Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Höfuðþættir 1. Kroníkubókar

Höfuðþættir 1. Kroníkubókar

Orð Jehóva er lifandi

Höfuðþættir 1. Kroníkubókar

UM 77 ár eru liðin síðan Gyðingar komu heim úr útlegðinni í Babýlon. Musterið, sem Serúbabel landstjóri reisti, er búið að standa í 55 ár. Meginástæðan fyrir því að Gyðingar fengu að snúa heim var sú að þeir áttu að endurvekja sanna tilbeiðslu í Jerúsalem. En áhuginn á tilbeiðslunni er dræmur. Það þarf að örva áhuga þjóðarinnar á því að tilbiðja Jehóva og það er einmitt hlutverk 1. Kroníkubókar.

Fyrri Kroníkubók inniheldur ættarskrár en spannar auk þess um það bil 40 ára sögu, frá því að Sál konungur deyr fram til dauða Davíðs konungs. Talið er að Esra prestur hafi skrifað bókina árið 460 f.Kr. Bókin er áhugaverð fyrir okkur vegna þess að hún veitir góða innsýn í tilbeiðsluna sem fram fór í musterinu og gefur upplýsingar um ættartölu Messíasar. Hún er hluti af innblásnu orði Guðs og hún styrkir trúna og skerpir skilning okkar á Biblíunni. — Hebreabréfið 4:12.

MIKILVÆGAR NAFNASKRÁR

(1. Kroníkubók 1:1–9:44)

Hinar ítarlegu ættartölur, sem Esra tók saman, voru nauðsynlegar að minnsta kosti af þrem ástæðum. Þær tryggðu að einungis réttbornir menn gegndu prestsþjónustu, auðvelduðu mönnum að úrskurða um erfðamál innan ættflokka og varðveittu ættartölu Messíasar. Ættartölurnar ná allt aftur til fyrsta mannsins og tengdu Gyðinga við fortíðina. Frá Adam til Nóa eru tíu ættliðir og aðrir tíu til Abrahams. Eftir að hafa talið upp syni Ísmaels, syni Abrahams með hjákonunni Ketúru og syni Esaús er athyglinni beint að ættarskrám hinna 12 sona Ísraels. — 1. Kroníkubók 2:1.

Fjallað er mjög ítarlega um afkomendur Júda því að konungsætt Davíðs er af honum komin. Fjórtán ættliðir eru frá Abraham til Davíðs og 14 til viðbótar fram að herleiðingunni til Babýlonar. (1. Kroníkubók 1:27, 34; 2:1-15; 3:1-17; Matteus 1:17) Esra telur upp afkomendur ættkvíslanna austan Jórdanar og síðan ættarskrár sona Levís. (1. Kroníkubók 5:1-24; 6:1) Í framhaldinu kemur yfirlit yfir sumar af ættkvíslunum sem bjuggu vestan Jórdanar og ættarskrá Benjamíns er rakin ítarlega. (1. Kroníkubók 8:1) Fyrstu íbúar Jerúsalem eftir herleiðinguna til Babýlonar eru einnig tíundaðir. — 1. Kroníkubók 9:1-16.

Biblíuspurningar og svör:

1:18 — Hvort var Sela sonur Kenans eða Arpaksads? (Lúkas 3:35, 36) Hann var sonur Arpaksads. (1. Mósebók 10:24; 11:12) Nafnið „Kenan“ í Lúkasi 3:36 kann að vera afbökun orðsins „Kaldear“. Ef sú er raunin kann upphaflegur texti að hafa verið: „sonur Kaldeans Arpaksads“. Einnig er talið hugsanlegt að Kenan og Arpaksad séu tvö nöfn á sama manni. Þá ber og að geta þess að orðin „sonar Kenans“ vantar í sum handrit.

2:15 — Var Davíð sjöundi sonur Ísaí? Nei, Davíð var áttundi og yngsti sonurinn. (1. Samúelsbók 16:10, 11; 17:12) Einn af sonum Ísaí virðist hafa dáið barnlaus og Esra nefnir hann ekki þar sem hann hafði þá engin áhrif á ættartölurnar.

3:17 — Hvers vegna segir í Lúkasi 3:27 að Sealtíel, sonur Jekonja, sé sonur Nerí? Sealtíel var sonur Jekonja en Nerí mun hafa gefið Sealtíel dóttur sína fyrir eiginkonu. Lúkas talar um tengdason Nerí sem son hans, rétt eins og hann kallar Jósef son Elí sem var faðir Maríu. — Lúkas 3:23.

3:17-19 — Hvernig voru Serúbabel, Pedaja og Sealtíel skyldir? Serúbabel var sonur Pedaja sem var bróðir Sealtíels. Serúbabel er hins vegar stundum kallaður sonur Sealtíels. (Matteus 1:12; Lúkas 3:27) Hugsanlegt er að Pedaja hafi dáið frá Serúbabel ungum og Sealtíel hafi tekið hann í fóstur. Önnur skýring gæti verið sú að Sealtíel hafi dáið barnlaus. Pedaja hafi þá gegnt mágskyldu og Serúbabel hafi verið frumgetinn sonur af því hjónabandi. — 5. Mósebók 25:5-10.

5:1, 2 — Hvað þýddi það fyrir Jósef að fá frumburðarréttinn? Það þýddi að Jósef fékk tvöfaldan föðurarf. (5. Mósebók 21:17) Hann varð því ættfaðir tveggja ættkvísla, þeirra Efraíms og Manasse. Af hverjum hinna sona Ísraels kom aðeins ein ættkvísl.

Lærdómur:

1:1–9:44. Raunsannar ættarskrár staðfesta að sönn tilbeiðsla byggist ekki á goðsögnum heldur staðreyndum.

4:9, 10. Jehóva varð við ákafri bæn Jaebesar um að auka landi við hann á friðsamlegan hátt þannig að rúm væri fyrir fleiri guðrækna menn. Við þurfum líka að biðja innilega um vöxt og aukningu og vinna dyggilega að því að gera menn að lærisveinum.

5:10, 18-22. Ættkvíslirnar austan Jórdanar sigruðu Hagríta á dögum Sáls konungs, þó svo að Hagrítar væru meira en tvöfalt fjölmennari en þær. Það var vegna þess að hinir fræknu hermenn þessara ættkvísla treystu á Jehóva og leituðu hjálpar hjá honum. Við skulum treysta óbifanlega á Jehóva andspænis því ofurefli sem við eigum við að etja í andlegum hernaði okkar. — Efesusbréfið 6:10-17.

9:26, 27. Það var mikið ábyrgðarstarf að gæta musterishliðanna. Levítarnir fengu lykilinn að hinum heilögu svæðum musterisins. Þeir sinntu gæslunni dyggilega og opnuðu hliðin á hverjum morgni. Okkur er treyst fyrir því að ná til fólks á starfssvæði okkar og hjálpa því að gerast dýrkendur Jehóva. Ættum við ekki að sinna því eins dyggilega og levítarnir sinntu hliðvörslunni?

KONUNGSTÍÐ DAVÍÐS

(1. Kroníkubók 10:1–29:30)

Frásagan hefst með því að Sál konungur og synir hans þrír falla í orustu gegn Filistum á Gilbóafjalli. Davíð Ísaíson er tekinn til konungs yfir Júdaættkvísl. Menn af öllum ættkvíslum koma til Hebron og taka hann til konungs yfir allan Ísrael. (1. Kroníkubók 1:1-3) Skömmu síðar vinnur hann Jerúsalem. Seinna flytja Ísraelsmenn sáttmálsörkina til Jerúsalem „með fagnaðarópi og lúðurhljómi . . . og létu hljóma hörpur og gígjur“. — 1. Kroníkubók 15:28.

Davíð lætur í ljós að hann langi til að reisa hinum sanna Guði hús. Jehóva segir að það skuli koma í hlut Salómons en gerir sáttmála við Davíð um ríki. Jehóva veitir Davíð einn sigur á fætur öðrum í stríði hans gegn óvinum Ísraels. Ólöglegt manntal verður 70.000 manns að bana. Eftir að Davíð hefur fengið fyrirmæli engils um að reisa Jehóva altari kaupir hann land af Ornan Jebúsíta. Davíð „viðaði afar miklu að“ til að reisa Jehóva „afar stórt“ og mikilfenglegt hús á þeim stað. (1. Kroníkubók 22:5) Davíð skipuleggur þjónustu levítanna en henni er hvergi lýst eins ítarlega í Biblíunni og í 1. Kroníkubók. Konungur og þjóðin gefa rausnarlegar gjafir til musterisins. Eftir 40 ára stjórnartíð deyr Davíð „saddur lífdaga, auðæfa og sæmdar, og tók Salómon sonur hans ríki eftir hann“. — 1. Kroníkubók 29:28.

Biblíuspurningar og svör:

11:11 — Hvers vegna er talað hér um 300 fallna en ekki 800 eins og í hliðstæðri frásögn í 2. Samúelsbók 23:8? Jasóbeam, einnig nefndur Ísbaal, var höfðingi þriggja mestu kappa Davíðs. Hinir tveir hétu Eleasar og Samma. (2. Samúelsbók 23:8-11) Hugsanlegt er að munurinn á þessum tveim frásögum stafi af því að um sé að ræða tvö aðskilin afrek sama manns.

12:8 — Í hvaða skilningi voru kappar Gaðíta „ásýndum sem ljón“? Kappar þessir voru með Davíð í eyðimörkinni. Þeir voru orðnir síðhærðir þannig að hárið var ásýndar eins og fax á ljónum.

13:5 — Hvað er „Síhór í Egyptalandi“? Frummerking hebreska orðsins „Síhór“ er „á, vatnsfall“. Sumir hafa þar af leiðandi ályktað að hér sé átt við eina af kvíslum Nílar. Talið er að ‚Egyptalandsá‘, sem nefnd er í 4. Mósebók 34:5, sé sama og Síhór. Í 4. Mósebók 34:5 er hins vegar notað annað hebreskt orð sem má þýða „árdalur“. „Síhór í Egyptalandi“ er því talið vera hið sama og ‚Egyptalandsá‘ sem er langt gil á suðurmörkum fyrirheitna landsins. — 4. Mósebók 34:2, 5; 1. Mósebók 15:18.

16:30 — Hvað er átt við með því að öll lönd eigi að ‚titra‘ fyrir Jehóva? Merkingin er sú að þjóðir eigi að sýna Jehóva lotningu, ótta og djúpa virðingu.

16:1, 37-40; 21:29, 30; 22:19 — Hvaða háttur var hafður á guðsdýrkun Ísraelsmanna á tímabilinu frá því að örkin hafði verið flutt til Jerúsalem þangað til musterið var byggt? Sáttmálsörkin hafði ekki verið í tjaldbúðinni um langt árabil þegar Davíð flutti hana til Jerúsalem og lét koma henni fyrir í tjaldi sem hann hafði látið gera. Eftir flutninginn var hún höfð í þessu tjaldi í Jerúsalem. Tjaldbúðin var í Gíbeon og þar færðu Sadók prestur og bræður hans fórnir samkvæmt því sem kveðið var á um í lögmálinu. Þetta fyrirkomulag hélst uns musterið í Jerúsalem var fullgert. Þegar musterið var tilbúið var tjaldbúðin flutt frá Gíbeon til Jerúsalem og örkinni var komið fyrir í hinu allra helgasta í musterinu. — 1. Konungabók 8:4, 6.

Lærdómur:

13:11. Hebreski frumtextinn segir að Davíð hafi reiðst. Við ættum ekki að reiðast og kenna Jehóva um mistök okkar heldur skoða málið gaumgæfilega og reyna að finna út hvað olli þeim. Davíð hefur eflaust gert það. Hann lærði af mistökum sínum og lét síðar flytja örkina með réttum hætti til Jerúsalem. *

14:10, 13-16; 22:17-19. Við ættum alltaf að biðja til Jehóva og leita leiðsagnar hans áður en við leggjum út í nokkuð sem getur haft áhrif á trú okkar og andlegt hugarfar.

16:23-29. Við ættum að láta tilbeiðsluna á Jehóva ganga fyrir öðru í lífinu.

18:3. Jehóva stendur við loforð sín. Hann notaði Davíð til að gefa afkomendum Abrahams allt Kanaanland eins og hann hafði lofað, „frá Egyptalandsánni til árinnar miklu, árinnar Efrat“. — 1. Mósebók 15:18; 1. Kroníkubók 13:5.

21:13-15. Jehóva sagði englinum að stöðva pláguna vegna þess að hann finnur til þegar þjónar hans þjást. „Mikil er miskunn hans,“ eins og Davíð sagði. *

22:5, 9; 29:3-5, 14-16. Davíð var afar örlátur þótt hann fengi ekki að reisa Jehóva musteri. Af hverju? Af því að hann vissi að allt sem hann átti var gæsku Jehóva að þakka. Við ættum sömuleiðis að vera þakklát og örlát.

24:7-18. Davíð kom þeirri skipan á að skipta prestunum í 24 flokka. Þessi skipan var enn í gildi þegar engill Jehóva birtist Sakaría, föður Jóhannesar skírara, og boðaði honum fæðingu Jóhannesar. Sakaría var af „sveit Abía“ sem hafði musterisþjónustuna á hendi á þeim tíma. (Lúkas 1:5, 8, 9) Sönn tilbeiðsla tengist sannsögulegum persónum, ekki goðsögulegum. Það er okkur til blessunar að vinna dyggilega með hinum ‚trúa og hyggna þjóni‘ að vel skipulagðri tilbeiðslu á Jehóva. — Matteus 24:45.

Þjónaðu Jehóva „með fúsu geði“

Fyrri Kroníkubók er meira en ættarskrár. Hún segir líka frá því hvernig Davíð flutti sáttmálsörkina til Jerúsalem, greinir frá sigrum hans, undirbúningnum að byggingu musterisins og skipan levítaprestanna í þjónustuflokka. Allt sem Esra segir frá í bókinni hlýtur að hafa verið Ísraelsmönnum til gagns og glætt áhuga þeirra á tilbeiðslu Jehóva í musterinu.

Davíð gaf einstaklega gott fordæmi með því að láta tilbeiðsluna á Jehóva ganga fyrir öðru í lífinu. Hann hugsaði ekki um að skara eld að sinni köku heldur leitaðist við að gera vilja Guðs. Við erum hvött til að fara að ráðum hans og þjóna Jehóva „af öllu hjarta og með fúsu geði“. — 1. Kroníkubók 28:9.

[Neðanmáls]

^ gr. 1 Í Varðturninum 1. júní 2005, bls. 28-31, er nefnt fleira sem læra má af tilraun Davíðs til að flytja örkina til Jerúsalem.

^ gr. 5 Í Varðturninum 1. júní 2005, bls. 28-31, er nefnt fleira sem læra má af hinu óleyfilega manntali sem Davíð lét gera.

[Skýringarmynd/myndir á blaðsíðu 8-11]

(Sjá uppraðaðann texta í blaðinu)

Ættliðirnir frá Frá Nóa til Abrahams (1056 ár)

4026 f.Kr. Adam

130 ár ⇩

Set

105 ⇩

Enos

90 ⇩

Kenan

70 ⇩

Mahalalel

65 ⇩

Jared

162 ⇩

Enok

65 ⇩

Metúsala

187 ⇩

Lamek

182 ⇩

2970 f.Kr. NÓI fæðist

Ættliðirnir frá Nóa til Abrahams (952 ár)

2970 f.Kr. Nói

502 ár ⇩

Sem

100 ⇩

FLÓÐIÐ 2370 f.Kr.

Arpaksad

35 ⇩

Sela

30 ⇩

Eber

34 ⇩

Peleg

30 ⇩

Reú

32 ⇩

Serúg

30 ⇩

Nahor

29 ⇩

Tara

130 ⇩

2018 f.Kr. ABRAHAM fæðist

Frá Abraham til Davíðs: 14 ættliðir (911 ár)

2018 f.Kr. Abraham

100 ár

Ísak

60 ⇩

Jakob

um 88 ⇩

Júda

Peres

Hesron

Ram

Ammínadab

Nakson

Salmón

Bóas

Óbeð

Ísaí

1107 f.Kr. DAVID fæðist