Spurningar frá lesendum
Spurningar frá lesendum
Er hægt að álykta að Salómon konungur fái ekki upprisu þar sem hann varð Guði ótrúr á gamals aldri? — 1. Konungabók 11:3-9.
Þó að Biblían nefni með nafni bæði menn og konur sem þjónuðu Guði og verða vafalaust reist upp frá dauðum fjallar hún ekki um upprisuhorfur hvers einstaklings sem kemur þar við sögu. (Hebreabréfið 11:1-40) Við getum hins vegar fengið hugmynd um dóm Guðs yfir Salómon með því að skoða það sem sagt er um dauða hans og bera það saman við örlög þriggja trúfastra manna þegar þeir dóu.
Ritningin nefnir bara tvo möguleika fyrir hina dánu, annars vegar tímabundið tilveruleysi en hins vegar eilífan dauða. Ef menn eru dæmdir óverðugir þess að hljóta upprisu er þeim kastað í „Gehenna“ eða „eldsdíkið“. (Matteus 5:22, Biblían 1912, neðanmáls; Markús 9:47, 48; Opinberunarbókin 20:14) Þeirra á meðal eru fyrstu hjónin, Adam og Eva, svikarinn Júdas og sumir sem létu lífið þegar Guð fullnægði dómi yfir þeim, en þar má nefna fólkið á dögum Nóa og íbúa Sódómu og Gómorru. * Þeir sem munu hljóta upprisu fara í sameiginlega gröf mannkyns við dauðann, Hel, sem er nefnd séol eða hades á biblíumálunum. Framtíð þeirra er lýst þannig í Biblíunni: „Hafið skilaði hinum dauðu, þeim sem í því voru, og dauðinn og Hel skiluðu þeim dauðu, sem í þeim voru, og sérhver var dæmdur eftir verkum sínum.“ — Opinberunarbókin 20:13.
Hinir trúföstu, sem eru nefndir í 11. kafla Hebrearbréfsins, eru því í sameiginlegri gröf mannkyns, Hel, þar sem þeir bíða upprisu. Þeirra á meðal eru trúfastir þjónar Guðs eins og Abraham, Móse og Davíð. Hvernig fjallar Biblían um dauða þeirra? Jehóva sagði við Abraham: „Þú skalt fara í friði til feðra þinna, þú skalt verða jarðaður í góðri elli.“ (1. Mósebók 15:15) Við Móse sagði hann: „Sjá, þú munt nú leggjast til hvíldar hjá feðrum þínum.“ (5. Mósebók 31:16) Og Biblían segir eftirfarandi um Davíð, föður Salómons: „Síðan lagðist Davíð til hvíldar hjá feðrum sínum og var jarðaður í Davíðsborg.“ (1. Konungabók 2:10) Orðalagið að ,fara til feðra sinna‘ eða ‚leggjast til hvíldar hjá feðrum sínum‘ merkir sem sagt að viðkomandi fari í Hel, sameiginlega gröf mannkyns.
Hvað varð um Salómon þegar hann dó? Biblían segir: „Sá tími, er Salómon var konungur í Jerúsalem yfir öllum Ísrael, var fjörutíu ár. Og Salómon lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var jarðaður í borg Davíðs föður síns.“ (1. Konungabók 11:42, 43) Það er því rökrétt að álykta að Salómon bíði upprisu í sameiginlegri gröf mannkyns.
Af þessu má ráða að þegar Biblían notar orðalagið að einhver hafi ‚lagst til hvíldar hjá feðrum sínum‘ geti hann átt von á upprisu. Reyndar eru þessi orð höfð um marga konunga sem ríktu eftir daga Salómons, þótt þeir væru ótrúir Guði. Þetta er ekki óhugsandi þar sem upp munu „rísa bæði réttlátir og ranglátir“. (Postulasagan 24:15) Að sjálfsögðu fáum við ekki að vita með vissu hverjir hljóta upprisu fyrr en „allir þeir, sem í gröfunum eru . . . ganga fram“. (Jóhannes 5:28, 29) Í stað þess að vera einstrengingsleg í skoðunum okkar á því hverjir úr fortíðinni fái upprisu bíðum við og treystum á fullkominn úrskurð Jehóva.
[Neðanmáls]
^ gr. 4 Sjá Varðturninn 1. september 1988, bls. 31-32.