Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jehóva er hirðir okkar

Jehóva er hirðir okkar

Jehóva er hirðir okkar

„Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta.“ — SÁLMUR 23:1.

1-3. Af hverju kemur ekki á óvart að Davíð skyldi líkja Jehóva við fjárhirði?

HVAÐ myndirðu segja ef þú værir beðinn að lýsa því hvernig Jehóva annast fólk sitt? Hvaða líkingu myndirðu draga upp til að lýsa umhyggjunni sem hann sýnir trúföstum þjónum sínum? Fyrir um 3000 árum orti Davíð konungur sálm þar sem hann lýsti Jehóva á einstaklega fagran hátt og notaði líkingu úr fyrra starfi sínu.

2 Davíð var fjárhirðir á yngri árum og þess vegna vissi hann hvernig átti að annast sauði. Hann gerði sér grein fyrir því að ef enginn hefði umsjón með þeim gætu þeir auðveldlega týnst og orðið ræningjum eða villidýrum að bráð. (1. Samúelsbók 17:34-36) Ef þeir hefðu ekki umhyggjusaman hirði er ekki víst að þeir gætu fundið beitiland. Seinna á ævinni hugsaði Davíð örugglega með hlýju til þeirra stunda sem hann hafði notað til þess að leiða, vernda og næra sauðina.

3 Það kemur því ekki á óvart að Davíð hafi komið í hug starf fjárhirðis þegar honum var innblásið að lýsa umhyggjunni sem Jehóva sýnir fólki sínu. Tuttugasti og þriðji sálmurinn er skrifaður af Davíð og hefst á orðunum: „Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta.“ Við skulum athuga af hverju þetta eru viðeigandi orð. Síðan, með hjálp 23. sálmsins, sjáum við hvernig Jehóva annast tilbiðjendur sína eins og hirðir annast sauði. — 1. Pétursbréf 2:25.

Viðeigandi samlíking

4, 5. Hvernig er eiginleikum sauðfjár lýst í Biblíunni?

4 Jehóva eru gefnir margir titlar í Ritningunni en titillinn „hirðir“ er einn sá hlýlegasti. (Sálmur 80:2) Til að skilja betur hvers vegna það er viðeigandi að Jehóva skuli kallaður hirðir er gagnlegt fyrir okkur að þekkja tvennt; í fyrsta lagi eðli sauða og í öðru lagi eiginleika og skyldur góðs hirðis.

5 Í Biblíunni er oft vísað óbeint til eiginleika sauða og þeim lýst þannig að þeir laðist að umhyggjusömum hirðum (2. Samúelsbók 12:3), séu meinlausir (Jesaja 53:7) og varnarlausir. (Míka 5:7) Rithöfundur, sem stundaði sauðfjárrækt í mörg ár, lýsti sauðfé á sínum heimaslóðum þannig: „Sauðfé sér ekki bara um sig sjálft eins og sumir halda kannski. Það þarf meiri athygli og umhyggju en nokkuð annað búfé.“ Þessi varnarlausu dýr þurfa á umhyggjusömum hirði að halda til að lifa af. — Esekíel 34:5.

6. Hvernig lýsir biblíuorðabók venjulegum degi í lífi fjárhirðis til forna?

6 En hvernig var venjulegur dagur í lífi fjárhirðis til forna? Biblíuorðabók segir: „Snemma morguns leiddi hann hjörðina út úr sauðabyrginu og gekk á undan henni að beitilandinu. Þar fylgdist hann með henni allan daginn og gætti þess að enginn af sauðunum ráfaði burt. Ef sauður slapp óséður frá hjörðinni leitaði hirðirinn vandlega að honum þar til hann fann hann og kom með hann til baka. . . . Á kvöldin leiddi hann hjörðina aftur að sauðabyrginu og taldi sauðina með stafnum sínum um leið og þeir fóru inn um hliðið til að fullvissa sig um að engan vantaði. . . . Oft varð hann að vernda hjörðina á nóttinni gegn árásum villidýra eða brögðum slægra þjófa.“ *

7. Hvers vegna þurfti fjárhirðir stundum að sýna sérstaka þolinmæði og blíðu?

7 Stundum þurfti að sýna fénu mikla þolinmæði og blíðu, sérstaklega um sauðburðinn. (1. Mósebók 33:13) Í biblíuskýringarriti segir: „Þegar ær í hjörðinni ber gerist það oft uppi í fjallshlíð fjarri sauðabyrginu. Hirðirinn gætir þá móðurinnar vandlega meðan hún er bjargarlaus og tekur lambið síðan upp og ber það inn í byrgið. Í nokkra daga á eftir, meðan lambið getur ekki enn gengið, ber hann það ef til vill í fangi sér eða í víðu fellingunum í yfirhöfn sinni.“ (Jesaja 40:10, 11) Góður fjárhirðir þurfti greinilega að vera bæði sterkur og mildur.

8. Hvaða ástæður nefnir Davíð fyrir trausti sínu til Jehóva?

8 „Drottinn er minn hirðir.“ Er þetta ekki viðeigandi lýsing á himneskum föður okkar? Þegar við rannsökum 23. sálminn sjáum við hvernig Guð annast okkur með styrk og mildi fjárhirðis. Í fyrsta versinu lýsir Davíð yfir að hann treysti því að Guð sjái fyrir sauðum sínum á allan hátt svo að þá ‚bresti ekkert‘. Í versunum á eftir nefnir Davíð þrjár ástæður fyrir þessu trausti en þær eru að Jehóva leiðir, verndar og nærir sauði sína. Skoðum þessar ástæður nánar, hverja fyrir sig.

Hann „leiðir mig“

9. Hvaða friðsælu mynd dregur Davíð upp og hvernig komast sauðirnir á slíkan stað?

9 Í fyrsta lagi leiðir Jehóva fólk sitt. Davíð skrifar: „Á grænum grundum lætur hann mig hvílast, leiðir mig að vötnum, þar sem ég má næðis njóta. Hann hressir sál mína, leiðir mig um rétta vegu fyrir sakir nafns síns.“ (Sálmur 23:2, 3) Hér lýsir Davíð hjörð sem hvílist við frið og allsnægtir. Hann dregur upp mynd af ánægu, velsæld og öryggi. Hebreska orðið, sem þýtt er ‚grundir‘, getur þýtt ‚notalegur staður‘. Sennilega gætu sauðirnir ekki sjálfir fundið endurnærandi stað til að hvílast á í friði. Hirðir þeirra verður að leiða þá á þennan ‚notalega stað‘.

10. Hvernig sýnir Guð okkur traust?

10 Hvernig leiðir Jehóva okkur nú á dögum? Hann gerir það meðal annars með fordæmi sínu. Orð hans hvetur okkur til að verða „eftirbreytendur Guðs“. (Efesusbréfið 5:1) Í versunum á undan og eftir er talað um miskunnsemi, fyrirgefningu og kærleika. (Efesusbréfið 4:32; 5:2) Jehóva gefur auðvitað besta fordæmið í því að sýna þessa hlýlegu eiginleika. Er hann óraunhæfur að ætlast til þess að við líkjum eftir sér? Nei, þessi innblásnu orð eru í rauninni einstök tjáning á trausti hans til okkar. Hvernig þá? Við erum gerð í Guðs mynd sem þýðir að við höfum siðferðisvitund og getum valið að vera trúarlega sinnuð. (1. Mósebók 1:26) Þess vegna veit Jehóva að við erum fær um að þroska með okkur sömu eiginleika og hann sýnir þótt við séum ófullkomin. Hugsaðu þér — kærleiksríkur Guð okkar er fullviss um að við getum líkt eftir sér. Ef við fylgjum fordæmi hans leiðir hann okkur í vissum skilningi að þægilegum hvíldarstað. Mitt í þessum ofbeldisfulla heimi ‚búum við óhult‘ og njótum friðar sem hlýst af því að vita að við höfum velþóknun Guðs. — Sálmur 4:9; 29:11.

11. Hvers tekur Jehóva tillit til þegar hann leiðir sauði sína og hvernig hefur það áhrif á kröfurnar sem hann gerir til okkar?

11 Jehóva er blíður og þolinmóður þegar hann leiðir okkur. Fjárhirðir tekur tillit til takmarka sauða sinna og leiðir þá á þeim hraða sem „fénaðurinn getur farið“. (1. Mósebók 33:14) Jehóva leiðir sauði sína einnig á þeim hraða sem þeir geta farið. Hann tekur tillit til hæfni okkar og aðstæðna. Í rauninni lagar hann hraðann að okkur og ætlast aldrei til að fá meira en við getum gefið. Hann ætlast hins vegar til þess að við vinnum „af heilum huga“. (Kólossubréfið 3:23) En hvað ef þú ert kominn á efri ár og getur ekki gert eins mikið og áður eða ert haldinn alvarlegum sjúkdómi sem setur þér skorður? Við slíkar aðstæður kemur sérstaklega vel í ljós hversu falleg sú krafa er að vinna af heilum huga. Engar tvær manneskjur eru nákvæmlega eins. Að þjóna af heilum huga þýðir að nota alla krafta sína og orku í þjónustu Guðs, að því marki sem maður sjálfur getur. Jehóva kann að meta þjónustu af öllu hjarta þótt ýmsir veikleikar hafi áhrif á hraða okkar. — Markús 12:29, 30.

12. Hvaða dæmi úr Móselögunum sýnir að Jehóva leiðir sauði sína á þeim hraða sem þeir geta farið?

12 Til að sýna að Jehóva leiðir sauði sína á þeim hraða sem þeir geta farið, skulum við athuga það sem er sagt um vissar sektarfórnir í Móselögunum. Jehóva vildi góðar fórnir sem voru gefnar af þakklæti. En fórnirnar voru líka flokkaðar eftir getu gjafarans. Í lögmálinu sagði: „Ef hann á ekki fyrir kind, þá skal hann . . . færa Drottni tvær turtildúfur eða tvær ungar dúfur.“ En hvað ef hann átti ekki einu sinni fyrir tveim dúfum? Þá átti hann að gefa ‚fínt mjöl‘. (3. Mósebók 5:7, 11) Þetta sýnir að Guð gerði ekki kröfur um það sem gjafarinn gat ekki gefið. Og þar sem Guð breytist ekki getum við leitað hughreystingar í því að hann biður okkur aldrei um meira en við getum gefið, heldur þiggur fúslega það sem við höfum fram að færa. (Malakí 3:6) Erum við ekki ánægð að svona skilningsríkur hirðir skuli leiða okkur?

‚Ég óttast ekkert illt, því að þú ert hjá mér‘

13. Hvernig verða orð Davíðs innilegri í Sálmi 23:4 og hvers vegna kemur það ekki á óvart?

13 Davíð nefnir aðra ástæðu fyrir trausti sínu en hún er sú að Jehóva verndar sauði sína. Við lesum: „Jafnvel þótt ég fari um dimman dal, óttast ég ekkert illt, því að þú ert hjá mér, sproti þinn og stafur hugga mig.“ (Sálmur 23:4) Orð Davíðs verða núna innilegri og hann ávarpar Jehóva með persónufornafninu „þú“. Þetta kemur ekki á óvart því að Davíð er að tala um það hvernig Guð hjálpaði honum að þola mótlæti. Davíð hafði farið um marga dimma dali — upplifað tímabil þegar líf hans var í hættu. En hann leyfði óttanum ekki að ná tökum á sér því hann skynjaði að Guð var með honum og var tilbúinn að nota sprota sinn og staf til að hjálpa honum. Davíð gerði sér grein fyrir því að hann naut verndar Jehóva og það veitti honum huggun og styrkti án efa samband hans við hann. *

14. Um hvað fullvissar Biblían okkur og hvað þýðir það ekki?

14 Hvernig verndar Jehóva sauði sína nú á dögum? Biblían fullvissar okkur um að engir andstæðingar, hvorki illir andar né menn, geti útrýmt sauðum hans af jörðinni. Jehóva myndi aldrei leyfa það. (Jesaja 54:17; 2. Pétursbréf 2:9) En það þýðir ekki að hirðir okkar verndi okkur gegn allri ógæfu. Við upplifum sömu erfiðleika og fólk almennt og mætum andstöðunni sem allir sannkristnir menn verða fyrir. (2. Tímóteusarbréf 3:12; Jakobsbréfið 1:2) Það koma tímar í lífi okkar þegar við förum um dimma dali. Við gætum til dæmis lent í lífsháska vegna ofsókna eða veikinda. Einhver sem er okkur kær gæti einnig verið í lífshættu eða jafnvel dáið. En hirðir okkar er með okkur og hann mun vernda okkur á myrkustu tímum. Hvernig?

15, 16. (a) Hvernig hjálpar Jehóva okkur að yfirstíga hindranir sem kunna að verða á vegi okkar? (b) Endursegðu frásögu sem sýnir að Jehóva hjálpar okkur á erfiðum tímum.

15 Jehóva lofar ekki að vinna kraftaverk í okkar þágu en við getum verið viss um að hann hjálpar okkur að yfirstíga allar þær hindranir sem verða á vegi okkar. * Hann getur veitt okkur visku til að takast á við „ýmiss konar raunir“. (Jakobsbréfið 1:2-5) Hirðir notar sprota sinn og staf ekki aðeins til að fæla rándýr frá heldur líka til að stugga við sauðunum svo að þeir fari í rétta átt. Jehóva getur líka „stuggað við“ okkur, kannski fyrir milligöngu trúbræðra og systra. Þau gætu hvatt okkur til að fara eftir biblíulegum ráðum sem skipta sköpum fyrir okkur. Auk þess getur Jehóva gefið okkur styrk til að standa stöðug. (Filippíbréfið 4:13) Hann getur veitt okkur „ofurmagn kraftarins“ fyrir milligöngu heilags anda. (2. Korintubréf 4:7) Andi Guðs gerir okkur kleift að standast allar þær prófraunir sem Satan kann að leggja á okkur. (1. Korintubréf 10:13) Er ekki hughreystandi að vita að Jehóva er alltaf fús til að hjálpa okkur?

16 Já, þótt við förum um dimma dali þurfum við ekki að gera það ein. Hirðir okkar er með okkur og hjálpar okkur á ýmsa vegu sem við skiljum kannski ekki alveg í fyrstu. Tökum sem dæmi reynslu safnaðaröldungs sem greindist með illkynja heilaæxli. „Ég verð að viðurkenna að í fyrstu fór ég að hugsa hvort Jehóva væri reiður út í mig eða hvort hann elskaði mig yfirhöfuð. En ég var staðráðinn í að fjarlægjast hann ekki. Þess í stað tjáði ég honum áhyggjur mínar og hann hjálpaði mér. Hann huggaði mig oft fyrir milligöngu trúsystkina. Mörg þeirra höfðu reynslu af því að glíma við alvarleg veikindi og gáfu mér ýmis gagnleg ráð. Öfgalausar leiðbeiningar þeirra minntu mig á að það sem ég var að ganga í gegnum var ekkert óvenjulegt. Margir buðust til að hjálpa mér og það snerti mig mjög og fullvissaði mig um að Jehóva var ekki óánægður með mig. Ég verð auðvitað að halda áfram að berjast við veikindi mín og ég veit ekki hver útkoman verður. En ég veit að Jehóva er með mér og heldur áfram að hjálpa mér í gegnum þessa erfiðleika.“

„Þú býr mér borð“

17. Hvernig lýsir Davíð Jehóva í Sálmi 23:5 og hvers vegna stangast það ekki á við líkinguna um fjárhirðinn?

17 Nú nefnir Davíð þriðju ástæðuna fyrir því að hann treystir hirði sínum. Hún er sú að Jehóva nærir sauði sína og hann gerir það ríkulega. Davíð skrifar: „Þú býr mér borð frammi fyrir fjendum mínum, þú smyr höfuð mitt með olíu, bikar minn er barmafullur.“ (Sálmur 23:5) Í þessu versi lýsir Davíð hirði sínum sem gjafmildum gestgjafa sem býður upp á nægan mat og drykk. Þessar tvær líkingar um umhyggjusaman hirði og gjafmildan gestgjafa stangast ekki á. Góður hirðir verður að vita hvar frjósamt beitiland er að finna og nægilegt drykkjarvatn svo að hjörð hans ‚bresti ekkert‘. — Sálmur 23:1, 2.

18. Hvað sýnir að Jehóva er gjafmildur gestgjafi?

18 Er hirðir okkar líka gjafmildur gestgjafi? Já, á því liggur enginn vafi. Leiddu hugann að magni, gæðum og fjölbreytileika andlegu fæðunnar sem við fáum. Fyrir milligöngu trúa þjónshópsins sér Jehóva okkur fyrir gagnlegum ritum og fræðandi dagskrá á samkomum og mótum. Það gerir hann til að mæta andlegri þörf okkar. (Matteus 24:45-47) Okkur skortir sannarlega ekki andlega fæðu. Hinn „trúi og hyggni þjónn“ hefur gefið út milljónir biblía og biblíunámsrita og þessi rit eru nú fáanleg á 413 tungumálum. Jehóva gefur okkur líka mjög fjölbreytta andlega fæðu — allt frá „mjólk“, eða grundvallarkenningum Biblíunnar, til ‚fastrar fæðu‘ sem er djúp andleg fræðsla. (Hebreabréfið 5:11-14) Við getum því yfirleitt fundið nákvæmlega það sem við þurfum þegar við stöndum frammi fyrir erfiðleikum eða þurfum að taka ákvarðanir. Hvar værum við ef við hefðum ekki þessa andlegu fæðu? Hirðir okkar er augljóslega mjög gjafmildur gestgjafi. — Jesaja 25:6; 65:13.

„Í húsi Drottins bý ég“

19, 20. (a) Hvaða traust tjáir Davíð í Sálmi 23:6 og hvernig getum við borið sama traust til Jehóva? (b) Um hvað verður rætt í næstu grein?

19 Eftir að Davíð hefur lýst Jehóva sem hirði og gjafara segir hann að lokum: „Já, gæfa og náð fylgja mér alla ævidaga mína, og í húsi Drottins bý ég langa ævi.“ (Sálmur 23:6) Hjarta Davíðs er fullt þakklætis og trúartrausts — hann er þakklátur þegar hann hugleiðir fortíðina og hefur trúartraust til framtíðarinnar. Þessi fyrrverandi fjárhirðir er öruggur því hann veit að svo framarlega sem hann heldur sig nálægt himneskum hirði sínum, eins og hann byggi í húsi hans, nýtur hann alltaf kærleiksríkrar umhyggju hans.

20 Við erum mjög þakklát fyrir þau fögru orð sem skráð eru í 23. sálminum. Davíð hefði varla getað fundið betri leið til að lýsa því hvernig Jehóva leiðir, verndar og nærir sauði sína. Þessar hlýlegu lýsingar Davíðs hafa verið varðveittar til þess að fullvissa okkur um að við getum einnig litið á Jehóva sem hirði okkar. Já, svo framarlega sem við höldum okkur nálægt Jehóva annast hann okkur eins og umhyggjusamur hirðir um „langa ævi“, jafnvel um alla eilífð. En við sem erum sauðir hans berum ábyrgð á því að ganga með Jehóva, hinum mikla hirði okkar. Í næstu grein verður rætt um hvað felst í því.

[Neðanmáls]

^ gr. 13 Davíð orti marga sálma þar sem hann lofaði Jehóva fyrir að frelsa sig úr hættu. — Sjá til dæmis yfirskriftina á Sálmi 18, 34, 56, 57, 59 og 63.

^ gr. 15 Sjá greinina „Íhlutun Guðs — hvers getum við vænst“ í Varðturninum, 1. október 2003.

Manstu?

• Af hverju er viðeigandi að Davíð skuli líkja Jehóva við fjárhirði?

• Hvernig sýnir Jehóva skilning þegar hann leiðir okkur?

• Hvernig hjálpar Jehóva okkur að takast á við erfiðleika?

• Hvað sýnir að Jehóva er gjafmildur gestgjafi?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 10]

Jehóva leiðir sauði sína eins og hirðir gerði í Ísrael.