Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Peningar og gott siðferði — lærdómur sögunnar

Peningar og gott siðferði — lærdómur sögunnar

Peningar og gott siðferði — lærdómur sögunnar

HINN 7. apríl 1630 lögðu fjögur skip úr höfn frá Englandi og tóku stefnuna á Nýja heiminn. Um borð voru um það bil fjögur hundruð manns. Margir þeirra voru hámenntaðir. Aðrir höfðu komist vel áfram í viðskiptalífinu og sumir í hópnum voru jafnvel þingmenn. Samdráttur var í hagkerfinu heima fyrir og ekki bætti úr skák að þrjátíuárastríðið geisaði í Evrópu (1618-1648). Þeir lögðu því út í óvissuna og yfirgáfu heimili sín, atvinnu og ættingja í leit að betri tækifærum.

En þetta voru ekki bara einhverjir áhættukaupmenn í leit að skjótfengum gróða. Þetta voru heittrúaðir púrítanar á flótta undan trúarofsóknum. * Markmið þeirra var að setja á stofn guðrækið samfélag þar sem þeir og afkomendur þeirra gætu haft góða afkomu án þess að þurfa að fara á svig við lífsreglur Biblíunnar. Stuttu eftir komuna til Salem í Massachusetts slógu þeir eign sinni á lítinn landskika við ströndina. Þeir gáfu nýja heimilinu nafnið Boston.

Vandfundið jafnvægi

John Winthrop var leiðtogi hópsins og landstjóri nýlendunnar. Hann reyndi sitt besta til að stuðla bæði að velmegun einstaklingsins og hag almennings. Hann vildi að fólk hefði bæði peninga og gott siðferði. En jafnvægið þar á milli reyndist vandfundið. Winthrop sá fram á að þetta myndi ekki reynast auðvelt og talaði í löngum ræðum við félaga sína um hvaða sess auður ætti að skipa í guðræknu samfélagi.

Líkt og aðrir fyrirliðar púrítana trúði Winthrop því að það væri í sjálfu sér ekki rangt að sækjast eftir auðæfum. Hann hélt því fram að megintilgangur þess að verða ríkur væri að hjálpa öðrum. Því meira sem maður ætti því betur gæti maður liðsinnt öðrum. „Fátt olli púrítönum eins miklu hugarangri og auður,“ segir sagnfræðingurinn Patricia O’Toole. „Auður var bæði merki um blessun Guðs og um leið gífurleg freisting til að gerast sekur um hroka . . . eða falla fyrir syndum holdsins.“

Winthrop hvatti fólk til þess að sýna hófsemi og sjálfstjórn til að forðast þær syndugu tilhneigingar sem auðæfi og munaður ýta undir. En fljótlega kom til árekstra. Winthrop reyndi að þvinga samborgara sína til að ástunda guðrækni og elska hver annan en það fór ekki alls kostar saman við viðskiptaáhuga þeirra. Mörgum fannst hann skipta sér allt of mikið af einkamálum þeirra og snerust gegn honum. Sumir fóru að berjast fyrir því að komið yrði á kjörnu þingi sem tæki sameiginlegar ákvarðanir. Aðrir kusu hreinlega með fótunum og fluttu sig yfir til Connecticut til að sinna eigin hagsmunum.

„Tækifæri, velmegun og lýðræði höfðu mikil áhrif á líf púrítananna í Massachusetts og ýttu undir framagirni einstaklingsins á kostnað hugmynda Winthrops um samstöðu og samvinnu,“ segir O’Toole. Winthrop lést slyppur og snauður árið 1649, þá 61 árs. Nýlendan hélt velli þrátt fyrir marga erfiðleika en Winthrop fékk samt aldrei að sjá draum sinn rætast.

Leitin heldur áfram

En John Winthrop er ekki einn um að hafa átt sér hugsjón um betri heim. Ár hvert flytjast hundruð þúsunda manna frá Afríku, Suðaustur-Asíu, Austur-Evrópu og Rómönsku Ameríku í leit að betra lífi. Sumir þeirra verða fyrir áhrifum af stöðugum straumi nýrra bóka, námskeiða og vefsíðna sem segjast búa yfir leyndarmálinu hvernig maður geti orðið ríkur. Það er greinilegt að margir þrá að eignast meiri peninga, vonandi þó án þess að segja skilið við gott siðferði.

En satt best að segja hefur árangurinn valdið vonbrigðum. Þeir sem sækjast eftir því að verða ríkir fórna oftar en ekki lífsreglum sínum og jafnvel trúnni á altari mammóns. Það er því eðlilegt að spyrja sig: „Er hægt að vera sannkristinn en um leið ríkur? Verður einhvern tíma til guðhrætt samfélag þar sem bæði efnisleg og andleg velmegun ríkir?“ Biblían svarar þessum spurningum eins og fram kemur í næstu grein.

[Neðanmáls]

^ gr. 3 Nafnið púrítanar kemur frá 16. öld þegar hópur innan mótmælendakirkjunnar á Englandi vildi hreinsa kirkjuna af öllum rómversk-kaþólskum áhrifum.

[Mynd credit line á blaðsíðu 3]

Skip: The Complete Encyclopedia of Illustration/J. G. Heck; Winthrop: Brown Brothers.