Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Verum lítillát

Verum lítillát

Verum lítillát

„Lítillátum veitir hann náð.“ — ORÐSKVIÐIRNIR 3:34.

1, 2. Hvað hafa margir valdhafar heims átt sameiginlegt?

PÍRAMÍDARNIR í Egyptalandi standa sem þögult vitni um mennina sem réðu ríkjum þar forðum daga. Af öðrum sem settu mark sitt á söguna má nefna Sanheríb Assýríukonung, Alexander mikla Grikklandskonung og Júlíus Sesar í Róm. Þessir menn eiga eitt sameiginlegt. Þeir eru ekki þekktir fyrir lítillæti. — Matteus 20:25, 26.

2 Geturðu ímyndað þér að nokkur þessara valdhafa hafi lagt í vana sinn að leita að lágt settum mönnum í ríki sínu sem voru huggunar þurfi? Trúlega ekki. Og varla dettur okkur í hug að þeir hafi gengið í fábrotin hús þegna sinna til að hughreysta niðurdregna. Óneitanlega hugsuðu þeir allt öðruvísi um lágt setta menn en æðsti stjórnandi alheims, Jehóva Guð!

Besta dæmið um lítillæti

3. Hvernig kemur alvaldur alheims fram við mennska þegna sína?

3 Jehóva er óendanlega hár og mikill en þó „hvarfla [augu hans] um alla jörðina, til þess að hann megi sýna sig máttkan þeim til hjálpar, sem eru heils hugar við hann“. (2. Kroníkubók 16:9) Og hvað gerir Jehóva þegar hann finnur auðmjúka dýrkendur sína sem eru niðurbrotnir vegna ýmissa prófrauna? Í vissum skilningi ‚býr hann hjá‘ slíkum mönnum með heilögum anda sínum til að „lífga anda hinna lítillátu og til þess að lífga hjörtu hinna sundurkrömdu“. (Jesaja 57:15) Þá eiga dýrkendur hans auðveldara með að þjóna honum með gleði. Vitnar þetta ekki um að Guð sé lítillátur?

4, 5. (a) Hvernig hugsaði sálmaskáldið um framkomu Guðs við þegna sína? (b) Hvað er átt við þegar sagt er að Guð ‚horfi djúpt á jörðu‘ og sinni ‚lítilmagnanum‘?

4 Enginn í alheiminum hefur lítillætt sig eins og alvaldur Drottinn til að hjálpa syndugum mönnum. Sálmaskáldið gat því ort: „Drottinn er hafinn yfir allar þjóðir og dýrð hans yfir himnana. Hver er sem Drottinn, Guð vor? Hann situr hátt og horfir djúpt á himni og á jörðu. Hann reisir lítilmagnann úr duftinu, lyftir snauðum upp úr saurnum.“ — Sálmur 113:4-7.

5 Jehóva er hreinn og heilagur og hjá honum finnst ekkert sem heitir hroki. (Markús 7:22, 23) Þegar sagt er að Jehóva ‚horfi djúpt á jörðu‘ er átt við það að hann beygi sig niður til þeirra sem eru langtum óæðri honum að tign og virðingu. Þess vegna er komist svo að orði í sumum biblíuþýðingum að Jehóva sýni lítillæti. Óneitanlega lýsir þetta vel hinum lítilláta Guði sem gefur gaum að þörfum ófullkominna dýrkenda sinna á jörð. — 2. Samúelsbók 22:36.

Hvers vegna var Jesús lítillátur?

6. Hvað vitnar betur en nokkuð annað um lítillæti Jehóva?

6 Mesta kærleiksverk Guðs, sem vitnaði betur en nokkuð annað um lítillæti hans, var að senda frumgetinn son sinn til að fæðast á jörð og alast upp sem maður til að bjarga mannkyninu. (Jóhannes 3:16) Jesús kenndi sannleikann um föður sinn á himnum og gaf svo fullkomið mannslíf sitt til að taka burt „synd heimsins“. (Jóhannes 1:29; 18:37) Jesús var lifandi eftirmynd föður síns. Hann endurspeglaði lítillæti hans fullkomlega og var reiðubúinn að gera það sem hann bað um. Aldrei áður hafði nokkur sköpunarvera Guðs sýnt lítillæti í slíkum mæli. En það kunnu ekki allir að meta lítillæti Jesú og óvinir hans álitu hann jafnvel „hinn lítilmótlegasta meðal mannanna“. (Daníel 4:17) Páll postuli gerði sér hins vegar grein fyrir því að trúsystkini hans ættu að líkja eftir Jesú og vera lítillát í samskiptum hvert við annað. — 1. Korintubréf 11:1; Filippíbréfið 2:3, 4.

7, 8. (a) Hvernig lærði Jesús að vera lítillátur? (b) Hvernig höfðar Jesús til tilvonandi lærisveina sinna?

7 Páll benti á frábæra fyrirmynd Jesú þegar hann skrifaði: „Verið með sama hugarfari sem Jesús Kristur var. Hann var í Guðs mynd. En hann fór ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur. Hann svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd og varð mönnum líkur. Hann kom fram sem maður, lægði sjálfan sig og varð hlýðinn allt til dauða, já, dauðans á krossi.“ — Filippíbréfið 2:5-8.

8 Sumum kann að vera spurn hvernig Jesús hafi lært lítillæti. Hann lærði það af nánum samskiptum við föður sinn á himnum á þeim óralanga tíma sem hann var verkstjóri hans við að skapa alla hluti. (Orðskviðirnir 8:30) Eftir uppreisnina í Eden gat frumgetinn sonur Guðs fylgst með lítillæti hans í samskiptum við synduga menn. Þegar Jesús kom til jarðar endurspeglaði hann því lítillæti föður síns og hvatti aðra: „Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar.“ — Matteus 11:29; Jóhannes 14:9.

9. (a) Hvað þótti Jesú aðlaðandi í fari barna? (b) Hvað kenndi Jesús eftir að hafa kallað til sín lítið barn?

9 Börn voru ófeimin við Jesú af því að hann var lítillátur af hjarta. Þau hændust að honum, enda þótti honum vænt um börn og hann sýndi þeim umhyggju. (Markús 10:13-16) Hvað var það í fari barna sem Jesú þótti svona aðlaðandi? Þau höfðu ýmsa góða eiginleika sem sumir af fullorðnum lærisveinum hans áttu stundum erfitt með að sýna. Ung börn líta á fullorðna sem sér meiri eins og vel má sjá af öllum spurningum þeirra. Börn eru námfúsari en margir fullorðnir og þeim hættir síður til þess að vera stolt eða hrokafull. Einhverju sinni valdi Jesús lítið barn úr hópnum og sagði fylgjendum sínum: „Nema þér snúið við og verðið eins og börn, komist þér aldrei í himnaríki.“ Síðan bætti hann við: „Hver sem auðmýkir sjálfan sig eins og barn þetta, sá er mestur í himnaríki.“ (Matteus 18:3, 4) Hann gaf regluna: „Hver sem upp hefur sjálfan sig, mun auðmýktur verða, en sá sem auðmýkir sjálfan sig, mun upp hafinn verða.“ — Lúkas 14:11; 18:14; Matteus 23:12.

10. Hvaða spurningar ætlum við að skoða?

10 Þessi staðreynd vekur upp ýmsar mikilvægar spurningar. Nú eru vonir okkar um eilíft líf að nokkru leyti háðar því að við séum lítillát. En hvers vegna eiga kristnir menn stundum erfitt með að vera lítillátir? Af hverju er erfitt að kyngja stoltinu og sýna auðmýkt þegar við verðum fyrir prófraunum? Og hvað getur hjálpað okkur að temja okkur ósvikna auðmýkt?

Af hverju er erfitt að vera lítillátur?

11. Hvers vegna kemur ekki á óvart að það skuli vera barátta að vera lítillátur?

11 Ef þér finnst erfitt að vera lítillátur ertu ekki einn um það. Árið 1920 fjallaði þetta tímarit um þá hvatningu Biblíunnar að sýna auðmýkt og lítillæti. Þar stóð: „Við sjáum að Drottinn leggur mikla áherslu á auðmýkt og það ætti að hvetja alla sanna lærisveina hans til að temja sér hana dag hvern.“ Síðan kom þessi hreinskilnislega játning: „Þrátt fyrir allar þessar hvatningar í Ritningunni virðist mannlegt eðli svo illt að þeir sem gerast þjónar Drottins og ákveða að feta þessa leið virðast eiga í meiri erfiðleikum og meiri baráttu á þessu sviði en nokkru öðru.“ Þarna er bent á eina ástæðu fyrir því að það er barátta fyrir kristna menn að vera lítillátir — hið synduga eðli mannsins þráir óviðeigandi upphefð. Ástæðan er sú að við erum afkomendur syndugra hjóna, þeirra Adams og Evu sem létu undan eigingjörnum löngunum. — Rómverjabréfið 5:12.

12, 13. (a) Hvernig torveldar heimurinn kristnum mönnum að vera lítillátir? (b) Hver gerir okkur enn erfiðara fyrir að temja okkur lítillæti?

12 Önnur ástæða fyrir því að okkur finnst kannski erfitt að vera lítillát er sú að við búum í heimi þar sem fólk er hvatt til að keppast við að skara fram úr öðrum. Eitt af algengari markmiðum þessa heims er að fullnægja „fýsn holdsins og fýsn augnanna og auðæfa-oflæti“. (1. Jóhannesarbréf 2:16) Lærisveinar Jesú eiga ekki að láta þær fýsnir, sem heimurinn ýtir undir, ráða gerðum sínum heldur halda auga sínu heilu og einbeita sér að því að gera vilja Guðs. — Matteus 6:22-24, 31-33; 1. Jóhannesarbréf 2:17.

13 Þriðja ástæðan fyrir því að það er ekki auðvelt að temja sér lítillæti er sú að frumkvöðull hrokans, Satan djöfullinn, stjórnar þessum heimi. (2. Korintubréf 4:4; 1. Tímóteusarbréf 3:6) Satan hvetur fólk til að sýna sömu illu eiginleikana og hann. Hann sóttist til dæmis eftir tilbeiðslu Jesú í skiptum fyrir „öll ríki heims og dýrð þeirra“. En Jesús var alltaf lítillátur og hafnaði boði djöfulsins umbúðalaust. (Matteus 4:8, 10) Satan reynir sömuleiðis að freista kristinna manna til að upphefja sjálfa sig. En auðmjúkir kristnir menn leggja sig í líma við að líkja eftir fordæmi Jesú og gefa Guði heiðurinn og dýrðina. — Markús 10:17, 18.

Að temja sér lítillæti

14. Hvað er það að „þykjast af auðmýkt sinni“?

14 Í bréfi sínu til Kólossumanna varaði Páll postuli við því að sýna uppgerðarauðmýkt í því skyni að vekja hrifningu annarra. Hann talaði um að „þykjast af auðmýkt sinni“. Þeir sem þykjast vera auðmjúkir eru ekki andlegir menn heldur hafa þeir „hrokast upp“. (Kólossubréfið 2:18, 23) Jesús benti á dæmi um slíka uppgerðarauðmýkt. Hann fordæmdi faríseana fyrir að fara með skrúðmælgi í bænum sínum og fasta með sorgarsvip og afmynduðum andlitum svo að engum dyldist nú að þeir væru að fasta. Ef við viljum að Guð bænheyri okkur ættum við hins vegar að biðja í fullri auðmýkt. — Matteus 6:5, 6, 16.

15. (a) Hvað getum við gert til að vera lítillát? (b) Nefndu nokkur dæmi um lítilláta þjóna Guðs.

15 Kristnir menn eiga auðveldara með að vera lítillátir ef þeir einbeita sér að því að líkjast Jehóva Guði og Jesú Kristi sem eru bestu fyrirmyndirnar. Það gera þeir meðal annars með því að lesa reglulega í Biblíunni og biblíutengdum ritum sem hinn „trúi og hyggni þjónn“ lætur í té. (Matteus 24:45) Slíkt nám er ákaflega mikilvægt fyrir kristna umsjónarmenn til að þeir „ofmetnist eigi í hjarta sínu yfir bræður sína“. (5. Mósebók 17:19, 20; 1. Pétursbréf 5:1-3) Við höfum ótal dæmi um fólk sem hlaut blessun fyrir auðmýkt sína. Nefna mætti Rut, Hönnu, Elísabet og marga fleiri. (Rutarbók 1:16, 17; 1. Samúelsbók 1:11, 20; Lúkas 1:41-43) Og ekki má gleyma auðmjúkum mönnum sem fóru með forystuhlutverk, svo sem Davíð, Jósía, Jóhannesi skírara og Páli postula. (2. Kroníkubók 34:1, 2, 19, 26-28; Sálmur 131:1; Jóhannes 1:26, 27; 3:26-30; Postulasagan 21:20-26; 1. Korintubréf 15:9) Að síðustu ber að nefna fjölda auðmjúkra karla og kvenna í kristna söfnuðinum nú á tímum. Fordæmi þeirra er sannkristnum mönnum hjálp til að ‚skrýðast allir lítillætinu hver gagnvart öðrum‘. — 1. Pétursbréf 5:5.

16. Hvernig getur boðunarstarfið hjálpað okkur að vera lítillát?

16 Regluleg þátttaka í boðunarstarfinu getur einnig hjálpað okkur að vera auðmjúk. Við náum betri árangri ef við erum lítillát þegar við gefum okkur á tal við ókunnugt fólk hús úr húsi og annars staðar, ekki síst ef viðmælandinn er ókurteis fyrst í stað eða hefur lítinn áhuga á fagnaðarerindinu. Menn véfengja oft að trúarskoðanir okkar séu réttar en ef við erum lítillát eigum við auðveldara með að svara spurningum „með hógværð og virðingu“. (1. Pétursbréf 3:15, 16) Hógværir þjónar Guðs hafa flust búferlum til að hjálpa fólki sem býr við ólíka menningu og lífsgæði. Þessir boðberar hafa kannski þurft að takast á við það erfiða verkefni að læra nýtt tungumál til að ná betur til þeirra sem þá langar til að flytja fagnaðarerindið. Það er hrósvert! — Matteus 28:19, 20.

17. Við hvaða aðstæður er mikilvægt að vera hógvær og lítillátur?

17 Margir hafa rækt kristnar skyldur sínar með lítillæti og tekið hag annarra fram yfir sinn eigin. Kristinn fjölskyldufaðir þarf til dæmis að vera lítillátur til að taka sér tíma frá eigin hugðarefnum til að fræða börnin vel um Biblíuna. Hann þarf líka að gefa sér tíma til að undirbúa sig fyrir það. Auðmýkt hjálpar börnum sömuleiðis að heiðra foreldra sína, þótt ófullkomnir séu, og hlýða þeim. (Efesusbréfið 6:1-4) Konur, sem eiga vantrúaða eiginmenn, reyna að vinna þá til fylgis við trúna með grandvöru líferni sínu og virðingu. Oft lenda þær í aðstæðum þar sem þær þurfa að sýna af sér mikla hógværð. (1. Pétursbréf 3:1, 2) Auðmýkt og fórnfús kærleikur eru einnig verðmæt hjálp þegar við þurfum að annast sjúka og aldraða foreldra. — 1. Tímóteusarbréf 5:4.

Lítillæti greiðir úr vandamálum

18. Hvernig getur lítillæti hjálpað okkur að greiða úr vandamálum?

18 Allir þjónar Guðs á jörð eru ófullkomnir. (Jakobsbréfið 3:2) Stundum getur komið upp ágreiningur eða misskilningur milli tveggja kristinna einstaklinga. Ef til vill hefur annar gilda ástæðu til að kvarta undan hinum. Yfirleitt er hægt að greiða úr slíku með því að fara eftir hvatningunni: „Umberið hver annan og fyrirgefið hver öðrum, ef einhver hefur sök á hendur öðrum. Eins og Drottinn hefur fyrirgefið yður, svo skuluð þér og gjöra.“ (Kólossubréfið 3:13) Það er ekki auðvelt að fara eftir þessu en það er auðveldara ef við erum lítillát.

19. Hvað þurfum við að hafa hugfast þegar við tölum við manneskju sem hefur gert eitthvað á hlut okkar?

19 Stöku sinnum getur það gerst að kristnum manni finnst hann hafa alvarlegri kvörtun fram að bera en svo að hægt sé að leiða málið hjá sér. Þá getur auðmýktin auðveldað honum að tala við þann sem hann telur hafa gert á hlut sinn, í því augnamiði að ná sáttum. (Matteus 18:15) Stundum má rekja viðvarandi misklíð milli bræðra til þess að annar eða jafnvel báðir eru of stoltir til að viðurkenna að þeir eigi einhverja sök á því. Eins gæti verið að sá sem á frumkvæðið að því að ræða málin sé gagnrýninn og sjálfbirgingslegur. Hógværð og lítillæti fer hins vegar langleiðina með að útkljá margan ágreining.

20, 21. Hver er ein mesta hjálpin til að vera hógvær og lítillátur?

20 Til að temja sér lítillæti er mikilvægt að biðja um hjálp Guðs og anda hans. En gleymum ekki að Guð veitir „auðmjúkum . . . náð“ og heilagan anda sinn. (Jakobsbréfið 4:6) Ef kastast hefur í kekki milli þín og trúbróður þíns skaltu biðja Jehóva auðmjúklega að hjálpa þér að viðurkenna þinn þátt í því, hvort sem hann er lítill eða stór. Ef þú ert særður og sá sem gerði á hlut þinn biðst innilega afsökunar skaltu vera lítillátur og fyrirgefa. Ef þú átt erfitt með það skaltu biðja Jehóva að hjálpa þér að losna við hvern þann hroka sem eimir eftir af í hjarta þér.

21 Þegar við skiljum hve margir kostir fylgja því að vera hógvær og lítillát ætti það að vera okkur hvatning til að temja okkur að sýna þennan góða eiginleika. Jehóva Guð og Jesús Kristur eru okkur frábærar fyrirmyndir. Gleymum aldrei loforði Jehóva: „Laun auðmýktar, ótta Drottins, eru auður, heiður og líf.“ — Orðskviðirnir 22:4.

Til umhugsunar

• Hverjir eru bestu fyrirmyndirnar um lítillæti?

• Af hverju er erfitt að vera lítillátur?

• Hvað getur hjálpað okkur að vera lítillát?

• Af hverju er mjög mikilvægt að vera lítillátur?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 13]

Jesús var lítillátur.

[Mynd á blaðsíðu 14]

Heimurinn hvetur fólk til að keppast við að skara fram úr öðrum.

[Rétthafi]

Ljósmynd: WHO. L. Almasi/K. Hemzǒ

[Mynd á blaðsíðu 15]

Lítillæti auðveldar okkur að tala við ókunnuga í boðunarstarfinu.

[Myndir á blaðsíðu 16]

Oft er hægt að setja niður ágreining með því að vera lítillátur og láta kærleikann breiða yfir hann.

[Myndir á blaðsíðu 17]

Kristnir menn geta sýnt lítillæti á marga vegu.