Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hverjum hlýðir þú — Guði eða mönnum?

Hverjum hlýðir þú — Guði eða mönnum?

Hverjum hlýðir þú — Guði eða mönnum?

„Framar ber að hlýða Guði en mönnum.“ — POSTULASAGAN 5:29.

1. (a) Hver er lykilritningarstaður þessarar námsgreinar? (b) Af hverju voru postularnir hnepptir í varðhald?

DÓMARARNIR í hæstarétti Gyðinga hljóta að hafa verið bálreiðir. Fangarnir voru horfnir. Þessir fangar voru postular Jesú Krists sem rétturinn hafði dæmt til dauða nokkrum vikum áður. Núna ætlaði hæstirétturinn að láta nánustu fylgjendur hans kenna á því. En þegar verðirnir fóru að sækja þá voru fangaklefarnir tómir þótt hurðunum hefði verið læst. Verðirnir komust fljótlega að því að postularnir voru í musterinu í Jerúsalem. Þar stóðu þeir óhræddir og fræddu fólk um Jesú Krist — einmitt það sem þeir höfðu verið handteknir fyrir að gera. Verðirnir fóru beinustu leið í musterið, hnepptu postulana aftur í varðhald og færðu þá fyrir réttinn. — Postulasagan 5:17-27.

2. Hvað sagði engillinn postulunum að gera?

2 Engill hafði leyst postulana úr fangelsinu. Var það gert til að hlífa þeim við frekari ofsóknum? Nei, það var til þess að íbúar Jerúsalemborgar heyrðu fagnaðarerindið um Jesú Krist. Engillinn sagði við postulana: „Talið til lýðsins öll þessi lífsins orð.“ (Postulasagan 5:19, 20) Þeir voru því að hlýða skipun engilsins þegar musterisverðirnir náðu þeim aftur.

3, 4. (a) Hvað sögðu Pétur og Jóhannes þegar þeim var skipað að hætta að prédika? (b) Hvernig svöruðu hinir postularnir?

3 Tveir þessara staðföstu boðbera, postularnir Pétur og Jóhannes, höfðu áður verið frammi fyrir réttinum eins og yfirdómarinn, Jósef Kaífas, minnti þá á. Hann sagði: „Stranglega bönnuðum vér yður að kenna í [Jesú] nafni, og nú hafið þér fyllt Jerúsalem með kenningu yðar.“ (Postulasagan 5:28) Kaífas hefði ekki átt að vera undrandi yfir því að sjá Pétur og Jóhannes aftur. Þegar hann skipaði þeim að hætta að prédika í fyrra skiptið svöruðu postularnir: „Dæmið sjálfir, hvort það sé rétt í augum Guðs að hlýðnast yður fremur en honum. Vér getum ekki annað en talað það, sem vér höfum séð og heyrt.“ Eins og Jeremía spámaður til forna gátu Pétur og Jóhannes ekki stillt sig um að prédika. — Postulasagan 4:18-20; Jeremía 20:9.

4 Núna höfðu ekki aðeins Pétur og Jóhannes tækifæri til að útskýra afstöðu sína fyrir hæstaréttinum heldur allir postularnir, þar með talinn hinn nýútnefndi Mattías. (Postulasagan 1:21-26) Þegar þeim var fyrirskipað að hætta að prédika svöruðu þeir einnig djarfmannlega: „Framar ber að hlýða Guði en mönnum.“ — Postulasagan 5:29.

Hlýðni við Guð eða hlýðni við menn

5, 6. Af hverju hlýddu postularnir ekki skipun æðstaráðsins?

5 Postularnir voru löghlýðnir menn sem hefðu aldrei undir venjulegum kringumstæðum óhlýðnast skipun réttarins. En enginn maður, hversu valdamikill sem hann er, hefur umboð til að skipa öðrum að óhlýðnast boðum Guðs. Jehóva er „hinn hæsti yfir allri jörðunni“. (Sálmur 83:19) Hann er ekki aðeins „dómari alls jarðríkis“ heldur líka æðsti löggjafi okkar og konungur eilífðar. Allir dómsúrskurðir, sem vinna gegn boðum Guðs, eru ógildir frá hans sjónarhóli. — 1. Mósebók 18:25; Jesaja 33:22.

6 Margir virtustu lagasérfræðingar hafa viðurkennt þessa staðreynd. William Blackstone, nafnkunnur breskur lögfræðingur á 18. öld, skrifaði til dæmis að enginn lög manna ættu með réttu að stangast á við „lögmál opinberunarinnar“ sem finna má í Biblíunni. Æðstaráðið gekk því of langt þegar það skipaði postulunum að hætta að prédika. Postularnir gátu einfaldlega ekki hlýtt þeirri skipun.

7. Af hverju gramdist æðstuprestunum boðunarstarf postulanna?

7 Æðstuprestarnir reiddust þegar þeir sáu að postularnir voru staðráðnir í að halda áfram að prédika. Nokkrir innan prestastéttarinnar voru Saddúkear, þar með talinn Kaífas sjálfur, en Saddúkear trúðu ekki á upprisuna. (Postulasagan 4:1, 2; 5:17) Postularnir héldu því hins vegar staðfastlega fram að Jesús hefði verið reistur upp frá dauðum. Auk þess höfðu sumir æðstuprestanna smjaðrað verulega fyrir rómverskum yfirvöldum til að öðlast hylli þeirra. Við réttarhöldin yfir Jesú fengu æðstuprestarnir tækifæri til að viðurkenna hann sem konung sinn en þeir gengu svo langt að hrópa: „Vér höfum engan konung nema keisarann.“ (Jóhannes 19:15) * Postularnir voru því ekki aðeins að staðfesta að Jesús hefði verið reistur upp heldur kenndu þeir líka að ekkert annað nafn en nafn Jesú sé „mönnum gefið um víða veröld sem gæti frelsað oss“. (Postulasagan 2:36; 4:12) Prestarnir óttuðust að ef fólkið færi að líta á hinn upprisna Jesú Krist sem leiðtoga sinn myndu Rómverjarnir koma og leiðtogar Gyðinga missa „bæði helgidóm [sinn] og þjóð“. — Jóhannes 11:48.

8. Hvaða viturlegu leiðbeiningar gaf Gamalíel æðstaráðinu?

8 Framtíð postulanna virtist ekki björt. Dómararnir í æðstaráðinu voru staðráðnir í að láta taka þá af lífi. (Postulasagan 5:33) En atburðarásin tók óvænta stefnu. Gamalíel, sem var einstaklega vel að sér í lögmálinu, stóð upp og varaði meðdómara sína við því að vera of fljótfærir. Hann sagði þessi viturlegu orð: „Sé þetta ráð eða verk frá mönnum, verður það að engu, en sé það frá Guði, þá megnið þér ekki að yfirbuga þá.“ Það sem hann sagði næst er eftirtektarvert: „Eigi má það verða, að þér berjist við sjálfan Guð.“ — Postulasagan 5:34, 38, 39.

9. Hvað sannar að starf postulana var frá Guði komið?

9 Þótt ótrúlegt megi virðast fór rétturinn að ráðum Gamalíels. Dómararnir „kölluðu á postulana, húðstrýktu þá, fyrirbuðu þeim að tala í Jesú nafni og létu þá síðan lausa“. En postularnir létu ekki hræða sig heldur voru staðráðnir í að hlýða boði engilsins um að prédika. Eftir að þeir voru látnir lausir „létu þeir eigi af að kenna dag hvern í helgidóminum og í heimahúsum og boða fagnaðarerindið um, að Jesús sé Kristur“. (Postulasagan 5:40, 42) Jehóva blessaði viðleitni þeirra. Að hvaða marki? „Orð Guðs breiddist út, og tala lærisveinanna í Jerúsalem fór stórum vaxandi.“ Meira að segja „snerist mikill fjöldi presta til hlýðni við trúna“. (Postulasagan 6:7) Þetta hlýtur að hafa verið hræðilegt fyrir æðstuprestana. Sönnunargögnin hlóðust upp — starf postulana var greinilega frá Guði komið.

Þeir sem berjast gegn Guði fá ekki staðist

10. Af hverju hélt Kaífas að staða hans væri trygg og hvers vegna hefði hann ekki átt að leggja traust sitt á menn?

10 Á fyrstu öldinni voru æðstuprestar Gyðinga skipaðir af rómverskum yfirvöldum. Hinn auðugi Jósef Kaífas var skipaður af Valeríusi Gratusi og hélt stöðu sinni lengur en margir fyrirrennarar hans. Líklega taldi hann ástæðuna ekki vera guðlega forsjá heldur þá að hann var náinn vinur Pílatusar og duglegur að miðla málum. En hvað sem því líður hefði hann ekki átt að leggja traust sitt á menn því að aðeins þremur árum eftir að postularnir komu fram fyrir æðstaráðið missti hann hylli rómversku yfirvaldanna og stöðu sína sem æðstiprestur.

11. Hvernig fór fyrir Pontíusi Pílatusi og þjóðskipulagi Gyðinga og hvað kennir það okkur?

11 Skipunin um að setja Kaífas úr embætti kom frá Lúsíusi Vítellíusi, yfirmanni Pílatusar og landstjóra Sýrlands. Pílatus gat ekki komið í veg fyrir þetta þótt hann væri náinn vinur Kaífasar. Honum var meira að segja sjálfum vikið úr embætti aðeins ári á eftir Kaífasi og var kallaður aftur til Rómar til að svara alvarlegum ásökunum. Leiðtogar Gyðinga, sem settu traust sitt á keisarann, misstu hins vegar „bæði helgidóm [sinn] og þjóð“ í hendur Rómverja. Það gerðist árið 70 þegar rómversku hersveitirnar lögðu Jerúsalem algerlega í rúst, þar með talið musterið og sal æðstaráðsins. Orð sálmaritarans reyndust mjög viðeigandi: „Treystið eigi tignarmennum, mönnum sem enga hjálp geta veitt.“ — Jóhannes 11:48; Sálmur 146:3.

12. Hvernig sannar saga Jesú að skynsamlegt er að hlýða Guði?

12 Guð skipaði hins vegar hinn upprisna Jesú Krist sem æðstaprest í miklu andlegu musteri. Enginn maður getur gert þá útnefningu að engu. Já, Jesús „hefur prestdóm þar sem ekki verða mannaskipti“. (Hebreabréfið 2:9; 7:17, 24; 9:11) Guð skipaði Jesú líka dómara lifenda og dauðra. (1. Pétursbréf 4:5) Sem slíkur mun Jesús dæma hvort Jósef Kaífas og Pontíus Pílatus hafi möguleika á lífi í framtíðinni. — Matteus 23:33; Postulasagan 24:15.

Óhræddir boðberar Guðsríkis á okkar dögum

13. Hvaða verk nú á dögum reyndist vera frá mönnum og hvaða verk reyndist vera frá Guði? Hvernig vitum við það?

13 Eins og á fyrstu öldinni berjast margir nú á dögum „við sjálfan Guð“. (Postulasagan 5:39) Sem dæmi má nefna að þegar vottar Jehóva í Þýskalandi neituðu að hylla Adolf Hitler sem leiðtoga sinn strengdi hann þess heit að útrýma þeim. (Matteus 23:10) Skilvirk drápsvél hans hefði alveg átt að ráða við það. Nasistunum tókst að safna saman þúsundum votta og senda þá í fangabúðir. Þeim tókst meira að segja að taka nokkra þeirra af lífi. En þeim tókst ekki að brjóta á bak aftur ásetning þeirra að tilbiðja Guð einan og ekki heldur að útrýma þjónum Guðs sem hópi. Verk þessara kristnu manna var frá Guði en ekki mönnum og það er ekki hægt að gera verk Guðs að engu. Núna, sextíu árum seinna, eru trúfastir eftirlifendur úr fangabúðum Hitlers enn að þjóna Jehóva „af öllu hjarta . . . allri sálu . . . og öllum huga“ en Hitler og nasistaflokkur hans eru aðeins hræðileg minning. — Matteus 22:37.

14. (a) Hvað hafa andstæðingar gert til að rægja þjóna Guðs og með hvaða árangri? (b) Mun þetta hafa varanlegan skaða í för með sér fyrir fólk Guðs? (Hebreabréfið 13:5, 6)

14 Frá tímum nasista hafa fleiri reynt að berjast gegn Jehóva og fólki hans. Í nokkrum löndum í Evrópu hafa slæg trúarleg og pólitísk öfl reynt að stimpla Votta Jehóva sem hættulega trúarreglu eins og gert var á fyrstu öldinni. (Postulasagan 28:22) Staðreyndin er hins vegar sú að Mannréttindadómstóll Evrópu hefur viðurkennt Votta Jehóva sem trúflokk en ekki trúarreglu. Andstæðingar þeirra ættu að vita það. Samt sem áður halda þeir áfram að rægja vottana. Vegna þessa villandi áróðurs hefur kristnum mönnum verið sagt upp störfum. Börn votta hafa orðið fyrir aðkasti í skólum. Óttaslegnir húseigendur, sem hafa leigt Vottum Jehóva samkomusali í áraraðir, hafa rift leigusamningum. Og í sumum tilfellum hafa stjórnvöld jafnvel neitað mönnum um ríkisborgararétt einungis á þeim grundvelli að þeir eru vottar Jehóva. En vottarnir láta samt ekkert stoppa sig.

15, 16. Hvernig hafa vottar Jehóva í Frakklandi brugðist við andstöðunni gegn starfi þeirra og hvers vegna halda þeir áfram að prédika?

15 Í Frakklandi, til dæmis, er fólk yfirleitt frekar sanngjarnt og fordómalaust. En nokkrir andstæðingar hafa beitt sér fyrir löggjöf sem miðar að því að lama starf vottanna. Hvernig hafa vottar Jehóva í Frakklandi brugðist við? Þeir hafa aukið starf sitt á akrinum sem aldrei fyrr og árangurinn lætur ekki á sér standa. (Jakobsbréfið 4:7) Á einungis sex mánaða tímabili fjölgaði biblíunámskeiðum um heil 33 prósent þar í landi. Það hlýtur að ergja Satan djöfulinn að sjá hjartahreint fólk í Frakklandi taka við fagnaðarerindinu. (Opinberunarbókin 12:17) Trúsystkini okkar í Frakklandi eru sannfærð um að orð Jesaja spámanns eigi við um þau: „Engin vopn, sem smíðuð verða móti þér, skulu verða sigurvænleg, og allar tungur, sem upp rísa gegn þér til málaferla, skalt þú kveða niður.“ — Jesaja 54:17.

16 Vottar Jehóva hafa enga ánægju af því að vera ofsóttir. En þar sem þeir hlýða boði Guðs til allra kristinna manna geta þeir ekki og munu ekki hætta að segja öðrum frá því sem þeir hafa heyrt. Þeir leitast við að vera góðir ríkisborgarar. En þegar lög manna stangast á við lög Guðs ber þeim að hlýða Guði.

Óttist þá eigi

17. (a) Hvers vegna þurfum við ekki að óttast óvini okkar? (b) Hvaða viðhorf ættum við að hafa í garð þeirra sem ofsækja okkur?

17 Óvinir okkar eru í hættulegri stöðu. Þeir berjast á móti Guði. Við hlýðum því boði Jesú og biðjum fyrir þeim sem ofsækja okkur í stað þess að óttast þá. (Matteus 5:44) Við biðjum þess að ef einhverjir standa á móti Guði vegna vanþekkingar, eins og Sál frá Tarsus, muni Jehóva sýna þeim miskunn og opna augu þeirra fyrir sannleikanum. (2. Korintubréf 4:4) Sál varð síðar kristni postulinn Páll og þurfti að líða margt af hendi yfirvalda þess tíma. Samt minnti hann trúbræður sína stöðugt á „að vera undirgefnir höfðingjum og yfirvöldum, hlýðnir og reiðubúnir til sérhvers góðs verks, lastmæla engum [ekki einu sinni hörðustu andstæðingum sínum], vera ódeilugjarnir, sanngjarnir og sýna hvers konar hógværð við alla menn“. (Títusarbréfið 3:1, 2) Vottar Jehóva í Frakklandi og annars staðar leitast við að fara eftir þessum ráðum.

18. (a) Hvernig getur Jehóva frelsað fólk sitt? (b) Hver verður lokaútkoman?

18 Guð sagði spámanninum Jeremía: „Ég er með þér til þess að frelsa þig.“ (Jeremía 1:8) Hvernig getur Jehóva frelsað okkur undan ofsóknum nú á dögum? Hann gæti leitt fram á sjónarsviðið óhlutdrægan dómara eins og Gamalíel eða séð til þess að spilltum eða mótsnúnum embættismanni sé skyndilega vikið úr starfi og annar sanngjarnari taki við. Stundum gæti Jehóva hins vegar leyft ofsóknir á hendur þjónum sínum án þess að grípa inn í. (2. Tímóteusarbréf 3:12) Ef hann leyfir að við verðum fyrir ofsóknum mun hann alltaf veita okkur styrk til að standast. (1. Korintubréf 10:13) Og hvað sem Guð leyfir erum við fullviss um hver útkoman verður: Þeir sem berjast gegn fólki Guðs berjast gegn Guði og þeir sem það gera munu ekki fá staðist.

19. Hver er árstextinn fyrir árið 2006 og hvers vegna er hann viðeigandi?

19 Jesús sagði lærisveinunum að þeir mættu búast við þrengingum. (Jóhannes 16:33) Í ljósi þess hafa orðin í Postulasögunni 5:29 aldrei verið tímabærari: „Framar ber að hlýða Guði en mönnum.“ Þess vegna hafa þessi merkingarþrungnu orð verið valin sem árstexti Votta Jehóva fyrir árið 2006. Verum staðráðin í því að hlýða Guði hvað sem það kostar á komandi ári og um alla eilífð.

[Neðanmáls]

^ gr. 7 Keisarinn, sem æðstuprestarnir studdu opinberlega við þetta tækifæri, var hinn fyrirlitni rómverski Tíberíus. Hann var bæði hræsnari og morðingi og einnig þekktur fyrir að stunda svívirðilegar kynlífsathafnir. — Daníel 11:15, 21.

Hvert er svarið?

• Hvaða hvetjandi fordæmi gáfu postularnir okkur þegar þeir mættu andstöðu?

• Af hverju ættum við alltaf að hlýða Guði framar en mönnum?

• Gegn hverjum eru andstæðingar okkar í rauninni að berjast?

• Hver verður lokaútkoman fyrir þá sem eru ofsóttir?

[Spurningar]

[Innskot á blaðsíðu 25]

Árstextinn fyrir árið 2006 verður: „Framar ber að hlýða Guði en mönnum.“ — Postulasagan 5:29.

[Mynd á blaðsíðu 22]

„Framar ber að hlýða Guði en mönnum.“

[Mynd á blaðsíðu 24]

Kaífas setti traust sitt á menn en ekki Guð.