Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Höfuðþættir 2. Konungabókar

Höfuðþættir 2. Konungabókar

Orð Jehóva er lifandi

Höfuðþættir 2. Konungabókar

SÍÐARI KONUNGABÓK tekur við þar sem þeirri fyrri lýkur. Hún segir sögu 29 konunga. Tólf þeirra eru í norðurríkinu Ísrael og 17 í suðurríkinu Júda. Síðari Konungabók fjallar einnig um starf spámannanna Elía, Elísa og Jesaja. Sagan er ekki alls staðar skráð í tímaröð en henni lýkur með því að sagt er frá eyðingu Samaríu og Jerúsalem. Saga 2. Konungabókar nær yfir 340 ár, frá 920 f.Kr. til 580 f.Kr. þegar Jeremía spámaður lauk við að rita bókina.

Hvaða gildi hefur 2. Konungabók fyrir okkur? Hvað getum við lært af henni um Jehóva og samskipti hans við mennina? Hvaða lærdóma getum við dregið af verkum konunga, spámanna og annarra sem bókin segir frá? Við skulum kanna hvað við getum lært af 2. Konungabók.

ELÍSA TEKUR VIÐ AF ELÍA

(2. Konungabók 1:1–8:29)

Ahasía Ísraelskonungur fellur ofan um grindurnar í loftsal sínum og liggur sjúkur. Elía spámaður flytur honum þau boð að hann muni deyja. Ahasía deyr og Jóram, bróðir hans, tekur við völdum. Jósafat er konungur í Júda á þessum tíma. Elía er hrifinn upp í stormviðri og Elísa, aðstoðarmaður hans, tekur við af honum sem spámaður. Elísa vinnur mörg kraftaverk á þeim 60 árum sem þjónusta hans stendur yfir. — Sjá rammann „Kraftaverk Elísa“.

Þegar konungurinn í Móab gerir uppreisn gegn Ísrael leggja Jóram, Jósafat og konungurinn í Edóm út í orustu við hann. Þeim er veittur sigur vegna trúfesti Jósafats. Síðar áformar Sýrlandskonungur að gera óvænta árás á Ísrael en Elísa ónýtir áform hans. Ævareiður sendir Sýrlandskonungur „hesta og vagna og mikinn her“ til að handsama Elísa. (2. Konungabók 6:14) Elísa vinnur þá tvö kraftaverk og snýr Sýrlendingum frá með friði. Síðar sest Benhadad Sýrlandskonungur um Samaríu og það veldur mikilli hungursneyð en Elísa boðar að hungursneyðin taki enda.

Elísa fer til Damaskus einhvern tíma eftir þetta. Benhadad konungur liggur sjúkur og sendir Hasael til að leita frétta hvort hann eigi eftir að ná sér. Elísa boðar að konungur skuli deyja og Hasael taki við af honum. Daginn eftir kæfir Hasael konung með blautri ábreiðu og tekur sér konungstign. (2. Konungabók 8:15) Jóram Jósafatsson tekur við konungdómi í Júda og síðar tekur Ahasía, sonur hans, við af honum. — Sjá rammann „Konungar Júda og Ísraels.“

Biblíuspurningar og svör:

2:9 — Af hverju biður Elísa um ‚tvo hluta af andagift Elía‘? Elísa þarf að hafa sams konar andagift og Elía til að gegna því ábyrgðarstarfi að vera spámaður í Ísrael. Hann þarf að vera hugrakkur og óttalaus. Honum er þetta ljóst og hann biður því um tvo hluta af andagift Elía. Hann hafði þjónað Elía í sex ár þegar Elía skipaði hann arftaka sinn. Hann leit því á Elía sem andlegan föður sinn og var eins og frumgetinn, andlegur sonur hans. (1. Konungabók 19:19-21; 2. Konungabók 2:12) Elísa bað um og fékk tvo hluta af andlegri arfleifð Elía, rétt eins og frumgetinn sonur fékk tvo hluta í föðurarf.

2:11 — Til hvaða „himins“ fór Elía „í stormviðri“? Hér er hvorki átt við fjarlæga hluta alheimsins né hinn andlega bústað Guðs og englasona hans. (5. Mósebók 4:19; Sálmur 11:4; Matteus 6:9; 18:10) ‚Himinninn‘, sem Elía fór til, var einfaldlega andrúmsloftið. (Sálmur 78:26; Matteus 6:26) Hinn eldlegi vagn virðist hafa þotið um andrúmsloft jarðar og flutt Elía til annars svæðis á jörðinni þar sem hann bjó um tíma. Til marks um það má geta þess að Elía skrifaði Jóram Júdakonungi bréf nokkrum árum síðar. — 2. Kroníkubók 21:1, 12-15.

5:15, 16 — Af hverju þáði Elísa ekki gjöf Naamans? Elísa afþakkaði gjöfina vegna þess að hann vissi að kraftaverkið, sem læknaði Naaman, var verk Jehóva en ekki hans sjálfs. Það kom ekki til greina hjá honum að hagnast á því embætti sem Guð hafði skipað hann í. Sannir tilbiðjendur Jehóva reyna ekki að hagnast á þjónustunni við hann heldur taka til sín ábendingu Jesú sem sagði: „Gefins hafið þér fengið, gefins skuluð þér láta í té.“ — Matteus 10:8.

5:18, 19 — Var Naaman að biðjast fyrirgefningar á því að þurfa að taka þátt í trúarathöfn? Sýrlandskonungur var greinilega orðinn gamall og veikburða og þurfti að styðja sig við Naaman. Þegar hann féll fram fyrir Rimmon til að tilbiðja hann varð Naaman að gera það líka. En þegar Naaman féll fram var það einungis gert í þeim tilgangi að styðja við konunginn en ekki til að tilbiðja. Naaman bað Jehóva að fyrirgefa sér að þurfa að vinna þessa borgaralegu skyldu. Elísa trúði Naaman og sagði: „Far þú í friði.“

Lærdómur:

1:13, 14. Við getum bjargað mannslífum með því að læra af því sem fyrir augu ber og sýna auðmýkt.

2:2, 4, 6Elísa vildi ekki yfirgefa Elía þótt hann hefði verið þjónn hans í ein sex ár sem er gott dæmi um hollustu og vináttu. — Orðskviðirnir 18:24.

2:23, 24. Meginástæðan fyrir því að drengirnir hæddust að Elísa virðist hafa verið sú að sköllóttur maður skyldi vera í embættisklæðum Elía. Þeir vissu að Elísa var fulltrúi Jehóva en vildu ekki að hann væri á svæðinu. Þeir sögðu honum að ‚koma upp eftir‘ í þeirri merkingu að hann skyldi halda áfram upp til Betel eða verða hrifinn upp eins og Elía. (Biblíurit, ný þýðing 1993) Drengirnir virðast hafa endurspeglað fjandsamleg viðhorf foreldra sinna. Það er ákaflega mikilvægt að foreldrar kenni börnunum að virða fulltrúa Guðs!

3:14, 18, 24. Orð Jehóva rætist alltaf.

3:22. Endurkast morgunsólarinnar blekkti Móabíta þannig að þeim sýndist vatnið vera blóð. Hugsanlegt er að rauður leir úr nýgröfnum skurðum hafi blandast því og valdið þessari skynvillu. Jehóva getur notað ýmis náttúrufyrirbæri til að hrinda vilja sínum í framkvæmd.

4:8-11Kona í Súnem vissi að Elísa var „heilagur guðsmaður“ og sýndi honum gestrisni. Ættum við ekki að vera gestrisin við trúfasta dýrkendur Jehóva?

5:3. Ísraelska stúlkan trúði að Guð gæti unnið kraftaverk og hafði hugrekki til að segja frá trú sinni. Reynið þið, börn og unglingar, að styrkja trú ykkar á fyrirheit Guðs og taka í ykkur kjark til að segja kennurum og skólafélögum frá sannleikanum?

5:9-19. Er ekki Naaman dæmi um að stoltur maður geti lært auðmýkt? — 1. Pétursbréf 5:5.

5:20-27. Það er dýru verði keypt að reyna að sigla undir fölsku flaggi. Að hugleiða þá ógæfu og það hugarangur, sem fylgir tvöföldu líferni, er okkur hvatning til að forðast það.

ÍSRAELS- OG JÚDAMENN FARA Í ÚTLEGÐ

(2. Konungabók 9:1–25:30)

Jehú er smurður til konungs yfir Ísrael. Hann bíður ekki boðanna heldur útrýmir ætt Akabs. Hann ‚útrýmir allri Baalsdýrkun í Ísrael‘. (2. Konungabók 10:28) Þegar Atalía, móðir Ahasía, kemst að raun um að Jehú er búinn að drepa son hennar ‚fer hún til og lætur drepa alla konungsætt Júda‘ og sölsar undir sig hásætið. (2. Konungabók 11:1) Enginn kemst undan nema Jóas, sonur Ahasía, sem er á barnsaldri. Hann er skipaður konungur í Júda eftir að hafa verið sex ár í felum. Jóas hafði notið kennslu Jójada prests svo að hann gerir það sem er rétt í augum Jehóva.

Allir konungar Ísraels eftir daga Jehús gera það sem er illt í augum Jehóva. Elísa tekur sótt og deyr í valdatíð sonarsonar Jehús. Akas er fjórði konungurinn í Júda á eftir Jóasi en hann ‚gerði ekki það sem rétt var í augum Drottins‘. (2. Konungabók 16:1, 2) Hiskía, sonur hans, ‚hélt sér hins vegar fast við Drottin‘. (2. Konungabók 17:20; 18:6) Salmaneser Assýríukonungur ‚vinnur Samaríu og herleiðir Ísrael til Assýríu‘ árið 740 f.Kr., meðan Hiskía er við völd í Júda og Hósea í Ísrael. (2. Konungabók 17:6) Í kjölfarið eru útlendingar fluttir inn á svæði Ísraels og samverska trúin verður til.

Af sjö Júdakonungum eftir daga Hiskía er Jósía sá eini sem leggur sig fram um að hreinsa landið af falskri guðsdýrkun. Babýloníumenn taka svo Jerúsalem árið 607 f.Kr. og ‚Júda er herleiddur úr landi sínu‘. — 2. Konungabók 25:21.

Biblíuspurningar og svör:

13:20, 21 — Styður þetta kraftaverk dýrkun helgra dóma? Nei, hvergi er vísbending um það í Biblíunni að bein Elísa hafi verið dýrkuð. Þetta kraftaverk varð vegna máttar Guðs, rétt eins og kraftaverkin sem Elísa vann í lifanda lífi.

15:1-6 — Af hverju sló Jehóva Asaría (öðru nafni Ússía) holdsveiki? „Er [Ússía] var voldugur orðinn, varð hann drembilátur . . . og braut á móti Drottni, Guði sínum, er hann gekk inn í musteri Drottins til þess að brenna reykelsi á reykelsisaltarinu.“ Þegar prestarnir „stóðu í móti Ússía“ og sögðu honum að fara „út úr helgidóminum“ reiddist hann þeim og var þá sleginn holdsveiki. — 2. Kroníkubók 26:16-20.

18:19-21, 25 — Gerði Hiskía bandalag við Egypta? Nei, marskálkur Assýringa fór með rangt mál, rétt eins og þegar hann fullyrti að hann væri kominn samkvæmt „vilja Drottins“ Jehóva. Hiskía var trúfastur og treysti algerlega á Jehóva.

Lærdómur:

9:7, 26. Hinn þungi dómur yfir ætt Akabs sýnir að Jehóva hefur andstyggð á falsguðadýrkun og því að menn úthelli saklausu blóði.

9:20. Það orðspor Jehús að hann væri mikill ökuþór vitnar um hve kostgæfinn hann var að gera verkefni sínu skil. Ert þú álitinn kappsamur boðberi fagnaðarerindisins? — 2. Tímóteusarbréf 4:2.

9:36, 37; 10:17; 13:18, 19, 25; 14:25; 19:20, 32-36; 20:16, 17; 24:13. Við getum treyst að ‚orðið, sem útgengur af munni Jehóva, komi því til vegar sem hann felur því að framkvæma‘. — Jesaja 55:10, 11.

10:15. ‚Múgurinn mikli‘ styður Jesú Krist og andasmurða fylgjendur hans fúslega, eins og Jónadab þáði boð Jehús um að stíga upp í vagninn hjá sér. Jehú táknaði Jesú. — Opinberunarbókin 7:9.

10:30, 31. Enda þótt Jehú hafi ekki þjónað Jehóva óaðfinnanlega í einu og öllu kunni Jehóva að meta það sem hann gerði. ‚Guð er ekki ranglátur. Hann gleymir ekki verki okkar.‘ — Hebreabréfið 6:10.

13:14-19Jóas, sonarsonur Jehús, lagði sig ekki allan fram heldur sló örvunum aðeins þrisvar í jörðina. Hann hlaut því takmarkað gengi í baráttu sinni gegn Sýrlendingum. Jehóva væntir þess að við leggjum okkur heilshugar og kappsamlega fram við það verk sem hann felur okkur.

20:2-6. Jehóva „heyrir bænir“. — Sálmur 65:3.

24:3, 4Jehóva ‚vildi ekki fyrirgefa‘ Júdamönnum vegna blóðskuldar Manasse. Blóð hinna saklausu er heilagt í augum Jehóva. Við megum treysta því að hann hefni saklauss blóðs með því að útrýma þeim sem úthella því. — Sálmur 37:9-11; 145:20.

Bókin er verðmæt fyrir okkur

Jehóva stendur við loforð sín eins og kemur mætavel fram í 2. Konungabók. Útlegð íbúanna í báðum ríkjunum, fyrst Ísraelsmanna og síðan Júdamanna, minnir á hvernig hinn spádómlegi dómur í 5. Mósebók 28:15–29:28 rættist. Síðari Konungabók gefur okkur þá mynd af Elísa spámanni að hann hafi látið sér ákaflega annt um nafn Jehóva og sanna tilbeiðslu. Hiskía og Jósía voru auðmjúkir konungar sem virtu lögmál Guðs.

Þegar við hugleiðum verk og viðhorf konunga, spámanna og annarra, sem sagt er frá í 2. Konungabók, sjáum við í skýru ljósi að hverju við ættum að stefna og hvað við ættum að forðast. (Rómverjabréfið 15:4; 1. Korintubréf 10:11) Já, „orð Guðs er lifandi og kröftugt“. — Hebreabréfið 4:12.

[Rammi/mynd á blaðsíðu 10]

KRAFTAVERK ELÍSA

1. Skiptir vatninu í Jórdan. — 2. Konungabók 2:14.

2. Gerir vatnsuppsprettu Jeríkóborgar heilnæma. — 2. Konungabók 2:19-22.

3. Birnur ráðast á drengi sem hæða spámanninn. — 2. Konungabók 2:23, 24.

4. Veitir hersveitum vatn. — 2. Konungabók 3:16-26.

5. Sér ekkju fyrir matarolíu. — 2. Konungabók 4:1-7.

6. Barnlaus kona í Súnem eignast son. — 2. Konungabók 4:8-17.

7. Reisir dreng upp frá dauðum. — 2. Konungabók 4:18-37.

8. Gerir eitraðan pottrétt heilnæman. — 2. Konungabók 4:38-41.

9. Mettar hundrað menn með 20 brauðum. — 2. Konungabók 4:42-44.

10. Læknar Naaman af holdsveiki. — 2. Konungabók 5:1-14.

11. Gehasí fær holdsveiki Naamans. — 2. Konungabók 5:24-27.

12. Lætur axarblað fljóta. — 2. Konungabók 6:5-7.

13. Lætur þjón sinn sjá vagna englanna. — 2. Konungabók 6:15-17.

14. Slær sýrlenska herinn blindu. — 2. Konungabók 6:18.

15. Veitir sýrlenska hernum sjónina aftur. — 2. Konungabók 6:19-23.

16. Látinn maður lifnar. — 2. Konungabók 13:20, 21.

[Skýringarmynd/myndir á blaðsíðu 12]

KONUNGAR JÚDA OG ÍSRAELS

Sál/Davíð/Salómon: 1117/1077/1037 f.Kr. *

JÚDARÍKIÐ ÁRTAL (F.KR.) ÍSRAELSRÍKIÐ

Rehabeam ․․․․․․ 997 ․․․․․․ Jeróbóam

Abía/Asa ․․․․ 980/978 ․․․․

․․ 976/975/952 ․․ Nadab/Basa/Ela

․․ 951/951/951 ․․ Simrí/Omrí/Tibní

․․․․․․ 940 ․․․․․․ Ahab

Jósafat ․․․․․․ 937 ․․․․․․

․․․․ 920/917 ․․․․ Ahsía/Jóram

Jóram ․․․․․․ 913 ․․․․․․

Ahasía ․․․․․․ 906 ․․․․․․

(Athalía) ․․․․․․ 905 ․․․․․․ Jehú

Jóas ․․․․․․ 898 ․․․․․․

․․․․ 876/859 ․․․․ Jóahas/Jóas

Amasía ․․․․․․ 858 ․․․․․․

․․․․․․ 844 ․․․․․․ Jeróbóam 2.

Asarja (Ússía) ․․․․․․ 829 ․․․․․․

․․ 803/791/791 ․․ Sakaría/Sallúm/Menahem

․․․․ 780/778 ․․․․ Pekaja/Peka

Jótam/Akas ․․․․ 777/762 ․․․․

․․․․․․ 758 ․․․․․․ Hósea

Hiskía ․․․․․․ 746 ․․․․․․

․․․․․․ 740 ․․․․․․ Samaría hernumin

Manasse/Amón/Jósía ․․ 716/661/659 ․․

Jóahas/Jójakím ․․․․ 628/628 ․․․․

Jójakín/Sedekía ․․․․ 618/617 ․․․․

Jerúsalem lögð í rúst ․․․․․․ 607 ․․․․․․

[Neðanmáls]

^ gr. 66 Í sumum tilvikum er örlítil óvissa um fyrsta stjórnarár konunga.

[Mynd á blaðsíðu 8, 9]

Naaman auðmýkti sig og læknaðist fyrir kraft Jehóva.

[Mynd á blaðsíðu 8, 9]

Hvað varð um Elía þegar hann „fór til himins í stormviðri“?