Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sérðu táknið um nærveru Jesú?

Sérðu táknið um nærveru Jesú?

Sérðu táknið um nærveru Jesú?

ENGINN óskar sér þess að verða alvarlega veikur eða lenda í náttúruhamförum. Til að forðast slíkt gefur skynsamt fólk gætur að hættumerkjum og gerir viðeigandi ráðstafanir. Jesús Kristur lýsti ákveðnu tákni sem við verðum að gefa gaum að. Það sem hann lýsti myndi hafa áhrif á alla jörðina og snerta allt mannkyn, þar á meðal þig og fjölskyldu þína.

Jesús talaði um að Guðsríki myndi útrýma allri illsku og breyta jörðinni í paradís. Þetta vakti forvitni lærisveina hans og þá langaði til að vita hvenær þetta ríki kæmi. „Hvert mun tákn komu þinnar og endaloka veraldar?“ spurðu þeir. — Matteus 24:3.

Jesús vissi að frá aftöku sinni og upprisu myndu líða margar aldir áður en hann yrði krýndur á himnum sem Messíasarkonungur til að ríkja yfir jörðinni. Þar sem krýning Jesú yrði ósýnileg mönnum lýsti hann tákni sem myndi gera fylgjendum hans kleift að bera kennsl á nærveru hans og tímabilið sem kallað er endalok veraldar. Þetta var margþætt tákn sem samanlagt myndi sýna, svo ekki yrði um villst, að Jesús væri nærverandi.

Guðspjallaritararnir Matteus, Markús og Lúkas rituðu allir vandlega niður svar Jesú. (Matteus kaflar 24 og 25; Markús kafli 13; Lúkas kafli 21) Aðrir biblíuritarar bættu við fleiri upplýsingum um táknið. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5; 2. Pétursbréf 3:3, 4; Opinberunarbókin 6:1-8; 11:18) Það er ekki hægt í stuttri grein að fara ítarlega í öll smáatriði táknsins sem Jesús talaði um en við skulum skoða fimm lykilatriði þess. Þú munt komast að raun um að táknið snertir þig persónulega. — Sjá rammagrein á bls. 6.

„Straumhvörf í mannkynssögunni“

„Þjóð mun rísa gegn þjóð og ríki gegn ríki.“ (Matteus 24:7) Þýska fréttatímaritið Der Spiegel segir frá því að fyrir 1914 hafi fólk trúað því að „framtíðin væri björt og að meira frelsi, framfarir og velmegun væri framundan“. En þá gerbreyttist allt. „Stríðið, sem hófst í ágúst 1914 og stóð til nóvember 1918, var afdrifaríkt. Það markaði tímamót í mannkynssögunni, skildi hið gamla frá hinu nýja,“ segir í tímaritinu GEO. Yfir 60 milljónir hermanna frá fimm heimsálfum töku þátt í grimmilegum átökum. Að meðaltali féllu um 6000 hermenn á hverjum degi. Síðan þá hefur fjöldi sagnfræðinga með alls konar stjórnmálaskoðanir litið á „árin 1914 til 1918 sem straumhvörf í mannkynssögunni“.

Mannlegt samfélag breyttist til frambúðar í fyrri heimsstyrjöldinni. Síðustu dagar núverandi heimskerfis voru hafnir. Fleiri styrjaldir, aukinn hernaður og hryðjuverk fylgdu í kjölfarið það sem eftir lifði 20. aldarinnar. Ástandið hefur síður en svo breyst til batnaðar á fyrstu árum þessarar aldar. En það eru fleiri þættir táknsins sem blasa við.

Hungursneyð, drepsóttir og jarðskjálftar

„Þá verður hungur.“ (Matteus 24:7) Hungursneyð lagðist á Evrópu í fyrri heimsstyrjöldinni og hefur hrjáð mannkynið alla tíð síðan. Sagnfræðingurinn Alan Bullock skrifaði að árið 1933 hafi „gríðarlegur fjöldi hungraðra manna ráfað um sveitirnar“ í Rússlandi og Úkraínu. „Líkin hrönnuðust upp í vegarkantinum“. Árið 1943 varð fréttamaðurinn T. H. White vitni að hungursneyð í kínverska héraðinu Henan. Hann skrifaði: „Í hungursneyð verður nánast allt ætilegt og með því að mala það og borða getur líkaminn breytt því í orku. En það þarf ógn dauðans til að mönnum detti í hug að leggja sér til munns það sem hingað til hefur þótt óætt.“ Því miður hefur hungursneyð verið nánast viðvarandi ástand í Afríku undanfarna áratugi. Þó svo að jörðin framleiði næg matvæli handa öllum áætlar Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna að 840 milljónir manna út um allan heim fái ekki nóg að borða.

„Drepsóttir . . . á ýmsum stöðum.“ (Lúkas 21:11) „Talið er að á bilinu 20 til 50 milljónir manna hafi látist af völdum spænsku veikinnar árið 1918 en það eru fleiri en létust úr svartadauða eða í fyrri heimsstyrjöldinni,“ segir í Süddeutsche Zeitung. Síðan þá hafa fjölmargir sýkst af malaríu, bólusótt, berklum, mænusótt og kóleru. Og heimurinn horfir agndofa upp á óstöðvandi útbreiðslu alnæmis. Núna stöndum við frammi fyrir því að þrálátir sjúkdómar þrífast þrátt fyrir feikilegar framfarir læknisfræðinnar. Þessi áður óþekkta þversögn undirstrikar að við lifum á sérstökum tímum í mannkynssögunni.

„Landskjálftar.“ (Matteus 24:7) Hundruð þúsunda manna hafa farist af völdum jarðskjálfta á undanförum hundrað árum. Samkvæmt einni heimild hafa jarðskjálftar, sem eru nógu öflugir til að eyðileggja hús og mynda sprungur í jörðina, verið að meðaltali 18 á ári frá 1914. Stærri skjálftar, sem geta jafnað byggingar við jörðu, hafa átt sér stað um einu sinni á ári. Þrátt fyrir ýmsar tækniframfarir er manntjónið mikið vegna þess að margar ört vaxandi borgir eru staðsettar á svæðum þar sem er misgengi í jarðskorpunni.

Gleðifréttir

Flestir þættir táknsins um hina síðustu daga boða þrengingar og erfiðleika. En Jesús talaði líka um gleðifréttir.

„Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar.“ (Matteus 24:14) Verkið sem Jesús hóf sjálfur — að boða fagnaðarerindið um ríkið — myndi ná hámarki á hinum síðustu dögum. Það hefur svo sannarlega ræst. Vottar Jehóva boða boðskap Biblíunnar og kenna þeim sem hafa áhuga að fara eftir leiðbeiningum hennar í daglega lífinu. Núna prédika yfir 6 milljónir votta Jehóva í 235 löndum á meira en 400 tungumálum.

Jesús sagði ekki að ástandið í heiminum myndi verða svo slæmt að eðlilegt mannlíf stöðvaðist. Hann sagði ekki heldur að einn þáttur táknsins myndi yfirgnæfa alla hina. Hann sagði hins vegar fyrir margs konar atburði og ástand sem samanlagt átti að mynda tákn og vera auðsjáanlegt hvar sem er á jörðinni.

Hvað sérðu ef þú einblínir ekki á einstaka atburði heldur horfir á heildarmyndina? Sérðu þá skýrt tákn sem hefur þýðingu fyrir alla jarðarbúa? Þessir atburðir snerta þig og fjölskyldu þína. En spyrja má: „Hvers vegna eru svo fáir sem gera sér grein fyrir þessu?“

Fólk hugsar fyrst og fremst um eigin hag

„Bannað að synda,“ „háspenna, lífshætta,“ „dragið úr hraðanum.“ Þetta eru dæmi um algeng viðvörunarskilti sem margir hunsa. Af hverju? Við gerum oft það sem okkur finnst henta hverju sinni. Okkur finnst við kannski þurfa að aka yfir hámarkshraða eða okkur dauðlangar til að synda þar sem það er bannað. En það er ekki viturlegt að hunsa viðvörunarskilti.

Sem dæmi má nefna að fjöldi ferðamanna ferst í snjóflóðum í Alpafjöllunum í Austurríki, Frakklandi, Ítalíu og Sviss vegna þess að þeir hunsa skilti sem vara fólk við að renna sér á skíðum eða snjóbrettum fyrir utan öruggar brautir. Fréttablaðið Süddeutsche Zeitung segir að margir ferðamenn, sem virða slíkar viðvaranir að vettugi, lifi eftir kjörorðunum: „Engin áhætta, ekkert fjör.“ Því miður getur það haft sorglegar afleiðingar að leiða viðvaranir hjá sér.

En hvers vegna virðir fólk táknin, sem Jesús gaf, að vettugi? Fólk er kannski blindað af græðgi eða dofið vegna sinnuleysis. Sumir eru máttvana af því að þeir geta ekki ákveðið sig, fastir í viðjum vanans eða helteknir af ótta við að falla í áliti. Gæti verið að eitthvað af þessu hindri þig í að gefa gaum að tákninu um nærveru Jesú? Væri ekki viturlegt að viðurkenna að táknið blasir við og breyta í samræmi við það?

Líf í paradís á jörð

Sífellt fleiri gefa gaum að tákninu um nærveru Jesú. Kristian er ungur giftur maður í Þýskalandi. Hann skrifar: „Ástandið er ískyggilegt. Við lifum svo sannarlega á hinum síðustu dögum.“ Þau hjónin eyða miklum tíma í að segja öðrum frá Messíasarríkinu. Frank býr í sama landi. Hann og kona hans veita öðrum uppörvun með fagnaðarboðskap Biblíunnar. Hann segir: „Margir óttast framtíðina vegna ástandsins í heiminum. Við reynum að hughreysta fólk með spádómum Biblíunnar um paradís á jörð.“ Kristian og Frank eru þannig að uppfylla einn þátt í tákninu sem Jesús lýsti — boðun fagnaðarerindisins um ríkið. — Matteus 24:14.

Þegar hinir síðustu dagar ná hámarki mun Jesús þurrka út þetta gamla heimskerfi og þá sem styðja það. Messíasarríkið fer þá með stjórn jarðarinnar og henni verður breytt í paradís eins og spáð var. Mannkynið mun þá losna við sjúkdóma og dauða og hinir dánu fá upprisu til lífs hér á jörð. Þetta eru ánægjulegar framtíðarhorfur þeirra sem gefa gaum að tákni tímanna. Væri ekki skynsamlegt að læra meira um táknið og hvað maður þarf að gera til að lifa af endalok þessa heimskerfis? Það hlýtur að vera mjög áríðandi fyrir alla. — Jóhannes 17:3.

[Innskot á blaðsíðu 4]

Jesús sagði fyrir margs konar atburði og ástand sem samanlagt átti að mynda tákn og vera auðsjáanlegt hvar sem er á jörðinni.

[Innskot á blaðsíðu 6]

Kemurðu auga á ákveðið mynstur, margþætt tákn sem hefur þýðingu fyrir alla jarðarbúa?

[Rammi/myndir á blaðsíðu 6]

TÁKN HINNA SÍÐUSTU DAGA

Hernaður í áður óþekktum mæli. — Matteus 24:7; Opinberunarbókin 6:4.

Hungursneyð. — Matteus 24:7; Opinberunarbókin 6:5, 6, 8.

Drepsóttir. — Lúkas 21:11; Opinberunarbókin 6:8.

Vaxandi lögleysi. — Matteus 24:12.

Jarðskjálftar. — Matteus 24:7.

Örðugir tímar. — 2. Tímóteusarbréf 3:1.

Óhófleg peningaást. — 2. Tímóteusarbréf 3:2.

Óhlýðni við foreldra. — 2. Tímóteusarbréf 3:2.

Kærleiksleysi. — 2. Tímóteusarbréf 3:3.

Elska munaðarlífið meira en Guð. — 2. Tímóteusarbréf 3:4.

Taumleysi. — 2. Tímóteusarbréf 3:3.

Ekki elskandi það sem gott er. — 2. Tímóteusarbréf 3:3.

Fólk hunsar yfirvofandi hættu. — Matteus 24:39.

Spottarar afneita sönnunum um hina síðustu daga. — 2. Pétursbréf 3:3, 4.

Guðsríki boðað út um allan heim. — Matteus 24:14.

[Mynd rétthafi á blaðsíðu 5]

Hermenn úr fyrri heimsstyrjöldinni: Úr bókinni The World War — A Pictorial History, 1919; fátæk fjölskylda: AP Photo/Aijaz Rahi; fórnarlamb mænusóttar: © WHO/P. Virot.