Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Það er okkur til verndar að leita réttlætis

Það er okkur til verndar að leita réttlætis

Það er okkur til verndar að leita réttlætis

„Leitið fyrst . . . réttlætis [Guðs].“ — MATTEUS 6:33.

1, 2. Hvað ákvað ung kristin kona að gera og af hverju?

UNG kristin kona í landi einu í Asíu vann sem ritari hjá opinberri stofnun. Hún mætti snemma til vinnu, var samviskusöm og hörkudugleg. Þar sem hún var lausráðin kom að því að meta hvort hún fengi fastráðningu. Deildarstjórinn sagðist skyldi fastráða hana og jafnvel veita henni stöðuhækkun ef hún myndi eiga siðlaust samband við sig. Hún afþakkaði umbúðalaust þótt það hefði getað kostað hana vinnuna.

2 Var unga konan óraunsæ? Nei, hún fylgdi einfaldlega orðum Jesú: „Leitið fyrst . . . réttlætis [Guðs]“. (Matteus 6:33) Henni þótti miklu mikilvægara að fylgja réttlátum lífsreglum en að fremja siðlausan verknað til að koma sér áfram í atvinnulífinu. — 1. Korintubréf 6:18.

Réttlæti er mikilvægt

3. Hvað er réttlæti?

3 Að vera „réttlátur“ merkir að vera heiðarlegur og ráðvandur í siðferðilegum efnum. Hugsunin í hebresku og grísku biblíuorðunum er „beinn“ eða „réttur“. Málið snýst um það að vera réttlátur eftir mælikvarða Jehóva, ekki aðeins að eigin mati. (Lúkas 16:15) Það er réttlæti Guðs sem um er að ræða. — Rómverjabréfið 1:17; 3:21.

4. Af hverju er mikilvægt fyrir kristinn mann að vera réttlátur?

4 Af hverju er mikilvægt að vera réttlátur? Jehóva er „Guð réttlætis“ og sýnir fólki sínu góðvild þegar það ástundar réttlæti. (Sálmur 4:2; Orðskviðirnir 2:20-22; Habakkuk 1:13) Enginn sem ástundar ranglæti getur átt náið samband við hann. (Orðskviðirnir 15:8) Þess vegna hvatti Páll Tímóteus: „Flý þú æskunnar girndir, en stunda réttlæti“ og fleiri dyggðir. (2. Tímóteusarbréf 2:22) Og það var þess vegna sem Páll nefndi „brynju réttlætisins“ ásamt öðrum þáttum hins andlega alvæpnis. — Efesusbréfið 6:14.

5. Hvernig geta ófullkomnir menn leitað réttlætis?

5 Auðvitað er enginn maður alréttlátur. Allir erfa ófullkomleika frá Adam og allir eru syndugir og óréttlátir frá fæðingu. Jesús sagði engu að síður að við ættum að leita réttlætis. Hvernig er það hægt? Það er hægt vegna þess að Jesús gaf fullkomið líf sitt sem lausnargjald fyrir okkur, og Jehóva er fús til að fyrirgefa syndir okkar ef við trúum á fórn Jesú. (Matteus 20:28; Jóhannes 3:16; Rómverjabréfið 5:8, 9, 12, 18) Jehóva viðurkennir tilbeiðslu okkar á þeim forsendum þegar við kynnum okkur réttláta mælikvarða hans, leggjum okkur í líma við að fara eftir þeim og biðjum um hjálp hans til að sigrast á veikleikum okkar. (Sálmur 1:6; Rómverjabréfið 7:19-25; Opinberunarbókin 7:9, 14) Þetta er ákaflega traustvekjandi.

Réttlátir í óréttlátum heimi

6. Af hverju var heimurinn hættusvæði fyrir frumkristna menn?

6 Lærisveinar Jesú voru í vandasamri stöðu þegar þeir fengu það verkefni að vera vottar hans „allt til endimarka jarðarinnar“. (Postulasagan 1:8) Allt starfssvæðið eins og það lagði sig var „á valdi hins vonda“, Satans. (1. Jóhannesarbréf 5:19) Heimurinn var sýktur þeim óguðlega anda sem Satan ýtir undir og spillandi áhrif hans mæddu þar af leiðandi á kristnum mönnum. (Efesusbréfið 2:2) Heimurinn var hættusvæði fyrir þá. Þeir gátu því aðeins verið ráðvandir að þeir leituðu fyrst réttlætis Guðs. Flestir stóðust álagið en fáeinir leiddust út af „vegi réttlætisins“. — Orðskviðirnir 12:28; 2. Tímóteusarbréf 4:10.

7. Hvaða skylda gerir það að verkum að kristnir menn þurfa að sporna gegn spillandi áhrifum?

7 Er kristnum mönnum minni hætta búin í heiminum núna? Síður en svo. Hann er enn spilltari en á fyrstu öldinni. Þar við bætist að Satan hefur verið varpað niður til jarðar og heyr nú grimmilegt stríð gegn þeim sem eftir eru af andasmurðum kristnum mönnum, afkomendum konunnar, en þeir halda boð Guðs og hafa það verkefni að vitna um Jesú. (Opinberunarbókin 12:12, 17) Satan ræðst einnig á alla sem styðja þá. En kristnir menn geta ekki flúið heiminn. Þeir verða að búa í honum þó að þeir tilheyri honum ekki. (Jóhannes 17:15, 16) Og þeir verða að prédika í þessum heimi til að leita uppi réttsinnað fólk og kenna því svo að það verði lærisveinar Krists. (Matteus 24:14; 28:19, 20) Kristnir menn verða að sporna gegn spillandi áhrifum heimsins fyrst þeir geta ekki sloppið alveg undan þeim. Við skulum líta á ferns konar áhrif.

Spillandi áhrif siðleysis

8. Hvers vegna fóru Ísraelsmenn að tilbiðja guði Móabíta?

8 Mikill fjöldi Ísraelsmanna leiddist út af braut réttlætisins þegar 40 ára eyðimerkurganga þeirra var næstum á enda. Þeir höfðu margsinnis orðið vitni að því hvernig Jehóva frelsaði þá, og innan skamms áttu þeir að ganga inn í fyrirheitna landið. Það var á þessari ögurstund sem margir létu leiðast út í að tilbiðja guði Móabíta. Af hverju? Af því að þeir létu undan „fýsn holdsins“. (1. Jóhannesarbréf 2:16) Frásagan segir: „Tók lýðurinn að drýgja hór með Móabs dætrum.“ — 4. Mósebók 25:1.

9, 10. Af hverju er áríðandi að hafa stöðugt í huga hve spillandi langanir holdsins geta verið?

9 Þetta atvik lýsir vel hvernig rangar langanir holdsins geta spillt þeim sem gá ekki að sér. Við ættum að draga lærdóm af því, einkum og sér í lagi vegna þess að siðleysi er orðið almennt viðurkennt sem boðlegt líferni. (1. Korintubréf 10:6, 8) Í frétt frá Bandaríkjunum segir: „Fram undir 1970 var óvígð sambúð talin lögbrot í öllum ríkjum Bandaríkjanna. Nú er hún orðin mjög algeng. Meira en helmingur fólks býr í óvígðri sambúð fyrir fyrsta hjónaband.“ Óvígð sambúð og hliðstæð lausung í siðferðismálum er auðvitað ekki bundin við eitt land heldur algeng um allan heim. Því miður hafa sumir kristnir menn látið berast með straumnum með þeim afleiðingum að það hefur þurft að víkja þeim úr kristna söfnuðinum. — 1. Korintubréf 5:11.

10 Áróðurinn fyrir siðleysi virðist vera alls staðar. Í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum er látið sem það sé sjálfsagt mál að ungt fólk stundi kynlíf fyrir hjónaband. Samböndum samkynhneigðra er haldið á lofti eins og þau séu eðlileg. Og kynlífssenurnar verða sífellt djarfari. Klámfengnar myndir eru auðfundnar á Netinu. Dálkahöfundur sagði frá því að sjö ára sonur sinn hefði komið heim úr skólanum einn daginn og sagt fjálglega frá því að skólafélagi hefði fundið vefsíðu með myndum af nöktum konum við kynlífsathafnir. Faðirinn var felmtri sleginn. En hvað ætli margir krakkar hafi fundið slíkar vefsíður án þess að segja foreldrunum frá því? Og hversu margir foreldrar vita um hvað tölvuleikir krakkanna snúast? Margir vinsælir leikir snúast um viðbjóðslegt siðleysi, djöflatrú og ofbeldi.

11. Hvernig geta foreldrar varið sig og börnin gegn siðleysi umheimsins?

11 Hvernig geta fjölskyldur forðast þetta spillta „skemmtiefni“? Með því að leita fyrst réttlætis Guðs og neita að koma nálægt nokkru sem er siðlaust. (2. Korintubréf 6:14; Efesusbréfið 5:3) Foreldrar þurfa að hafa góða umsjón með því sem börnin gera og innprenta þeim kærleika til Jehóva og réttlátra laga hans. Þannig byggja þeir upp varnir hjá þeim gegn klámi, klámfengnum tölvuleikjum, siðlausum kvikmyndum og öðrum freistingum ranglætisins. — 5. Mósebók 6:4-9. *

Áhrif samfélagsins geta verið varasöm

12. Hvaða vandi gerði vart við sig á fyrstu öldinni?

12 Páll var staddur í Lýstru í Litlu-Asíu þegar hann vann kraftaverk og læknaði mann nokkurn. Frásagan segir: „Múgurinn sá, hvað Páll hafði gjört, og tók að hrópa á lýkaónsku: ‚Guðirnir eru í manna líki stignir niður til vor.‘ Kölluðu þeir Barnabas Seif, en Pál Hermes, því að hann hafði orð fyrir þeim.“ (Postulasagan 14:11, 12) Nokkru seinna reyndi sami múgur að drepa þá Pál og Barnabas. (Postulasagan 14:19) Ljóst er að þetta fólk var mjög móttækilegt fyrir áhrifum samfélagsins. Sumir á þessum slóðum virðast hafa haldið í hjátrúna eftir að þeir gerðust kristnir því að Páll varar við „engladýrkun“ í bréfinu til Kólossumanna. — Kólossubréfið 2:18.

13. Nefndu dæmi um siði sem kristnir menn verða að sniðganga. Hvernig geta þeir fengið styrk til þess?

13 Nú á tímum þurfa sannkristnir menn sömuleiðis að vara sig á algengum siðvenjum sem byggjast á falstrúarhugmyndum og brjóta gegn meginreglum kristninnar. Sums staðar í heiminum eru til margs konar siðir og venjur í sambandi við fæðingar og dauða sem eru sprottnar af þeirri lygi að maðurinn hafi ódauðlegan anda sem lifi áfram þegar líkaminn deyr. (Prédikarinn 9:5, 10) Í sumum löndum er til dæmis stundaður umskurður á ungum stúlkum, einnig kallaður limlesting á kynfærum kvenna. Þetta er grimmileg meðferð, algerlega óþörf og gengur í berhögg við þá ást og umhyggju sem kristnir foreldrar eiga að sýna börnunum. (5. Mósebók 6:6, 7; Efesusbréfið 6:4) Hvernig getur kristið fólk staðið gegn áhrifum og þrýstingi samfélagsins og sniðgengið slíka siði? Með því að treysta algerlega á Jehóva. (Sálmur 31:7) Hann er réttlátur Guð og hann styrkir þá sem segja við hann af heilu hjarta: „Hæli mitt og háborg, Guð minn, er ég trúi á.“ — Sálmur 91:2; Orðskviðirnir 29:25.

Gleymdu ekki Jehóva

14. Hvaða viðvörun fengu Ísraelsmenn skömmu áður en þeir gengu inn í fyrirheitna landið?

14 Skömmu áður en Ísraelsmenn gengu inn í fyrirheitna landið minnti Jehóva þá á að þeir mættu ekki gleyma honum. Hann sagði: „Gæt þín, að þú gleymir ekki Drottni Guði þínum og haldir svo eigi boðorð hans, ákvæði og lög, sem ég legg fyrir þig í dag. Lát eigi, þegar þú hefir etið og ert mettur orðinn og hefir reist fögur hús og býr í þeim, þegar nautgripum þínum og sauðfénaði þínum fjölgar, þegar silfur þitt og gull eykst og allt sem þú átt, lát þá eigi hjarta þitt ofmetnast og gleym eigi Drottni Guði þínum.“ — 5. Mósebók 8:11-14.

15. Hvernig getum við gengið úr skugga um að við séum ekki að gleyma Jehóva?

15 Gæti eitthvað svipað gerst nú á dögum? Já, ef við forgangsröðum ekki rétt. En ef við leitum fyrst réttlætis Guðs verður hrein tilbeiðsla í fyrsta sæti hjá okkur. Þá notum við hverja stundina eins og Páll hvatti til og sinnum boðunarstarfinu af kappi. (Kólossubréfið 4:5; 2. Tímóteusarbréf 4:2) Ef okkur finnst hins vegar mikilvægara að slaka á og skemmta okkur heldur en sækja samkomur og boða fagnaðarerindið, þá gætum við gleymt Jehóva í þeim skilningi að við setjum hann í annað sætið í lífinu. Páll sagði að menn myndu elska „munaðarlífið meira en Guð“ á síðustu dögum. (2. Tímóteusarbréf 3:4) Kristnir menn, sem eru einlægir í trúnni, líta reglulega í eigin barm til að ganga úr skugga um að slíkur hugsunarháttur sé ekki farinn að hafa áhrif á þá. — 2. Korintubréf 13:5.

Forðastu sjálfstæðisanda

16. Hvaða ranga hugarfar sýndu Eva og sumir í kristna söfnuðinum á dögum Páls?

16 Satan tókst að notfæra sér eigingjarna löngun Evu til að vera sjálfstæð. Hún vildi fá að ákveða sjálf hvað væri rétt og rangt. (1. Mósebók 3:1-6) Þetta sama hugarfar gerði vart við sig í Korintusöfnuðinum á fyrstu öld. Sumir þar á bæ héldu sig vita betur en Páll en hann kallaði þá með nokkurri kaldhæðni ‚stórmikla postula‘. — 2. Korintubréf 11:3-5; 1. Tímóteusarbréf 6:3-5.

17. Hvernig getum við forðast sjálfstæðisanda?

17 Margir eru „framhleypnir [og] ofmetnaðarfullir“ nú á tímum og sumir kristnir menn hafa látið þess konar hugsunarhátt hafa áhrif á sig. Sumir hafa jafnvel snúist öndverðir gegn sannleikanum. (2. Tímóteusarbréf 3:4; Filippíbréfið 3:18) Þegar hrein tilbeiðsla á í hlut er mikilvægt að leita leiðsagnar hjá Jehóva og vinna fúslega með hinum ‚trúa og hyggna þjóni‘ og safnaðaröldungunum. Það er leiðin til að leita réttlætis og það ver okkur gegn því að fyllast sjálfstæðisanda. (Matteus 24:45-47; Sálmur 25:9, 10; Jesaja 30:21) Söfnuður hinna andasmurðu er „stólpi og grundvöllur sannleikans“. Jehóva hefur gefið okkur hann til að vernda okkur og leiðbeina. (1. Tímóteusarbréf 3:15) Ef við viðurkennum hið mikilvæga hlutverk safnaðarins gerum við „ekkert af eigingirni eða hégómagirnd“ heldur lútum réttlátum vilja Jehóva í fullri auðmýkt. — Filippíbréfið 2:2-4; Orðskviðirnir 3:4-6.

Líkjum eftir Jesú

18. Hvernig erum við hvött til að líkja eftir Jesú?

18 „Þú elskar réttlæti og hatar ranglæti,“ segir í biblíuspádómi um Jesú. (Sálmur 45:8; Hebreabréfið 1:9) Þetta er gott hugarfar til eftirbreytni. (1. Korintubréf 11:1) Jesús þekkti ekki bara réttlátar reglur Jehóva heldur elskaði þær. Þegar Satan freistaði hans í eyðimörkinni var ekkert hik á honum heldur neitaði hann einbeittur að víkja út af „götu réttlætisins“. — Orðskviðirnir 8:20; Matteus 4:3-11.

19, 20. Hvaða góðu afleiðingar hefur það að leita réttlætis?

19 Ranglátar langanir holdsins geta vissulega verið sterkar. (Rómverjabréfið 7:19, 20) Ef okkur finnst réttlætið dýrmætt styrkir það okkur engu að síður í baráttunni gegn illskunni. (Sálmur 119:165) Sterk réttlætisást verndar okkur þegar freistingar ber að garði. (Orðskviðirnir 4:4-6) Höfum hugfast að í hvert sinn sem við látum undan freistingu leyfum við Satan að sigra. Það er miklu betra að standa gegn honum og veita Jehóva sigurinn! — Orðskviðirnir 27:11; Jakobsbréfið 4:7, 8.

20 Þar sem sannkristnir menn leita réttlætis eru þeir „auðugir að réttlætis ávexti þeim, er fæst fyrir Jesú Krist til dýrðar og lofs Guði“. (Filippíbréfið 1:10, 11) Þeir íklæðast „hinum nýja manni, sem skapaður er eftir Guði í réttlæti og heilagleika sannleikans“. (Efesusbréfið 4:24) Þeir tilheyra Jehóva og lifa til að þjóna honum en ekki til að þóknast sjálfum sér. (Rómverjabréfið 14:8; 1. Pétursbréf 4:2) Það er það sem stjórnar hugsunum þeirra og verkum, og með því gleðja þeir föðurinn á himnum. — Orðskviðirnir 23:24.

[Neðanmáls]

^ gr. 11 Í bókinni The Secret of Family Happiness geta foreldrar fundið góð ráð um vernd gegn siðlausum áhrifum. Bókin er gefin út af Vottum Jehóva.

Geturðu svarað?

• Af hverju er mikilvægt að leita réttlætis?

• Hvernig getur ófullkominn kristinn maður leitað réttlætis?

• Hvað þarf kristinn maður meðal annars að forðast í heiminum?

• Hvernig er það vernd fyrir okkur að leita réttlætis?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 28]

Heimurinn var hættulegur fyrir fylgjendur Jesú.

[Mynd á blaðsíðu 29]

Börnin styrkja varnir sínar gegn siðleysi ef þau læra að elska Jehóva.

[Mynd á blaðsíðu 30]

Sumir Ísraelsmenn gleymdu Jehóva eftir að þeir komust í álnir í fyrirheitna landinu.

[Mynd á blaðsíðu 31]

Kristnir menn hata ranglæti líkt og Jesús gerði.