Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ert þú trúr í öllu?

Ert þú trúr í öllu?

Ert þú trúr í öllu?

„Sá sem er trúr í því smæsta, er einnig trúr í miklu.“ — LÚKAS 16:10.

1. Nefndu einn eiginleika Jehóva sem lýsir trúfesti hans.

HEFURÐU tekið eftir því hvernig skuggi af tré breytir um stærð og lögun þegar líður á daginn? Viðleitni og loforð manna eru oft óstöðug eins og skugginn. En Jehóva Guð breytist ekki með tímanum. Lærisveinninn Jakob kallar hann „föður ljósanna“ og segir: „Hjá honum er engin umbreyting né skuggar, sem koma og fara.“ (Jakobsbréfið 1:17) Jehóva er stöðugur og áreiðanlegur, jafnvel í því smæsta. Hann er „trúfastur Guð“. — 5. Mósebók 32:4.

2. (a) Hvers vegna ættum við að ganga úr skugga um að við séum trúföst? (b) Hvaða spurningar um trúfesti verða skoðaðar nánar?

2 Hvernig lítur Guð á trúfesti tilbiðjenda sinna? Sömu augum og Davíð sem sagði: „Augu mín horfa á hina trúföstu í landinu, að þeir megi búa hjá mér. Sá sem gengur grandvarleikans vegu, hann skal þjóna mér.“ (Sálmur 101:6) Já, Jehóva gleðst yfir trúfesti þjóna sinna. Páll postuli hafði góða ástæðu til að skrifa: „Nú er þess krafist af ráðsmönnum, að sérhver reynist trúr.“ (1. Korintubréf 4:2) Hvað felst í því að vera trúr? Á hvaða sviðum lífsins ættum við að sýna trúfesti? Hvaða blessun hljótum við fyrir að ganga „grandvarleikans vegu“?

Hvað merkir það að vera trúr?

3. Hvað sker úr um það hvort við séum trúföst?

3 „Móse var að sönnu trúr,“ segir í Hebreabréfinu 3:5. Af hverju var spámaðurinn Móse talinn trúr? Sagt var um gerð tjaldbúðarinnar: „Eins og Drottinn hafði boðið [Móse], svo gjörði hann í alla staði.“ (2. Mósebók 40:16) Tilbiðjendur Jehóva sýna trúfesti með því að þjóna honum í hlýðni. Það felur auðvitað í sér að vera trúföst þegar við stöndum frammi fyrir miklum og erfiðum prófraunum. En að standast miklar prófraunir er ekki eini mælikvarðinn á trúfesti. „Sá sem er trúr í því smæsta, er einnig trúr í miklu,“ sagði Jesús, „og sá sem er ótrúr í því smæsta, er og ótrúr í miklu.“ (Lúkas 16:10) Við þurfum því einnig að vera trú í því sem gæti virst lítilvægt.

4, 5. Hvað sýnum við með því að vera trú „í því smæsta“?

4 Nefna má tvær ástæður fyrir því að mikilvægt er að hlýða „í því smæsta“ á hverjum degi. Í fyrsta lagi sýnir það hvernig við lítum á drottinvald Jehóva. Mundu eftir hollustuprófinu sem lagt var fyrir fyrstu hjónin, þau Adam og Evu. Það hefði alls ekki átt að vera erfitt fyrir þau að hlýða þessari kröfu. Þau gátu borðað alls konar mat í Edengarðinum og þeim var aðeins bannað að borða ávexti af einu tré — „skilningstrénu góðs og ills“. (1. Mósebók 2:16, 17) Með því að vera trúföst og hlýða þessu einfalda boði hefðu þau sýnt að þau styddu yfirvald Jehóva. Við sýnum að við styðjum drottinvald hans með því að fylgja leiðbeiningum hans dagsdaglega.

5 Í öðru lagi hefur breytni okkar „í því smæsta“ áhrif á það hvernig við bregðumst við „í miklu“, það er að segja þegar við mætum stærri prófraunum í lífinu. Í þessu sambandi skulum við rifja upp frásöguna af Daníel og þremur hebreskum félögum hans, þeim Hananja, Mísael og Asarja. Þeir voru fluttir í útlegð til Babýlonar árið 617 f.Kr. Þessir fjórir drengir voru enn á unga aldri, sennilega bara táningar, þegar þeir voru teknir í hirð Nebúkadnesars konungs. „Konungur ákvað þeim daglegan skammt frá konungsborði og af víni því, er hann sjálfur drakk, og bauð að uppala þá í þrjú ár, og að þeim liðnum skyldu þeir þjóna frammi fyrir konunginum.“ — Daníel 1:3-5.

6. Hvernig reyndi á Daníel og félaga hans þegar þeir voru við konungshirðina í Babýlon?

6 Nú reyndi á hebresku drengina fjóra. Líklega bauð Babýloníukonungur meðal annars upp á mat sem Hebrear máttu ekki neyta samkvæmt Móselögunum. (5. Mósebók 14:3-20) Dýr voru kannski ekki blóðguð almennilega þegar þeim var slátrað og það hefði verið brot á lögum Guðs að borða slíkt kjöt. (5. Mósebók 12:23-25) Einnig má vera að matnum hafi verið fórnað skurðgoðum eins og venja var að gera fyrir sameiginlegar máltíðir meðal Babýloníumanna.

7. Hvað sýndi hlýðni Daníels og félaga hans þriggja?

7 Hirð Babýloníukonungs hefur örugglega ekki þótt ákvæði um mataræði skipta miklu máli. En Daníel og félagar hans voru harðákveðnir í því að óhreinka sig ekki með því að borða mat sem lögmál Guðs til Ísraelsmanna bannaði. Málið snerist um trúfesti þeirra og hollustu við Guð. Þeir báðu því um að fá aðeins grænmeti og vatn og það fengu þeir. (Daníel 1:9-14) Sumum nú á dögum finnst kannski að það sem þessir ungu menn gerðu hafi verið lítilvægt. En hlýðni þeirra við Jehóva Guð sýndi afstöðu þeirra í deilumálinu um drottinvald hans.

8. (a) Undir hvaða hollustupróf gengust Hebrearnir þrír? (b) Hvernig lyktaði málinu og hvað sýnir það okkur?

8 Daníel og félagar hans þrír sýndu trúfesti í því sem gæti hafa virst smávægilegt. En það bjó þá undir að takast á við þyngri prófraunir. Flettu upp á 3. kafla Daníelsbókar og lestu frásöguna af því þegar Hebreunum þremur var hótað lífláti ef þeir tilbæðu ekki gulllíkneski sem Nebúkadnesar konungur hafði látið reisa. Þegar þeir voru færðir fram fyrir konunginn sögðu þeir fullir öryggis: „Ef Guð vor, sem vér dýrkum, vill frelsa oss, þá mun hann frelsa oss úr eldsofninum brennandi og af þinni hendi, konungur. En þótt hann gjöri það ekki, þá skalt þú samt vita, konungur, að vér munum ekki dýrka þína guði né tilbiðja gull-líkneskið, sem þú hefir reisa látið.“ (Daníel 3:17, 18) Frelsaði Jehóva þá? Verðirnir, sem köstuðu ungu mönnunum í eldsofninn, fórust en trúföstu Hebrearnir þrír komu lifandi út úr ofninum og sviðnuðu ekki einu sinni í hitanum. Þeir höfðu tamið sér að vera trúfastir og það bjó þá undir þessa erfiðu prófraun. Finnst þér þetta dæmi ekki sýna mikilvægi þess að vera trúr í því smæsta?

Að nota hinn „rangláta mammón“ rétt

9. Í hvaða samhengi sagði Jesús orðin í Lúkasi 16:10?

9 Áður en Jesús setti fram meginregluna um að sá sem er trúr í því smæsta sé einnig trúr í miklu ráðlagði hann áheyrendum sínum: „Aflið yður vina með hinum rangláta mammón, svo að þeir taki við yður í eilífar tjaldbúðir, þegar honum sleppir.“ Síðan talaði hann um að vera trúr í því smæsta. Eftir það sagði hann: „Ef þér reynist ekki trúir í hinum rangláta mammón, hver trúir yður þá fyrir sönnum auði? . . . Enginn þjónn getur þjónað tveimur herrum. Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn. Þér getið ekki þjónað Guði og mammón.“ — Lúkas 16:9-13.

10. Hvernig getum við notaði hinn „rangláta mammón“ viturlega?

10 Samhengið sýnir að Jesús tengdi orðin í Lúkasi 16:10 við það hvernig við notum hinn „rangláta mammón“, það er að segja fjármuni okkar og eignir. Fjármunir eru kallaðir ranglátir vegna þess að þeir — og þá sérstaklega peningar — eru í höndum syndugra manna. Löngun í efnislega hluti getur líka leitt til ranglátra verka. Við sýnum trúfesti með því að nota efnislegar eigur okkar viturlega. Í stað þess að nota þær í eigingjörnum tilgangi viljum við nota þær til að stuðla að framgangi fagnaðarerindisins og aðstoða þá sem eru hjálparþurfi. Með því að sýna slíka trúfesti verðum við vinir Jehóva Guðs og Jesú Krists — sem eiga hinar ‚eilífu tjaldbúðir‘. Þeir taka við okkur í þessar tjaldbúðir með því að veita okkur eilíft líf annaðhvort á himni eða í paradís á jörð.

11. Af hverju ættum við ekki að hika við að segja húsráðendum að við þiggjum framlög til styrktar aðþjóðastarfinu sem vottar Jehóva vinna?

11 Fólk þiggur oft biblíur eða biblíutengd rit þegar við segjum því frá fagnaðarboðskapnum. Við nefnum að við tökum við framlögum til styrktar alþjóðastarfinu sem þjónar Jehóva vinna. Erum við þá ekki að gefa fólki tækifæri til að nota fjármuni sína viturlega? En þótt orðin í Lúkasi 16:10 hafi upphaflega tengst því hvernig fjármunir eru notaðir er líka hægt að heimfæra meginregluna á önnur svið lífsins.

Heiðarleiki skiptir máli

12, 13. Á hvaða sviðum getum við sýnt heiðarleika?

12 Páll postuli skrifaði: „Vér erum þess fullvissir, að vér höfum góða samvisku og viljum í öllum greinum breyta vel.“ (Hebreabréfið 13:18) Þetta þýðir að við verðum að vera heiðarleg, þar á meðal í öllu sem varðar fjármál. Við borgum skatta og skuldir heiðarlega og á réttum tíma. Við gerum það vegna samviskunnar en aðallega vegna kærleika okkar til Guðs og vegna þess að við viljum hlýða leiðbeiningum hans. (Rómverjabréfið 13:5, 6) Hvað gerum við ef við finnum eitthvað sem við eigum ekki? Við reynum að skila því til eigandans. Það getur vitnað mjög vel um okkur og trú okkar þegar við útskýrum af hverju við ákváðum að skila því sem við fundum.

13 Trúfesti og heiðarleiki í öllu felur í sér að sýna heiðarleika á vinnustað. Ef vinnuvenjur okkar bera vott um heiðarleika vekjum við athygli á því hvers konar Guð við erum fulltrúar fyrir. Við „stelum“ ekki tíma með því að vera löt heldur leggjum við hart að okkur eins og Jehóva ætti í hlut. (Efesusbréfið 4:28; Kólossubréfið 3:23) Í Evrópulandi nokkru er áætlað að þriðjungur þeirra sem biðja um læknisvottorð fyrir veikindafríi geri það á fölskum forsendum. Sannir þjónar Guðs koma ekki með upplognar afsakanir til að sleppa við að fara í vinnuna. Stundum er vottum Jehóva boðin stöðuhækkun vegna þess að vinnuveitendur þeirra taka eftir því að þeir eru heiðarlegir og vinnusamir. — Orðskviðirnir 10:4.

Trúfesti í boðunarstarfinu

14, 15. Hvernig getum við sýnt trúfesti í boðunarstarfinu?

14 Hvernig sýnum við trúfesti í starfinu sem okkur er trúað fyrir? „Vér [skulum] því án afláts bera fram lofgjörðarfórn fyrir Guð,“ segir í Biblíunni, „ávöxt vara, er játa nafn hans.“ (Hebreabréfið 13:15) Besta leiðin til að sýna trúfesti í boðunarstarfinu er að taka reglulega þátt í því. Ættum við að láta mánuð líða hjá án þess að segja öðrum frá Jehóva og fyrirætlun hans? Ef við tökum reglulega þátt í boðunarstarfinu hjálpar það okkur líka að verða hæfari og ná betri árangri.

15 Önnur leið til að sýna trúfesti í boðunarstarfinu er að fylgja leiðbeiningum sem við fáum í Varðturninum og Ríkisþjónustu okkar. Sjáum við ekki betri árangur af boðunarstarfinu þegar við undirbúum okkur og notum kynningarnar sem mælt er með eða aðrar raunhæfar kynningar? Förum við fljótt aftur til þeirra sem sýna áhuga á boðskapnum um ríkið? Hvernig sinnum við biblíunámskeiðum sem við höfum komið í gang hjá áhugasömu fólki? Erum við áreiðanleg og sinnum þeim af trúfesti? Ef við erum trúföst í boðunarstarfinu getur það haft líf í för með sér fyrir okkur og þá sem á okkur hlýða. — 1. Tímóteusarbréf 4:15, 16.

Að vera aðgreind frá heiminum

16, 17. Hvernig getum við sýnt að við erum aðgreind frá heiminum?

16 Í bæn til Guðs sagði Jesús um fylgjendur sína: „Ég hef gefið þeim orð þitt, og heimurinn hataði þá, af því að þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum. Ég bið ekki, að þú takir þá úr heiminum, heldur að þú varðveitir þá frá hinu illa. Þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum.“ (Jóhannes 17:14-16) Kannski erum við harðákveðin í því að halda okkur aðgreindum frá heiminum í stærri málum eins og hlutleysi, siðferðismálum og þátttöku í trúarhátíðum og siðum. En hvað um smærri mál? Gætum við verið undir áhrifum heimsins án þess að gera okkur grein fyrir því? Klæðnaður okkar getur til dæmis auðveldlega orðið óviðeigandi og óvirðulegur ef við gætum ekki að okkur. Trúfesti kallar á látleysi og heilbrigt hugarfar í sambandi við klæðaburð og snyrtingu. (1. Tímóteusarbréf 2:9, 10) Já, „í engu viljum vér vera neinum til ásteytingar, til þess að þjónustan verði ekki fyrir lasti. Á allan hátt sýnum vér, að vér erum þjónar Guðs.“ — 2. Korintubréf 6:3, 4.

17 Þar sem við viljum heiðra Jehóva klæðum við okkur virðulega fyrir safnaðarsamkomur. Hið sama á við þegar við sækjum fjölmenn mót. Klæðnaður okkar þarf að henta tækifærinu og vera viðeigandi. Þetta gefur þeim sem sjá til okkar jákvæða mynd af okkur og trú okkar. Englarnir taka meira að segja eftir því sem við gerum, rétt eins og þeir fylgdust með Páli og kristnum félögum hans. (1. Korintubréf 4:9) Reyndar ættum við alltaf að vera viðeigandi til fara. Sumum gæti fundist lítilvægt að sýna trúfesti í klæðavali en í augum Guðs skiptir það máli.

Jehóva blessar trúfesti

18, 19. Hvaða blessanir hljóta þeir sem eru trúfastir?

18 Sannkristnir menn eru kallaðir „góðir ráðsmenn margvíslegrar náðar Guðs“. Sem slíkir reiða þeir sig á þann mátt „sem Guð gefur“. (1. Pétursbréf 4:10, 11) Þar sem við erum ráðsmenn er okkur líka trúað fyrir ýmsu sem við eigum ekki sjálf eins og til dæmis boðunarstarfinu en það er ein birtingarmynd náðar Guðs. Við reynumst góðir ráðsmenn þegar við reiðum okkur á „ofurmagn kraftarins“, máttinn sem Guð gefur. (2. Korintubréf 4:7) Þetta býr okkur undir að standast hverja þá prófraun sem við gætum orðið fyrir í framtíðinni.

19 Sálmaritarinn söng: „Elskið Drottin, allir þér hans trúuðu, Drottinn verndar trúfasta.“ (Sálmur 31:24) Við skulum vera staðráðin í því að reynast trú og treysta að Jehóva sé „frelsari allra manna, einkum trúaðra“ og trúfastra þjóna sinna. — 1. Tímóteusarbréf 4:10.

Manstu?

• Af hverju ættum við að vera trú „í því smæsta“?

• Hvernig birtist trúfesti í heiðarleika?

• Hvernig sýnum við trúfesti í boðunarstarfinu?

• Hvernig er trúfesti tengd því að halda sér aðgreindum frá heiminum?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 18]

„Sá sem er trúr í því smæsta, er einnig trúr í miklu.“

[Mynd á blaðsíðu 21]

Verum heiðarleg „í öllum greinum“.

[Mynd á blaðsíðu 21]

Við sýnum trúfesti með því að undirbúa okkur vel fyrir boðunarstarfið.

[Mynd á blaðsíðu 22]

Verum látlaus í klæðnaði og snyrtingu.