Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Óréttlát veröld

Óréttlát veröld

Óréttlát veröld

ÞÚ ERT eflaust sammála því að veröldin sé óréttlát. Það er ekki hægt að tryggja sér velmegun, frama eða jafnvel fæðu sama hvaða hæfileika við höfum eða hversu vel við skipuleggjum líf okkar. Það er mikill sannleikur í því sem vitri konungurinn Salómon sagði: „Spekingarnir [ráða ekki] yfir brauðinu, né hinir hyggnu yfir auðnum, né vitsmunamennirnir yfir vinsældinni.“ Hvers vegna? Salómon bætti við: „Því að tími og tilviljun mætir þeim öllum.“ — Prédikarinn 9:11.

Skyndileg „óheillatíð“

Já, „tími og tilviljun“ — það að vera á röngum stað á röngum tíma — getur oft gert góð áform og björtustu vonir að engu. Salómon segir: „Eins og fiskarnir festast í hinu háskalega neti og eins og fuglarnir festast í snörunni — á líkan hátt verða mennirnir fangnir á óheillatíð, þá er hún kemur skyndilega yfir þá.“ (Prédikarinn 9:12) Til dæmis vinna milljónir manna sleitulaust við að yrkja jörðina til að afla fæðu handa fjölskyldunni en þá kemur skyndileg „óheillatíð“ með þurrkum sem eyðileggja uppskeruna.

Aðrir reyna að hjálpa en utanaðkomandi aðstoð við fórnarlömb ýmiss konar hörmunga virðist oft ósanngjörn. Tökum dæmi. Á einu ári fékk „öll heimsálfan [Afríka] matvælaaðstoð sem nam aðeins einum fimmta þess fjármagns sem eytt var í Persaflóastríðinu“, samkvæmt upplýsingum virtrar hjálparstofnunar. Var það sanngjarnt af þjóðunum, sem veittu fjárstyrkinn, að eyða fimm sinnum meira í stríðsrekstur í einu landi en þeir eyddu í að lina þjáningar fólks vegna hungursneyðar í heilli heimsálfu? Eða er það sanngjarnt að á meðan margir búa við mikla velmegun búi einn af hverjum fjórum jarðarbúum við örbirgð? Eða að milljónir barna deyi á hverju ári af völdum sjúkdóma sem koma má í veg fyrir? Að sjálfsögðu ekki.

Auðvitað er það meira en bara „tími og tilviljun“ sem mæta okkur mönnunum þegar ‚óheillatíð kemur skyndilega yfir‘ okkur. Örlög okkar ráðast stundum af aðstæðum sem við lendum í og höfum enga stjórn á. Það átti svo sannarlega við atburðarásina í Beslan í Ossetíu hausið 2004, þegar hundruð manna voru myrt í hörðum átökum milli hryðjuverkamanna og lögreglu. Meðal þeirra sem lágu í valnum voru fjölmörg börn sem voru að sækja skóla í fyrsta skipti. Það var í sjálfu sér tilviljunarkennt hverjir misstu lífið og hverjir ekki í þessum harmleik en aðalorsökin voru átök manna í milli.

Verður þetta alltaf svona?

„En svona er nú bara lífið,“ segja sumir þegar talað er um óréttlæti. „Þetta hefur alltaf verið svona og mun alltaf vera svona.“ Margir segja að þeir sterku muni alltaf kúga þá veiku og þeir ríku muni alltaf arðræna þá fátæku. Auk þess muni „tími og tilviljun“ ráða ferðinni svo lengi sem mannfólkið sé til.

En þarf ástandið að vera svona? Mun fólk, sem notar gáfur sínar og hæfileika viturlega, einhvern tíma uppskera sanngjörn laun erfiðis síns? Getur einhver gert eitthvað til að koma á varanlegri breytingu í þessum ósanngjarna heimi? Skoðaðu hvað næsta grein segir um það.

[Rétthafi mynd á blaðsíðu 3]

MAXIM MARMUR/AFP/Getty Images