Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Höfuðþættir 2. Kroníkubókar

Höfuðþættir 2. Kroníkubókar

Orð Jehóva er lifandi

Höfuðþættir 2. Kroníkubókar

SALÓMON er konungur Ísraels þegar frásaga 2. Kroníkubókar hefst. Bókinni lýkur með orðum Kýrusar Persakonungs til Gyðinga í útlegðinni í Babýlon: „[Jehóva] hefir skipað mér að reisa sér musteri í Jerúsalem í Júda. Hver sem nú er meðal yðar af öllu hans fólki, með honum sé Drottinn, Guð hans, og hann fari heim [til Jerúsalem].“ (2. Kroníkubók 36:23) Bókin spannar 500 ára sögu, frá 1037 f.Kr. til 537 f.Kr. Það var Esra prestur sem ritaði bókina og hann lauk við hana árið 460 f.Kr.

Tilskipun Kýrusar gerir Gyðingum kleift að snúa heim til Jerúsalem og endurreisa tilbeiðsluna á Jehóva þar. En hin langa útlegð í Babýlon hefur haft sín áhrif á þá. Þeir eru ekki nógu vel að sér í sögu þjóðarinnar. Í 2. Kroníkubók fá þeir greinagóða samantekt á þeim atburðum sem áttu sér stað meðan konungsætt Davíðs sat að völdum. Frásagan er einnig áhugaverð fyrir okkur af því að hún vekur athygli á þeirri blessun sem hlýst af því að hlýða hinum sanna Guði og á afleiðingum þess að óhlýðnast honum.

KONUNGUR REISIR JEHÓVA HÚS

(2. Kroníkubók 1:1–9:31)

Jehóva veitir Salómon konungi það sem hann þráir mest — visku og þekkingu — en einnig auðlegð og heiður. Konungur reisir Jehóva mikilfenglegt hús í Jerúsalem og þjóðin er ‚glöð og í góðu skapi‘. (2. Kroníkubók 7:10) Salómon „bar af öllum konungum jarðarinnar að auðlegð og visku“. — 2. Kroníkubók 9:22.

Eftir að Salómon hefur stjórnað Ísrael í 40 ár ‚leggst hann til hvíldar hjá feðrum sínum og Rehabeam sonur hans tekur ríki eftir hann‘. (2. Kroníkubók 9:31) Esra minnist ekki á fráhvarf Salómons frá sannri tilbeiðslu. Einu ávirðingarnar, sem hann nefnir, eru þær að konungur skuli sýna þá óskynsemi að fá sér fjölda hesta frá Egyptalandi og ganga að eiga dóttur faraós. Ritarinn segir söguna frá jákvæðum sjónarhóli.

Biblíuspurningar og svör:

2:14 — Af hverju er ættartala handverksmannsins önnur hér en í 1. Konungabók 7:14? Í 1. Konungabók er handverksmaðurinn sagður „sonur ekkju nokkurrar af ættkvísl Naftalí“ af því að hún hafði gifst manni af þeirri ætt. Sjálf var hún hins vegar af ættkvísl Dans. Eftir að hún varð ekkja giftist hún týrverskum manni og átti með honum soninn sem hér um ræðir.

2:18; 8:10 — Í þessum versum segir að fógetarnir, sem voru umsjónarmenn og verkstjórar yfir starfsliðinu, hafi verið 3600 að viðbættum 250, en samkvæmt 1. Konungabók 5:16 og 9:23 voru þeir 3300 að viðbættum 550. Af hverju ber tölunum ekki saman? Munurinn virðist liggja í því hvernig fógetarnir eru flokkaðir. Vera má að 2. Kroníkubók geri greinarmun á 3600 umsjónarmönnum, sem voru ekki ísraelskir, og 250 sem voru ísraelskir, en að 1. Konungabók geri greinarmun á 3300 umsjónarmönnum og 550 hærra settum yfirumsjónarmönnum. Hvort heldur er voru fógetarnir 3850 talsins.

4:2-4 — Hvers vegna voru höfð nautalíkneski í undirstöðum eirhafsins? Nautið er notað í Ritningunni sem tákn um mátt. (Esekíel 1:10; Opinberunarbókin 4:6, 7) Það átti vel við að nota nautin til tákns hérna vegna þess að 12 nautalíkneski stóðu undir þessu risastóra ‚hafi‘ sem vó um 30 tonn. Þetta stríddi á engan hátt gegn öðru boðorðinu sem bannaði að gerð væru líkneski til tilbeiðslu. — 2. Mósebók 20:4, 5.

4:5 — Hve mikið tók eirhafið alls? Væri eirhafið alveg fullt tók það um 3000 bat eða um 66.000 lítra. Sennilega var það þó yfirleitt ekki fyllt nema að tveim þriðju. Í 1. Konungabók 7:26 segir: „Það tók tvö þúsund bat [44.000 lítra].“

5:4, 5, 10 — Hvaða hlutir úr tjaldbúðinni voru hafðir í musteri Salómons? Örkin var það eina úr tjaldbúðinni sem var geymt í musteri Salómons. Eftir að það var reist var tjaldbúðin flutt frá Gíbeon til Jerúsalem og virðist síðan hafa verið geymd þar. — 2. Kroníkubók 1:3, 4.

Lærdómur:

1:11, 12. Bæn Salómons sýndi Jehóva að konungur þráði að öðlast visku og þekkingu. Bænir okkar segja Guði hvað býr í hjarta okkar. Við ættum að íhuga hvað við segjum í bænum okkar.

6:4. Okkur ætti að langa til að lofa Jehóva með þakklátum huga vegna þess að við elskum hann og kunnum að meta gæsku hans, ástúð og umhyggju.

6:18-21. Engin jarðnesk bygging getur rúmað Guð. Musterið átti að vera miðstöð tilbeiðslunnar á honum, rétt eins og ríkissalir Votta Jehóva eru miðstöðvar sannrar tilbeiðslu nú á tímum.

6:19, 22, 32. Allir höfðu aðgang að Jehóva, jafnt sá minnsti meðal þjóðarinnar sem konungurinn, og meira að segja útlendingar sem leituðu til hans í einlægni. * — Sálmur 65:3.

KONUNGARÖÐIN AF ÆTT DAVÍÐS

(2. Kroníkubók 10:1–36:23)

Hið sameinaða Ísraelsríki skiptist í tvennt, norðurríkið með tíu ættkvíslum og suðurríkið með ættkvíslum Júda og Benjamíns. Prestar og levítar í öllum Ísrael sýna hollustu við sáttmálann um ríkið. Það er þeim mikilvægara en þjóðhollusta. Þeir taka því afstöðu með Rehabeam, syni Salómons. Það líða ekki nema rétt rúmlega 30 ár frá því að smíði musterisins lýkur þar til fjársjóðum þess er rænt.

Af þeim 19 konungum, sem koma á eftir Rehabeam, eru 5 trúir Guði, 3 fara vel af stað en gerast ótrúir og 1 snýr af rangri braut. Hinir gera allir það sem er illt í augum Jehóva. * Lögð er áhersla á verk þeirra fimm sem treysta á hann. Frásagan af því hvernig Hiskía endurvekur þjónustuna í musterinu og af páskahátíðinni miklu, sem Jósía lét halda, hlýtur að hafa verið mjög hvetjandi fyrir Gyðingana sem var annt um að endurreisa tilbeiðsluna á Jehóva í Jerúsalem.

Biblíuspurningar og svör:

13:5 — Hvað er átt við með „saltsáttmála“? Salt er gott rotvarnarefni þannig að það var notað sem tákn um stöðugleika og óbreytanleika. Saltsáttmáli táknar því bindandi samning.

14:2-5; 15:17 — Afnam Asa konungur allar „fórnarhæðirnar“? Svo virðist ekki vera. Hugsanlegt er að hann hafi aðeins afnumið þær fórnarhæðir sem voru helgaðar dýrkun falsguða en ekki hæðir þar sem fólk tilbað Jehóva. Einnig má vera að fórnarhæðir hafi verið reistar að nýju þegar leið á stjórnartíð hans. Það voru þær sem Jósafat sonur hans afnam. Reyndar voru fórnarhæðirnar ekki afnumdar með öllu, ekki einu sinni í stjórnartíð Jósafats. — 2. Kroníkubók 17:5, 6; 20:31-33.

15:9; 34:6 — Hver var staða Símeonsættkvíslar þegar Ísraelsríkið skiptist? Erfðaland Símeons lá á nokkrum svæðum inni í landi Júdaættkvíslar þannig að það lá landfræðilega séð innan ríkis Júda og Benjamíns. (Jósúabók 19:1) Trúarlega og stjórnmálalega tók ættkvíslin hins vegar afstöðu með norðurríkinu. (1. Konungabók 11:30-33; 12:20-24) Ættkvísl Símeons er því talin með tíuættkvíslaríkinu.

16:13, 14 — Var lík Asa brennt? Nei, þegar nefnd er „afar mikil brenna“ er ekki átt við að Asa hafi verið brenndur heldur voru kryddjurtir brenndar honum til heiðurs.

35:3 — Hvaðan lét Jósía flytja örkina helgu í musterið? Biblían lætur ósagt hvort einhver af illu konungunum lét fjarlægja örkina úr musterinu eða hvort Jósía kom henni fyrir í öruggri geymslu meðan hinar umfangsmiklu viðgerðir á musterinu stóðu yfir. Þetta er í síðasta sinn sem minnst er á örkina í sagnaheimildum eftir daga Salómons.

Lærdómur:

13:13-18; 14:11, 12; 32:9-23. Það er ákaflega mikilvægt að reiða sig á Jehóva.

16:1-5, 7; 18:1-3, 28-32; 21:4-6; 22:10-12; 28:16-22. Bandalög við útlendinga eða vantrúaða enda með ósköpum. Það er skynsamlegt af okkur að eiga ekki meiri tengsl við heiminn en við þurfum. — Jóhannes 17:14, 16; Jakobsbréfið 4:4.

16:7-12; 26:16-21; 32:25, 26. Sökum drambsemi fór Asa illa að ráði sínu síðustu árin sem hann lifði. Drambsemi varð Ússía að falli. Hiskía var óskynsamur og ef til vill hrokafullur þegar hann sýndi sendimönnum Babýlonar féhirslu sína. (Jesaja 39:1-7) „Drambsemi er undanfari tortímingar, og oflæti veit á fall,“ segir Biblían. — Orðskviðirnir 16:18.

16:9. Jehóva hjálpar þeim sem eru heils hugar við hann og er meira en fús til að beita mætti sínum í þeirra þágu.

18:12, 13, 23, 24, 27. Við ættum að tala djarfmannlega um Jehóva og fyrirætlanir hans, líkt og Míka.

19:1-3. Jehóva leitar hins góða í fari okkar, jafnvel þó að við gefum honum stundum tilefni til að reiðast okkur.

20:1-28. Við megum treysta að Jehóva leyfi okkur að finna sig ef við erum auðmjúk og leitum leiðsagnar hans. — Orðskviðirnir 15:29.

20:17. Við þurfum að ‚skipa okkur í fylkingu‘ og styðja ríki Guðs dyggilega til að ‚sjá liðsinni hans við okkur‘. Við þurfum að ‚standa kyrr‘ og setja allt traust okkar á hann en ekki taka málin í okkar hendur.

24:17-19; 25:14Jóas og Amasía, sonur hans, leiddust út í skurðgoðadýrkun. Hún getur verið jafnlokkandi núna, sérstaklega þegar hún birtist í lúmsku gervi ágirndar eða þjóðernishyggju. — Kólossubréfið 3:5; Opinberunarbókin 13:4.

32:6, 7Við þurfum líka að vera hughraust og örugg, klæðast „alvæpni Guðs“ og halda andlegum hernaði okkar áfram. — Efesusbréfið 6:11-18.

33:2-9, 12, 13, 15, 16. Menn sýna sanna iðrun með því að snúa baki við rangri breytni og leggja sig alla fram við að gera rétt eftirleiðis. Jafnvel þótt menn hafi breytt jafnilla og Manasse konungur geta þeir hlotið miskunn Jehóva ef þeir iðrast í einlægni.

34:1-3. Slæmar uppeldisaðstæður þurfa ekki að koma í veg fyrir að við getum kynnst Guði og þjónað honum. Jósía kann að hafa orðið fyrir jákvæðum áhrifum af Manasse, afa sínum, eftir að hann iðraðist. Áhrifin skiluðu sér að minnsta kosti, hvaðan sem þau komu. Hið sama getur gerst hjá okkur.

36:15-17. Jehóva er brjóstgóður og þolinmóður. En umhyggju hans og þolinmæði eru takmörk sett. Fólk þarf að taka við fagnaðarerindinu til að bjargast þegar hann bindur enda á þetta illa heimskerfi.

36:17, 22, 23. Orð Jehóva rætast alltaf. — 1. Konungabók 9:7, 8; Jeremía 25:9-11.

Bókin hvatti hann til verka

„Jósía afnam allar svívirðingar úr öllum héruðum Ísraelsmanna,“ segir í 2. Kroníkubók 34:33, „og þröngvaði öllum þeim, er voru í Ísrael, til þess að þjóna Drottni Guði sínum.“ Hvað var Jósía konungi hvöt til að gera þetta? Þegar Safan kanslari færði honum hina nýfundnu lögmálsbók Jehóva lét hann lesa hana upp fyrir sig. Svo snortinn var hann af því sem hann heyrði að hann lagði sig kappsamlega fram alla ævi við að efla hreina tilbeiðslu.

Það getur haft djúpstæð áhrif á okkur að lesa orð Guðs og hugleiða það. Er ekki saga konunganna af ætt Davíðs okkur hvatning til að líkja eftir þeim sem treystu Jehóva og forðast að feta í fótspor þeirra sem gerðu það ekki? Síðari Kroníkubók hvetur okkur til að veita hinum sanna Guði óskipta hollustu og vera honum trú. Boðskapur hennar er svo sannarlega lifandi og kröftugur. — Hebreabréfið 4:12.

[Neðanmáls]

^ gr. 9 Í Varðturninum 1. júlí 2005, bls. 28-31, er að finna nánari upplýsingar um vígslu musterisins og ýmislegt sem læra má af vígslubæn Salómons.

^ gr. 1 Í Varðturninum 1. september 2005, bls. 12, er að finna skrá um konunga Júdaríkisins.

[Mynd á blaðsíðu 18]

Veistu af hverju það var við hæfi að nota nautalíkneski í undirstöðu eirhafsins?

[Myndir á blaðsíðu 21]

Jósía var Jehóva trúr þótt hann fengi litla hvatningu í þá átt á barnsaldri.