Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Elstu tilvitnanir í Biblíuna sem vitað er um“

„Elstu tilvitnanir í Biblíuna sem vitað er um“

„Elstu tilvitnanir í Biblíuna sem vitað er um“

FYRIR 25 árum fundu ísraelskir fornleifafræðingar mjög merkilegar minjar í grafarhelli í hlíð Hinnomsdals í Jerúsalem. Þetta voru tvær litlar silfurbókrollur með tilvitnunum í biblíutexta. Álitið var að bókrollurnar hefðu verið gerðar áður en Babýloníumenn eyddu Jerúsalemborg árið 607 f.Kr. Í textanum er vitnað í hluta blessunarorðanna í 4. Mósebók 6:24-26. Eiginnafn Guðs, Jehóva, kemur nokkrum sinnum fyrir í báðum bókrollunum. Þessum áletrunum hefur verið lýst sem „elstu minjum frá heimi fornaldar þar sem vitnað er í ritningartexta úr hebresku Biblíunni“.

Sumir fræðimenn hafa hins vegar dregið aldursgreininguna í efa og haldið því fram að bókrollurnar séu skrifaðar á annarri öld f.Kr. Ein ástæðan fyrir þessum ágreiningi er sú að upprunalegu ljósmyndirnar af þessum smágerðu bókrollum gáfu ekki kost á nákvæmri athugun á smæstu smáatriðum. Hópur fræðimanna hóf því nýja rannsókn til að setja niður deilurnar um aldur bókrollnanna. Þeir notuðu nýjustu ljósmynda- og tölvutækni til að gera stafrænar hágæðamyndir af bókrollunum. Niðurstöður nýju rannsóknarinnar voru birtar fyrir skömmu. Að hverju komst þessi hópur fræðimanna?

Í fyrsta lagi leggur hópurinn áherslu á að fornleifagögn styðji þá ályktun að bókrollurnar hafi verið gerðar fyrir útlegðina í Babýlon. Fornletursrannsóknir — athugun á lögun, formi og afstöðu letursins og rannsókn á því hvernig grifflinum var beitt og í hvaða röð línur hvers stafs voru gerðar — gefa hið sama til kynna, það er að segja að bókrollurnar hafi verið gerðar undir lok sjöundu aldar f.Kr. Að síðustu var stafsetningin athuguð og eftir það komst hópurinn að þessari niðurstöðu: „Athugun á stafsetningu var í samræmi við fornleifagögn og fornletursrannsóknir og benti til sömu aldursgreiningar.“

Í tímaritinu Bulletin of the American Schools of Oriental Research var gerð grein fyrir þessum rannsóknum á silfurbókrollunum sem einnig eru kallaðar Ketef Hinnom áletranirnar. Þar sagði: „Við getum nú staðfest niðurstöður flestra fræðimanna og sagt að í þessum bókrollum sé að finna elstu tilvitnanir í Biblíuna sem vitað er um.“

[Mynd rétthafi á blaðsíðu 32]

Hellir: Pictorial Archive (Near Eastern History) Est. Bókrollur: Ljósmynd © Israel Museum, Jerúsalem; með góðfúslegu leyfi Israel Antiquities Authority