Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ætlar þú að endurspegla dýrð Guðs?

Ætlar þú að endurspegla dýrð Guðs?

Ætlar þú að endurspegla dýrð Guðs?

„Vér . . . endurspeglum dýrð Drottins.“ — 2. KORINTUBRÉF 3:18.

1. Hvað fékk Móse að sjá og hvað gerðist svo?

ÞETTA var einhver mikilfenglegasta sýn sem nokkur maður hafði séð. Móse var einn hátt uppi á Sínífjalli þegar honum var veitt óvenjuleg bón. Honum var leyft að sjá dýrð Jehóva sem enginn maður hafði áður séð. Hann sá reyndar ekki Jehóva beint því að Jehóva er svo mikill að enginn maður getur séð hann og haldið lífi. Jehóva byrgði Móse með „hendi“ sinni uns hann var farinn fram hjá, eflaust fyrir milligöngu engils. Síðan leyfði hann Móse að sjá endurskinið af dýrðinni sem hann birti honum. Sömuleiðis talaði hann við Móse fyrir milligöngu engils. Biblían lýsir því sem gerðist í framhaldinu: „Er Móse gekk ofan af Sínaífjalli, . . . þá vissi Móse ekki að geislar stóðu af andlitshörundi hans, af því að hann hafði talað við Drottin.“ — 2. Mósebók 33:18–34:7, 29.

2. Hvað skrifaði Páll postuli um dýrðina sem kristnir menn endurspegla?

2 Ímyndaðu þér að þú hafir verið staddur uppi á fjallinu með Móse. Hugsaðu þér hve stórfenglegt það hefur verið að sjá geislandi dýrð hins alvalda Guðs og heyra rödd hans! Hvílíkur heiður að fá að ganga ofan af Sínaífjalli með Móse, meðalgangara lagasáttmálans. En vissirðu að sannkristnir menn endurspegla dýrð Guðs að sumu leyti með enn stórfenglegri hætti en Móse? Páll postuli bendir á þessa athyglisverðu staðreynd í einu af bréfum sínum. Hann segir þar að andasmurðir kristnir menn ‚endurspegli dýrð Drottins‘. (2. Korintubréf 3:7, 8, 18) Kristnir menn með jarðneska von endurspegla líka dýrð Guðs í vissum skilningi.

Hvernig endurspegla kristnir menn dýrð Guðs?

3. Hvernig höfum við kynnst Jehóva með öðrum hætti en Móse átti kost á?

3 Hvernig er það mögulegt að við getum endurspeglað dýrð Guðs? Við höfum ekki heyrt rödd Jehóva eins og Móse. Hins vegar höfum við kynnst honum með öðrum hætti en Móse átti kost á. Jesús kom ekki fram sem Messías fyrr en næstum 1500 árum eftir að Móse var allur. Móse gat þar af leiðandi ekki vitað hvernig Jesús myndi uppfylla lögmálið, en Jesús dó til að leysa mennina undan hinu skelfilega oki syndar og dauða. (Rómverjabréfið 5:20, 21; Galatabréfið 3:19) Og Móse gat ekki nema að takmörkuðu leyti skilið mikilfenglega fyrirætlun Jehóva með Messíasarríkið og paradísina sem það mun skapa hér á jörð. Við skynjum ekki dýrð Jehóva með hinum bókstaflegu augum heldur með augum trúar sem er byggð á kenningum Biblíunnar. Við höfum líka heyrt rödd Jehóva, ekki fyrir milligöngu engils heldur í Biblíunni, einkum í guðspjöllunum þar sem kennslu og þjónustu Jesú er lýst svo fagurlega.

4. (a) Hvernig endurspegla hinir andasmurðu dýrð Guðs? (b) Hvernig geta þeir sem hafa jarðneska von endurspeglað dýrð Guðs?

4 Kristnir menn endurspegla ekki dýrð Guðs á þann hátt að geislar stafi af andliti þeirra. Hins vegar er óhætt að segja að andlit þeirra ljómi þegar þeir segja öðrum frá dýrlegum persónuleika Jehóva og fyrirætlun hans. Jesaja spámaður sagði að þjónar Jehóva á okkar tímum myndu „kunngjöra dýrð [hans] meðal þjóðanna“. (Jesaja 66:19) Við lesum enn fremur í 2. Korintubréfi 4:1, 2: „Með því að vér höfum þessa þjónustu á hendi . . . höfnum [vér] allri skammarlegri launung, vér framgöngum ekki með fláttskap né fölsum Guðs orð, heldur birtum vér sannleikann, og fyrir augliti Guðs skírskotum vér til samvisku hvers manns um sjálfa oss.“ Páll er hér fyrst og fremst að tala um andasmurða kristna menn sem eru ‚þjónar nýs sáttmála‘. (2. Korintubréf 3:6) Þjónusta þeirra hefur hins vegar haft áhrif á ótalmarga aðra sem hafa fyrir vikið eignast von um eilíft líf á jörð. Þjónusta beggja hópanna er fólgin í því að endurspegla dýrð Jehóva, bæði með kennslu sinni og líferni. Það er ábyrgð okkar og jafnframt heiður að fá að endurspegla dýrð hins hæsta Guðs.

5. Um hvað vitnar andleg velmegun okkar?

5 Hið dýrlega fagnaðarerindi um ríki Guðs er prédikað um alla jörðina núna eins og Jesús spáði. (Matteus 24:14) Fólk af öllum þjóðum, ættkvíslum, þjóðflokkum og tungum hefur tekið fegins hendi við fagnaðarerindinu og gerbreytt lífi sínu til að gera vilja Guðs. (Rómverjabréfið 12:2; Opinberunarbókin 7:9) Þetta fólk getur ekki, frekar en frumkristnir menn, hætt að tala um það sem það hefur séð og heyrt. (Postulasagan 4:20) Meira en sex milljónir manna endurspegla dýrð Guðs nú á dögum, fleiri en nokkru sinni fyrr í sögu mannkyns. Ert þú einn þeirra? Hin andlega velmegun þjóna Guðs er sannfærandi vitnisburður um að hann blessi þá og verndi. Og þegar á það er litið hve sterk öfl fylkja sér gegn okkur er enn augljósara að andi Jehóva hvílir yfir okkur. Lítum nánar á málið.

Fólk Guðs lætur ekki þagga niður í sér

6. Hvers vegna kostar það trú og hugrekki að taka afstöðu með Jehóva?

6 Setjum sem svo að þú yrðir kallaður til að bera vitni fyrir dómstóli gegn forhertum glæpamanni. Þú veist að hann hefur öflug glæpasamtök á bak við sig og beitir öllum ráðum til að koma í veg fyrir að þú afhjúpir hann. Það kostar hugrekki að bera vitni gegn slíkum manni og þú verður að treysta að yfirvöld verndi þig gegn honum. Við erum í sambærilegri aðstöðu. Með því að vitna um Jehóva og fyrirætlun hans erum við að vitna gegn Satan djöflinum. Við erum að afhjúpa hann sem manndrápara og lygara sem afvegaleiðir alla heimsbyggðina. (Jóhannes 8:44; Opinberunarbókin 12:9) Það kostar bæði trú og hugrekki að taka afstöðu með Jehóva og móti djöflinum.

7. Hve áhrifamikill er Satan og hvað reynir hann að gera?

7 Jehóva er auðvitað hinn æðsti. Hann er óendanlega máttugri en Satan. Við getum treyst að hann er bæði fær um að vernda trúfasta þjóna sína og er meira en fús til þess. (2. Kroníkubók 16:9) Satan ræður hins vegar yfir illu öndunum og þeim heimi manna sem er fjarlægur Guði. (Matteus 12:24, 26; Jóhannes 14:30) Athafnasvið hans er takmarkað við nágrenni jarðar og hann er ævareiður. Hann beitir sér af hörku gegn þjónum Jehóva og notar heiminn, sem hann ræður yfir, til að reyna að þagga niður í öllum sem boða fagnaðarerindið. (Opinberunarbókin 12:7-9, 12, 17) Hvernig fer hann að því? Hann notar í það minnsta þrjár aðferðir.

8, 9. Að hverju beinir Satan áhuga manna og hvers vegna ættum við að gæta vel að því hverja við umgöngumst?

8 Ein af aðferðum Satans er sú að reyna að gera okkur upptekin af daglegu amstri. Margir eru fégjarnir, eigingjarnir og munaðargjarnir núna á síðustu dögum. Þeir elska ekki Guð. (2. Tímóteusarbréf 3:1-4) Flestir eru svo uppteknir af daglega lífinu að þeir gefa engan gaum að fagnaðarerindinu sem við færum þeim. Þeir hafa hreinlega ekki áhuga á að kynna sér sannleika Biblíunnar. (Matteus 24:37-39) Þetta hugarfar getur verið smitandi og það getur gert okkur sinnulaus um andleg mál. Ef við leyfum okkur að fara að elska efnislega hluti og lystisemdir lífsins kólnar kærleikurinn til Guðs. — Matteus 24:12.

9 Kristnir menn gæta þar af leiðandi vel að því hverja þeir umgangast. „Haf umgengni við vitra menn, þá verður þú vitur,“ skrifaði Salómon konungur, „en illa fer þeim, sem leggur lag sitt við heimskingja.“ (Orðskviðirnir 13:20) Við skulum umgangast þá sem endurspegla dýrð Guðs. Það er einkar ánægjulegt. Þegar við hittum trúsystkini okkar á samkomum og við önnur tækifæri finnum við hve kærleikur þeirra, trú, gleði og viska er hvetjandi. Heilnæmur félagsskapur styrkir okkur þannig að við erum ákveðin í að halda ótrauð áfram að boða fagnaðarerindið.

10. Hvernig beitir Satan háði og spotti gegn þeim sem endurspegla dýrð Guðs?

10 Önnur aðferð, sem Satan beitir til að reyna að hindra alla kristna menn í að endurspegla dýrð Guðs, er fólgin í því að hæða þá og spotta. Það kemur ekki á óvart að hann skuli beita þessari aðferð. Jesús var hæddur og spottaður meðan hann þjónaði hér á jörð. Það var hlegið að honum og gert gys að honum, honum var misþyrmt og menn hræktu jafnvel á hann. (Markús 5:40; Lúkas 16:14; 18:32) Frumkristnir menn máttu líka þola háð og spott. (Postulasagan 2:13; 17:32) Þjónar Jehóva nú á tímum finna fyrir svipuðu viðmóti. Að sögn Péturs postula myndu þeir í reynd verða stimplaðir falsspámenn. Hann sagði: „Á hinum síðustu dögum munu koma spottarar er stjórnast af eigin girndum og segja með spotti: ‚Hvað verður úr fyrirheitinu um komu hans? Því að frá því feðurnir sofnuðu stendur allt við sama eins og frá upphafi veraldar.‘“ (2. Pétursbréf 3:3, 4) Sumir hæðast að þjónum Guðs og kalla þá veruleikafirrta. Siðferðisreglur Biblíunnar eru sagðar úreltar. Mörgum finnst boðskapurinn, sem við boðum, hrein heimska. (1. Korintubréf 1:18, 19) Við megum búast við háði og spotti í skóla, á vinnustað og jafnvel af hendi fjölskyldunnar. Við höldum hins vegar ótrauð áfram að endurspegla dýrð Guðs í boðunarstarfinu því að við vitum, rétt eins og Jesús, að orð Guðs er sannleikur. — Jóhannes 17:17.

11. Hvernig hefur Satan beitt ofsóknum til að reyna að þagga niður í kristnum mönnum?

11 Andstaða eða ofsóknir eru þriðja aðferðin sem Satan notar til að reyna að þagga niður í okkur. Jesús sagði fylgjendum sínum: „Þá munu menn framselja yður til pyndinga og taka af lífi, og allar þjóðir munu hata yður vegna nafns míns.“ (Matteus 24:9) Vottar Jehóva hafa sætt grimmilegum ofsóknum víða um heim. Við vitum að Jehóva spáði endur fyrir löngu um hatur eða fjandskap milli þeirra sem þjóna Guði og þeirra sem þjóna Satan djöflinum. (1. Mósebók 3:15) Við vitum líka að með því að vera ráðvönd í prófraunum vitnum við um að Jehóva fari með réttmætt drottinvald yfir alheimi. Vitneskjan um þetta getur veitt okkur styrk í erfiðustu raunum. Engar ofsóknir megna að þagga niður í okkur fyrir fullt og allt, svo framarlega sem við erum ákveðin í að endurspegla dýrð Guðs.

12. Af hverju ættum við að gleðjast þegar við erum trúföst þrátt fyrir andstöðu Satans?

12 Stendurðu á móti táli heimsins og ertu trúfastur þrátt fyrir háðsglósur og andstöðu? Þá hefurðu ástæðu til að gleðjast. Jesús lofaði þeim sem myndu fylgja honum: „Sælir eruð þér, þá er menn smána yður, ofsækja og ljúga á yður öllu illu mín vegna. Verið glaðir og fagnið, því að laun yðar eru mikil á himnum. Þannig ofsóttu þeir spámennina, sem voru á undan yður.“ (Matteus 5:11, 12) Þolgæði þitt er merki þess að hinn máttugi andi Jehóva hvíli yfir þér og gefi þér kraft til að endurspegla dýrð hans. — 2. Korintubréf 12:9.

Jehóva veitir þolgæði

13. Hver er ein meginástæðan fyrir því að við erum þolgóð í boðunarstarfinu?

13 Við elskum Jehóva og höfum yndi af því að endurspegla dýrð hans. Það er ein af meginástæðunum fyrir því að við erum þolgóð í boðunarstarfinu. Menn hafa tilhneigingu til að líkja eftir þeim sem þeir elska og virða og enginn er verðugri eftirbreytni en Jehóva Guð. Vegna kærleika síns sendi hann son sinn til jarðar til að vitna um sannleikann og endurleysa hlýðna menn. (Jóhannes 3:16; 18:37) Við þráum, rétt eins og Guð, að alls konar fólk iðrist og hljóti hjálpræði. Það er þess vegna sem við prédikum. (2. Pétursbréf 3:9) Þessi löngun, ásamt því að við erum ákveðin í að líkja eftir Guði, er okkur hvöt til að halda áfram að endurspegla dýrð hans í boðunarstarfinu.

14. Hvernig styrkir Jehóva okkur þannig að við getum haldið boðunastarfinu áfram?

14 Styrkurinn til að halda boðunarstarfinu áfram kemur þó fyrst og fremst frá Jehóva. Hann heldur okkur uppi og styrkir með anda sínum, söfnuði og orði sínu, Biblíunni. Hann „veitir þolgæðið“ þeim sem eru fúsir til að endurspegla dýrð hans. Hann svarar bænum okkar og gefur okkur visku til að bregðast rétt við prófraunum. (Rómverjabréfið 15:5; Jakobsbréfið 1:5) Og Jehóva leyfir ekki að við verðum fyrir nokkurri prófraun sem við erum ófær um að standast. Ef við treystum á hann gefur hann okkur undankomuleið þannig að við getum haldið áfram að endurspegla dýrð hans. — 1. Korintubréf 10:13.

15. Hvað hjálpar okkur að vera þolgóð?

15 Úthald í boðunarstarfinu er merki þess að andi Guðs sé yfir okkur. Lýsum þessu með dæmi: Setjum sem svo að þú værir beðinn að bera út brauð hús úr húsi. Brauðið er ókeypis og þú átt að gera þetta á eigin kostnað í frítíma þínum. En þú uppgötvar fljótt að mjög fáir vilja fá þetta brauð. Sumir eru jafnvel mjög mótfallnir því að þú dreifir því. Heldurðu að þú myndir halda áfram að bera út þetta brauð mánuð eftir mánuð, ár eftir ár? Sennilega ekki. Þú hefur hins vegar lagt þig í líma við að boða fagnaðarerindið í frítíma þínum og á eigin kostnað árum eða jafnvel áratugum saman. Af hverju? Er það ekki af því að þú elskar Jehóva og hann hefur blessað viðleitni þína með því að hjálpa þér með anda sínum að halda þolgóður áfram? Jú, auðvitað.

Starf sem haft verður í minnum

16. Hvað getur þolgæði í boðunarstarfinu haft í för með sér fyrir okkur og áheyrendur okkar?

16 Þjónustan við nýja sáttmálann er óviðjafnanleg gjöf. (2. Korintubréf 4:7) Boðunarstarfið, sem aðrir sauðir inna af hendi um heim allan, er sömuleiðis fjársjóður. Með því að sýna þolgæði í boðunarstarfinu geturðu gert „sjálfan þig hólpinn og áheyrendur þína“, eins og Páll skrifaði Tímóteusi. (1. Tímóteusarbréf 4:16) Hugleiddu hvað það merkir. Fagnaðarerindið, sem þú boðar, býður öðrum upp á tækifæri til að lifa að eilífu. Þú getur myndað sterk vináttubönd við þá sem þú hjálpar til að taka við trúnni. Hugsaðu þér hve ánægjulegt það verður að lifa að eilífu í paradís ásamt þeim sem þú hefur hjálpað til að kynnast Guði. Þeir munu aldrei gleyma því sem þú hefur gert til að hjálpa þeim. Það verður ákaflega ánægjulegt!

17. Af hverju lifum við á einstæðum tíma í mannkynssögunni?

17 Við lifum á einstæðum tíma í mannkynssögunni. Fagnaðarerindið verður aldrei aftur prédikað meðal manna sem eru fjarlægir Guði. Nói bjó í slíkum heimi og sá hann líða undir lok. Það hlýtur að hafa glatt hann að vita að hann gerði vilja Guðs dyggilega með því að smíða örkina sem varð honum og fjölskyldu hans til bjargar. (Hebreabréfið 11:7) Þú getur líka notið slíkrar gleði. Hugsaðu þér hvernig tilfinning það verður að líta um öxl eftir að nýi heimurinn er genginn í garð og hugsa til þess að þú gerðir það sem þú gast til að efla hag Guðsríkis á síðustu dögum.

18. Hverju lofar Jehóva þjónum sínum?

18 Höldum því áfram að endurspegla dýrð Guðs. Ef við gerum það munum við minnast þess um alla eilífð. Jehóva man líka eftir verkum okkar. Það er einkar uppörvandi sem segir í Biblíunni: „Guð er ekki ranglátur. Hann gleymir ekki verki yðar og kærleikanum, sem þér auðsýnduð nafni hans, er þér veittuð hinum heilögu þjónustu og veitið enn. Vér óskum, að sérhver yðar sýni sömu ástundan allt til enda, þar til von yðar fullkomnast. Gjörist ekki sljóir. Breytið heldur eftir þeim, sem vegna trúar og stöðuglyndis erfa fyrirheitin.“ — Hebreabréfið 6:10-12.

Geturðu svarað?

• Hvernig endurspegla kristnir menn dýrð Guðs?

• Hvaða aðferðir notar Satan til að reyna að þagga niður í þjónum Guðs?

• Hvað er til vitnis um að andi Guðs hvíli yfir okkur?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 9]

Dýrð Guðs skein af andliti Móse.

[Myndir á blaðsíðu 10, 11]

Við endurspeglum dýrð Guðs í boðunarstarfinu.