Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Biblían getur hjálpað þér að finna hamingju

Biblían getur hjálpað þér að finna hamingju

Biblían getur hjálpað þér að finna hamingju

ÞÓ AÐ Biblían sé ekki kennslubók í læknisfræði talar hún um þau áhrif sem tilfinningar, bæði jákvæðar og neikvæðar, geta haft á andlega og líkamlega heilsu manna. „Glatt hjarta veitir góða heilsubót, en dapurt geð skrælir beinin,“ segir hún. Annar orðskviður segir: „Látir þú hugfallast á neyðarinnar degi, þá er máttur þinn lítill.“ (Orðskviðirnir 17:22; 24:10) Vanmáttarkennd getur dregið úr okkur kraft og látið okkur finnast við vera veikburða og viðkvæm þannig að okkur langar hvorki til að breytast né leita hjálpar.

Vanmetakennd getur einnig haft áhrif á trú fólks. Það er algengt að þeim sem finnst þeir einskis virði líði eins og þeir geti hvorki átt gott samband við Guð né notið velþóknunar hans. Simone, sem nefnd var í greininni á undan, efaðist um að hún gæti verið „manneskja sem Guð hefði velþóknun á“. En þegar við skoðum hvað orð Guðs, Biblían, hefur um málið að segja komumst við að því að Guð lítur velþóknunaraugum á þá sem leggja sig fram um að þóknast honum.

Guði stendur ekki á sama

Í Biblíunni kemur fram að „Drottinn er nálægur þeim er hafa sundurmarið hjarta, þeim er hafa sundurkraminn anda, hjálpar hann“. Guð fyrirlítur ekki „sundurmarið og sundurkramið hjarta“ og hann lofar „að lífga anda hinna lítillátu og . . . hjörtu hinna sundurkrömdu“. — Sálmur 34:19; 51:19; Jesaja 57:15.

Við eitt tækifæri sá Jesús, sonur Guðs, þörf á að vekja athygli lærisveina sinna á því að Guð sæi það góða í fari þjóna sinna. Hann notaði líkingu og benti á að Guð tæki eftir því þegar spörfugl félli til jarðar, en það þætti fæstum mönnum eftirtektarvert. Hann sagði einnig að Guð þekkti hvert einasta smáatriði í fari manna, jafnvel hve mörg hár væru á höfði þeirra. Jesús endaði líkinguna á því að segja: „Verið því óhræddir, þér eruð meira verðir en margir spörvar.“ (Matteus 10:29-31) * Hann lét þannig í ljós að Guð kynni að meta þá sem sýna trú, jafnvel þótt þeim finnist þeir ekki mikils virði. Pétur postuli minnti okkur einnig á að „Guð fer ekki í manngreinarálit. Hann tekur opnum örmum hverjum þeim, sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er.“ — Postulasagan 10:34, 35.

Gættu jafnvægis

Orð Guðs hvetur okkur til að gæta jafnvægis og hafa hvorki of mikið né of lítið sjálfsálit. Páli postula var innblásið að skrifa: „Fyrir þá náð, sem mér er gefin, segi ég yður hverjum og einum að hugsa ekki hærra um sig en hugsa ber, heldur í réttu hófi, og halda sér hver og einn við þann mæli trúar, sem Guð hefur úthlutað honum.“ — Rómverjabréfið 12:3.

Við viljum auðvitað ekki líta of stórt á okkur og verða montin en okkur langar ekki heldur til að fara í hinar öfgarnar og finnast við einskis virði. Við ættum þess í stað að reyna að hafa heilbrigt sjálfsmat og gera okkur grein fyrir bæði kostum okkar og göllum. Kristin kona komst svo að orði: „Ég er hvorki persónugervingur illskunnar né gjöf Guðs til annarra. Ég hef bæði góða eiginleika og slæma, rétt eins og allir aðrir.“

Það er auðvitað hægara sagt en gert að líta sjálfan sig réttum augum. Það gæti þurft mikið til ef breyta á neikvæðri sjálfsmynd sem hefur mótast á margra ára tímabili. En með hjálp Guðs getum við breytt persónuleika okkar og afstöðu til lífsins. Þetta er einmitt það sem orð Guðs hvetur okkur til að gera. Við lesum: „Þér eigið að hætta hinni fyrri breytni og afklæðast hinum gamla manni, sem er spilltur af tælandi girndum, en endurnýjast í anda og hugsun og íklæðast hinum nýja manni, sem skapaður er eftir Guði í réttlæti og heilagleika sannleikans.“ — Efesusbréfið 4:22-24.

Með því að leggja okkur fram um að „endurnýjast í anda og hugsun“ getum við breytt persónuleika okkar þannig að við hættum að vera of neikvæð og verðum jákvæð. Lena, sem nefnd var í greininni á undan, gerði sér grein fyrir því að hún gæti ekki breytt sjálfsáliti sínu fyrr en hún hefði losað sig við þá hugmynd að enginn gæti elskað hana eða hjálpað henni. Hvaða góðu ráð úr Biblíunni hafa hjálpað Lenu, Simone og öðrum að gera slíkar breytingar?

Biblíulegar meginreglur sem stuðla að gleði

„Varpa áhyggjum þínum á Drottin, hann mun bera umhyggju fyrir þér.“ (Sálmur 55:23) Það er fyrst og fremst bænin sem getur hjálpað okkur að finna sanna hamingju. Simone segir: „Alltaf þegar mér líður illa leita ég til Jehóva og bið hann að hjálpa mér. Það hefur aldrei komið fyrir að ég hafi ekki fundið fyrir styrk hans og leiðsögn.“ Með því að hvetja okkur til að varpa áhyggjum okkar á Jehóva er sálmaritarinn í raun að minna okkur á að Jehóva sé ekki aðeins annt um okkur heldur að hann líti einnig svo á að við séum verðug þess að fá hjálp hans og stuðning. Lærisveinar Jesú voru sorgmæddir á páskakvöldi árið 33 vegna þess að hann hafði sagt þeim að hann myndi brátt fara frá þeim. Jesús hvatti þá til að biðja til föðurins og bætti síðan við: „Biðjið, og þér munuð öðlast, svo að fögnuður yðar verði fullkominn.“ — Jóhannes 16:23, 24.

„Sælla er að gefa en þiggja.“ (Postulasagan 20:35) Eins og Jesús kenndi er gjafmildi mikilvægur þáttur í því að finna sanna hamingju. Þegar við förum eftir þessu ráði Biblíunnar getum við beint athyglinni að þörfum annarra í stað eigin galla. Þegar við hjálpum öðrum og skynjum þakklæti þeirra líður okkur betur. Lena er sannfærð um að það að segja öðrum frá fagnaðarerindi Biblíunnar hjálpi henni á tvo vegu. „Í fyrsta lagi veitir það mér þá hamingju og ánægju sem Jesús talaði um,“ segir hún. „Í öðru lagi fæ ég oft jákvæð viðbrögð frá öðrum og það gleður mig.“ Ef við gefum örlátlega af okkur fáum við að reyna sannleiksgildi Orðskviðanna 11:25: „Sá sem gefur öðrum að drekka, mun og sjálfur drykk hljóta.“

„Hinn volaði sér aldrei glaðan dag, en sá sem vel liggur á, er sífellt í veislu.“ (Orðskviðirnir 15:15) Við getum öll ráðið því hvernig við lítum á sjálf okkur og aðstæður okkar. Við getum verið eins og þeir sem sjá hið neikvæða í öllu og líður illa en við getum líka ákveðið að hugsa jákvætt, láta liggja vel á okkur og vera glöð eins og við værum í veislu. Simone segir: „Ég reyni að vera eins jákvæð og ég get. Ég held mér upptekinni af boðunarstarfinu og einkanámi og bið reglulega. Ég reyni líka að vera innan um jákvætt fólk og legg mig fram um að vera til staðar þegar aðrir þurfa á mér að halda.“ Þetta heilbrigða viðhorf stuðlar að sannri hamingju. Biblían hvetur okkur þess vegna: „Gleðjist yfir Drottni og fagnið, þér réttlátir, kveðið fagnaðarópi, allir hjartahreinir!“ — Sálmur 32:11.

„Vinur elskar ætíð og í nauðum er hann sem bróðir.“ (Orðskviðirnir 17:17) Ef við segjum ástvini eða traustum félaga frá neikvæðum tilfinningum eigum við auðveldara með að takast á við þær eða losa okkur við þær áður en þær verða okkur of þungar í skauti. Þegar við tölum við aðra getum við líka átt auðveldara með að sjá málin í réttu ljósi. „Það hjálpar mikið að tala um málin,“ viðurkennir Simone. „Maður þarf að segja einhverjum hvernig manni líður. Oft þarf ekki annað til en að segja hvað manni býr í brjósti.“ Með því að gera þetta geturðu komist að raun um sannleiksgildi orðskviðarins sem segir: „Hugsýki beygir manninn, en vingjarnlegt orð gleður hann.“ — Orðskviðirnir 12:25.

Það sem þú getur gert

Við höfum aðeins litið á nokkrar af þeim fjölmörgu góðu og hagnýtu meginreglum Biblíunnar sem geta hjálpað okkur að sigrast á neikvæðum tilfinningum og finna sanna hamingju. Ef þú ert einn þeirra sem hefur þurft að berjast við vanmáttarkennd hvetjum við þig til að rannsaka nánar orð Guðs, Biblíuna. Lærðu að byggja upp raunsætt og heilbrigt mat á sjálfum þér og sambandi þínu við Guð. Við vonum einlæglega að þér takist með orð Guðs að leiðarljósi að finna sanna hamingju í öllu sem þú tekur þér fyrir hendur.

[Neðanmáls]

^ gr. 6 Fjallað er nánar um þessi vers á bls. 24 og 25

[Mynd á blaðsíðu 7]

Það stuðar að hamingju að lifa eftir meginreglum Biblíunnar.