Getur einhver breytt heiminum til batnaðar?
Getur einhver breytt heiminum til batnaðar?
„Fátækir segja okkur að þeir vilji frið og öryggi umfram allt og síðan tækifæri til að bæta lífskjör sín. Þeir vilja réttláta skipan heima fyrir og á alþjóðavettvangi til að yfirgangur ríkra þjóða og stórfyrirtækja ónýti ekki erfiði þeirra.“
ÞETTA sagði yfirmaður alþjóðlegrar hjálparstofnunar um væntingar og óskir fátækra. Eflaust gætu allir þeir sem þjást vegna erfiðleika og óréttlætis í heiminum tekið í sama streng. Þá dreymir alla um heim þar sem sannur friður og öryggi ríkir. En verður heimurinn einhvern tíma þannig? Býr einhver yfir þeirri getu og þeim mætti sem þarf til að breyta þessum óréttláta heimi?
Viðleitni til úrbóta
Margir hafa reynt að koma á breytingum. Florence Nightingale var ensk hjúkrunarkona á 19. öld sem helgaði líf sitt bættri hjúkrun. Hún barðist fyrir auknu hreinlæti og betri aðhlynningu sjúkra. Í þá daga, áður en sýklalyf og sótthreinsandi efni komu til sögunnar, var hjúkrunarstarfið ekki eins og við þekkjum það í dag. „Hjúkrunarkonur voru ómenntaðar, óþrifalegar og alkunnar fyrir drykkjuskap og siðleysi,“ segir í einu heimildarriti. Tókst Florence Nightingale að bæta starfsaðferðir hjúkrunarfólks? Já, svo sannarlega. Sömuleiðis hafa ótalmargir fórnfúsir einstaklingar náð frábærum árangri í að aðstoða aðra á ýmsum sviðum lífsins, til dæmis hvað snertir læsi, menntun, lyf, húsnæði og matvælaaðstoð. Árangurinn er sá að tekist hefur að auka lífsgæðin hjá milljónum bágstaddra manna.
Við getum samt ekki horft fram hjá þeim veruleika að hundruð milljóna manna þjást enn þá vegna styrjalda, glæpa, sjúkdóma, hungursneyðar og annarra hörmunga. „Fátækt verður 30.000 manns að bana á hverjum degi,“ segir írska hjálparstofnunin Concern. Þrælahald er meira að segja mjög útbreitt, þrátt fyrir að mikið hafi verið gert til að útrýma því í aldanna rás. „Það eru fleiri þrælar á lífi núna en rænt var frá Afríku á tímum þrælasölunnar vestur um haf,“ segir í bókinni Disposable People — New Slavery in the Global Economy.
Hvað hefur staðið í veginum fyrir algerum og varanlegum breytingum? Er það einungis yfirgnæfandi styrkur þeirra ríku og valdamiklu, eða er eitthvað annað sem veldur því?
Tálmar í vegi úrbóta
Samkvæmt orði Guðs er Satan djöfullinn langstærsti tálminn í viðleitni manna til að skapa réttlátan heim. Jóhannes postuli segir: „Allur heimurinn er á valdi hins vonda.“ (1. Jóhannesarbréf 5:19) Satan „afvegaleiðir alla heimsbyggðina“ einmitt núna á okkar tímum. (Opinberunarbókin 12:9) Illska og óréttlæti hverfur ekki fyrr en illum áhrifum hans hefur verið útrýmt. En hvers vegna er ástandið svona?
Foreldrar mannkyns, Adam og Eva, fengu að gjöf jörð sem var hönnuð til að verða fullkomið paradísarheimili handa öllu mannkyni — heimili sem „var harla gott“. (1. Mósebók 1:31) Hvers vegna breyttist það? Þar kom Satan að verki. Hann efaðist um rétt Guðs til að setja mönnum reglur sem þeir ættu að lifa eftir. Hann gaf í skyn að stjórnarhættir Guðs væru ósanngjarnir. Hann hvatti Adam og Evu til að vera sjálfstæð svo þau gætu ákveðið sjálf hvað væri gott og illt. (1. Mósebók 3:1-6) Þetta leiddi af sér synd og ófullkomleika sem var annar tálmi í vegi fyrir því að mönnum tækist að skapa réttlátan heim. — Rómverjabréfið 5:12.
Hvers vegna leyfði Guð þetta?
En sumir gætu spurt: „Hvers vegna leyfði Guð synd og ófullkomleika að viðgangast? Hvers vegna notaði hann ekki óendanlegan mátt sinn til að útrýma þessum uppreisnarseggjum og byrja aftur upp á nýtt?“ Það
hljómar eins og mjög einföld lausn. En það að grípa til valds vekur upp ýmsar alvarlegar spurningar. Er það ekki einmitt misbeiting á valdi sem veldur þeim fátæku og kúguðu mestu þjáningunum? Vekur það ekki upp tortryggni hjá réttsinnuðu fólki þegar einhver harðstjóri misbeitir valdi sínu til að ryðja úr vegi öllum þeim sem eru ósammála stefnu hans?Guð vill fullvissa réttsinnað fólk um að hann sé ekki harðstjóri sem misbeiti valdi sínu. Hann hefur því leyft Satan og uppreisnarmönnum að hegða sér óháð lögum hans og meginreglum en aðeins í takmarkaðan tíma. Tíminn myndi leiða í ljós að stjórnarfar Guðs væri hið eina rétta. Það yrði augljóst að þær hömlur, sem Guð setur okkur, eru okkur sjálfum fyrir bestu. Í rauninni hafa sorglegar afleiðingar uppreisnarinnar gegn stjórn Guðs leitt það í ljós nú þegar. Það hefur líka sannast að Guð hefur fullan rétt á að nota vald sitt til að eyða allri illsku þegar hann ákveður að gera það. Og það gerist von bráðar. — 1. Mósebók 18:23-32; 5. Mósebók 32:4; Sálmur 37:9, 10, 38.
En þangað til Guð tekur til hendinni erum við föst í óréttlátum heimi sem „stynur líka og hefur fæðingarhríðir allt til þessa“. (Rómverjabréfið 8:22) Hvað sem við gerum til að breyta hlutunum getum við ekki losnað við Satan né útrýmt ófullkomleikanum sem veldur okkur þjáningum. Það er okkur einfaldlega um megn að vinna gegn áhrifum syndarinnar sem við fengum í arf frá Adam. — Sálmur 49:8-10.
Jesús Kristur mun bæta heiminn til frambúðar
Er staðan þá alveg vonlaus? Nei, alls ekki. Jesús Kristur hefur fengið það verkefni að koma á varanlegum breytingum og hann er miklu máttugri en dauðlegir menn. Honum er lýst í Biblíunni sem „foringja og frelsara“ alls mannkyns. — Postulasagan 5:31.
Hann bíður nú þess að tími Guðs komi til að hefjast handa. (Opinberunarbókin 11:18) Hvað ætlar hann að gera? Hann „endurreisir alla hluti, eins og [Guð] hefur sagt fyrir munn sinna heilögu spámanna frá alda öðli“. (Postulasagan 3:21) Til dæmis „bjargar [Jesús] hinum snauða, er hrópar á hjálp, og hinum þjáða, er enginn liðsinnir . . . frá ofbeldi og ofríki leysir hann þá“. (Sálmur 72:12-16) Fyrir milligöngu Jesú Krists lofar Guð að „[stöðva] styrjaldir til endimarka jarðar“. (Sálmur 46:10) Guð lofar: „Enginn borgarbúi [á hreinsaðri jörð hans] mun segja: ‚Ég er sjúkur.‘“ Blindir, heyrnalausir, lamaðir og allir sem búa við sjúkdóma og veikindi fá fullkomna heilsu. (Jesaja 33:24; 35:5, 6; Opinberunarbókin 21:3, 4) Jafnvel þeir sem hafa dáið á liðnum öldum munu njóta góðs af. Jesús lofar að vekja aftur upp til lífsins öll fórnarlömb óréttlætis og kúgunar. — Jóhannes 5:28, 29.
Jesús Kristur mun ekki koma á takmörkuðum breytingum til skamms tíma. Hann fjarlægir allar hindranir sem standa í vegi fyrir því að réttlæti ríki í heiminum. Hann útrýmir syndinni og ófullkomleikanum og eyðir Satan djöflinum og öllum sem fylgja uppreisnarstefnu hans. (Opinberunarbókin 19:19, 20; 20:1-3, 10) Erfiðleikarnir og þjáningarnar, sem Guð hefur leyft um tíma, munu ekki endurtaka sig. (Nahúm 1:9) Það var þetta sem Jesús hafði í huga þegar hann kenndi okkur að biðja um að ríki Guðs kæmi og vilji hans yrði gerður „svo á jörðu sem á himni“. — Matteus 6:10.
En sumir mótmæla og segja: „Sagði ekki Jesús sjálfur: ‚Fátæka hafið þér jafnan hjá yður?‘ Þýðir það ekki að við munum alltaf búa við óréttlæti og fátækt?“ (Matteus 26:11) Það er rétt að Jesús sagði að það yrði alltaf til fátækt fólk. En samhengi orða hans og loforð Biblíunnar sýna okkur að hann átti við að fátækt yrði alltaf til á meðan þetta heimskerfi stæði. Hann vissi að enginn maður gæti útrýmt fátæktinni og óréttlætinu í heiminum. Jesús vissi líka að það yrði hann sem myndi breyta því. Hann kemur bráðlega á algerlega nýrri heimsskipan, nýjum himni og nýrri jörð, þar sem sársauki, sjúkdómar, fátækt og dauði verða ekki til framar. — 2. Pétursbréf 3:13; Opinberunarbókin 21:1.
„Gleymið ekki velgjörðaseminni“
Þýðir þetta að það sé tilgangslaust að gera það sem við getum til að hjálpa öðrum? Síður en svo. Biblían hvetur okkur til að hjálpa þeim sem eru í neyð eða lenda í erfiðleikum. „Synja eigi góðs þeim, er þarfnast þess, ef það er á þínu valdi að gjöra það,“ skrifaði Salómon konungur til forna. (Orðskviðirnir 3:27) Páll postuli hvatti: „Gleymið ekki velgjörðaseminni og hjálpseminni.“ — Hebreabréfið 13:16.
Jesús Kristur hvatti okkur til að gera það sem við getum til að hjálpa öðrum. Hann sagði dæmisögu um Samverja sem gekk fram á mann sem hafði verið barinn og rændur. Samverjinn „kenndi . . . í brjósti um hann“ og batt um sár hans og aðstoðaði hann svo að hann gæti náð sér eftir árásina. (Lúkas 10:29-37) Þessi miskunnsami Samverji breytti kannski ekki heiminum en það sem hann gerði breytti öllu fyrir manninn sem hann aðstoðaði. Við getum gert hið sama.
En Jesús Kristur getur gert meira en að hjálpa einstaklingum. Hann getur gerbreytt heiminum og gerir það innan skamms. Þá geta fórnarlömb óréttlætis bætt líf sitt og upplifað sannan frið og öryggi. — Sálmur 4:9; 37:10, 11.
Meðan við bíðum þessa tíma skulum við aldrei hika við að gera allt sem við getum, bæði efnislega og andlega, til að „gjöra öllum gott“ — öllum sem verða fyrir óréttlæti þessa heims. — Galatabréfið 6:10.
[Myndir á blaðsíðu 5]
Florence Nightingale kom á varanlegum breytingum á sviði hjúkrunar.
[Réttthafi]
Með góðfúslegu leyfi National Library of Medicine
[Myndir á blaðsíðu 7]
Fylgjendur Krists gera öðrum gott.
[Mynd rétthafi á blaðsíðu 4]
The Star, Jóhannesarborg, Suður-Afríku