Hvernig mun hið góða sigra hið illa?
Hvernig mun hið góða sigra hið illa?
Davíð konungur var góður maður. Hann elskaði Guð innilega, þráði réttlæti og bar umhyggju fyrir lægra settum. Það var samt þessi góði konungur sem framdi hjúskaparbrot og það með eiginkonu eins af hermönnum sínum. Og þegar Davíð fékk að vita að konan, Batseba, væri þunguð af hans völdum skipulagði hann að lokum morðið á eiginmanni hennar. Hann kvæntist síðan Batsebu til að reyna að fela glæp sinn. — 2. Samúelsbók 11:1-27.
ÞAÐ er augljóst að mennirnir geta gert margt gott. En hvers vegna eru þeir þá ábyrgir fyrir allri þessari illsku? Biblían segir frá nokkrum grundvallarástæðum. Hún segir okkur líka hvernig Guð ætlar fyrir milligöngu Jesú Krists að fjarlægja alla illsku í eitt skipti fyrir öll.
Meðfædd tilhneiging til að gera illt
Davíð konungur benti á eina orsök illra verka. Þegar búið var að fletta ofan af afbrotum hans tók hann fulla ábyrgð á verkum sínum. Hann skrifaði fullur iðrunar: „Sjá, sekur var ég, er ég varð til, syndugur, er móðir mín fæddi mig.“ (Sálmur 51:7) Það var aldrei ætlun Guðs að mæður myndu geta af sér börn sem syndguðu. En þegar Eva og síðan Adam völdu að gera uppreisn gegn Guði urðu þau ófær um að eignast syndlaus börn. (Rómverjabréfið 5:12) Eftir því sem ófullkomnu mannkyni fjölgaði varð það augljóst að „hugrenningar mannshjartans eru illar frá bernsku hans“. — 1. Mósebók 8:21.
Ef við höfum ekki hemil á tilhneigingu okkar til að gera illt leiðir það af sér ‚frillulífi, fjandskap, deilur, meting, reiði, eigingirni, Galatabréfið 5:19-21) Davíð konungur lét undan veikleika holdsins og drýgði hór sem leiddi síðan af sér ofbeldisglæp. (2. Samúelsbók 12:1-12) Hann hefði getað staðist siðlausar tilhneigingar. En í staðinn leyfði hann huganum að dvelja við ósiðlegar hugsanir um Batsebu og féll í gildruna sem lærisveinninn Jakob talaði um: „Það er eigin girnd, sem freistar sérhvers manns og dregur hann og tælir. Þegar girndin síðan er orðin þunguð, elur hún synd, og þegar syndin er orðin fullþroskuð, fæðir hún dauða.“ — Jakobsbréfið 1:14, 15.
tvídrægni, flokkadrátt, öfund‘ og aðra skaðlega hegðun sem Biblían kallar „holdsins verk“. (Fjöldamorð, nauðganir og rán, eins og þeim var lýst í greininni á undan, eru hörmuleg dæmi um það sem gerist þegar fólk leyfir röngum löngunum að stjórna gerðum sínum.
Illskan þrífst á fáfræði
En það er einnig önnur ástæða fyrir því að fólk fremur illskuverk. Við getum lært meira um það með því að velta fyrir okkur æviskeiði Páls postula. Við lok ævi sinnar var Páll þekktur fyrir að vera ljúfur og mildur maður. Hann var ósérhlífinn og óeigingjarn þegar hann þjónaði trúsystkinum sínum. (1. Þessaloníkubréf 2:7-9) En fyrr á ævinni, þegar hann var þekktur undir nafninu Sál, hafði hann blásið „ógnum og manndrápum“ gegn þessum sama hópi. (Postulasagan 9:1, 2) Hvers vegna lét Páll sér vel líka ill verk sem framin voru gegn frumkristnum mönnum og tók jafnvel sjálfur þátt í þeim? „Ég gjörði það í vantrú,“ sagði hann. (1. Tímóteusarbréf 1:13) Já, Páll hafði verið kappsfullur „Guðs vegna, en ekki með réttum skilningi“. — Rómverjabréfið 10:2.
Margt einlægt fólk hefur framið illskuverk vegna þess að það þekkir ekki vilja Guðs. Til dæmis aðvaraði Jesús fylgjendur sína: „Sú stund kemur, að hver sem líflætur yður þykist veita Guði þjónustu.“ (Jóhannes 16:2) Vottar Jehóva nú á dögum hafa kynnst orðum Jesú af eigin raun. Þeir hafa verið ofsóttir í mörgum löndum og jafnvel myrtir af fólki sem segist þjóna Guði. En kappsemi, sem beinist í ranga átt, gleður auðvitað ekki hinn sanna Guð. — 1. Þessaloníkubréf 1:6.
Upphaf illskunnar
Jesús benti á aðalástæðu þess að illskan er til. Hann sagði við trúarleiðtogana sem ætluðu að drepa hann: „Þér eigið djöfulinn að föður og viljið gjöra það, sem faðir yðar girnist. Hann var manndrápari frá upphafi.“ (Jóhannes 8:44) Það var Satan sem af eigingjörnum ástæðum tældi Adam og Evu til að gera uppreisn gegn Guði. Sú uppreisn leiddi synd og dauða yfir allt mannkyn.
Drápseðli Satans kom enn betur í ljós þegar hann réðst á Job. Þegar Jehóva leyfði honum að reyna ráðvendi Jobs fannst Satan ekki nóg að svipta Job öllum eigum hans. Hann var einnig valdur að dauða allra barna hans tíu. (Jobsbók 1:9-19) Á undanförnum áratugum hefur mannkynið orðið vitni að aukinni illsku, bæði vegna ófullkomleika mannanna og fáfræði en líka vegna afskipta Satans af málefnum þeirra. Í Biblíunni segir: „Satan . . . var varpað niður á jörðina, og englum hans var varpað niður með honum.“ Sami spádómur lýsti áhrifum Satans réttilega þegar hann sagði: „Vei sé jörðunni.“ Þó að Satan geti ekki þvingað fólk til slæmra verka „afvegaleiðir [hann] alla heimsbyggðina“ af kænsku. — Opinberunarbókin 12:9, 12.
Slæmum tilhneigingum útrýmt
Til þess að hægt sé að eyða illskunni til frambúðar verður að ráða bót á meðfæddri tilhneigingu mannsins til að gera illt, veita nákvæma þekkingu og gera að engu áhrif Satans. En fyrst skulum við athuga hvernig hægt er að fjarlægja þessa meðfæddu tilhneigingu úr hjartanu.
Hvorki skurðlæknar né lyf geta leyst það af hendi. Hins vegar hefur Jehóva Guð gert ráðstafanir til að lækna meðfæddan ófullkomleika og synd allra sem vilja þiggja það. Jóhannes postuli skrifaði: „Blóð Jesú . . . hreinsar oss af allri synd.“ (1. Jóhannesarbréf 1:7) Þegar Jesús, hinn fullkomni maður, fórnaði lífi sínu af fúsum og frjálsum vilja „bar [hann] sjálfur syndir vorar á líkama sínum upp á tréð, til þess að vér skyldum deyja frá syndunum og lifa réttlætinu“. (1. Pétursbréf 2:24) Fórnardauði Jesú myndi þess vegna vega upp á móti áhrifum syndar Adams. Eins og Páll postuli sagði „gaf [Jesús Kristur] sig sjálfan til lausnargjalds fyrir alla“. (1. Tímóteusarbréf 2:6) Já, dauði Krists opnaði leiðina fyrir allt mannkynið til að öðlast fullkomleikann sem Adam glataði.
Þú spyrð kannski hvers vegna við búum enn þá við illsku og dauða fyrst dauði Jesú fyrir um 2000 árum gerði mönnum mögulegt að hljóta aftur fullkomleika. Þegar við leitum svara við þeirri spurningu komum við að annarri ástæðu fyrir illskunni í heiminum en það er ónóg þekking manna á vilja Guðs.
Nákvæm þekking stuðlar að góðvild
Ef einlægt fólk veit hvað Jehóva og Jesús eru að gera núna til að útrýma illsku er ólíklegra að það umberi illsku óafvitandi eða jafnvel berjist „við sjálfan Guð“. (Postulasagan 5:38, 39) Jehóva Guð er tilbúinn til að horfa fram hjá slæmum verkum sem fólk framdi í fáfræði. Þegar Páll postuli var í Aþenu sagði hann: „Guð, sem hefur umborið tíðir vanviskunnar, boðar nú mönnunum, að þeir skuli allir hvarvetna taka sinnaskiptum, því að hann hefur sett dag, er hann mun láta mann, sem hann hefur fyrirhugað, dæma heimsbyggðina með réttvísi. Þetta hefur hann sannað öllum mönnum með því að reisa hann frá dauðum.“ — Postulasagan 17:30, 31.
Páll vissi af eigin raun að Jesús hafði risið upp frá dauðum, því að Jesús hafði talað við hann eftir upprisu sína og fengið hann til að hætta ofsóknunum á hendur frumkristnum mönnum. (Postulasagan 9:3-7) Eftir að Páll hafði fengið nákvæma þekkingu á vilja Guðs breytti hann sér og varð góðviljaður maður og fylgdi fordæmi Krists. (1. Korintubréf 11:1; Kólossubréfið 3:9, 10) Auk þess boðaði Páll ‚fagnaðarerindið um ríkið‘ af ákafa. (Matteus 24:14) Á þeim næstum 2000 árum, sem liðin eru frá dauða og upprisu Jesú, hefur hann valið úr hópi manna einstaklinga sem munu ríkja með honum á himnum líkt og Páll. — Opinberunarbókin 5:9, 10.
Frá síðustu öld fram til dagsins í dag hafa vottar Jehóva sinnt af kappi því verkefni sem Jesús fól þeim: „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður.“ (Matteus 28:19, 20) Þeir sem taka við þessum fagnaðarboðskap eiga í vændum að lifa að eilífu hér á jörðinni undir himneskri stjórn Krists. Jesús sagði: „Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ (Jóhannes 17:3) Mesta góðverk, sem hægt er að gera, er að hjálpa öðrum að öðlast þessa þekkingu.
Þeir sem taka við fagnaðarerindinu um Guðsríki sýna góða eiginleika eins og kærleika, gleði, frið, langlyndi, gæsku, góðvild, trúmennsku, hógværð og sjálfstjórn þrátt fyrir alla illskuna í kringum þá. (Galatabréfið 5:22, 23) Þeir líkja eftir Jesú og gjalda engum „illt fyrir illt“. (Rómverjabréfið 12:17) Þeir leitast hver og einn við að sigra „illt með góðu“. — Rómverjabréfið 12:21; Matteus 5:44.
Illskan afmáð fyrir fullt og allt
Mennirnir munu aldrei, upp á eigin spýtur, geta sigrað þann sem ber ábyrgð á illskunni, Satan djöfulinn. En Jehóva mun innan skamms nota Jesú til að merja höfuð Satans. (1. Mósebók 3:15; Rómverjabréfið 16:20) Jehóva mun líka láta Jesú „knosa og að engu gjöra“ öll stjórnmálakerfi sem mörg hver hafa sýnt af sér hræðilega illsku í aldanna rás. (Daníel 2:44; Prédikarinn 8:9) Allir þeir „sem hlýða ekki fagnaðarerindinu um Drottin vorn Jesú . . . munu sæta hegningu, eilífri glötun“ á þessum komandi dómsdegi. — 2. Þessaloníkubréf 1:8, 9; Sefanía 1:14-18.
Þegar búið er að fjarlægja Satan og þá sem styðja hann mun Jesús, af himnum ofan, hjálpa þeim sem eftir lifa að breyta jörðinni í sitt upprunalega horf. Kristur mun líka reisa alla upp frá dauðum sem eiga skilið að fá tækifæri til að lifa á endurbættri jörð. (Lúkas 23:32, 39-43; Jóhannes 5:26-29) Þannig mun hann taka til baka slæm áhrif sem illskan hefur haft á mannkynið.
Jehóva neyðir engan til þess að hlýða fagnaðarerindinu um Jesú. En hann gefur fólki tækifæri til að fá þekkingu sem leiðir til eilífs lífs. Þú ættir því að grípa tækifærið þegar í stað. (Sefanía 2:2, 3) Ef þú gerir það muntu læra hvernig þú getur afborið þá illsku sem þú verður fyrir núna. Þá færðu líka að sjá hvernig Kristur vinnur endanlegan sigur á illskunni. — Opinberunarbókin 19:11-16; 20:1-3, 10; 21:3, 4.
[Mynd á blaðsíðu 5]
Sál var samþykkur illum verkum vegna þess að hann skorti nákvæma þekkingu.
[Mynd á blaðsíðu 7]
Mesta góðverk, sem hægt er að gera, er að hjálpa öðrum að fá nákvæma þekkingu á Guði.