Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Núna er tíminn til að ganga einbeitt til verks

Núna er tíminn til að ganga einbeitt til verks

Núna er tíminn til að ganga einbeitt til verks

„Hversu lengi ætlið þér að haltra til beggja hliða?“ — 1. KONUNGABÓK 18:21.

1. Af hverju lifum við á sérstökum tímum?

TRÚIRÐU að Jehóva sé hinn eini sanni Guð? Trúirðu því líka að spádómar Biblíunnar bendi til þess að okkar tímar séu síðustu dagar hins illa heimskerfis Satans? (2. Tímóteusarbréf 3:1) Ef svo er ertu örugglega sammála því að núna sé einmitt tíminn til að ganga einbeitt til verks. Aldrei fyrr í sögu mannkyns hafa eins mörg líf verið í húfi.

2. Hvernig farnaðist tíuættkvíslaríkinu Ísrael undir stjórn Akabs?

2 Á tíundu öld f.Kr. þurftu Ísraelsmenn að taka mjög alvarlega ákvörðun. Þeir þurftu að ákveða hverjum þeir ætluðu að þjóna. Akab konungur ýtti undir Baalsdýrkun í tíuættkvíslaríkinu Ísrael en hann var undir áhrifum Jesebelar, heiðinnar konu sinnar. Baal var frjósemisguð sem átti að veita regn og góða uppskeru. Ef til vill hafa margir tilbiðjendur Baals kropið á kné frammi fyrir líkneski af guði sínum eða sent honum fingurkoss. Til að fá Baal til að blessa uppskeru sína og búfénað tóku Baalsdýrkendur þátt í kynsvalli með fólki sem stundaði musterisvændi. Þeir höfðu einnig þann sið að rista sjálfa sig þar til þeim blæddi. — 1. Konungabók 18:28.

3. Hvaða áhrif hafði Baalsdýrkun á þjóð Guðs?

3 Í Ísrael voru eftir um 7000 manns sem neituðu að taka þátt í þeirri skurðgoðadýrkun og því siðleysi og ofbeldi sem fólst í Baalsdýrkuninni. (1. Konungabók 19:18) Þeir sýndu trúfesti, varðveittu sáttmálasamband sitt við Jehóva Guð og voru ofsóttir fyrir vikið. Jesebel drottning myrti til dæmis marga spámenn Jehóva. (1. Konungabók 18:4, 13) Vegna þessara erfiðu aðstæðna stundaði meiri hluti Ísraelsmanna samtrúarlega tilbeiðslu og reyndi að þóknast bæði Jehóva og Baal. En ef Ísraelsmaður sneri sér frá Jehóva til að tilbiðja falsguð var það fráhvarf. Jehóva lofaði að blessa Ísraelsmenn ef þeir elskuðu hann og hlýddu boðum hans. En hann varaði þá jafnframt við því að ef þeir gæfu honum ekki óskipta hollustu yrði þeim útrýmt. — 5. Mósebók 5:6-10; 28:15, 63.

4. Hvað sögðu Jesús og postularnir fyrir að myndi gerast meðal kristinna manna og hvernig hefur það ræst?

4 Ástandið er svipað í kristna heiminum nú á dögum. Sóknarbörnin segjast vera kristin en hátíðir þeirra, hegðun og trúarskoðanir stangast á við það sem Biblían kennir. Klerkastétt kristna heimsins er eins og Jesebel og tekur forystuna í því að ofsækja votta Jehóva. Klerkastéttin hefur líka löngum verið þekkt fyrir að styðja styrjaldir og ber því ábyrgð á dauða óteljandi milljóna sóknarbarna. Þegar trúfélög styðja veraldleg stjórnvöld á þennan hátt kallar Biblían það hórdóm. (Opinberunarbókin 18:2, 3) Auk þess hefur kristni heimurinn orðið sífellt umburðarlyndari gagnvart bókstaflegum hórdómi, jafnvel innan klerkastéttarinnar. Jesús Kristur og postularnir sögðu fyrir að þetta mikla fráhvarf myndi eiga sér stað. (Matteus 13:36-43; Postulasagan 20:29, 30; 2. Pétursbréf 2:1, 2) En hvernig fer að lokum fyrir þeim rúmum milljarði manna sem tilheyrir kristna heiminum? Og hvaða ábyrgð bera sannir tilbiðjendur gagnvart þeim og öðrum sem hafa verið afvegaleiddir af fölskum trúarbrögðum? Við fáum skýrt svar við þessum spurningum með því að skoða nánar þá örlagaríku atburði sem urðu til þess að Baalsdýrkun var útrýmt úr Ísrael. — 2. Konungabók 10:28.

Umhyggja Guðs fyrir þrjóskri þjóð sinni

5. Hvernig sýndi Jehóva ástríka umhyggju fyrir þrjóskri þjóð sinni?

5 Jehóva hefur enga ánægju af því að refsa þeim sem eru honum ótrúir. Hann er kærleiksríkur faðir og vill að ranglátir menn iðrist og snúi sér aftur til hans. (Esekíel 18:32; 2. Pétursbréf 3:9) Þessu til sönnunar notaði hann marga spámenn á dögum Akabs og Jesebelar til að vara fólk sitt við afleiðingum Baalsdýrkunar. Elía var einn þeirra. Eftir hrikalega þurrka, sem höfðu verið boðaðir fyrir fram, sagði Elía Akab konungi að safna Ísraelsmönnum og spámönnum Baals upp á Karmelfjall. — 1. Konungabók 18:1, 19.

6, 7. (a) Hvernig benti Elía á aðalorsök fráhvarfsins? (b) Hvað gerðu spámenn Baals? (c) Hvað gerði Elía?

6 Mannfjöldinn kom saman við altari Jehóva sem „niður hafði verið rifið“, sennilega til að þóknast Jesebel. (1. Konungabók 18:30) Því miður voru Ísraelsmennirnir á staðnum ekki vissir hvor þeirra, Jehóva eða Baal, gæti séð þeim fyrir rigningunni sem þeir þurftu svo nauðsynlega á að halda. Spámenn Baals voru 450 talsins en Elía var eini spámaðurinn sem var fulltrúi Jehóva. Elía benti strax á rót vandans og spurði fólkið: „Hversu lengi ætlið þér að haltra til beggja hliða?“ Síðan setti hann málið enn skýrar fram og sagði: „Sé Drottinn hinn sanni Guð, þá fylgið honum, en ef Baal er það, þá fylgið honum.“ Til að fá hina óákveðnu Ísraelsmenn til að sýna Jehóva óskipta hollustu lagði Elía til að þeir létu á það reyna hvor væri hinn sanni Guð. Tveimur nautum yrði slátrað, annað þeirra átti að vera fórn fyrir Jehóva en hitt fyrir Baal. Hinn sanni Guð myndi síðan eyða fórninni með eldi. Baalsspámennirnir undirbjuggu fórn sína og kölluðu síðan í margar klukkustundir: „Baal, svara þú oss!“ Þegar Elía fór að gera gys að þeim ristu þeir sjálfa sig þar til þeim blæddi og kölluðu eins hátt og þeir gátu. En þeir fengu ekkert svar. — 1. Konungabók 18:21, 26-29.

7 Nú var komið að Elía. Fyrst lagfærði hann altari Jehóva og lagði sundurhlutað ungnautið á það. Síðan skipaði hann svo fyrir að fjórum stórum kerum af vatni yrði hellt yfir fórnina. Þetta var gert þrisvar sinnum þar til skurðurinn í kringum altarið varð fullur af vatni. Síðan bað Elía: „Drottinn, Guð Abrahams, Ísaks og Ísraels! Lát í dag kunnugt verða, að þú ert Guð í Ísrael og ég þjónn þinn og að ég hefi gjört alla þessa hluti að þínu boði. Bænheyr mig, Drottinn! Bænheyr mig, að lýður þessi megi komast að raun um, að þú, Drottinn, ert hinn sanni Guð, og að þú snýrð aftur hjörtum þeirra.“ — 1. Konungabók 18:30-37.

8. Hvernig svaraði Guð bæn Elía og hvað gerði spámaðurinn í framhaldi af því?

8 Hinn sanni Guð svaraði með því að eyða bæði fórninni og altarinu með eldi af himnum ofan. Eldurinn þurrkaði meira að segja upp vatnið í skurðinum í kringum altarið. Ímyndaðu þér hvaða áhrif þetta hafði á Ísraelsmenn. „Féllu þeir fram á ásjónur sínar og sögðu: ‚Drottinn er hinn sanni Guð, Drottinn er hinn sanni Guð!‘“ Elía greip nú til enn harðari aðgerða og skipaði Ísraelsmönnum: „Takið höndum spámenn Baals. Látið engan þeirra komast undan!“ Allir Baalsspámennirnir, 450 að tölu, voru teknir af lífi við rætur Karmelfjalls. — 1. Konungabók 18:38-40.

9. Hvaða frekari prófraunum urðu sannir tilbiðjendur fyrir?

9 Á þessum sama merkisdegi lét Jehóva rigna í landinu í fyrsta skipti í þrjú og hálft ár. (Jakobsbréfið 5:17, 18) Þú getur ímyndað þér hvað Ísraelsmenn töluðu um á heimleiðinni — Jehóva hafði varið guðdóm sinn. En Baalsdýrkendur gáfust ekki upp. Jesebel hélt áfram að ofsækja þjóna Jehóva. (1. Konungabók 19:1, 2; 21:11-16) Ráðvendni þjóna Guðs var því reynd að nýju. Myndu þeir veita Jehóva óskipta hollustu þegar dagur hans kæmi til að dæma alla Baalsdýrkendur?

Göngum einbeitt til verks núna

10. (a) Hvað hafa andasmurðir kristnir menn gert nú á dögum? (b) Hvað felst í því að hlýða boðinu í Opinberunarbókinni 18:4?

10 Nú á dögum hafa andasmurðir kristnir menn unnið svipað starf og Elía. Í orði og á prenti hafa þeir varað fólk af öllum þjóðum, innan sem utan kristna heimsins, við því hve hættuleg falstrúarbrögðin séu. Í kjölfarið hafa milljónir manna sýnt einurð og sagt sig úr fölskum trúarbrögðum. Þeir hafa vígt líf sitt Jehóva og orðið skírðir lærisveinar Jesú Krists. Já, þeir hafa hlýtt áríðandi fyrirmælum Guðs varðandi falstrúarbrögð: „Gangið út, mitt fólk, út úr henni, svo að þér eigið engan hlut í syndum hennar og hreppið ekki plágur hennar.“ — Opinberunarbókin 18:4.

11. Hvað þurfa menn að gera til að hafa velþóknun Jehóva?

11 Milljónir manna til viðbótar vita hins vegar ekki enn hvaða afstöðu eigi að taka þótt biblíutengdi boðskapurinn, sem vottar Jehóva boða, höfði til þeirra. Sumir þeirra koma einstaka sinnum á kristnar samkomur eins og kvöldmáltíð Drottins eða mæta á nokkrar ræður á umdæmismótum. Við hvetjum þá alla til að hugleiða vandlega orð Elía: „Hversu lengi ætlið þér að haltra til beggja hliða?“ (1. Konungabók 18:21) Í stað þess að fresta því að taka afstöðu ættu þeir að ganga einbeittir til verks og vinna heilshugar að því að verða vígðir og skírðir tilbiðjendur Jehóva. Von þeirra um eilíft líf er í húfi. — 2. Þessaloníkubréf 1:6-9.

12. Hvaða hættulegu aðstöðu hafa margir skírðir kristnir menn komið sér í og hvað ættu þeir að gera?

12 Því miður hafa sumir skírðir kristnir menn orðið óreglulegir eða óvirkir í tilbeiðslu sinni. (Hebreabréfið 10:23-25; 13:15, 16) Sumir hafa glatað ákafanum vegna áhyggna lífsins, ótta við ofsóknir eða eftirsókn í auð eða eigingjarnar nautnir. Jesús varaði við því að þetta myndi verða sumum fylgjendum hans að falli, kæfa þá eða festa þá í snöru. (Matteus 10:28-33; 13:20-22; Lúkas 12:22-31; 21:34-36) Í stað þess að „haltra til beggja hliða“ ættu þeir að ‚vera heilshugar og gera iðrun‘ með því að taka einarða afstöðu og lifa í samræmi við vígsluheit sitt. — Opinberunarbókin 3:15-19.

Skyndileg eyðing falstrúarbragðanna

13. Lýstu ástandinu í Ísrael þegar Jehú var smurður til konungs.

13 Það sem gerðist í Ísrael um 18 árum eftir að deilan við Karmelfjall var útkljáð sýnir okkur af hverju það er mikilvægt að ganga einbeitt til verks núna. Dómsdagur Jehóva gegn Baalsdýrkendum kom skyndilega og óvænt í þjónustutíð Elísa, arftaka Elía. Jóram, sonur Akabs konungs, ríkti nú í Ísraels en Jesebel ekkjudrottning var enn á lífi. Svo að lítið bar á sendi Elísa aðstoðarmann sinn til að smyrja Jehú hershöfðingja til konungs. Jehú var þá að stjórna hersveitum í stríði gegn óvinum Ísraels austan megin við Jórdan í Ramót í Gíleað. Jóram konungur hafði hins vegar særst í stríði og var að jafna sig í Jesreel sem var í grennd við Megiddó. — 2. Konungabók 8:29–9:4.

14, 15. Hvað var Jehú sagt að gera og hvernig brást hann við?

14 Jehóva sagði Jehú: „Þú skalt útrýma ætt Akabs, herra þíns, svo að ég fái þann veg komið fram hefndum á Jesebel fyrir blóð þjóna minna, spámannanna, og fyrir blóð allra þjóna Drottins. Já, öll ætt Akabs skal fyrirfarast . . . en Jesebel skulu hundar eta í landareign Jesreelborgar, og enginn skal jarða hana.“ — 2. Konungabók 9:7-10.

15 Jehú var einbeittur maður. Hann steig tafarlaust á vagn sinn og þaut í áttina að Jesreel. Varðmaður í Jesreel þekkti ökulag Jehús og lét Jóram konung vita. Jóram steig þá á vagn sinn og fór til móts við hershöfðingjann. Þegar þeir hittust spurði Jóram: „Fer þú með friði, Jehú?“ Jehú svaraði: „Hvað er um frið að ræða, meðan Jesebel móðir þín heldur áfram með hórdóm sinn og hina margvíslegu töfra sína?“ Áður en Jóram konungur gat flúið þreif Jehú boga sinn og drap hann með því að skjóta ör beint í gegnum hjarta hans. — 2. Konungabók 9:20-24.

16. (a) Frammi fyrir hverju stóðu hirðmenn Jesebelar? (b) Hvernig rættist það sem Jehóva hafði sagt um Jesebel?

16 Jehú dvaldi ekki við heldur þaut inn í borgina á vagni sínum. Þar stóð Jesebel mikið förðuð upp í glugga og heilsaði honum með ögrandi hótun. Jehú hunsaði hana en kallaði eftir stuðningi: „Hver er með mér, hver?“ Verðir Jesebelar þurftu nú að vera snarráðir og einbeittir. Tveir eða þrír hirðmenn litu út um gluggann. Trúfesti þeirra var reynd þá þegar. „Kastið henni ofan!“ skipaði Jehú. Hirðmennirnir köstuðu Jesebel niður á strætið þar sem hún var troðin undir af hestum Jehús og vagni hans. Konan, sem hafði stuðlað svo mjög að Baalsdýrkun í Ísrael, mætti því verðskulduðum örlögum sínum. Áður en tími gafst til að jarða hana átu hundar hold hennar eins og spáð hafði verið. — 2. Konungabók 9:30-37.

17. Hverju ættum við að treysta með hliðsjón af dómi Guðs yfir Jesebel?

17 Táknræn skækja, sem kallast „Babýlon hin mikla“, hlýtur einnig herfileg endalok. Þessi skækja táknar fölsk trúarbrögð í heimi Satans sem eiga rætur að rekja til Babýlonar fortíðar. Eftir að falstrúarbrögðin líða undir lok beinir Jehóva Guð athygli sinni að öllum þeim mönnum sem mynda veraldlega hlutann af heimi Satans. Þeim verður líka eytt og brautin rudd fyrir nýjan réttlátan heim. — Opinberunarbókin 17:3-6; 19:19-21; 21:1-4.

18. Hvað varð um alla Baalsdýrkendur í Ísrael eftir dauða Jesebelar?

18 Eftir dauða Jesebelar lét Jehú konungur ekki á sér standa og tók af lífi alla afkomendur Akabs og helstu stuðningsmenn hans. (2. Konungabók 10:11) En margir ísraelskir Baalsdýrkendur voru eftir í landinu. Jehú lét líka til skarar skríða gegn þeim til að sýna ‚hversu hann vandlætti vegna Drottins‘. (2. Konungabók 10:16) Hann þóttist sjálfur vera Baalsdýrkandi og skipulagði mikla veislu í musteri Baals sem Akab hafði reist í Samaríu. Allir Baalsdýrkendur í Ísrael komu til veislunnar. Þegar þeir voru króaðir af inni í musterinu tóku menn Jehús þá alla af lífi. Frásögu Biblíunnar lýkur með orðunum: „Þannig útrýmdi Jehú allri Baalsdýrkun í Ísrael.“ — 2. Konungabók 10:18-28.

19. Hvaða frábæra framtíð bíður mikils múgs trúfastra tilbiðjenda Jehóva?

19 Baalsdýrkun var útrýmt í Ísrael. Eins örugglega munu fölsk trúarbrögð þessa heims hljóta skyndileg og afgerandi endalok. Hvorum megin ætlar þú að standa á þeim mikla dómsdegi? Gakktu einbeittur til verks núna og þú munt hljóta þann heiður að vera meðal þess mikla múgs manna sem lifir af þrenginguna miklu. Þá geturðu litið til baka með gleði og lofað Guð fyrir að dæma „skækjuna miklu, sem jörðunni spillti með saurlifnaði sínum“. Þú og aðrir sannir tilbiðjendur getið einhuga tekið undir það sem raddirnar á himnum segja: „Hallelúja, Drottinn Guð vor, hinn alvaldi, er konungur orðinn.“ — Opinberunarbókin 7:9, 10, 14; 19:1, 2, 6.

Til íhugunar

• Hvernig gerðist Ísraelsþjóðin sek um Baalsdýrkun?

• Um hvaða mikla fráhvarf spáði Biblían og hvernig hefur sá spádómur uppfyllst?

• Hvernig útrýmdi Jehú Baalsdýrkun?

• Hvað verðum við að gera til að lifa af dómsdag Guðs?

[Spurningar]

[Kort á blaðsíðu 31]

(Sjá uppraðaðann texta í blaðinu)

Sókó

Afek

Helkat

Jokneam

Megíddó

Taanak

Dótan

SAMARÍA

Endór

Súnem

Ofra

Jesreel

Jibleam (Gat Rimmon)

Tirsa

Bet Semes

Bet Sean (Bet San)

Jabes í Gíleað?

Abel Mehóla

Betarbel

Ramót í Gíleað

[Fjöll]

Karmelfjall

Taborfjall

Mórehæð

Gilbóafjall

[Vatn]

Miðjarðarhaf

Galíleuvatn

[Ár]

Jórdaná

[Lind]

Haródlind

[Rétthafi]

Byggt á korti sem Pictorial Archive (Near Eastern History) Est. og Survey of Israel eiga höfundarrétt að.

[Myndir á blaðsíðu 28, 29]

Allir sem vilja lifa af dag Jehóva verða að ganga einbeittir til verks eins og Jehú gerði.

[Myndir á blaðsíðu 30]

Til að stunda sanna tilbeiðslu er mikilvægt að taka reglulega þátt í að boða Guðsríki og mæta á safnaðarsamkomur.