Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Harmagedón — upphaf betri tíma

Harmagedón — upphaf betri tíma

Harmagedón — upphaf betri tíma

ORÐIÐ HARMAGEDÓN er dregið af hebreska orðinu Har–Magedon sem þýðir Megiddófjall. Það kemur fyrir í Opinberunarbókinni 16:16 en þar segir: „Þeir söfnuðu þeim saman á þann stað, sem á hebresku kallast Harmagedón.“ Hverjum var safnað saman og hvers vegna? Tveimur versum framar, í Opinberunarbókinni 16:14, er talað um „konunga allrar heimsbyggðarinnar“ og sagt að þeim sé safnað saman „til stríðsins á hinum mikla degi Guðs hins alvalda“. Þetta vers vekur eflaust fleiri áhugaverðar spurningar. Hvar heyja þessir konungar stríð? Hvers vegna eiga þeir í stríði og við hvern? Nota þeir gereyðingarvopn eins og margir halda fram? Lifa einhverjir af Harmagedón? Leyfum Biblíunni að svara þessum spurningum.

Fyrst orðið Harmagedón er dregið af orðinu Megiddófjall þýðir það þá að þetta stríð fari fram á einhverju ákveðnu fjalli í Miðausturlöndum? Nei. Í fyrsta lagi er þetta fjall ekki til. Þar sem Megiddó stóð til forna rís aðeins 20 metra hæð upp úr sléttlendinu í kring. Þar að auki er þetta svæði ekki nærri nógu stórt til að rúma alla „konunga jarðarinnar og hersveitir þeirra“. (Opinberunarbókin 19:19) Hins vegar voru sumar af hörðustu úrslitaorustum í sögu Miðausturlanda háðar við Megiddó. Nafnið Harmagedón táknar því úrslitabardaga þar sem aðeins einn stendur uppi sem sigurvegari. — Sjá rammagreinina „Megiddó — viðeigandi tákn“ á bls. 5.

En Harmagedón getur ekki bara verið stríð manna í milli vegna þess að Opinberunarbókin 16:14 segir að konungar allrar heimsbyggðarinnar standi saman í stríðinu „á hinum mikla degi Guðs hins alvalda“. Jeremía spámaður sagði í innblásnum spádómi sínum að „þeir sem Drottinn hefir fellt, munu á þeim degi liggja dauðir frá einum enda jarðarinnar til annars“. (Jeremía 25:33) Harmagedón er þess vegna ekki stríð manna í milli sem er bundið einhverjum ákveðnum stað í Miðausturlöndum. Þetta er stríð Jehóva Guðs og það nær yfir alla jörðina.

Taktu samt eftir að í Opinberunarbókinni 16:16 er sagt að Harmagedón sé staður. Í Biblíunni getur staður merkt ástand eða aðstæður — í þessu tilfelli merkir það að allur heimurinn standi saman gegn Jehóva. (Opinberunarbókin 12:6, 14) Í Harmagedón sameinast allar þjóðir heims í bandalag gegn hersveitunum „sem á himni eru“ en þær lúta stjórn Jesú Krists, konungs konunga og Drottins drottna. — Opinberunarbókin 19:14, 16.

En hvað um þær hugmyndir að Harmagedón verði allsherjarblóðbað þar sem notuð verða gereyðingarvopn eða að aðrir hnettir rekist á jörðina? Gæti kærleiksríkur Guð leyft að mannkynið og heimili þess, jörðin, hlyti svo hræðilegan endi? Nei, hann hefur sagt það berum orðum að hann hafi „eigi skapað [jörðina] til þess, að hún væri auðn, heldur myndað hana svo, að hún væri byggileg“. (Jesaja 45:18; Sálmur 96:10) Jehóva ætlar ekki að eyða jörðinni í einhverjum ógurlegum hamförum í Harmagedón heldur ætlar hann að „eyða þeim, sem jörðina eyða“. — Opinberunarbókin 11:18.

Hvenær kemur Harmagedón?

Í aldanna rás hefur ákveðin spurning brunnið á vörum fólks: „Hvenær kemur Harmagedón?“ Þegar við skoðum Opinberunarbókina með hliðsjón af öðrum bókum Biblíunnar varpar það ljósi á hvenær þessi þýðingarmikla orusta á sér stað. Opinberunarbókin 16:15 tengir Harmagedón við komu Jesú sem kemur eins og þjófur. Jesús notaði einnig þessa líkingu þegar hann lýsti komu sinni til að fullnægja dómi yfir þessu heimskerfi. — Matteus 24:43, 44; 1. Þessaloníkubréf 5:2.

Frá árinu 1914 höfum við lifað á síðustu dögum þessa heimskerfis eins og sést á uppfyllingu biblíuspádóma. * Lokaskeið þessara síðustu daga verður tíminn sem Jesús kallaði mikla þrengingu. Biblían tilgreinir ekki hve lengi þessi tími stendur yfir en hörmungarnar, sem fylgja, verða þær verstu sem heimurinn hefur nokkurn tíma upplifað. Þessi þrenging nær hámarki í Harmagedón. — Matteus 24:21, 29.

Þar sem Harmagedón er stríð „á hinum mikla degi Guðs hins alvalda“ geta mennirnir ekki gert neitt til að fresta því. Jehóva hefur sett stríðinu sinn „ákveðna tíma“ og það mun „ekki undan líða“.— Habakkuk 2:3.

Guð réttvísinnar heyr réttlátt stríð

En hvers vegna ætti Guð að heyja stríð við heiminn? Harmagedón tengist einum af höfuðeiginleikum Jehóva — réttlæti. Í Biblíunni segir: „Því að Drottinn hefir mætur á réttlæti.“ (Sálmur 37:28) Hann hefur horft upp á allt óréttlætið sem hefur viðgengist í sögu mannsins. Þetta vekur vitanlega með honum réttláta reiði. Hann hefur þess vegna fengið syni sínum það verkefni að heyja réttlátt stríð til að útrýma þessu illa heimskerfi.

Aðeins Jehóva Guð er fær um að heyja réttlátt og sanngjarnt stríð þar sem allir hjartahreinir menn, hvar sem þeir finnast, verða varðveittir. (Matteus 24:40, 41; Opinberunarbókin 7:9, 10, 13, 14) Og það er aðeins hann sem hefur réttinn til að ríkja yfir allri jörðinni því að hún er sköpunarverk hans. — Opinberunarbókin 4:11.

Hvaða öfl mun Jehóva nota gegn óvinum sínum? Við vitum það ekki. En við vitum að hann ræður yfir þeim krafti sem þarf til að eyða algerlega hinum illu þjóðum. (Jobsbók 38:22, 23; Sefanía 1:15-18) Hins vegar munu jarðneskir tilbiðjendur Guðs ekki taka þátt í átökunum. Sýnin í 19. kafla Opinberunarbókarinnar segir að aðeins himneskar hersveitir muni berjast með Jesú Kristi í þessu stríði. Enginn þjónn Jehóva á jörðinni tekur þátt í því. — 2. Kroníkubók 20:15, 17.

Guð viskunnar gefur viðvörun

Komast einhverjir lífs af? Í rauninni þarf enginn að farast í Harmagedón. „Drottinn . . . vill ekki að neinir glatist, heldur að allir komist til iðrunar,“ sagði Pétur postuli. (2. Pétursbréf 3:9) Og Páll postuli sagði: „[Guð] vill að allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum.“ — 1. Tímóteusarbréf 2:4.

Jehóva hefur þess vegna í visku sinni séð til þess að „þetta fagnaðarerindi um ríkið“ sé prédikað út um alla jörðina á hundruðum tungumála. Alls staðar er fólki gefið tækifæri til að lifa af og bjargast. (Matteus 24:14; Sálmur 37:34; Filippíbréfið 2:12) Þeir sem taka við fagnaðarerindinu geta bjargast í Harmagedón og lifað við fullkomleika að eilífu á paradísarjörð. (Esekíel 18:23, 32; Sefanía 2:3; Rómverjabréfið 10:13) Er þetta ekki einmitt það sem búast má við af Guði sem er kærleikur? — 1. Jóhannesarbréf 4:8.

Getur Guð kærleikans háð stríð?

Margir velta því samt fyrir sér hvernig Guð, sem er persónugervingur kærleikans, geti leitt dauða og eyðileggingu yfir stóran hluta mannkyns. Það mætti líkja þessu ástandi við hús sem er sýkt af meindýrum. Finnst þér ekki að samviskusamur húseigandi ætti að huga að heilsu og velferð fjölskyldunnar með því að fjarlægja skaðvaldana?

Á sama hátt er það vegna kærleika Jehóva til mannanna sem stríðið við Harmagedón verður að eiga sér stað. Guð ætlar að gera jörðina að paradís og veita mannkyninu fullkomleika og frið og þá mun „enginn hræða þá“. (Míka 4:3, 4; Opinberunarbókin 21:4) En hvað verður gert við þá sem ógna friði og öryggi annarra? Guð verður að fjarlægja slíka skaðvalda — þá sem láta sér ekki segjast — í þágu hinna réttlátu. — 2. Þessaloníkubréf 1:8, 9; Opinberunarbókin 21:8.

Stjórnir ófullkominna manna og eigingjörn þjóðernishyggja stuðla að átökunum og blóðbaðinu sem viðgengst nú á dögum. (Prédikarinn 8:9) Stjórnvöld mannanna reyna að auka völd sín og hunsa algerlega stofnsett ríki Guðs. Ekkert bendir til þess að þau afsali sér völdum og færi þau í hendur Guðs og Krists. (Sálmur 2:1-9) Því verður að fjarlægja allar slíkar stjórnir til að ryðja veginn fyrir réttlátri stjórn ríkis Jehóva með Krist sem konung. (Daníel 2:44) Harmagedónstríðið verður því að eiga sér stað til að útkljá í eitt skipti fyrir öll deiluna um hver hafi réttinn til að fara með yfirráð yfir jörðinni og mannfólkinu.

Íhlutun Jehóva í Harmagedón verður öllu mannkyninu fyrir bestu. Ástandið í heiminum fer sífellt versnandi en fullkomin stjórn Guðs mun sjá algerlega fyrir þörfum mannanna. Sannur friður og öryggi mun aðeins ríkja fyrir tilstuðlan Guðsríkis. Hvernig yrði ástandið hér á jörðinni ef Guð ætlaði sér ekki að grípa til aðgerða? Myndi ekki hatur, ofbeldi og stríð halda áfram að hrjá okkur eins og það hefur gert í stjórnartíð mannanna? Harmagedónstríðið er í rauninni það besta sem gæti komið fyrir okkur! — Lúkas 18:7, 8; 2. Pétursbréf 3:13.

Stríðið sem mun binda enda á öll stríð

Harmagedón mun áorka því sem ekkert annað stríð hefur getað hingað til — að binda enda á öll stríð. Hver þráir ekki að sjá þann dag þegar hernaður heyrir fortíðinni til? Mönnum hefur mistekist að útrýma styrjöldum. Misheppnaðar tilraunir þeirra til að binda enda á stríð undirstrika einungis sannleikann í orðum Jeremía: „Ég veit, Drottinn, að örlög mannsins eru ekki á hans valdi, né það heldur á valdi gangandi manns að stýra skrefum sínum.“ (Jeremía 10:23) Biblían lýsir því sem Jehóva mun koma til leiðar: „Hann stöðvar styrjaldir til endimarka jarðar, brýtur bogann, slær af oddinn, brennir skjöldu í eldi.“ — Sálmur 46:9, 10.

Þegar þjóðirnar nota drápstól sín á hver aðra og hóta að eyða umhverfinu mun skaparinn grípa til aðgerða í Harmagedónstríðinu sem Biblían talar um. (Opinberunarbókin 11:18) Þetta stríð kemur því til leiðar sem guðhræddir menn hafa í gegnum tíðina aðeins látið sig dreyma um. Það mun upphefja réttmæt yfirráð eiganda jarðarinnar, Jehóva Guðs, yfir allri sköpun sinni.

Harmagedón ætti því ekki að vekja ótta hjá fólki sem elskar réttlæti, heldur ætti það að veita því von. Harmagedónstríðið mun hreinsa jörðina af allri spillingu og illsku og opna leiðina fyrir réttlátt nýtt heimskerfi undir stjórn Messíasarríkis Guðs. (Jesaja 11:4, 5) Harmagedón er ekki hörmuleg endalok heldur upphaf betri tíma fyrir réttláta einstaklinga sem vilja lifa að eilífu í paradís á jörð. — Sálmur 37:29.

[Neðanmáls]

^ gr. 9 Sjá bókina Þekking sem leiðir til eilífs lífs, 11. kafla, gefin út af Vottum Jehóva.

[Rammagrein á blaðsíðu 5]

MEGIDDÓ — VIÐEIGANDI TÁKN

Megiddó til forna var hernaðarlega vel staðsett borg þar sem sást yfir vesturhluta hins frjósama Jesreeldals í Norður-Ísrael. Borgin stjórnaði milliríkjaviðskiptum og hernaðarsamgöngum sem lágu um hana. Þess vegna varð Megiddó staður þar sem úrslitaorustur voru háðar. Graham Davies prófessor skrifar í bók sinni Cities of the Biblical World — Megiddo: „Borgin Megiddó . . . var aðgengileg kaupmönnum og farandverkamönnum sem komu úr öllum áttum. Á sama tíma var hægt að stjórna aðgengi fólks að borginni ef völd hennar voru nógu sterk. Þannig gat hún haft áhrif bæði á viðskipti og styrjaldir. Það er því engin furða að borgin hafi verið . . . eftirsótt herfang og þegar hún var unnin var sterkum vörnum haldið uppi.“

Hin langa saga Megiddó hófst á 2. öld f.Kr. þegar egypski stjórnandinn Tútmósis þriðji sigraði þar Kanaaníta. Saga borgarinnar nær allt til ársins 1918 þegar tyrkneski herinn beið þar afhroð fyrir breska hershöfðingjanum Edmund Allenby. Það var við Megiddó sem Guð gerði Barak dómara kleift að gersigra kanverska konunginn Jabín. (Dómarabókin 4:12-24; 5:19, 20) Gídeon dómari náði fram sigri á Midíanítum á þessu svæði. (Dómarabókin 7:1-22) Þar voru líka konungarnir Ahasía og Jósía drepnir. — 2. Konungabók 9:27; 23:29, 30.

Það á þess vegna mjög vel við að tengja Harmagedón við þennan stað þar sem þar voru háðar fjölmargar úrslitaorrustur. Staðurinn er viðeigandi tákn fyrir algeran sigur Guðs á öllum andstæðingum sínum.

[Rétthafi]

Pictorial Archive (Near Eastern History) Est.

[Myndir á blaðsíðu 7]

Út um allan heim fær fólk viðvörun og tækifæri til að komast af í Harmagedónstríðinu.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Harmagedón — upphaf betri tíma