Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Áttu í baráttu við neikvæðar tilfinningar?

Áttu í baráttu við neikvæðar tilfinningar?

Áttu í baráttu við neikvæðar tilfinningar?

LENA hefur mestalla ævi barist við neikvæðar tilfinningar. „Sjálfsvirðing mín varð næstum að engu vegna áralangrar kynferðislegrar misnotkunar í æsku,“ sagði hún. „Mér fannst ég vera einskis virði.“ Simone hugsar einnig til æskuáranna og segir: „Innst inni fann ég fyrir tómleika og mér fannst ég ekki mikils virði.“ Sú mikla óhamingja, sem slíkar tilfinningar valda, virðist vera algeng nú á dögum. Fyrirtæki, sem rekur hjálparlínu fyrir unglinga, greinir frá því að næstum helmingur þeirra sem hringja segist „hafa mjög lítið sjálfsálit“.

Sumir sérfræðingar álíta að fólk fyllist vanmetakennd þegar aðrir telji því trú um að það sé einskis virði. Slíkt hugarástand getur skapast þegar fólk er skammað linnulaust, gagnrýnt harkalega og vægðarlaust eða misnotað. Hver svo sem ástæðan fyrir slíkum tilfinningum er geta þær gert fólk máttvana og skaðað það. Í nýlegri könnun kom fram að þeir sem hafa neikvæða sjálfsmynd vantreysta oft bæði sjálfum sér og öðrum og eyðileggja því óafvitandi náin sambönd og vináttubönd. „Eiginlega skapa þeir sér einmitt þær aðstæður sem þeir óttast hvað mest,“ var sagt í greinargerð um könnunina.

Þeir sem finna fyrir slíkum tilfinningum eru oft fórnarlömb þess sem Biblían kallar eigin „hugarhrellingar“. (Sálmur 94:19, Biblían 1859) Þeim finnst þeir aldrei vera nógu góðir. Ef eitthvað fer úrskeiðis kenna þeir ósjálfrátt sjálfum sér um. Þó að aðrir hrósi þeim fyrir það sem þeir gera vel líður þeim innst inni eins og svikara sem muni komast upp um fyrr eða síðar. Margir telja sér trú um að þeir verðskuldi ekki að vera hamingjusamir. Þeir fara ósjálfrátt að eyðileggja fyrir sjálfum sér og þeim finnst þeir síðan ekki geta breytt um stefnu. Lena, sem minnst var á áðan, fékk alvarlega átröskun vegna þess að hana skorti sjálfsvirðingu. „Mér fannst ég ekki geta breytt neinu,“ segir hún.

Þarf þeim sem berjast við slíkar „hugarhrellingar“ að líða svona það sem eftir er ævinnar? Er hægt að gera eitthvað til að sigrast á slíkum tilfinningum? Í Biblíunni eru meginreglur og góð ráð sem hafa hjálpað mörgum að standa uppi sem sigurvegarar í þessari baráttu. Hvaða meginreglur eru þetta og hvernig hafa þær hjálpað fólki að finna hamingju í lífinu? Þessum spurningum verður svarað í næstu grein.