Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Kristnir menn endurspegla dýrð Jehóva

Kristnir menn endurspegla dýrð Jehóva

Kristnir menn endurspegla dýrð Jehóva

„Sæl eru augu yðar, að þau sjá, og eyru yðar, að þau heyra.“ — MATTEUS 13:16.

1. Hvaða spurning vaknar varðandi viðbrögð Ísraelsmanna þegar Móse kom ofan af Sínaífjalli?

ÍSRAELSMENN voru samankomnir við rætur Sínaífjalls. Þeir höfðu ærna ástæðu til að tengjast Guði nánum böndum. Hann hafði frelsað þá með máttugri hendi frá Egyptalandi. Hann annaðist þarfir þeirra og sá þeim fyrir mat og vatni í eyðimörkinni. Hann veitti þeim sigur yfir her Amalekíta sem réðst á þá. (2. Mósebók 14:26-31; 16:2–17:13) Þegar reiðarþrumur og eldingar gengu yfir Sínaífjall urðu þeir skelfdir í búðum sínum við fjallsræturnar. Síðar sáu þeir Móse koma ofan af fjallinu og ljómaði þá andlit hans af dýrð Jehóva. En í stað þess að fyllast lotningu og viðurkenna dýrð Jehóva hörfuðu þeir undan. „Þorðu þeir þá ekki að koma nærri [Móse].“ (2. Mósebók 19:10-19; 34:30) Af hverju hræddust menn þegar þeir sáu endurskinið af dýrð Jehóva Guðs sem hafði gert svo margt fyrir þá?

2. Af hverju ætli Ísraelsmenn hafi verið hræddir við að sjá dýrð Guðs sem Móse endurspeglaði?

2 Trúlega stafaði ótti Ísraelsmanna að miklu leyti af atvikum sem höfðu átt sér stað nokkru áður. Jehóva hafði agað þá þegar þeir óhlýðnuðust honum og gerðu sér gullkálf. (2. Mósebók 32:4, 35) Lærðu þeir af öguninni og kunnu þeir að meta hana? Nei, fæstir gerðu það. Skömmu áður en Móse dó rifjaði hann upp atvikið með gullkálfinn og fleiri tilvik þar sem Ísraelsmenn höfðu óhlýðnast. Hann sagði fólkinu: „Þá óhlýðnuðust þér skipun Drottins Guðs yðar og trúðuð honum ekki og hlýdduð ekki raustu hans. Þér hafið verið Drottni óhlýðnir frá því ég þekkti yður fyrst.“ — 5. Mósebók 9:15-24.

3. Hvenær breiddi Móse skýlu fyrir andlit sér?

3 Hvernig brást Móse við þegar Ísraelsmenn sýndu óttamerki? Frásagan segir: „Er Móse hafði lokið máli sínu við þá, lét hann skýlu fyrir andlit sér. En er Móse gekk [í tjaldbúðina] fram fyrir Drottin til þess að tala við hann, tók hann skýluna frá, þar til er hann gekk út aftur. Því næst gekk hann út og flutti Ísraelsmönnum það, sem honum var boðið. Sáu Ísraelsmenn þá andlit Móse, hversu geislar stóðu af andlitshörundi hans. Lét Móse þá skýluna aftur fyrir andlit sér, þar til er hann gekk inn til þess að tala við Guð.“ (2. Mósebók 34:33-35) Hvers vegna breiddi Móse stundum skýlu fyrir andlit sér? Hvaða lærdóm getum við dregið af því? Svörin við þessum spurningum geta hjálpað okkur að leggja mat á okkar eigið samband við Jehóva.

Glötuð tækifæri

4. Hvernig skýrði Páll postuli merkingu þess að Móse skyldi hylja andlitið?

4 Páll postuli benti á að það hefði verið hugarástand og hjartalag Ísraelsmanna sem olli því að Móse huldi andlitið. Hann skrifaði: „Ísraelsmenn gátu ekki horft framan í Móse vegna ljómans af ásýnd hans . . . hugur þeirra varð forhertur.“ (2. Korintubréf 3:7, 14) En dapurlegt! Ísraelsmenn voru útvalin þjóð Guðs og hann vildi að þeir ættu náið samband við sig. (2. Mósebók 19:4-6) Þeir voru hins vegar tregir til að horfa á endurskinið af dýrð hans. Í stað þess að snúa hugum sínum og hjörtum til Jehóva í hollustu og kærleika má orða það svo að þeir hafi snúið sér frá honum.

5, 6. (a) Hvað var hliðstætt með Gyðingum á fyrstu öld og á dögum Móse? (b) Hvaða munur var á þeim sem hlustuðu á Jesú og þeim sem gerðu það ekki?

5 Við sjáum hliðstæðu við þetta á fyrstu öld. Þegar Páll snerist til kristni hafði nýi sáttmálinn tekið við af þeim gamla. Jesús, hinn meiri Móse, hafði miðlað honum. Jesús endurspeglaði dýrð Jehóva fullkomlega, bæði í orðum og verkum. Páll skrifaði um Jesú upprisinn: „Hann . . . er ljómi dýrðar [Guðs] og ímynd veru hans.“ (Hebreabréfið 1:3) Gyðingar höfðu alveg einstakt tækifæri. Þeir gátu heyrt orð eilífs lífs af munni sonar Guðs! Því miður hlustuðu fæstir sem Jesús prédikaði fyrir. Hann vitnaði í orð Jesaja spámanns og heimfærði upp á þá: „Hjarta lýðs þessa er sljótt orðið, og illa heyra þeir með eyrum sínum, og augunum hafa þeir lokað, svo að þeir sjái ekki með augunum né heyri með eyrunum og skilji með hjartanu og snúi sér, og ég lækni þá.“ — Matteus 13:15; Jesaja 6:9, 10.

6 Það var mikill munur á Gyðingum almennt og lærisveinum Jesú. Hann sagði um lærisveinana: „Sæl eru augu yðar, að þau sjá, og eyru yðar, að þau heyra.“ (Matteus 13:16) Sannkristnir menn þrá að þekkja Jehóva og þjóna honum. Þeir njóta þess að gera vilja hans sem hann opinberar á síðum Biblíunnar. Andasmurðir kristnir menn endurspegla síðan dýrð Jehóva í þjónustu sinni við nýja sáttmálann, og aðrir sauðir gera slíkt hið sama. — 2. Korintubréf 3:6, 18.

Hvers vegna er fagnaðarerindið hulið skýlu?

7. Af hverju kemur það ekki á óvart að flestir skuli hafna fagnaðarerindinu?

7 Flestir Ísraelsmenn, bæði á dögum Jesú og Móse, höfnuðu sem sagt því einstaka tækifæri sem þeim stóð til boða. Hið sama er uppi á teningnum núna. Flestir hafna fagnaðarerindinu sem við boðum. Það kemur ekki á óvart því að Páll skrifaði: „Ef fagnaðarerindi vort er hulið, þá er það hulið þeim, sem glatast. Því guð þessarar aldar hefur blindað huga hinna vantrúuðu.“ (2. Korintubréf 4:3, 4) En það er ekki aðeins að Satan reyni að bregða skýlu yfir fagnaðarerindið heldur hylja sumir andlit sitt sjálfir af því að þeir vilja ekki sjá.

8. Hvernig eru margir blindaðir og hvernig getum við forðast slíka blindu?

8 Táknræn augu margra eru blinduð sökum vanþekkingar. Biblían segir um þjóðirnar að ‚skilningur þeirra sé blindaður og þær séu fjarlægar lífi Guðs vegna vanþekkingarinnar sem þær lifa í‘. (Efesusbréfið 4:18) Páll var vel heima í lögmálinu áður en hann gerðist kristinn en hann var svo blindaður vegna vanþekkingar að hann ofsótti söfnuð Guðs. (1. Korintubréf 15:9) En Jehóva opinberaði honum sannleikann. Páll segir: „Fyrir þá sök var mér miskunnað, að Kristur Jesús skyldi sýna á mér fyrstum gjörvallt langlyndi sitt, þeim til dæmis, er á hann munu trúa til eilífs lífs.“ (1. Tímóteusarbréf 1:16) Margir voru einu sinni andvígir sannleika Guðs eins og Páll en þjóna honum núna. Þetta er næg ástæða til að halda áfram að vitna, jafnvel fyrir þeim sem eru okkur andsnúnir. Með því að nema orð Guðs reglulega og skilja það komum við í veg fyrir að við gerum rangt sökum vanþekkingar en það myndi kalla yfir okkur vanþóknun hans.

9, 10. (a) Hvernig sýndu Gyðingar á fyrstu öld að þeir voru fastir á skoðunum sínum og vildu ekki læra? (b) Er ástandið svipað í kristna heiminum? Skýrðu svarið.

9 Margir eru andlega blindir vegna þess að þeir eru stífir á skoðunum sínum og vilja ekki læra. Fjöldi Gyðinga hafnaði Jesú og kenningum hans vegna þess að þeir ríghéldu í Móselögin. Þó voru undantekningar frá því. Til dæmis segir frá því að „mikill fjöldi presta“ hafi snúist „til hlýðni við trúna“ eftir upprisu Jesú. (Postulasagan 6:7) Páll sagði hins vegar um meirihluta Gyðinga: „Allt til þessa dags hvílir skýla yfir hjörtum þeirra, hvenær sem Móse er lesinn.“ (2. Korintubréf 3:15) Páll vissi sennilega hvað Jesús hafði sagt trúarleiðtogunum á sínum tíma: „Þér rannsakið ritningarnar, því í þeim hyggist þér eiga eilíft líf. Og það eru þær, sem vitna um mig.“ (Jóhannes 5:39) Af Ritningunni, sem þeir rannsökuðu svo gaumgæfilega, hefðu þeir átt að skilja að Jesús væri Messías. En Gyðingar höfðu sínar eigin hugmyndir og sonur Guðs megnaði jafnvel ekki með kraftaverkum að sannfæra þá.

10 Hið sama er að segja um marga innan kristna heimsins nú á tímum. Líkt og Gyðingar á fyrstu öld eru þeir „kappsfullir Guðs vegna, en ekki með réttum skilningi“. (Rómverjabréfið 10:2) Sumir kynna sér Biblíuna en vilja ekki trúa því sem stendur í henni. Þeir vilja ekki viðurkenna að Jehóva kenni þjónum sínum fyrir milligöngu hins trúa og hyggna þjóns, það er að segja hinna andasmurðu. (Matteus 24:45) En við skiljum að Jehóva kennir fólki sínu og einnig að skilningurinn á sannleika Guðs hefur alltaf farið vaxandi. (Orðskviðirnir 4:18) Við höfum fengið þekkingu á vilja Jehóva og fyrirætlun vegna þess að við höfum þegið kennslu hjá honum.

11. Hvernig getur óskhyggja hulið sannleikann fyrir mönnum?

11 Aðrir eru blindaðir af óskhyggju. Því hafði verið spáð að sumir myndu gera gys að fólki Guðs og boðskap þess um nærveru Jesú. „Viljandi gleyma þeir því“ að Guð lét flóð koma yfir heiminn á dögum Nóa eins og Pétur postuli komst að orði. (2. Pétursbréf 3:3-6) Margir sem segjast kristnir viðurkenna fúslega að Jehóva sé miskunnsamur, góður og fús til að fyrirgefa, en þeir hunsa það eða hafna því að hann hegni mönnum. (2. Mósebók 34:6, 7) Sannkristnir menn leggja sig alla fram við að skilja hvað Biblían kennir í raun og veru.

12. Hvernig hafa erfikenningar blindað fólk?

12 Margt kirkjurækið fólk er blindað af erfikenningum. Jesús sagði trúarleiðtogum síns tíma: „Þér ógildið orð Guðs með erfikenning yðar.“ (Matteus 15:6) Gyðingar endurreistu hreina tilbeiðslu af miklu kappi eftir að þeir komu heim úr útlegðinni í Babýlon en prestarnir urðu með tímanum stoltir og sjálfumglaðir. Trúarhátíðirnar urðu formið eitt, gersneyddar lotningu fyrir Guði. (Malakí 1:6-8) Á dögum Jesú var svo komið að fræðimenn og farísear höfðu bætt ótal erfikenningum við Móselögin. Jesús afhjúpaði þessa menn sem hræsnara vegna þess að þeir höfðu misst sjónar á hinum réttlátu meginreglum sem lögmálið var byggt á. (Matteus 23:23, 24) Sannkristnir menn verða að gæta þess að láta ekki erfikenningar manna leiða sig út af sporinu og frá hreinni tilbeiðslu.

Að ‚sjá hinn ósýnilega‘

13. Á hvaða tvo vegu fékk Móse að sjá nokkuð af dýrð Guðs?

13 Móse bað um að fá að sjá dýrð Guðs uppi á fjallinu og fékk að sjá endurskinið af henni. Hann bar ekki skýlu fyrir andlitinu þegar hann fór inn í tjaldbúðina. Móse var mikill trúmaður og þráði að gera vilja Guðs. Hann fékk að sjá dýrð Jehóva að nokkru leyti í sýn, en í vissum skilningi var hann þegar búinn að sjá Guð með augum trúarinnar. Sagt er í Biblíunni að hann hafi verið „öruggur eins og hann sæi hinn ósýnilega“. (Hebreabréfið 11:27; 2. Mósebók 34:5-7) Og hann endurspeglaði ekki aðeins dýrð Jehóva með andlitinu sem geislaði um tíma heldur einnig með viðleitni sinni til að hjálpa Ísraelsmönnum að kynnast Jehóva og þjóna honum.

14. Hvernig sá Jesús dýrð Guðs og af hverju hafði hann yndi?

14 Jesús hafði fengið að horfa óralengi á dýrð Guðs á himnum, löngu áður en alheimurinn var skapaður. (Orðskviðirnir 8:22, 30) Á þessum langa tíma myndaðist sterkt og ástúðlegt samband milli þeirra. Jesús var frumburður sköpunarverksins og Jehóva Guð sýndi honum mikla ást og alúð. Jesús endurgalt ást og umhyggju Guðs sem gaf honum lífið. (Jóhannes 14:31; 17:24) Þetta kærleikssamband föður og sonar var fullkomið. Jesús hafði yndi af því að endurspegla dýrð Jehóva þegar hann kenndi, rétt eins og Móse.

15. Hvernig geta kristnir menn virt fyrir sér dýrð Guðs?

15 Vottar Jehóva nú á dögum hafa yndi af því að virða fyrir sér dýrð Jehóva, líkt og þeir Móse og Jesús. Þeir hafa ekki hafnað hinu dýrlega fagnaðarerindi. „Þegar einhver snýr sér til Drottins [til að gera vilja hans], verður skýlan burtu tekin,“ skrifaði Páll postuli. (2. Korintubréf 3:16) Við rannsökum Biblíuna vegna þess að við viljum gera vilja Guðs. Við dáumst að þeirri dýrð sem skín af andliti Jesú Krists, syni Jehóva og smurðum konungi, og við líkjum eftir dæmi hans. Líkt og Móse og Jesús höfum við fengið þjónustu til að inna af hendi, að segja öðrum frá hinum dýrlega Guði sem við dýrkum.

16. Hvernig er það okkur til góðs að þekkja sannleikann?

16 Jesús sagði í bæn: „Ég vegsama þig, faðir, . . . að þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum, en opinberað það smælingjum.“ (Matteus 11:25) Jehóva veitir þeim sem eru einlægir og auðmjúkir í hjarta skilning á fyrirætlunum sínum og persónuleika. (1. Korintubréf 1:26-28) Við njótum umhyggju hans og verndar og hann kennir okkur það sem er okkur gagnlegt þannig að við njótum lífsins sem best. Við skulum nýta okkur hvert tækifæri sem við höfum til að nálægja okkur Jehóva og vera þakklát fyrir allt sem hann gerir til að við getum kynnst honum betur.

17. Hvernig getum við kynnst eiginleikum Jehóva betur?

17 Páll skrifaði andasmurðum kristnum mönnum: „Allir vér, sem með óhjúpuðu andliti endurspeglum dýrð Drottins, ummyndumst til hinnar sömu myndar, frá dýrð til dýrðar.“ (2. Korintubréf 3:18) Hvort sem við höfum himneska von eða jarðneska kynnumst við Jehóva betur og líkjumst honum því meir sem við lesum um eiginleika hans og persónuleika í Biblíunni. Með því að hugleiða ævi, þjónustu og kennslu Jesú Krists getum við endurspeglað eiginleika Jehóva betur. Hvílík gleði að mega lofa hann og leitast við að endurspegla dýrð hans!

Manstu?

• Af hverju þorðu Ísraelsmenn ekki að horfa á dýrð Guðs sem Móse endurspeglaði?

• Á hvaða hátt var fagnaðarerindið „hulið“ á fyrstu öldinni? Hvernig er það hulið nú á dögum?

• Hvernig endurspeglum við dýrð Guðs?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 13]

Ísraelsmenn gátu ekki horft framan í Móse.

[Myndir á blaðsíðu 15]

Margir fyrrverandi andstæðingar sannleikans þjóna Guði núna, líkt og Páll gerði.

[Myndir á blaðsíðu 17]

Þjónar Jehóva hafa yndi af því að endurspegla dýrð hans.