fyrirgefa hver öðrum, eins og Guð [hafði] í Kristi fyrirgefið [þeim]“. (Efesusbréfið 4:32) Við þurfum líka að sýna sjálfstjórn og vera vingjarnleg, góðviljuð og fús til að fyrirgefa hvað sem aðrir gera. Við ættum aldrei að gjalda neinum „illt fyrir illt“. (Rómverjabréfið 12:17, 18) Það er alltaf rétt að sýna einlægan kærleika eins og Guð gerir. — 1. Jóhannesarbréf 4:8.

Góð ráð fyrir alla menn

18. Hvers vegna áttu leiðbeiningarnar í 2. Tímóteusarbréfi 2:24 erindi til öldungs í Efesus til forna og hvernig gagnast þær öllum kristnum mönnum?

18 Allir kristnir menn ættu að taka til sín leiðbeiningarnar um að vera ‚þolnir í þrautum‘. (2. Tímóteusarbréf 2:24) Þessum leiðbeiningum var samt fyrst beint til Tímóteusar sem þurfti á þeim að halda þegar hann þjónaði sem öldungur í Efesus. Sumir í söfnuðunum tjáðu skoðanir sínar mjög opinskátt og kenndu rangar hugmyndir. Þar sem þeir skildu ekki fyllilega tilganginn með Móselögunum áttuðu þeir sig ekki á mikilvægi trúar, kærleika og góðrar samvisku. Stolt kveikti upp deilur og menn lentu í orðaskaki en þeir skildu hvorki kjarnann í kennslu Krists né mikilvægi guðrækninnar. Til að leysa þetta vandamál þurfti Tímóteus að halda fast við sannleika Biblíunnar en jafnframt vera mildur við bræðurna. Hann vissi að hjörðin tilheyrði honum ekki og að framkoma hans í garð annarra ætti að stuðla að kristnum kærleika og einingu. Safnaðaröldungar nú á dögum gera sér einnig grein fyrir þessu. — Efesusbréfið 4:1-3; 1. Tímóteusarbréf 1:3-11; 5:1, 2; 6:3-5.

19. Hvers vegna er mikilvægt fyrir okkur öll að ástunda ‚auðmýkt‘?

19 Guð hvetur fólk sitt til að ‚ástunda auðmýkt‘. (Sefanía 2:3) Hebreska orðið, sem þýtt er „auðmýkt“, lýsir hugarfari sem gerir fólki kleift að þola illt án þess að láta það trufla sig eða svara í sömu mynt. Biðjum Jehóva einlæglega að hjálpa okkur að sýna sjálfstjórn og vera nafni hans til sóma jafnvel við erfiðar aðstæður.

Hvað lærðir þú?

• Hvaða ritningarstaðir geta hjálpað okkur þegar fólk skeytir skapi sínu á okkur?

• Af hverju var Sál smánari?

• Hvernig getur fordæmi Jesú hjálpað okkur að koma vel fram við alla?

• Hvaða gagn hlýst af því að hafa taum á tungu sinni á heimilinu?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 29]

Þótt illt orð færi af Sál sýndi Ananías honum góðvild.

[Mynd á blaðsíðu 31]

Andstaða fjölskyldunnar getur dvínað ef kristinn einstaklingur sinnir skyldum sínum trúfaslega.

[Mynd á blaðsíðu 32]

Kristnir menn stuðla að kærleika og einingu.