Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Öllum þjóðum til vitnisburðar“

„Öllum þjóðum til vitnisburðar“

„Öllum þjóðum til vitnisburðar“

„Þér munuð verða vottar mínir . . . allt til endimarka jarðarinnar.“ — POSTULASAGAN 1:8.

1. Hvar og hvenær heyrðu lærisveinarnir fyrst spádóminn í Matteusi 24:14?

VIÐ þekkjum orð Jesú í Matteusi 24:14 svo vel að flest okkar kunna þau utan að. Þetta var mjög sérstakur spádómur. Ímyndaðu þér hvað lærisveinarnir hafa hugsað þegar þeir heyrðu hann í fyrsta skipti. Það var árið 33. Lærisveinarnir höfðu verið með Jesú í um þrjú ár og voru nú komnir með honum til Jerúsalem. Þeir höfðu séð kraftaverk hans og heyrt hann kenna. Þótt þeir hefðu yndi af þeim dýrmætu sannindum sem Jesús kenndi gerðu þeir sér grein fyrir því að ekki voru allir jafn ánægðir og þeir. Jesús átti volduga og áhrifamikla óvini.

2. Hvaða hættur og erfiðleikar myndu verða á vegi lærisveinanna?

2 Fjórir lærisveinar Jesú sátu með honum á Olíufjallinu og hlustuðu af athygli þegar hann talaði um þær hættur og þá erfiðleika sem myndu verða á vegi þeirra. Áður hafði Jesús sagt þeim að hann yrði líflátinn. (Matteus 16:21) Núna gerði hann þeim ljóst að þeir myndu líka verða fyrir harðri andstöðu. „Þá munu menn framselja yður til pyndinga og taka af lífi,“ sagði hann, „og allar þjóðir munu hata yður vegna nafns míns.“ En það var ekki allt og sumt. Falsspámenn myndu afvegaleiða marga. Aðrir myndu falla frá og framselja hver annan og hata. Reyndar myndi „kærleikur flestra kólna“, það er að segja kærleikurinn til Guðs og orðs hans. — Matteus 24:9-12.

3. Af hverju er spádómur Jesú í Matteusi 24:14 afar athyglisverður?

3 Eftir að Jesús hafði lýst hve erfitt ástandið yrði sagði hann orð sem hljóta að hafa gert lærsveinana agndofa. Hann sagði: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ (Matteus 24:14) Já, starfið sem Jesús hóf í Ísrael — að ‚bera sannleikanum vitni‘ — myndi halda áfram og ná um alla jörðina. (Jóhannes 18:37) Hvílíkur spádómur! Það yrði nógu erfitt að prédika fagnaðarerindið um allan heim. En að gera það andspænis hatri allra þjóða væri kraftaverki líkast. Þetta gríðarmikla starf myndi ekki aðeins upphefja drottinvald Jehóva og mátt heldur einnig kærleika hans, miskunn og þolinmæði. Auk þess gæfi það þjónum hans tækifæri til að sýna trú sína og hollustu.

4. Hverjum var sagt að vitna og hvernig hughreysti Jesús þá?

4 Lærisveinarnir voru ekki í neinum vafa um að Jesús hafði falið þeim á hendur feikilegt verkefni. Áður en hann steig upp til himna birtist hann þeim og sagði: „Þér munuð öðlast kraft, er heilagur andi kemur yfir yður, og þér munuð verða vottar mínir í Jerúsalem og allri Júdeu, í Samaríu og allt til endimarka jarðarinnar.“ (Postulasagan 1:8) Að sjálfsögðu myndu fleiri bætast í hópinn fljótlega. En lærisveinarnir voru enn þá ósköp fáir. Það hlýtur að hafa verið hvetjandi að vita að hinn máttugi andi Guðs myndi gefa þeim kraft til að sinna þessu verkefni sem þeim hafði verið falið.

5. Hvað vissu lærisveinarnir ekki um prédikunarstarfið?

5 Lærisveinarnir vissu að þeir ættu að prédika fagnaðarerindið og gera „allar þjóðir að lærisveinum“. (Matteus 28:19, 20) En þeir vissu hvorki hve rækilega ætti að vitna né hvenær endirinn kæmi. Við vitum það ekki heldur. Það ákveður Jehóva einn. (Matteus 24:36) Þegar Jehóva telur að vitnað hafi verið nægilega mun hann eyða þessum illa heimi. Þá fyrst vita kristnir menn að búið er að prédika að því marki sem Jehóva ætlaði. Lærisveinarnir á fyrstu öld hefðu varla getað ímyndað sér hversu rækilega yrði vitnað núna á tímum endalokanna.

Vitnað á fyrstu öld

6. Hvað gerðist á hvítasunnu árið 33 og stuttu eftir það?

6 Prédikunar- og kennslustarfið á fyrstu öldinni bar ótrúlegan árangur. Á hvítasunnudegi árið 33 voru um 120 lærsveinar saman komnir í loftstofu í Jerúsalem. Heilögum anda Guðs var úthellt yfir þá, Pétur postuli hélt hvetjandi ræðu þar sem hann útskýrði þýðingu þessa kraftaverks og um 3000 tóku trú og létu skírast. En þetta var aðeins upphafið. Þrátt fyrir ákafar tilraunir trúarleiðtoga til að stöðva prédikun fagnaðarerindisins bætti Jehóva „daglega við í hópinn þeim, er frelsast létu“. Bráðlega varð „tala karlmanna . . . um fimm þúsundir“. Og „enn fleiri urðu þeir, sem trúðu á Drottin, fjöldi karla og kvenna“. — Postulasagan 2:1-4, 8, 14, 41, 47; 4:4; 5:14.

7. Hvers vegna markaði það tímamót þegar Kornelíus tók trú?

7 Árið 36 urðu önnur tímamót í prédikunarstarfinu þegar heiðinn maður að nafni Kornelíus tók trú og lét skírast. Þegar Jehóva leiddi Pétur postula til þessa guðhrædda manns benti hann á að fyrirmæli Jesú um að gera „allar þjóðir að lærisveinum“ takmörkuðust ekki við Gyðinga í ýmsum löndum. (Postulasagan 10:44, 45) Hvernig brugðust forystumenn safnaðarins við? Postularnir og öldungarnir í Júdeu vegsömuðu Guð þegar þeir skildu að það ætti ekki aðeins að flytja Gyðingum fagnaðarerindið heldur einnig mönnum af þjóðunum. (Postulasagan 11:1, 18) En prédikunarstarfið hélt áfram að bera ávöxt meðal Gyðinga. Um tveim áratugum síðar, sennilega árið 58, voru „margir tugir þúsunda . . . meðal Gyðinga“ sem höfðu tekið trú auk manna af heiðnum uppruna. — Postulasagan 21:20.

8. Hvaða áhrif hefur fagnaðarerindið á fólk?

8 Þótt fjölgunin meðal kristinna manna á fyrstu öld hafi verið tilkomumikil ættum við aldrei að gleyma fólkinu á bak við tölurnar. Það heyrði kröftugan boðskap Biblíunnar. (Hebreabréfið 4:12) Hann gerbreytti lífi þeirra sem tóku við honum. Fólk fór að lifa hreinu lífi, íklæddist hinum nýja manni og lét sættast við Guð. (Efesusbréfið 4:22, 23) Hið sama á við nú á dögum. Og allir þeir sem taka við fagnaðarerindinu hafa þá stórkostlegu von að lifa að eilífu. — Jóhannes 3:16.

Samverkamenn Guðs

9. Hvaða heiður og ábyrgð vissu hinir frumkristnu að þeir höfðu?

9 Frumkristnir menn eignuðu sér ekki heiðurinn af því starfi sem var unnið. Þeir gerðu sér grein fyrir því að þeir boðuðu fagnaðarerindið „í krafti heilags anda“. (Rómverjabréfið 15:13, 19) Árangurinn var Jehóva að þakka. En þessir kristnu menn vissu að þeir höfðu þann heiður og þá ábyrgð að vera „samverkamenn Guðs“. (1. Korintubréf 3:6-9) Þar af leiðandi voru þeir kappsamir í starfinu sem þeim var falið eins og Jesús hafði hvatt þá til. — Lúkas 13:24.

10. Hvað lögðu sumir frumkristnir menn á sig til að vitna fyrir öllum þjóðum?

10 Páll var „postuli heiðingja“ og ferðaðist því þúsundir kílómetra á sjó og landi og kom á fót söfnuðum í rómverska skattlandinu Asíu og í Grikklandi. (Rómverjabréfið 11:13) Hann fór líka til Rómar og hugsanlega til Spánar. Pétri postula var hins vegar trúað fyrir „fagnaðarerindinu . . . til umskorinna“ og ferðaðist því í hina áttina og starfaði í Babýlon sem var ein af miðstöðvum Gyðingdómsins á þeim tíma. (Galatabréfið 2:7-9; 1. Pétursbréf 5:13) Margir fleiri lögðu hart að sér í starfi Drottins eins og þær Trýfæna og Trýfósa. Önnur kona að nafni Persis er sögð hafa starfað mikið fyrir Drottin. — Rómverjabréfið 16:12.

11. Hvernig blessaði Jehóva starf lærisveinanna?

11 Jehóva blessaði ríkulega starf þessara kappsömu boðbera og annarra. Það voru ekki liðin 30 ár frá því að Jesús spáði að vitnað yrði fyrir öllum þjóðum þegar Páll skrifaði að fagnaðarerindið hefði verið prédikað „fyrir öllu, sem skapað er undir himninum“. (Kólossubréfið 1:23) Kom endirinn þá? Já, í vissum skilningi. Þjóðskipulag Gyðinga leið undir lok árið 70 þegar hersveitir Rómverja eyddu Jerúsalem og musterið. En Jehóva hafði ákveðið að vitnað yrði í enn meiri mæli áður en hann byndi enda á illan heim Satans í heild.

Vitnað nú á dögum

12. Hvernig skildu biblíunemendurnir á sínum tíma fyrirmælin um að prédika?

12 Á síðari hluta 19. aldar var sönn tilbeiðsla endurvakin eftir langvarandi fráhvarf. Biblíunemendurnir, eins og vottar Jehóva voru þá kallaðir, skildu vel fyrirmælin um að gera menn um allan heim að lærisveinum. (Matteus 28:19, 20) Árið 1914 voru um 5100 sem tóku virkan þátt í boðunarstarfinu og fagnaðarerindið hafði náð til 68 landa. En biblíunemendurnir skildu ekki að fullu merkingu orðanna í Matteusi 24:14. Undir lok 19. aldar höfðu biblíufélög þýtt Biblíuna á mörg tungumál, prentað hana og dreift henni um alla jörðina. Þar sem fagnaðarerindið er að finna í Biblíunni töldu biblíunemendurnir lengi vel að búið væri að vitna fyrir öllum þjóðum.

13, 14. Hvernig voru vilji Guðs og fyrirætlun skýrð nánar í Varðturninum árið 1928?

13 Smám saman veitti Jehóva fólki sínu skýrari skilning á vilja sínum og fyrirætlun. (Orðskviðirnir 4:18) Varðturninn sagði 1. desember 1928: „Getum við sagt að dreifing Biblíunnar jafngildi því að prédika fagnaðarerindið um ríkið eins og spáð var? Nei, alls ekki. Þrátt fyrir dreifingu Biblíunnar þarf hinn litli hópur votta Guðs á jörðinni eftir sem áður að gefa út rit sem útskýra fyrirætlun Guðs og heimsækja þá sem hafa fengið þessar biblíur í hendur. Annars veit fólk ekki að Messíasarríkið hefur verið stofnsett á okkar dögum.“

14 Í þessu tölublaði Varðturnsins sagði í framhaldinu: „Árið 1920 . . . fengu biblíunemendurnir réttan skilning á spádómi Drottins í Matteusi 24:14. Þá gerðu þeir sér grein fyrir því að „þetta fagnaðarerindi“, sem átti að prédika um allan heim heiðingjum eða öllum þjóðum til vitnisburðar, var ekki fagnaðarerindi um ókomið ríki heldur fagnaðarerindi um að konungurinn Messías væri nú þegar byrjaður að ríkja yfir jörðinni.“

15. Hvernig hefur boðunarstarfið vaxið frá þriðja áratug síðustu aldar?

15 Þessi „litli hópur votta“ á þriðja áratug síðustu aldar átti eftir að stækka svo um munaði. Á áratugunum á eftir gerðu þeir sér grein fyrir að safna ætti saman miklum múgi ‚annarra sauða‘ og hófust handa við það. (Opinberunarbókin 7:9; Jóhannes 10:16) Nú á dögum eru 6.613.829 boðberar fagnaðarerindisins í 235 löndum. Spádómur Jesú hefur sannarlega uppfyllst! Aldrei áður hefur „þetta fagnaðarerindi um ríkið“ verið boðað í jafnmiklum mæli. Aldrei áður hafa verið jafnmargir trúfastir þjónar Jehóva á jörðinni.

16. Hverju var áorkað á síðasta þjónustuári? (Sjá skýrslu um staf votta Jehóva í enskri útgáfu Varðturnsins 1. febrúar 2006, bls. 27-30.)

16 Þessi mikli múgur hefur verið önnum kafinn á þjónustuárinu 2005. Hann notaði meira en milljarð klukkustunda til að prédika fagnaðarerindið í 235 löndum. Farið var í milljónir endurheimsókna og haldin voru milljónir biblíunámskeiða. Þetta starf er unnið af vottum Jehóva sem hafa fúslega gefið af tíma sínum og fjármunum til að segja öðrum frá orði Guðs. (Matteus 10:8) Fyrir milligöngu hins máttuga anda síns heldur Jehóva áfram að gefa þjónum sínum kraft til að framkvæma vilja sinn. — Sakaría 4:6.

Vitnað af dugnaði

17. Hvernig bregðast þjónar Jehóva við fyrirmælum Jesú um að prédika fagnaðarerindið?

17 Þótt næstum 2000 ár séu liðin síðan Jesús sagði að fagnaðarerindið yrði prédikað hefur ekki dregið úr eldmóði þjóna Guðs í boðunarstarfinu. Við vitum að við endurspeglum kærleika Jehóva, miskunn hans og langlyndi með því að vera þolgóð í þjónustu hans. Jehóva vill ekki að neinir glatist heldur að allir iðrist og láti sættast við sig. (2. Korintubréf 5:18-20; 2. Pétursbréf 3:9) Okkur er eins innanbrjósts. Vottar Jehóva eru brennandi í andanum og halda kostgæfir áfram að prédika fagnaðarerindið til endimarka jarðarinnar. (Rómverjabréfið 12:11) Árangurinn er sá að alls staðar tekur fólk við sannleikanum og fylgir kærleiksríkri leiðsögn Jehóva. Lítum á nokkur dæmi.

18, 19. Nefndu dæmi um fólk sem tók við fagnaðarerindinu.

18 Charles var bóndi í Vestur-Keníu. Árið 1998 seldi hann um 8 tonn af tóbaki og fékk viðurkenningu sem besti tóbaksræktandinn. Um svipað leyti fór hann að kynna sér Biblíuna. Fljótlega gerði hann sér grein fyrir því að sá sem tekur þátt í tóbaksframleiðslu brýtur gegn boði Jesú um að elska náungann. (Matteus 22:39) Þegar hann komst að þeirri niðurstöðu að titillinn „besti tóbaksræktandinn“ þýddi í rauninni „besti morðinginn“ sprautaði hann eitri yfir allar tóbaksplönturnar sínar. Hann tók góðum framförum í trúnni, vígði sig Guði og lét skírast. Nú er hann brautryðjandi og safnaðarþjónn.

19 Greinilegt er að Jehóva notar alþjóðlega prédikunarstarfið til að „hræra“ þjóðirnar og safna saman gersemum allra þjóða, það er að segja fólki. (Haggaí 2:7) Pedro, sem býr í Portúgal, fór í prestaskóla þegar hann var 13 ára. Hann ætlaði sér að verða trúboði og fræða fólk um Biblíuna. En hann hætti fljótlega í prestaskólanum því að Biblíunni var svo lítill gaumur gefinn. Sex árum síðar var hann kominn í háskóla í Lissabon þar sem hann stundaði nám í sálfræði. Hann bjó hjá frænku sinni sem var vottur Jehóva og hún hvatti hann til að kynna sér Biblíuna. En Pedro var ekki lengur sannfærður um að Guð væri til og gat ekki ákveðið hvort hann ætti að þiggja biblíunámskeið eða ekki. Hann spurði prófessorinn, sem kenndi honum sálfræði, um óákveðni. Prófessorinn sagði að sálfræðin kenni að þeir sem eigi erfitt með að taka ákvarðanir skemmi oft fyrir sjálfum sér í lífinu. Þegar Pedro heyrði þetta ákvað hann að þiggja biblíunámskeið. Hann lét skírast fyrir skömmu og núna heldur hann biblíunámskeið sjálfur.

20. Af hverju fögnum við því að vitnað sé fyrir þjóðunum í svona ríkum mæli?

20 Við vitum ekki enn að hvaða marki verður vitnað fyrir þjóðunum og við vitum ekki heldur daginn eða stundina þegar endirinn kemur. Við vitum aðeins og það verður bráðlega. Við fögnum því að hin víðtæka boðun fagnaðarerindisins er eitt af mörgum merkjum þess að Guðsríki taki bráðlega við af stjórnum manna. (Daníel 2:44) Á hverju ári fá milljónir manna tækifæri til að taka við fagnaðarerindinu og það vegsamar Jehóva, Guð okkar. Verum staðráðin í að vera trúföst og kosta kapps um að vitna fyrir öllum þjóðum ásamt trúsystkinum okkar. Ef við gerum það munum við bæði gera sjálf okkur hólpin og áheyrendur okkar. — 1. Tímóteusarbréf 4:16.

Manstu?

• Af hverju er spádómurinn í Matteusi 24:14 svona sérstakur?

• Hvað lögðu frumkristnir menn á sig til að prédika og hver var árangurinn?

• Hvernig áttuðu biblíunemendurnir sig á því að þeir þyrftu að vitna fyrir öllum þjóðum?

• Hvað finnst þér standa upp úr í starfi votta Jehóva á síðasta þjónustuári?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 18]

Jehóva sendi Pétur til að vitna fyrir Kornelíusi og fjölskyldu hans.

[Mynd á blaðsíðu 19]

Páll ferðaðist þúsundir kílómetra á sjó og landi til að prédika fagnaðarerindið.