Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Breytum eins og Jesús Kristur breytti

Breytum eins og Jesús Kristur breytti

Breytum eins og Jesús Kristur breytti

„Þeim sem segist vera stöðugur í [Guði], honum ber sjálfum að breyta eins og [Jesús] breytti.“ — 1. JÓHANNESARBRÉF 2:6.

1, 2. Hvað felst í því að beina sjónum sínum til Jesú?

„ÞREYTUM þolgóðir skeið það, sem vér eigum framundan,“ skrifaði Páll postuli. „Beinum sjónum vorum til Jesú, höfundar og fullkomnara trúarinnar.“ (Hebreabréfið 12:1, 2) Við verðum að beina sjónum okkar til Jesú Krists ef við ætlum að vera trúföst.

2 Þegar frummálsorðið, sem þýtt er „beinum sjónum vorum“, er notað í Grísku ritningunum þýðir það „að beina athygli sinni að, án truflunar,“ „líta af einu til að sjá annað,“ „festa augu á“. Í heimildarriti segir: „Um leið og gríski hlauparinn á íþróttavellinum beinir athygli sinni frá hlaupabrautinni og markinu sem hann stefnir að og lítur á áhorfendur, hægir hann á sér. Þannig er það líka hjá kristnum manni.“ Truflanir geta hindrað framfarir okkar í trúnni. Við verðum að beina sjónum okkar til Jesú Krists. En hverju horfum við eftir í fari Jesú, ‚höfundar trúarinnar‘? Gríska orðið, sem þýtt er ‚höfundur‘, merkir „leiðtogi, sá sem tekur forystuna í einhverju og er öðrum fyrirmynd“. Að beina sjónum sínum til Jesú þýðir því að fylgja fyrirmynd hans.

3, 4. (a) Hvað þurfum við að gera til að breyta eins og Jesús Kristur breytti? (b) Hvaða spurningar verðskulda athygli okkar?

3 „Þeim sem segist vera stöðugur í [Guði], honum ber sjálfum að breyta eins og [Jesús] breytti,“ segir í Biblíunni. (1. Jóhannesarbréf 2:6) Við verðum að vera stöðug í Guði með því að halda boðorð Jesú eins og hann hélt boðorð föður síns. — Jóhannes 15:10.

4 Ef við viljum breyta eins og Jesús breytti verðum við að fylgja honum sem leiðtoga og feta vandlega í fótspor hans. Í þessu sambandi er mikilvægt að hugleiða eftirfarandi spurningar: Hvernig leiðir Kristur okkur nú á dögum? Hvernig hegðum við okkur ef við líkjum eftir honum? Hvernig njótum við góðs af því að fylgja fyrirmynd hans?

Hvernig leiðir Kristur fylgjendur sína?

5. Hverju lofaði Jesús fylgjendum sínum áður en hann steig upp til himna?

5 Áður en hinn upprisni Jesús Kristur steig upp til himna birtist hann lærisveinunum og fól þeim mikilvægt verkefni. Hann sagði: „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum.“ Við þetta tækifæri lofaði hann líka að vera með þeim þegar þeir sinntu þessu verkefni og sagði: „Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“ (Matteus 28:19, 20) Hvernig er Jesús Kristur með fylgjendum sínum núna á tímum endaloka þessa heimskerfis?

6, 7. Hvernig leiðir Jesús okkur fyrir milligöngu heilags anda?

6 Jesús sagði: „Hjálparinn, andinn heilagi, sem faðirinn mun senda í mínu nafni, mun kenna yður allt og minna yður á allt það, sem ég hef sagt yður.“ (Jóhannes 14:26) Heilagi andinn, sem er sendur í nafni Jesú, leiðbeinir okkur og styrkir. Hann varpar ljósi á trúarleg atriði og hjálpar okkur að skilja „jafnvel djúp Guðs“. (1. Korintubréf 2:10) Guðrækilegir eiginleikar eins og „kærleikur, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og bindindi [„sjálfstjórn,“ NW],“ eru „ávöxtur andans“. (Galatabréfið 5:22, 23) Við getum tamið okkur þessa eiginleika með hjálp heilags anda.

7 Þegar við rannsökum Ritninguna og leitumst við að fylgja því sem við lærum hjálpar andi Jehóva okkur að þroska með okkur visku, hyggindi, skynsemi, þekkingu, ráðvendi og aðgætni. (Orðskviðirnir 2:1-11) Heilagur andi hjálpar okkur líka að standast freistingar og vera þolgóð í prófraunum. (1. Korintubréf 10:13; 2. Korintubréf 4:7; Filippíbréfið 4:13) Kristnir menn eru hvattir til að hreinsa sig „af allri saurgun á líkama og sál“ og fullkomna helgun sína. (2. Korintubréf 7:1) Gætum við staðist kröfu Guðs um heilagleika eða hreinleika án hjálpar heilags anda? Jesús leiðir okkur meðal annars með heilögum anda sem Jehóva Guð hefur gefið honum umboð til að nota. — Matteus 28:18.

8, 9. Hvernig notar Kristur hinn trúa og hyggna þjón til að leiða söfnuðinn?

8 Við skulum skoða aðra aðferð sem Kristur notar til að leiða söfnuðinn. Þegar hann var að tala um nærveru sína og endalok þessa heimskerfis sagði hann: „Hver er sá trúi og hyggni þjónn, sem húsbóndinn hefur sett yfir hjú sín að gefa þeim mat á réttum tíma? Sæll er sá þjónn, er húsbóndinn finnur breyta svo, er hann kemur. Sannlega segi ég yður: Hann mun setja hann yfir allar eigur sínar.“ — Matteus 24:3, 45-47.

9 „Húsbóndinn“ er Jesús Kristur. ‚Þjónninn‘ eru smurðir kristnir menn á jörðinni sem hópur. Þessum þjónshópi er falið að annast jarðneska hagsmuni Jesú og veita tímabæra andlega fæðu. Fámennur hópur hæfra umsjónarmanna af hinum trúa og hyggna þjóni myndar hið stjórnandi ráð og þjónar sem fulltrúi þjónshópsins. Þeir stýra alþjóðlega prédikunarstarfinu og sjá til þess að við fáum andlega fæðu á réttum tíma. Þannig leiðir Kristur söfnuðinn fyrir milligöngu hins andasmurða trúa og hyggna þjóns og stjórnandi ráðs hans.

10. Hvernig ættum við að líta á öldungana og hvers vegna?

10 Kristnir öldungar eða umsjónarmenn eru gjafir í mönnum og vitna einnig um forystu Krists. Verkefni þeirra er að „fullkomna hina heilögu og láta þeim þjónustu í té, líkama Krists til uppbyggingar“. (Efesusbréfið 4:8, 11, 12) Hebreabréfið 13:7 segir: „Verið minnugir leiðtoga yðar, sem Guðs orð hafa til yðar talað. Virðið fyrir yður, hvernig ævi þeirra lauk, og líkið eftir trú þeirra.“ Öldungarnir taka forystuna í söfnuðinum. Þar sem þeir líkja eftir Jesú Kristi verður trú þeirra eftirbreytnisverð. (1. Korintubréf 11:1) Við getum sýnt þakklæti fyrir öldungafyrirkomulagið með því að vera öldungunum hlýðin og undirgefin. — Hebreabréfið 13:17.

11. Hvernig leiðir Jesús fylgjendur sína nú á dögum og hvað er fólgið í því að breyta eins og hann breytti?

11 Já, Jesús Kristur leiðir fylgjendur sína nú á dögum fyrir milligöngu heilags anda, hins trúa og hyggna þjóns og safnaðaröldunga. Við verðum að skilja hvernig Kristur leiðir okkur og lúta þeirri leiðsögn til að breyta eins og hann breytti. Við verðum að feta í fótspor hans. „Til þessa eruð þér kallaðir,“ sagði Pétur postuli. „Því að Kristur leið einnig fyrir yður og lét yður eftir fyrirmynd, til þess að þér skylduð feta í hans fótspor.“ (1. Pétursbréf 2:21) En hvernig hegðum við okkur ef við fylgjum fullkomnu fordæmi hans?

Sýnum sanngirni þegar við förum með vald

12. Á hvaða sviði hafa safnaðaröldungar sérstakan áhuga á að fylgja fyrirmynd Krists?

12 Þó að Jesús hafi fengið óviðjafnanlegt vald frá föður sínum beitti hann því á sanngjarnan hátt. Allir í söfnuðinum — og þá sérstaklega öldungarnir — ættu að vera „sanngjarnir“. (Títusarbréfið 3:1, 2; 1. Tímóteusarbréf 3:2, 3) Þar sem öldungarnir fara með visst vald í söfnuðinum er nauðsynlegt að þeir beiti því í samræmi við fordæmi Jesú.

13, 14. Hvernig geta öldungar líkt eftir Kristi þegar þeir hvetja aðra til að þjóna Guði?

13 Jesús virti takmörk lærisveinanna. Hann krafðist ekki meira af þeim en þeir gátu gefið. (Jóhannes 16:12) Hann hvatti fylgjendur sína til að ‚kosta kapps‘ um að gera vilja Guðs án þess þó að þrýsta of mikið á þá. (Lúkas 13:24) Það gerði hann með því að taka forystuna og höfða til hjartna þeirra. Öldungar kúga fólk ekki heldur til að þjóna Guði vegna sektarkenndar heldur hvetja það til að þjóna honum vegna kærleika til hans og til Jesú og náungans. — Matteus 22:37-39.

14 Jesús misnotaði ekki valdið sem honum var gefið. Hann reyndi ekki að stjórna lífi fólks. Hann gerði hvorki óraunhæfar kröfur né setti endalausar reglur. Hann hvatti aðra með því að snerta hjarta þeirra og nota meginreglurnar að baki lögmáli Móse. (Matteus 5:27, 28) Öldungarnir líkja eftir Jesú Kristi og forðast að setja gerræðislegar reglur eða ganga hart eftir því að persónulegum skoðunum þeirra sé framfylgt. Í málum, sem tengjast klæðaburði og snyrtingu eða skemmtun og afþreyingu, reyna öldungarnir að höfðu til hjartans og nota biblíulegar meginreglur eins og þær sem er að finna í Míka 6:8, 1. Korintubréfi 10:31-33 og 1. Tímóteusarbréfi 2:9, 10.

Verum skilningsrík og fús til að fyrirgefa

15. Hvernig brást Jesús við þegar lærisveinarnir gerðu mistök?

15 Viðbrögð Jesú, þegar lærsveinar hans gerðu mistök, eru okkur til fyrirmyndar. Við skulum skoða tvö atvik sem áttu sér stað síðasta kvöldið sem hann var á jörðinni sem maður. Eftir að Jesús og lærisveinarnir komu í Getsemanegarðinn tók hann „með sér þá Pétur, Jakob og Jóhannes“ og sagði þeim: „Bíðið hér og vakið.“ Síðan „gekk hann lítið eitt áfram, féll til jarðar og bað“. Hann kemur síðan aftur og „finnur þá sofandi“. Hvernig brást hann við? Hann sagði: „Andinn er reiðubúinn, en holdið veikt.“ (Markús 14:32-38) Í stað þess að ávíta þá var hann skilningsríkur. Þessa sömu nótt afneitaði Pétur honum þrisvar. (Markús 14:66-72) Hvernig kom Jesús fram við Pétur eftir það? ‚Drottinn reis upp og birtist Símoni [Pétri].‘ (Lúkas 24:34) „Hann birtist Kefasi, síðan þeim tólf,“ segir í Biblíunni. (1. Korintubréf 15:5) Í stað þess að fyllast gremju fyrirgaf Jesús iðrandi postulanum og styrkti hann. Síðar fól hann honum mikla ábyrgð. — Postulasagan 2:14; 8:14-17; 10:44, 45.

16. Hvernig getum við breytt eins og Jesús breytti þegar trúsystkini valda okkur vonbrigðum eða gera eitthvað á okkar hlut?

16 Þegar trúsystkini okkar valda okkur vonbrigðum eða gera eitthvað á okkar hlut vegna mannlegs ófullkomleika, ættum við þá ekki líka að vera skilningsrík og fús til að fyrirgefa eins og Jesús? Pétur hvatti trúsystkini sín: „Verið allir samhuga, hluttekningarsamir, bróðurelskir, miskunnsamir, auðmjúkir. Gjaldið ekki illt fyrir illt eða illmæli fyrir illmæli, heldur þvert á móti blessið, því að þér eruð til þess kallaðir að erfa blessunina.“ (1. Pétursbréf 3:8, 9) En hvað gerum við ef einhver kemur ekki fram við okkur eins og Jesús hefði gert heldur neitar að vera skilningsríkur og fús til að fyrirgefa? Þá erum við samt skyldug til að reyna að líkja eftir Jesú og bregðast við eins og hann hefði gert. — 1. Jóhannesarbréf 3:16.

Látum andleg mál ganga fyrir

17. Hvað sýnir að Jesús lét það að gera vilja Guðs hafa forgang í lífi sínu?

17 Við þurfum líka að breyta eins og Jesús Kristur breytti á öðru sviði. Boðun fagnaðarerindisins um Guðsríki hafði forgang í lífi hans. Eftir að hann hafði prédikað fyrir samversku konunni nálægt boginni Síkar í Samaríu sagði hann lærisveinunum: „Minn matur er að gjöra vilja þess, sem sendi mig, og fullna verk hans.“ (Jóhannes 4:34) Það að gera vilja föður síns styrkti Jesú. Það nærði hann og hressti eins og hollur matur. Ef við líkjum eftir Jesú og einbeitum okkur að því að gera vilja Guðs mun það svo sannarlega gera líf okkar innihaldsríkt og ánægjulegt.

18. Hvaða blessun fylgir því að hvetja börnin til að þjóna í fullu starfi?

18 Þegar foreldrar hvetja börnin sín til að þjóna í fullu starfi hljóta bæði þeir og börnin mikla blessun. Faðir tvíburadrengja hvatti syni sína til að stefna að brautryðjandastarfi frá því að þeir voru mjög ungir. Eftir að tvíburarnir kláruðu skólagönguna gerðust þeir brautryðjendur. Faðirinn segir frá þeirri gleði sem hann hefur notið í kjölfarið: „Drengirnir okkar hafa ekki valdið okkur vonbrigðum. Við getum þakklát sagt: ‚Synir eru gjöf frá Drottni.‘“ (Sálmur 127:3) En hvernig njóta börnin góðs af því að sækjast eftir þjónustu í fullu starfi? Fimm barna móðir segir: „Brautryðjandastarfið hefur hjálpað öllum börnunum mínum að eignast mun nánara samband við Jehóva, bætt biblíunámsvenjur þeirra, kennt þeim að skipuleggja tímann skynsamlega og láta andleg mál ganga fyrir í lífinu. Þótt þau hafi öll þurft að breyta mörgu í lífi sínu sér ekkert þeirra eftir því að hafa valið þessa lífsstefnu.“

19. Hvaða markmið er viturlegt fyrir unglinga að setja sér?

19 Unglingar, hvað ætlið þið að gera í framtíðinni? Sækist þið eftir starfsframa í heiminum? Eða stefnið þið að því að þjóna í fullu starfi? Páll sagði: „Hafið því nákvæma gát á, hvernig þér breytið, ekki sem fávísir, heldur sem vísir. Notið hverja stund, því að dagarnir eru vondir.“ Síðan bætti hann við: „Verið því ekki óskynsamir, heldur reynið að skilja, hver sé vilji Drottins.“ — Efesusbréfið 5:15-17.

Sýnum hollustu

20, 21. Hvernig sýndi Jesús hollustu og hvernig getum við líkt eftir hollustu hans?

20 Við verðum að líkja eftir hollustu Jesú til að breyta eins og hann breytti. Í Biblíunni segir um hollustu hans: „Hann var í Guðs mynd. En hann fór ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur. Hann svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd og varð mönnum líkur. Hann kom fram sem maður, lægði sjálfan sig og varð hlýðinn allt til dauða, já, dauðans á krossi [kvalastaur, NW].“ Jesús sýndi hollustu og upphóf drottinvald Jehóva með því að beygja sig undir það sem Jehóva vildi að hann gerði. Hann var svo hlýðinn að hann var fús til að deyja á kvalastaur. Við verðum að vera með „sama hugarfari“ og lúta vilja Guðs trúfastlega. — Filippíbréfið 2:5-8.

21 Jesús sýndi trúföstum lærisveinum sínum líka hollustu. Hann „elskaði þá, uns yfir lauk“ þrátt fyrir veikleika þeirra og ófullkomleika. (Jóhannes 13:1) Við ættum ekki heldur að láta ófullkomleika bræðra okkar gera okkur gagnrýnin.

Fylgjum fordæmi Jesú

22, 23. Hvernig er það okkur til góðs að fylgja fordæmi Jesú?

22 Þar sem við erum ófullkomin getum við auðvitað ekki fetað nákvæmlega í fótspor Jesú, sem var fullkominn, en við getum lagt okkur fram um að fylgja fyrirmynd hans vandlega. Til að gera það verðum við að skilja hvernig leiðtogi Jesús Kristur var og fylgja fordæmi hans.

23 Við hljótum mikla blessun með því að vera eftirbreytendur Krists. Líf okkar verður innihaldsríkara og ánægjulegra því að við einbeitum okkar að því að gera vilja Guðs en ekki okkar eigin. (Jóhannes 5:30; 6:38) Við höfum góða samvisku og breytni okkar verður til fyrirmyndar. Jesús bauð öllum sem erfiði hafa og þungar byrgðar að koma til sín og finna hvíld sálum sínum. (Matteus 11:28-30) Þegar við fylgjum fordæmi Jesú getum við líka haft þannig áhrif á þá sem við umgöngumst. Við skulum því halda áfram að breyta eins og Jesús breytti.

Manstu?

• Hvernig leiðir Kristur fylgjendur sína nú á dögum?

• Hvernig geta öldungar fylgt fordæmi Krists þegar þeir fara með það vald sem Guð hefur gefið þeim?

• Hvernig getum við fylgt fordæmi Jesú þegar við verðum vör við ófullkomleika annarra?

• Hvernig geta unglingar látið andleg mál ganga fyrir í lífinu?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 29]

Safnaðaröldungar hjálpa okkur að fylgja forystu Krists.

[Myndir á blaðsíðu 30, 31]

Unglingar, hverju stefnið þið að svo þið getið lifað ánægjuleg kristnu lífi?