Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Foreldrar — hvernig viljið þið að framtíð barnanna verði?

Foreldrar — hvernig viljið þið að framtíð barnanna verði?

Foreldrar — hvernig viljið þið að framtíð barnanna verði?

„Bæði yngismenn og yngismeyjar . . . þau skulu lofa nafn Drottins“ — SÁLMUR 148:12, 13.

1. Hvaða áhyggjur hafa foreldrar af börnum sínum?

ÖLLUM foreldrum er innilega umhugað um framtíð barna sinna. Frá því að börnin koma í heiminn og jafnvel fyrir þann tíma hafa foreldrarnir áhyggjur af velferð þeirra. Verður barnið heilbrigt? Mun það þroskast eðlilega? Þegar barnið stækkar bætast við aðrar áhyggjur. Almennt vilja foreldrar aðeins það sem börnunum er fyrir bestu. — 1. Samúelsbók 1:11, 27, 28; Sálmur 127:3-5.

2. Af hverju vilja margir foreldrar tryggja að börnin lifi góðu lífi?

2 Nú á dögum getur hins vegar verið erfitt fyrir foreldra að veita börnunum það besta. Margir foreldrar hafa upplifað ýmsa erfiðleika eins og til dæmis styrjaldir, pólitísk umbrot og fjárhagserfiðleika eða orðið fyrir líkamlegu eða tilfinningalegu áfalli. Að sjálfsögðu vilja þeir ekki að börnin gangi í gegnum það sama. Í velmegunarlöndum taka foreldrar kannski eftir því að synir og dætur vina þeirra og ættingja eru á framabraut í atvinnulífinu og virðast lifa góðu lífi. Þeim gæti því fundist þeir þurfa að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja að þegar börnin þeirra vaxi úr grasi geti þau líka lifað þægilegu og öruggu lífi — góðu lífi. — Prédikarinn 3:13.

Að lifa góðu lífi — hvernig?

3. Hvað hafa kristnir menn valið?

3 Kristnir menn eru fylgjendur Jesú Krists og hafa því valið að helga líf sitt Jehóva. Þeir taka til sín orð Jesú: „Hver sem vill fylgja mér, afneiti sjálfum sér, taki kross sinn daglega og fylgi mér.“ (Lúkas 9:23; 14:27) Já, kristnir menn þurfa að vera fórnfúsir. Þeir þurfa samt ekki að lifa í fátækt og eymd. Þvert á móti lifa þeir hamingjuríku og innihaldsríku lífi — góðu lífi — því að þeir gefa af sjálfum sér og eins og Jesús sagði er sælla „að gefa en þiggja“. — Postulasagan 20:35.

4. Hvað hvatti Jesús fylgjendur sína til að gera?

4 Fólk á dögum Jesú lifði við mjög erfiðar aðstæður. Auk þess að sjá fyrir sér þurfti það að þola harðstjórn Rómverja og íþyngjandi byrgði formfastra öfgatrúarmanna þess tíma. (Matteus 23:2-4) Samt sem áður lögðu margir, sem heyrðu um Jesú, persónuleg mál til hliðar og fórnuðu jafnvel atvinnu sinni til að gerast fylgjendur hans. (Matteus 4:18-22; 9:9; Kólossubréfið 4:14) Voru þessir lærisveinar að taka áhættu og stofna framtíð sinni í hættu? Taktu eftir orðum Jesú sem skráð eru í Matteusi 19:29: „Hver sem hefur yfirgefið heimili, bræður eða systur, föður eða móður, börn eða akra sakir nafns míns, mun fá margfalt aftur og öðlast eilíft líf.“ Jesús fullvissaði fylgjendur sína um að himneskur faðir þeirra vissi hvers þeir þörfnuðust. Þess vegna hvatti hann þá: „Leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki.“ — Matteus 6:31-33.

5. Hvernig líta sumir foreldrar á orð Jesús um að Guð annist þjóna sína?

5 Ástandið er ekki svo ólíkt nú á dögum. Jehóva þekkir þarfir okkar og þeir sem setja andleg mál framar öðru í lífinu, sérstaklega þeir sem þjóna í fullu starfi, eru fullvissaðir um að hann annist þá. (Malakí 3:6, 16; 1. Pétursbréf 5:7) En sumir foreldrar eru á báðum áttum í þessum málum. Þeir vilja að börnin taki framförum í þjónustu Jehóva og kannski að þau gerist boðberar í fullu starfi með tímanum. En í ljósi þess hvernig efnahags- og atvinnumálin standa í heiminum finnst þeim samt mikilvægt að börnin fái góða menntun fyrst. Þá geti þau fengið æskilega vinnu eða haft að minnsta kosti eitthvað upp á að hlaupa ef þau þurfa á því að halda. Þessir foreldrar telja flestir að til að fá góða menntun þurfi börnin að fá æðri menntun.

Að búa sig undir framtíðina

6. Hvernig er hugtakið „æðri menntun“ notað í þessari grein?

6 Skólakerfið er mismunandi frá einu landi til annars. Á Íslandi er skyldunámið til dæmis tíu ár og framhaldsskólanám eftir það yfirleitt um fjögur ár. Síðan geta nemendur valið að fara í háskóla í þrjú ár eða fleiri og fengið fyrstu háskólagráðu eða framhaldsgráðu í læknisfræði, lögfræði, verkfræði og svo framvegis. Það er slík háskólamenntun sem átt er við þegar talað er um „æðri menntun“ í þessari grein. Einnig er hægt að fara í ýmis konar iðn- eða verknám að loknu skyldunáminu eða stutt viðbótarnám að loknum framhaldsskóla sem gefur fólki réttindi til að starfa við ákveðna iðn eða þjónustu.

7. Undir hvaða þrýstingi eru nemendur í skólum á borð við menntaskóla?

7 Nú til dags er algengt að skólar á borð við menntaskóla einbeiti sér að því að undirbúa nemendur fyrir æðri menntun. Þess vegna leggja flestir slíkir skólar aðaláherslu á bókleg fög sem hjálpa nemendum að komast inn í háskóla í stað þess að kenna fög sem búa nemendur undir vinnumarkaðinn. Nemendur í þessum skólum eru undir miklum þrýstingi frá kennurum, námsráðgjöfum og öðrum nemendum til að sækja um inngöngu í bestu háskólana. Þar er gert ráð fyrir því að þeir fái menntun sem gefur þeim möguleika á góðum og vel launuðum störfum.

8. Hvaða ákvarðanir þurfa kristnir foreldrar að taka?

8 En hvað eiga þá kristnir foreldrar að gera? Þeir vilja auðvitað að börnin standi sig vel í skóla og læri það sem þau þurfi til að sjá fyrir sér í framtíðinni. (Orðskviðirnir 22:29) En ættu þeir einfaldlega að leyfa börnunum að dragast inni í kapphlaupið um efnisleg gæði og starfsframa? Hvers konar markmið ættu þeir að hvetja börnin til að setja sér, bæði með orðum sínum og fordæmi? Sumir foreldrar leggja hart að sér og safna peningum til að geta sent börnin í æðri menntastofnanir þegar þar að kemur. Aðrir eru fúsir til að steypa sér í skuldir til að ná þessu markmiði. En kostnaðurinn sem slík ákvörðun hefur í för með sér mælist ekki aðeins í krónum. Hver er raunverulegur kostnaður af því að sækjast eftir æðri menntun nú á dögum? — Lúkas 14:28-33.

Æðri menntun — á kostnað hvers?

9. Hvað er hægt að segja um kostnað af æðri menntun nú á dögum?

9 Þegar talað er um kostnað hugsum við yfirleitt um fjárhagskostnað. Í sumum löndum er æðri menntun styrkt af ríkinu og nemendur, sem standast inntökuskilyrði, þurfa ekki að borga skólagjöld. Í flestum löndum er æðri menntun hins vegar dýr og skólagjöldin fara hækkandi. Í grein á ritstjórnaropnu New York Times sagði: „Áður fyrr var æðri menntun álitin opna fólki tækifæri í lífinu. Núna breikkar hún bilið milli forréttindafólks og annarra.“ Með öðrum orðum er menntun í úrvalsháskólum að verða réttur hinna ríku og áhrifamiklu sem senda börnin sín í þessar menntastofnanir til að tryggja að þau verði líka rík og áhrifamikil í núverandi heimskerfi. Eru það markmið sem kristnir foreldrar ættu að setja börnunum? — Filippíbréfið 3:7, 8; Jakobsbréfið 4:4.

10. Hvernig tengist æðri menntun því að efla núverandi heimskerfi?

10 En jafnvel þar sem æðri menntun er ókeypis hangir stundum eitthvað á spýtunni. Dagblaðið The Wall Street Journal segir til dæmis að í einu landi í Suðaustur-Asíu reki stjórnvöld „skólakerfi sem hygli óhikað bestu nemendunum“. Þeim er að lokum verðlaunað með inngöngu í virtustu menntastofnanir heims — Oxford og Cambridge í Englandi, úrvalsháskólana í Bandaríkjunum og svo framvegis. Af hverju ganga stjórnvöldin svona langt í þessum efnum? „Til að efla hagkerfi þjóðarinnar,“ segir í greininni. Þótt menntunin sé nánast ókeypis gjalda nemendurnir fyrir með því að helga líf sitt því að efla núverandi heimskerfi. Þess konar líf er mjög eftirsótt í heiminum en er þetta það sem kristnir foreldrar vilja fyrir börnin sín? — Jóhannes 15:19; 1. Jóhannesarbréf 2:15-17.

11. Hvað sýna umfjallanir í tímaritum um áfengisneyslu og siðleysi meðal háskólanema?

11 Síðan þarf að huga að háskólaumhverfinu. Víða eru háskólagarðar alræmdir fyrir slæma hegðun — drykkju, eiturlyfjaneyslu, siðleysi, svindl, auðmýkjandi busavígslur og annað því um líkt. Tökum ofneyslu áfengis sem dæmi. Tímaritið New Scientist sagði í grein um drykkjuvenjur þeirra sem drekka aðeins í þeim tilgangi að verða ofurölvi: „Um 44 prósent [háskólanema í Bandaríkjunum] fara á fyllirí að minnsta kosti einu sinni á tveggja vikna fresti.“ Sama vandamál er algengt meðal ungs fólks í Ástralíu, Bretlandi, Rússlandi og annars staðar. Hvað varðar siðleysi segir í grein í tímaritinu Newsweek að vinsælt sé meðal nemenda nú á dögum að „stofna til skyndikynna við skólafélaga — sem getur verið allt frá því að kyssast til þess að sofa saman — án þess að ætla sér nokkurn tíma að tala saman aftur“. Kannanir sýna að um 60 til 80 prósent nemenda stunda þetta. Kona sem vann að könnuninni sagði: „Ef þú ert venjulegur háskólanemi þá gerirðu þetta.“ — 1. Korintubréf 5:11; 6:9, 10.

12. Undir hvaða álagi eru háskólanemar?

12 Í viðbót við skaðlegt umhverfi má nefna álagið sem fylgir náminu og prófum. Að sjálfsögðu verða nemendur að læra og gera heimavinnuna sína til þess að ná prófunum. Sumir gætu líka þurft að vera í hlutastarfi með skólanum. Allt tekur þetta mjög mikinn tíma og orku. Hvernig geta þeir þá sinnt trúnni? Hvað verður látið mæta afgangi þegar álagði verður mikið? Verða andleg mál enn þá höfð í fyrirrúmi eða verða þau látin sitja á hakanum? (Matteus 6:33) Biblían hvetur kristna menn: „Hafið því nákvæma gát á, hvernig þér breytið, ekki sem fávísir, heldur sem vísir. Notið hverja stund, því að dagarnir eru vondir.“ (Efesusbréfið 5:15, 16) Því miður hafa sumir sem stunda nám við háskóla fallið frá trúnni vegna þess að miklar kröfur eru gerðar til tíma þeirra og krafta eða vegna þess að þeir hafa flækst í óbiblíulega hegðun í skólanum.

13. Hvaða spurningar verða kristnir foreldrar að hugleiða?

13 Auðvitað er ekki aðeins að finna siðleysi, slæma hegðun og álag í háskólum eða á háskólagörðum. En margir unglingar í heiminum líta á það sem hluta af skólagöngunni og þeim finnst ekkert athugarvert við það. Ættu kristnir foreldrar vitandi vits að gera börnin sín berskjalda fyrir þess konar umhverfi í þrjú ár eða jafnvel fleiri? (Orðskviðirnir 22:3; 2. Tímóteusarbréf 2:22) Er áhættan þess virði? Og umfram allt, hvað er ungt fólk að læra um það sem ætti að ganga fyrir í lífinu? * (Filippíbréfið 1:10; 1. Þessaloníkubréf 5:21) Foreldrar verða að gera þessi mál að bænarefni og hugsa alvarlega um þessar spurningar og hætturnar sem fylgja því að senda börnin í skóla í annarri borg eða öðru landi.

Hverjir eru valmöguleikarnir?

14, 15. (a) Hvaða ráðleggingar í Biblíunni eiga við nú á dögum þrátt fyrir ríkjandi skoðun margra? (b) Hvaða spurninga getur ungt fólk spurt sig?

14 Núna eru mjög margir þeirrar skoðunar að ungt fólk verði að hafa háskólamenntun til að komast áfram í lífinu. En kristnir menn eltast ekki við það sem er vinsælt heldur fylgja hvatningu Biblíunnar: „Hegðið yður eigi eftir öld þessari, heldur takið háttaskipti með endurnýjung hugarfarsins, svo að þér fáið að reyna, hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna.“ (Rómverjabréfið 12:2) Hvað vill Guð að þjónar hans, ungir sem aldnir, geri núna undir lok hinna síðustu daga? Páll hvatti Tímóteus: „Ver þú algáður í öllu, þol illt, gjör verk trúboða, fullna þjónustu þína.“ Þessi orð eiga svo sannarlega erindi til okkar allra nú á dögum. — 2. Tímóteusarbréf 4:5.

15 Í stað þess að sökkva sér niður í efnishyggju þessa heims þurfum við öll að vera algáð — staðföst í trúnni. Ungt fólk ætti að spyrja sig: „Geri ég mitt besta til að ‚fullna þjónustu‘ mína og verða hæfur þjónn orðsins? Hvernig ætla ég að sinna þjónustunni af kappi? Hef ég hugleitt að leggja fyrir mig þjónustu í fullu starfi?“ Þetta eru erfiðar spurningar, sérstaklega þegar þú sérð annað ungt fólk vinna að eigingjörnum markmiðum og ‚ætla sér mikinn hlut‘ vegna þess að það heldur að það veiti því bjarta framtíð. (Jeremía 45:5) Það er því viturlegt af kristnum foreldrum að veita börnunum gott uppeldi í trúnni og sjá til þess að þau séu í andlega uppbyggjandi umhverfi frá barnæsku. — Orðskviðirnir 22:6; Prédikarinn 12:1; 2. Tímóteusarbréf 3:14, 15.

16. Hvernig geta kristnir foreldrar breytt viturlega og séð til þess að börnin búi við andlega uppbyggjandi umhverfi?

16 „Mamma fylgdist vandlega með því hverja við umgengumst,“ segir elsti sonurinn af þremur í fjölskyldu þar sem móðirin hefur verið boðberi í fullu starfi í mörg ár. „Við umgengumst ekki skólafélaga heldur aðeins fólk í söfnuðinum sem hafði góðar andlegar venjur. Hún bauð líka reglulega í heimsókn þeim sem voru í fullu starfi eins og trúboðum, farandhirðum, betelítum og brautryðjendum. Þegar við hlustuðum á frásögur þeirra og sáum hvað þeir voru glaðir vakti það löngun í hjarta okkar til að þjóna í fullu starfi.“ Það er ánægjulegt að nú skuli allir synirnir þrír þjóna í fullu starfi — einn er á Betel, einn fór í Þjónustuþjálfunarskólann og einn er brautryðjandi.

17. Hvaða leiðsögn geta foreldrar veitt börnunum þegar þau þurfa að velja námsgreinar í skóla og ákveða hvað þau ætla að leggja fyrir sig? (Sjá rammagrein á blaðsíðu 31.)

17 Auk þess að tryggja að börnin séu í andlega uppbyggjandi umhverfi verða foreldrar að hjálpa þeim eins fljótt og mögulegt er að velja námsgreinar í skóla eða starfsgrein. Annar ungur maður, sem þjónar nú á Betel, segir: „Báðir foreldrar mínir voru brautryðjendur bæði áður og eftir að þau giftust og þau reyndu eftir bestu getu að láta brautryðjandaandann hafa áhrif á alla fjölskylduna. Alltaf þegar við vorum að velja námsgreinar í skóla eða taka ákvarðanir, sem myndu hafa áhrif á framtíð okkar, hvöttu þau okkur til að velja það sem gæfi okkur bestu möguleikana á því að finna hlutastarf og vera brautryðjendur.“ Í stað þess að velja bókleg fög sem eru sniðin að háskólanámi ættu foreldrar og börn að leiða hugann að námi sem hjálpar börnunum að stefna að þjónustu í fullu starfi. *

18. Hvaða starfsmöguleika ætti ungt fólk að hugleiða?

18 Kannanir í mörgum löndum sýna að það er ekki brýn þörf á vinnumarkaðinum fyrir fólk með háskólamenntun heldur fólk sem starfar við iðn- og þjónustugreinar. Í tímaritinu USA Today kemur fram að „70 prósent starfsmanna á komandi áratugum muni ekki þurfa fjögurra ára háskólamenntun“ heldur menntun sem er sambærileg við framhalds- eða iðnskólanám. Margir slíkir skólar bjóða upp á styttra nám í skrifstofustörfum, bílaviðgerðum, tölvuviðgerðum, pípulagningum, hárgreiðslu og ýmsu fleira. Eru þetta eftirsóknarverð störf? Vissulega. Þau hafa kannski ekki yfir sér þann glæsibrag sem margir sækjast eftir en þau bjóða upp á ýmis tækifæri og sveigjanleika fyrir þá sem líta á þjónustuna við Jehóva sem aðalstarf sitt. — 2. Þessaloníkubréf 3:8.

19. Hver er öruggasta leiðin til að hljóta gleði og ánægju?

19 Biblían segir: „Bæði yngismenn og yngismeyjar . . . skulu lofa nafn Drottins, því að hans nafn eitt er hátt upp hafið, tign hans er yfir jörð og himni.“ (Sálmur 148:12, 13) Í samanburði við þær stöður og þá umbun sem heimurinn hefur upp á að bjóða er það að þjóna Jehóva í fullu starfi öruggasta leiðin til að hljóta gleði og ánægju. Taktu til þín loforð Biblíunnar: „Blessun Drottins, hún auðgar, og erfiði mannsins bætir engu við hana.“ — Orðskviðirnir 10:22.

[Neðanmáls]

^ gr. 13 Finna má frásögur af fólki sem tók menntun í trúnni fram yfir háskólamenntun í Varðturninum á ensku 1. maí 1982, bls. 3-6; 15. apríl 1979, bls. 5-10; Vaknið! á ensku 8. júni 1978, bls. 15, og 8. ágúst 1974, bls. 3-7.

^ gr. 17 Sjá Vaknið! á ensku 8. október 1998 „In Search of a Secure Life“, bls. 4-6 og 8. maí 1989 „What Career Should I Choose?“ bls. 12-14.

Geturðu útskýrt?

• Á hvað leggja kristnir menn traust sitt til að öðlast örugga framtíð?

• Hvaða erfiðu ákvörðunum standa foreldrar frammi fyrir varðandi framtíð barna sinna?

• Hvað þarf að taka með í reikninginn þegar hugað er að kostnaði við æðri menntun?

• Hvernig geta foreldrar hjálpað börnum sínum að stefna að ævistarfi í þjónustu Jehóva?

[Spurningar]

[Rammagrein á blaðsíðu 31]

Hvaða gildi hefur æðri menntun?

Flestir sem sækja um inngöngu í háskóla hlakka til þess að fá gráðu sem veitir þeim möguleika á öruggu og vel launuðu starfi. Skýrslur frá bandaríska ríkinu sýna hins vegar að aðeins fjórðungur þeirra sem fer í háskóla fær gráðu innan sex ára — en það er dapurlegur árangur. Auk þess mætti spyrja: Er háskólamenntun einhver trygging fyrir góðu starfi? Taktu eftir því sem nýlegar kannanir og rannsóknir sýna.

„[Háskólagráða] úr Harvard eða Duke tryggir ekki sjálfkrafa betra starf og hærri laun. . . . Fyrirtæki vita lítið um unga atvinnuumsækjendur. Flott prófskírteini (gráða úr úrvalsháskólum Bandaríkjanna) er kannski tilkomumikið en að lokum skiptir meira máli hvað fólk getur eða getur ekki gert.“ — Newsweek, 1. nóvember 1999.

„Þótt almenn störf nú á dögum krefjist meiri menntunar en áður . . . krefjast þau góðrar menntunar á grunn- og framhaldsskólastigi — níunda bekkjar stærðfræði, skrift og lestur . . . en ekki menntunar á háskólastigi. . . . Nemendur þurfa ekki að fara í háskóla til að fá góða vinnu heldur þurfa þeir að hafa góð tök á því sem kennt er í grunn- og framhaldsskóla.“ — American Educator, vor 2004.

„Fæstir háskólar eru í nokkurri snertingu við raunveruleikann né búa nemendur undir vinnumarkaðinn. Sprenging hefur orðið . . . í aðsókn að iðnskólum. Hún jókst um 48% frá 1996 til 2000. . . . Á meðan hefur gildi dýrrar og tímafrekrar háskólamenntunar orðið minna en nokkru sinni fyrr.“ — Time, 24. janúar 2005.

„Atvinnuráðuneyti Bandaríkjanna spáir því að árið 2005 muni að minnsta kosti þriðjungur allra sem útskrifast eftir fjögurra ára háskólanám ekki fá vinnu sem hæfir menntun þeirra.“ — The Futurist, júlí-ágúst 2000.

Í ljósi alls þessa efast sífellt fleiri kennarar um gildi æðri menntunar nú á dögum. „Við erum að veita fólki ranga menntun,“ segir í greininni í Futurist. En taktu eftir því sem Biblían segir um Guð: „Ég, Drottinn Guð þinn, er sá sem kenni þér að gjöra það sem þér er gagnlegt, sem vísa þér þann veg, er þú skalt ganga. Æ, að þú vildir gefa gaum að boðorðum mínum, þá mundi heill þín verða sem fljót og réttlæti þitt sem bylgjur sjávarins.“ — Jesaja 48:17, 18.

[Mynd á blaðsíðu 28]

Þeir settu persónuleg markmið til hliðar og fylgdu Jesú.

[Mynd á blaðsíðu 32]

Það er viturlegt af kristnum foreldrum að tryggja börnunum andlega uppbyggjandi umhverfi frá barnæsku.