Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hve vel treystirðu Guði?

Hve vel treystirðu Guði?

Hve vel treystirðu Guði?

„Leitið fyrst ríkis hans.“ — MATTEUS 6:33.

1, 2. Hvað gerði ungur maður í atvinnumálum og hvers vegna?

UNGAN mann langaði til að koma að meira gagni í söfnuðinum. Vandinn var hins vegar sá að vinnan hans kom í veg fyrir að hann gæti sótt samkomur reglulega. Hvað gerði hann í málinu? Hann einfaldaði lífið, sagði upp vinnunni og fann síðar aðra vinnu sem stangaðist ekki á við starfsemi hans með söfnuðinum. Hann hefur mun minni tekjur en áður en sér samt fyrir fjölskyldunni og er í miklu betri aðstöðu til að verða að liði í söfnuðinum.

2 Áttarðu þig á því af hverju ungi maðurinn gerði þetta? Sérðu fyrir þér að þú myndir gera eitthvað svipað ef þú stæðir í sömu sporum og hann? Margir kristnir menn hafa gert þetta og það er hrósvert. Þeir sýna með verkum sínum að þeir treysta loforði Jesú: „Leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki.“ (Matteus 6:33) Þeir treysta frekar að Jehóva tryggi öryggi þeirra en að heimurinn geri það. — Orðskviðirnir 3:23, 26.

3. Af hverju er sumum kannski spurn hvort það sé enn þá raunhæft að leita fyrst ríkis Guðs?

3 Í ljósi þess að við lifum á erfiðum tímum er eðlilegt að sumir spyrji hvort ákvörðun unga mannsins hafi verið skynsamleg. Staðan er þannig að hluti mannkyns býr við sárustu örbirgð en aðrir búa við bestu lífskjör sögunnar. Flestir í fátæku löndunum myndu grípa það feginshendi ef þeim byðist að gera sér lífið aðeins auðveldara. Margir sem búa í ríku löndunum finna hins vegar að það fylgir því töluvert álag að halda sömu lífsgæðum þegar tvísýnt er í efnahagsmálum, vinnumarkaðurinn er síbreytilegur og vinnuveitendur gera æ meiri kröfur. Sumum er ef til vill spurn hvort það sé enn þá raunhæft að leita fyrst ríkis Guðs þegar litið er á álagið sem fylgir því að sjá fyrir sér. Til að leita svars við því skulum við kanna hvernig staðan var hjá þeim sem Jesús var að tala við.

„Verið ekki áhyggjufullir“

4, 5. Hvaða dæmi notaði Jesús til að sýna fram á að það væri skynsamlegt að hafa ekki óhóflegar áhyggjur af daglegum nauðsynjum?

4 Jesús var staddur í Galíleu. Áheyrendur hans voru margir og komnir víða að. (Matteus 4:25) Fáir, ef nokkrir, voru efnaðir. Sennilega voru flestir fátækir. Jesús hvatti þá engu að síður til að leggja ekki höfuðáherslu á að afla sér efnislegra auðæva heldur safna andlegum fjársjóðum sem eru margfalt verðmætari. (Matteus 6:19-21, 24) Hann sagði: „Verið ekki áhyggjufullir um líf yðar, hvað þér eigið að eta eða drekka, né heldur um líkama yðar, hverju þér eigið að klæðast. Er lífið ekki meira en fæðan og líkaminn meira en klæðin?“ — Matteus 6:25.

5 Mörgum af áheyrendum Jesú kann að hafa fundist þetta óraunhæft. Þeir vissu að það kæmi niður á fjölskyldunni ef þeir leggðu ekki hart að sér. En Jesús benti þeim á fuglana. Þeir þurfa að finna sér fæðu og skjól á hverjum degi en Jehóva annast þá engu að síður. Jesús benti þeim einnig á hvernig Jehóva annast villiblómin sem eru miklu fegurri en Salómon í allri sinni dýrð. Fyrst Jehóva sér um fuglana og blómin hlýtur hann að sjá um okkur. (Matteus 6:26-30) Eins og Jesús sagði er líf okkar (sálin) og líkami miklu mikilvægari en maturinn sem við kaupum til að næra okkur á og fötin sem við útvegum okkur til að klæðast. Ef við eyðum öllum kröftum í að afla okkur fæðis og klæðis og eigum litla sem enga krafta eftir til að þjóna Jehóva förum við á mis við tilgang lífsins. — Prédikarinn 12:13.

Rétta jafnvægið

6. (a) Hvaða skylda hvílir á kristnum mönnum? (b) Á hvern treysta kristnir menn í einu og öllu?

6 Jesús var auðvitað ekki að hvetja áheyrendur til að hætta að vinna og bíða þess með hendur í skauti að Guð sæi einhvern veginn fyrir fjölskyldum þeirra. Fuglarnir þurfa jafnvel að hafa fyrir því að leita að æti handa sjálfum sér og ungum sínum. Kristnir menn þurftu að vinna ef þeir vildu fá mat. Þeir urðu að sjá fjölskyldunni farborða. Kristnir þjónar og þrælar urðu að vinna dyggilega fyrir húsbændur sína. (2. Þessaloníkubréf 3:10-12; 1. Tímóteusarbréf 5:8; 1. Pétursbréf 2:18) Páll postuli vann oft fyrir sér með því að sauma tjöld. (Postulasagan 18:1-4; 1. Þessaloníkubréf 2:9) Kristnir menn litu hins vegar ekki á vinnuna sem haldreipið í lífinu. Þeir treystu á Jehóva og höfðu þess vegna innri frið sem aðrir þekktu ekki. Sálmaskáldið orti: „Þeir sem treysta Drottni eru sem Síonfjall, er eigi bifast, sem stendur að eilífu.“ — Sálmur 125:1.

7. Hvernig gæti sá maður hugsað sem treystir ekki algerlega á Jehóva?

7 Þeir sem treysta ekki á Jehóva hugsa kannski öðruvísi. Flestir líta á efnislega fjármuni sem bestu leiðina til að tryggja öryggi sitt. Þess vegna er algengt að foreldrar hvetji börn sín til að verja miklum tíma í að afla sér æðri menntunar. Þeir vonast til að þetta tryggi börnunum vel launaða vinnu þegar fram í sækir. Því miður hafa einstaka kristnar fjölskyldur uppgötvað að þetta getur reynst dýrkeypt því að andlegu málin hafa stundum vikið fyrir efnishyggju hjá börnunum.

8. Hvaða jafnvægi varðveita kristnir menn?

8 Vitur kristinn maður gerir sér því ljóst að ráð Jesú eiga ekki síður við núna en á fyrstu öldinni og hann reynir að varðveita rétta jafnvægið. Jafnvel þótt hann þurfi að eyða miklum tíma í vinnu til að rækja biblíulegar skyldur sínar lætur hann ekki brauðstritið blinda sig fyrir því sem mikilvægara er — andlegu málunum. — Prédikarinn 7:12.

Nánari leiðbeiningar frá Jesú

9. Hvernig hughreystir Jesús þá sem treysta algerlega á Jehóva?

9 Jesús hvatti áheyrendur sína í fjallræðunni: „Segið því ekki áhyggjufullir: ‚Hvað eigum vér að eta? Hvað eigum vér að drekka? Hverju eigum vér að klæðast?‘ Allt þetta stunda heiðingjarnir, og yðar himneski faðir veit, að þér þarfnist alls þessa.“ (Matteus 6:31, 32) Þetta eru uppörvandi orð. Ef við treystum algerlega á Jehóva getum við verið viss um að hann styðji okkur öllum stundum. En orð Jesú vekja okkur líka til umhugsunar. Þau minna okkur á að ef við sækjumst af ákefð eftir efnislegum hlutum hugsum við eins og „heiðingjarnir“, þeir sem eru ekki sannkristnir.

10. Hvernig dró Jesús fram hvað unga ríka manninum, sem leitaði ráða hjá honum, þótti vænst um?

10 Einhverju sinni kom vellauðugur ungur maður til Jesú og spurði hann hvað hann þyrfti að gera til að hljóta eilíft líf. Jesús minnti hann á ákvæði lögmálsins en það var enn í gildi á þeim tíma. „Alls þessa hef ég gætt. Hvers er mér enn vant?“ spurði ungi maðurinn. Sumum hefur kannski þótt það óraunhæft sem Jesús sagði honum: „Ef þú vilt vera fullkominn, skaltu fara, selja eigur þínar og gefa fátækum, og munt þú fjársjóð eiga á himnum. Kom síðan, og fylg mér.“ (Matteus 19:16-21) Ungi maðurinn fór burt hryggur því að hann gat ekki hugsað sér að láta eigur sínar frá sér. Eflaust þótti honum vænt um Jehóva en honum þótti enn vænna um eigur sínar.

11, 12. (a) Hvað sagði Jesús um efnislegan auð sem er mjög umhugsunarvert? (b) Hvernig geta eigur tálmað manni að þjóna Jehóva?

11 Þetta atvik varð kveikjan að óvæntum orðum Jesú: „Torvelt verður auðmanni inn að ganga í himnaríki. . . . Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki.“ (Matteus 19:23, 24) Átti Jesús við að enginn auðmaður kæmist inn í Guðsríki? Nei, „Guð megnar allt,“ eins og hann sagði í framhaldinu. (Matteus 19:25, 26) Þess voru dæmi að Jehóva hjálpaði auðmönnum að taka kristna trú og veitti þeim andasmurningu. (1. Tímóteusarbréf 6:17) Jesús hafði hins vegar fulla ástæðu til að segja þetta því að hann var að benda á ákveðna hættu.

12 Ef einhverjum fer að þykja of vænt um eigur sínar eins og gerðist hjá ríka unga manninum getur það tálmað honum að þjóna Jehóva af öllu hjarta. Þetta getur gerst bæði hjá þeim sem eru ríkir og eins hjá þeim sem „ríkir vilja verða“. (1. Tímóteusarbréf 6:9, 10) Sá sem treystir um of á efnislega hluti gæti farið að vanrækja andlegar þarfir sínar. (Matteus 4:4) Þetta gæti leitt til þess að honum fyndist hann ekki þurfa eins mikið á stuðningi Jehóva að halda. (5. Mósebók 6:10-12) Hann gæti farið að ætlast til þess að fá sérstöðu í söfnuðinum. (Jakobsbréfið 2:1-4) Og hann gæti eytt tímanum að mestu leyti í að njóta auðæfa sinna í stað þess að þjóna Jehóva.

Að tileinka sér rétt sjónarmið

13. Hvaða ranga sjónarmið höfðu Laódíkeumenn?

13 Söfnuðurinn í Laódíkeu sá efnislegar eigur ekki í réttu ljósi. Jesús sagði söfnuðinum: „Þú segir: ‚Ég er ríkur og orðinn auðugur og þarfnast einskis.‘ Og þú veist ekki, að þú ert vesalingur og aumingi og fátækur og blindur og nakinn.“ Það var ekki efnislegur auður sem hafði valdið þessari vesöld hjá Laódíkeumönnum heldur hitt að þeir treystu á auðinn en ekki á Jehóva. Þar af leiðandi voru þeir andlega hálfvolgir svo að við lá að Jesús ‚skyrpti‘ þeim út af munni sér. — Opinberunarbókin 3:14-17.

14. Af hverju áttu kristnir Hebrear skilið hrós Páls postula?

14 Páll postuli hrósaði hins vegar kristnum Hebreum fyrir hugarfar þeirra þegar þeir voru ofsóttir. „Þér þjáðust með bandingjum,“ sagði hann, „og tókuð því með gleði, er þér voruð rændir eignum yðar, því að þér vissuð, að þér áttuð sjálfir betri eign og varanlega.“ (Hebreabréfið 10:34) Þessir kristnu menn voru ekki miður sín yfir því að missa eigur sínar. Þeir héldu gleði sinni af því að þeir áttu „betri eign og varanlega“ sem var miklu dýrmætari en hið efnislega. Þeir voru ákveðnir í að missa ekki tökin á voninni um ríkið, hvað sem það kostaði. Þannig líktust þeir kaupmanninum í dæmisögu Jesú sem fórnaði öllu fyrir eina dýrmæta perlu. (Matteus 13:45, 46) Þetta er hrósvert hugarfar.

15. Hvernig lét kristin kona í Líberíu ríki Guðs ganga fyrir?

15 Margir hafa tileinkað sér sams konar hugarfar nú á tímum. Ungri kristinni konu í Líberíu bauðst að fara í háskóla. Þar í landi er litið svo á að slíkt boð sé nánast trygging fyrir öruggri framtíð. En unga konan var brautryðjandi, það er að segja boðberi í fullu starfi, og henni hafði boðist að starfa um stundar sakir sem sérbrautryðjandi. Hún valdi að leita fyrst ríkis Guðs og halda áfram sem boðberi í fullu starfi. Hún fór því þangað sem henni var boðið að starfa og kom af stað 21 biblíunámskeiði á þrem mánuðum. Þessi unga systir og þúsundir hennar líkar leita fyrst ríkis Guðs, þó að þau gætu misst af einhverjum efnislegum ávinningi. Hvernig tekst þeim að varðveita slíkt hugarfar í heimi þar sem efnishyggja er allsráðandi? Þau hafa tileinkað sér ýmsa góða eiginleika. Lítum á nokkra þeirra.

16, 17. (a) Af hverju helst það í hendur að vera lítillátur og treysta á Jehóva? (b) Hvers vegna ættum við að treysta á loforð Guðs?

16 Lítillæti: Biblían segir: „Treystu Drottni af öllu hjarta, en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit. Mundu til hans á öllum þínum vegum, þá mun hann gjöra stigu þína slétta. Þú skalt ekki þykjast vitur.“ (Orðskviðirnir 3:5-7) Ákveðin lífsstefna getur virst skynsamleg frá veraldlegum sjónarhóli. (Jeremía 17:9) Einlægur kristinn maður leitar engu að síður leiðsagnar Jehóva. (Sálmur 48:15) Hann er lítillátur og leitar handleiðslu hans „á öllum [sínum] vegum“ — hvort sem það er á vettvangi safnaðarins, menntunar, atvinnu, afþreyingar eða einhvers annars. — Sálmur 73:24.

17 Að treysta loforðum Jehóva: „Sá, sem gengur fram fyrir Guð, verður að trúa því, að hann sé til og að hann umbuni þeim, er hans leita,“ sagði Páll. (Hebreabréfið 11:6) Ef við efumst um að Jehóva efni loforð sín gæti virst rökréttara að nota heiminn til hins ýtrasta. (1. Korintubréf 7:31) Ef við höfum sterka trú erum við hins vegar ákveðin í að leita fyrst ríkis Guðs. Hvernig er hægt að styrkja trú sína? Með því að nálægja sig Jehóva en það gerir maður með því að eiga innilegt bænasamband við hann og stunda sjálfsnám. (Sálmur 1:1-3; Filippíbréfið 4:6, 7; Jakobsbréfið 4:8) Við getum beðið eins og Davíð: „Ég treysti þér, Drottinn, ég segi: ‚Þú ert Guð minn!‘ Hversu mikil er gæska þín.“ — Sálmur 31:15, 20.

18, 19. (a) Hvernig getum við styrkt traustið á Jehóva með því að vera dugleg? (b) Af hverju ætti kristinn maður að vera fús til að færa fórnir?

18 Dugnaður í þjónustu Jehóva: Páll tengdi það að treysta fyrirheitum Jehóva við dugnað og ástundun. Hann skrifaði: „Vér óskum, að sérhver yðar sýni sömu ástundan allt til enda, þar til von yðar fullkomnast.“ (Hebreabréfið 6:11) Jehóva styður okkur ef við erum dugleg í þjónustu hans. Traust okkar til hans styrkist í hvert sinn sem við finnum fyrir stuðningi hans. Við verðum staðföst og óbifanleg. (1. Korintubréf 15:58) Við endurnærum trúna og staðfestum vonina. — Efesusbréfið 3:16-19.

19 Fús til að færa fórnir: Páll fórnaði vænlegu starfi til að geta fylgt Jesú. Hann valdi greinilega rétt þó að hann byggi stundum við kröpp kjör. (1. Korintubréf 4:11-13) Jehóva lofar okkur engum munaði og stundum þurfa þjónar hans að þola ýmsar þrautir. Við sönnum að við séum staðráðin í að þjóna Jehóva ef við erum fús til að einfalda lífið og færa fórnir. — 1. Tímóteusarbréf 6:6-8.

20. Af hverju þurfa þeir sem leita fyrst ríkis Guðs að vera þolinmóðir?

20 Þolinmæði: Lærisveinninn Jakob hvatti trúsystkini sín: „Þreyið því, bræður, þangað til Drottinn kemur.“ (Jakobsbréfið 5:7) Það er erfitt að vera þolinmóður í hraða umheimsins. Við viljum sjá hlutina gerast fljótt. En Páll hvetur okkur til að líkja eftir „þeim, sem vegna trúar og stöðuglyndis erfa fyrirheitin“. (Hebreabréfið 6:12) Vertu fús til að bíða eftir Jehóva. Eilíft líf í paradís á jörð er sannarlega þess virði að bíða eftir því.

21. (a) Hvað sýnum við með því að leita fyrst ríkis Guðs? (b) Um hvað fjöllum við í næstu grein?

21 Já, það er raunhæft að leita fyrst ríkis Guðs eins og Jesús ráðlagði. Með því að gera það sýnum við að við treystum Jehóva í alvöru og veljum einu öruggu leiðina fyrir kristinn mann til að lifa lífinu. En Jesús hvatti okkur líka til að leita fyrst réttlætis Guðs. Við könnum í greininni á eftir af hverju það er sérstaklega mikilvægt að fara eftir þessari hvatningu nú á tímum.

Geturðu svarað?

• Hvaða jafnvægi sagði Jesús að við ættum að hafa gagnvart efnislegum hlutum?

• Hvað lærum við af líkingu Jesú um úlfaldann og nálaraugað?

• Hvaða kristnu eiginleikar hjálpa okkur að leita fyrst ríkis Guðs?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 23]

Margir af áheyrendum Jesú voru fátækir.

[Mynd á blaðsíðu 25]

Ríka unga manninum þótti vænna um eigur sínar en um Guð.

[Mynd á blaðsíðu 25]

Kaupmaðurinn í dæmisögu Jesú fórnaði aleigunni fyrir eina dýrmæta perlu.

[Mynd á blaðsíðu 26]

Jehóva sér um okkur ef við erum dugleg í þjónustu hans.