Jehóva hefur talið á þér höfuðhárin
Jehóva hefur talið á þér höfuðhárin
„Ekki fellur einn [spörfugl] til jarðar án vitundar föður yðar. Á yður eru jafnvel höfuðhárin öll talin.“ — MATTEUS 10:29, 30.
1, 2. (a) Af hverju fannst Job að Guð hefði yfirgefið sig? (b) Var Job búinn að snúast gegn Guði? Skýrðu svarið.
„ÉG HRÓPA til þín, en þú svarar ekki, ég stend þarna, en þú starir á mig. Þú ert orðinn grimmur við mig, með krafti handar þinnar ofsækir þú mig.“ Sá sem mælti þessi orð var í mikilli sálarangist og ekki að ófyrirsynju. Hann hafði glatað lífsviðurværi sínu, misst börnin sín og nú hafði lagst á hann sjúkdómur sem veiklaði hann mjög. Maðurinn hét Job og átakanleg lífsreynsla hans var skráð í Biblíuna til að við gætum dregið lærdóm af. — Jobsbók 30:20, 21.
2 Af orðum Jobs mætti ætla að hann hefði snúist gegn Guði en svo var þó ekki. Hann var einfaldlega að lýsa kvölinni í hjarta sér. (Jobsbók 6:2, 3) Hann vissi ekki að það var Satan sem hafði valdið þrengingum hans þannig að hann hélt ranglega að Guð hefði yfirgefið sig. Hann sagði meira að segja við Jehóva: „Hvers vegna byrgir þú auglit þitt og ætlar, að ég sé óvinur þinn?“ * — Jobsbók 13:24.
3. Hvað getur komið upp í hugann þegar við verðum fyrir mótlæti?
3 Stríð, ólga í stjórnmálum, þjóðfélagsumbrot, náttúruhamfarir, elli, sjúkdómar, fátækt og bönn af hálfu stjórnvalda gera að verkum að margir þjónar Jehóva búa við stöðugar þrengingar. Trúlega hefur þú líka orðið fyrir einhvers konar mótlæti. Kannski finnst þér stundum eins og Jehóva ‚byrgi auglit sitt‘ fyrir þér. Þú þekkir orðin í Jóhannesi 3:16: „Svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn.“ En ef þú ert þjáður og engin lausn virðist í sjónmáli spyrðu þig ef til vill: „Elskar Guð mig í raun og veru? Veit hann hvað ég er að ganga í gegnum? Er honum annt um mig?“
4. Hvað þurfti Páll að þola og hvaða áhrif gæti það haft á okkur ef við værum í svipaðri aðstöðu og hann?
4 Páll postuli er dæmi um mann sem varð fyrir mótlæti. „Mér [er] gefinn fleinn í holdið, Satans engill, sem slær mig, til þess að ég skuli ekki hrokast upp,“ skrifaði hann. „Þrisvar hef ég beðið Drottin þess að láta hann fara frá mér.“ Jehóva heyrði áköll hans en lét hann vita að hann myndi ekki leysa hann frá þessu með einhverjum undraverðum hætti. Páll þurfti að reiða sig á mátt Guðs til að þola þennan ‚flein í holdinu‘. * (2. Korintubréf 12:7-9) Þú þarft ef til vill að þola langvinnar prófraunir líkt og Páll. Þér er kannski spurn hvort Jehóva viti ekki af prófraunum þínum eða sé sama um þig fyrst hann virðist ekki hafa gert neitt í málinu. Svarið er afdráttarlaust nei! Jehóva ber mikla umhyggju fyrir öllum trúum þjónum sínum eins og sjá má af því sem Jesús sagði postulunum skömmu eftir að hann valdi þá. Við skulum kanna hvers vegna orð hans eru uppörvandi fyrir okkur.
‚Verið óhræddir‘ — hvers vegna?
5, 6. (a) Hvernig hjálpaði Jesús postulunum að óttast ekki það sem væri fram undan? (b) Hvernig sýndi Páll að hann treysti á umhyggju Jehóva?
5 Postularnir fengu einstakan mátt frá Jesú, þar á meðal „vald yfir óhreinum öndum, að þeir gætu rekið þá út og læknað hvers kyns sjúkdóm og veikindi“. Þetta þýddi þó ekki að þeim yrði hlíft algerlega við prófraunum og erfiðleikum. Jesús lýsti nákvæmlega sumu sem þeir myndu þurfa að þola en hvatti þá: „Hræðist ekki þá, sem líkamann deyða, en fá ekki deytt sálina.“ — Matteus 10:1, 16-22, 28.
6 Jesús brá upp tveim líkingum til að glöggva fyrir postulunum að þeir gætu verið óhræddir. „Eru ekki tveir spörvar seldir fyrir smápening?“ spurði hann. „Og ekki fellur einn þeirra til jarðar án vitundar föður yðar. Á yður eru jafnvel höfuðhárin öll talin. Verið því óhræddir, þér eruð meira verðir en margir spörvar.“ (Matteus 10:29-31) Jesús sagði að við gætum verið óhrædd þótt á móti blési vegna þess að við gætum treyst að Jehóva léti sér annt um okkur hvert og eitt. Greinilegt er að Páll postuli treysti því vegna þess að hann skrifaði: „Ef Guð er með oss, hver er þá á móti oss? Hann sem þyrmdi ekki sínum eigin syni, heldur framseldi hann fyrir oss alla, hví skyldi hann ekki líka gefa oss allt með honum?“ (Rómverjabréfið 8:31, 32) Það skiptir ekki máli hvaða erfiðleikar verða á vegi þínum vegna þess að þú getur treyst að Jehóva lætur sér annt um þig persónulega, svo framarlega sem þú ert honum trúr. Við sjáum þetta enn skýrar ef við lítum nánar á það sem Jesús sagði við postulana.
Hvers virði voru spörvarnir?
7, 8. (a) Hvernig voru spörvar metnir á dögum Jesú? (b) Af hverju er notað smækkunarorð fyrir spörva í gríska textanum í Matteusi 10:29?
7 Líkingarnar, sem Jesús notaði, lýsa vel umhyggju Jehóva fyrir þjónum sínum. Lítum fyrst á spörvana. Spörvar voru notaðir til matar á dögum Jesú en voru að jafnaði álitnir skaðvaldar því að þeir spilltu uppskeru. Svo algengir voru þeir og ódýrir að hægt var að kaupa tvo fyrir minna en þrjár krónur að núvirði. Fyrir tvöfalda þá upphæð fengust fimm spörvar en ekki fjórir. Sá fimmti fylgdi með í kaupbæti rétt eins og hann væri verðlaus. — Lúkas 12:6.
Matteusi 10:29, er meira að segja notað um litla spörva þannig að Jesús vildi greinilega að postularnir sæju fyrir sér smæsta og ómerkilegasta fugl sem þeir gátu. „Jesús nefnir ósköp smáan fugl og notar meira að segja smækkunarorð,“ eins og segir í heimildarriti.
8 Ekki var þetta heldur stór né matarmikill fugl. Jafnvel fullvaxinn spörfugl er ósköp smár í samanburði við marga aðra fugla. Gríska orðið, sem er þýtt „spörvar“ í9. Hverju kemur Jesús skýrt til skila með samlíkingunni við spörvana?
9 Með samlíkingunni við spörvana kemur Jesús því skýrt á framfæri að sumt sem er einskis virði í augum manna er verðmætt í augum Jehóva. Jesús undirstrikaði þetta þegar hann bætti við að Jehóva taki eftir einum spörfugli sem fellur til jarðar. * Lærdómurinn er skýr. Fyrst Jehóva Guð gefur gaum að smæsta og ómerkilegasta fugli hlýtur hann að láta sér mjög annt um bágindi manns sem hefur ákveðið að þjóna honum.
10. Hvaða þýðingu hafa orðin: „Á yður eru jafnvel höfuðhárin öll talin“?
10 Eftir að hafa nefnt spörvana sagði Jesús: „Á yður eru jafnvel höfuðhárin öll talin.“ (Matteus 10:30) Með þessari stuttu en innihaldsríku athugasemd leggur Jesús enn meiri áherslu á samlíkinguna við spörvana. Á mannshöfði eru að meðaltali um 100.000 hár. Flest virðast hver öðru lík og ekkert eitt virðist verðskulda neina sérstaka athygli. En Jehóva Guð tekur eftir hverju hári og telur það. Er þá nokkuð í fari okkar eða lífi sem Jehóva veit ekki af? Hann skilur greinilega hvernig þjónar hans eru úr garði gerðir, hver og einn. Hann „lítur á hjartað“. — 1. Samúelsbók 16:7.
11. Hvernig lét Davíð í ljós að hann treysti að Jehóva bæri umhyggju fyrir honum persónulega?
11 Davíð konungur kynntist ýmiss konar þjáningum á lífsleiðinni en treysti að Jehóva gæfi gaum að honum. „Drottinn, þú rannsakar og þekkir mig,“ orti hann. „Hvort sem ég sit eða stend, þá veist þú það, þú skynjar hugrenningar mínar álengdar.“ (Sálmur 139:1, 2) Þú mátt líka treysta að Jehóva þekki þig persónulega. (Jeremía 17:10) Ályktaðu ekki í fljótfærni að þú sért of ómerkilegur til að alsjáandi augu Jehóva taki eftir þér.
„Tárum mínum er safnað í sjóð þinn“
12. Hvernig vitum við að Jehóva er fullkunnugt um það mótlæti sem fólk hans verður fyrir?
12 Jehóva þekkir ekki aðeins þjóna sína persónulega heldur er honum líka fullkunnugt um það mótlæti sem hver og einn þarf að þola. Þegar Ísraelsmenn voru kúgaðir og þrælkaðir sagði hann við Móse: „Ég hefi sannlega séð ánauð þjóðar minnar í Egyptalandi og heyrt hversu hún kveinar undan þeim, sem þrælka hana; ég veit, hversu bágt hún á.“ (2. Mósebók 3:7) Það er hughreystandi til að vita að Jehóva skuli sjá hvað er að gerast og heyra áköll okkar þegar við eigum í prófraunum. Honum stendur alls ekki á sama um þjáningar okkar.
13. Hvað sýnir að Jehóva finnur til með þjónum sínum?
13 Að Jehóva skyldi finna til með Ísraelsmönnum sýnir einnig að honum er annt um þá sem eiga samband við hann. Enda þótt þeir gætu oft kennt eigin þrjósku um þjáningar sínar skrifaði Jesaja um Jehóva: „Ávallt þegar þeir voru í nauðum staddir, kenndi hann nauða.“ (Jesaja 63:9) Sem trúfastur þjónn Jehóva geturðu verið viss um að hann finnur til með þér þegar þú þjáist. Finnst þér það ekki vera hvatning til að taka mótlæti óttalaust og halda áfram að gera þitt besta til að þjóna honum? — 1. Pétursbréf 5:6, 7.
14. Við hvaða aðstæður orti Davíð Sálm 56?
14 Davíð konungur var sannfærður um að Jehóva léti sér annt um hann og fyndi til með honum. Þetta má sjá af Sálmi 56 sem Davíð orti þegar hann var á flótta undan Sál konungi en Sál vildi hann feigan. Davíð komst undan til Gat en óttaðist að Filistar myndu handtaka hann þegar þeir báru kennsl á hann. Hann orti: „Fjandmenn mínir kremja mig liðlangan daginn, því að margir eru þeir, sem berjast gegn mér.“ Davíð leitaði til Jehóva sökum þeirrar hættu sem hann var í. „Þeir spilla málefnum mínum án afláts, allt það er þeir hafa hugsað í gegn mér, er til ills,“ kvað hann. — Sálmur 56:3, 6.
15. (a) Hvað átti Davíð við þegar hann bað Jehóva að safna tárum sínum í sjóð eða rita þau í bók? (b) Hverju getum við treyst þegar reynir verulega á trú okkar?
15 Síðan segir Davíð þessi forvitnilegu orð í Sálmi 56:9: „Þú hefir talið hrakninga mína, tárum mínum er safnað í sjóð þinn, já, rituð í bók þína.“ Er þetta ekki hrífandi lýsing á umhyggju Jehóva? Við áköllum kannski Jehóva með tárum þegar við erum undir álagi. Jesús gerði það þótt fullkominn væri. (Hebreabréfið 5:7) Davíð var sannfærður um að Jehóva hefði auga með honum og minntist þjáninga hans. Það var rétt eins og Jehóva safnaði tárum hans í sjóð eða ritað þau í bók. Þér finnst ef til vill að tár þín myndu duga í gildan sjóð eða fylla margar síður í slíkri bók. Ef svo er geturðu látið huggast vegna þess að Biblían segir: „Drottinn er nálægur þeim er hafa sundurmarið hjarta, þeim er hafa sundurkraminn anda, hjálpar hann.“ — Sálmur 34:19.
Náið samband við Guð
16, 17. (a) Hvernig vitum við að Jehóva stendur ekki á sama um þau vandamál sem þjónar hans eiga við að glíma? (b) Hvað hefur Jehóva gert til að þjónar hans geti átt náið samband við hann?
16 Að Jehóva skuli hafa ‚talið á okkur höfuðhárin‘ gefur vissa hugmynd um hve athugull og umhyggjusamur sá Guð er sem við fáum að tilbiðja. Þó að það sé ekki fyrr en í nýja heiminum sem allar þjáningar og kvalir hverfa er það stórfenglegt sem Jehóva Sálmur 25:14.
gerir fyrir þjóna sína nú þegar. Davíð skrifaði: „Drottinn sýnir trúnað þeim er óttast hann, og sáttmála sinn gjörir hann þeim kunnan.“ —17 Jehóva sýnir þjónum sínum „trúnað“. Þeir eru „aldavinir“ hans. (Biblían 1859) Þetta virðist næstum ofvaxið skilningi ófullkominna manna en sannleikurinn er sá að Jehóva býður þeim sem óttast hann að gista í tjaldi sínu. (Sálmur 15:1-5) Og hvað gerir Jehóva fyrir gesti sína? Hann gerir þeim sáttmála sinn kunnan, að sögn Davíðs. Hann segir þjónum sínum og spámönnum frá „ráðsályktun“ sinni þannig að þeir þekki fyrirætlun hans og viti hvað þeir þurfa að gera til að lifa í samræmi við hana. — Amos 3:7.
18. Hvernig vitum við að Jehóva vill að við eigum náið samband við sig?
18 Það er uppörvandi til þess að vita að við, ófullkomnir menn, getum verið nánir vinir hins hæsta, Jehóva Guðs. Hann hvetur okkur meira að segja til þess. „Nálægið yður Guði, og þá mun hann nálgast yður,“ segir Biblían. (Jakobsbréfið 4:8) Jehóva vill að við eigum náið samband við sig og hefur gert ráðstafanir til þess. Lausnarfórn Jesú gerir okkur kleift að eiga vináttusamband við alvaldan Guð. „Vér elskum, því að hann elskaði oss að fyrra bragði,“ segir Biblían. — 1. Jóhannesarbréf 4:19.
19. Hvernig getur þolgæði styrkt samband okkar við Jehóva?
19 Þetta nána samband styrkist þegar við þurfum að sýna þolgæði í mótlæti og erfiðleikum. Lærisveinninn Jakob skrifaði: „Þolgæðið á að birtast í fullkomnu verki, til þess að þér séuð fullkomnir og algjörir og yður sé í engu ábótavant.“ (Jakobsbréfið 1:4) Hvaða ‚verk‘ er unnið ef við erum þolgóð þegar á móti blæs? Páll sagðist vera með ‚flein í holdinu‘. Hverju áorkaði þolgæði hans? Hann segir um prófraunir sínar: „Því vil ég helst hrósa mér af veikleika mínum, til þess að kraftur Krists megi taka sér bústað í mér. Þess vegna uni ég mér vel í veikleika, í misþyrmingum, í nauðum, í ofsóknum, í þrengingum vegna Krists. Þegar ég er veikur, þá er ég máttugur.“ (2. Korintubréf 12:9, 10) Páll kynntist því af eigin raun að Jehóva veitir okkur þann kraft sem við þurfum á að halda — „ofurmagn kraftarins“ ef þörf krefur — til að geta verið þolgóð. Það styrkti síðan samband hans við Krist og Jehóva Guð. — 2. Korintubréf 4:7; Filippíbréfið 4:11-13.
20. Hvers vegna getum við treyst að Jehóva styðji okkur og hughreysti þegar á móti blæs?
20 Kannski hefur Jehóva leyft að þú gangir gegnum langvinnar prófraunir. Þá skaltu hafa í huga loforð hans við þá sem óttast hann: „Ég mun ekki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig.“ (Hebreabréfið 13:5) Þú getur fengið stuðning hans og huggun. Hann hefur ‚talið á þér höfuðhárin‘. Hann sér þolgæði þitt. Hann finnur fyrir sársauka þínum. Hann lætur sér innilega annt um þig. Og hann mun aldrei ‚gleyma verki þínu og kærleikanum sem þú auðsýndir nafni hans‘. — Hebreabréfið 6:10.
[Neðanmáls]
^ gr. 2 Trúfastir og réttlátir menn eins og Davíð og synir Kóra létu svipuð orð falla. — Sálmur 10:1; 44:25.
^ gr. 4 Biblían lætur ósagt hver þessi ‚fleinn í holdinu‘ var. Hugsanlegt er að þetta hafi verið einhver líkamlegur kvilli, svo sem sjóndepra. Einnig má vera að ‚fleinninn í holdinu‘ hafi verið falspostular og aðrir sem véfengdu postuladóm Páls og deildu á boðun hans. — 2. Korintubréf 11:6, 13-15; Galatabréfið 4:15; 6:11.
^ gr. 9 Sumir fræðimenn telja að með orðalaginu ‚falla til jarðar‘ sé ekki aðeins átt við að spörfugl deyi. Þeir segja að orðalag frummálsins geti merkt að fugl setjist á jörðina í fæðuleit. Ef það er rétt merkir það að Guð gefi gaum að daglegu amstri fuglsins, ekki aðeins dauða hans. — Matteus 6:26.
Manstu?
• Hvað getur orðið þess valdandi að einhverjum finnist Guð hafa yfirgefið sig?
• Hvað lærum við af líkingu Jesú við spörvana og því að höfuðhárin á okkur skuli vera talin?
• Hvað merkir það að Jehóva safni tárum okkar „í sjóð“ eða skrái þau í „bók“?
• Hvernig getum við átt náið samband við Jehóva?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 24]
Af hverju fjarlægði Jehóva ekki ‚fleininn‘ í holdi Páls?
[Mynd á blaðsíðu 25]
Hvað má læra af líkingu Jesú við spörvana?
[Rétthafi]
© J. Heidecker/VIREO
[Mynd á blaðsíðu 26]
Með því að lesa reglulega í Biblíunni fáum við vissu fyrir því að Guð láti sér annt um okkur persónulega.