Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sönn velmegun í nýjum heimi Guðs

Sönn velmegun í nýjum heimi Guðs

Sönn velmegun í nýjum heimi Guðs

DAVID, * kristinn eiginmaður og faðir, flutti til Bandaríkjanna fullviss um að hann væri að gera það rétta. Þó að honum þætti miður að skilja eiginkonuna og börnin eftir var hann sannfærður um að hann gæti búið betur í haginn fyrir þau ef hann ætti meiri peninga. Hann þáði því boð ættingja í New York um að dvelja hjá þeim og fann fljótlega vinnu.

En þegar mánuðirnir liðu dró úr bjartsýni Davids. Hann mátti varla vera að því að sinna andlegum málum og missti næstum trúna á Guð um tíma. En það var ekki fyrr en hann lét undan freistingu og gerðist sekur um siðleysi að hann áttaði sig á hvaða stöðu hann hafði komið sér í. Hann hafði einbeitt sér svo að efnislegri velmegun að hann hafði smám saman fjarlægst allt sem skipti hann raunverulega máli. Eitthvað þurfti að breytast.

Eins og David flytjast margir ár hvert frá fátækum heimahögum í von um að geta bætt efnahag sinn. En oft kemur það harkalega niður á trú þeirra og sambandi við Guð. Sumir spyrja sig þess vegna hvort kristinn maður geti sóst eftir efnislegum auði en um leið verið ríkur hjá Guði. Vinsælir rithöfundar og prédikarar segja að það sé hægt. En eins og David og margir fleiri hafa uppgötvað getur reynst erfitt að eignast annað án þess að glata hinu. — Lúkas 18:24.

Peningar eru ekki af hinu illa

Peningar eru auðvitað uppfinning manna og eru hvorki góðir né vondir í sjálfu sér. Peningar eru ekkert annað en gjaldmiðill og þeir þjóna tilgangi sínum vel þegar þeir eru rétt notaðir. Peningar geta líka verndað mann gegn ýmsum fylgifiskum fátæktar því að „silfrið veitir forsælu“ eins og segir í Biblíunni. (Prédikarinn 7:12) Hjá sumum virðast „peningarnir veita allt“. — Prédikarinn 10:19.

Biblían fordæmir leti og hvetur til dugnaðar. Við eigum að sjá fyrir okkar nánustu og ef við eigum lítið eitt aukalega höfum við „eitthvað að miðla þeim, sem þurfandi er“. (Efesusbréfið 4:28; 1. Tímóteusarbréf 5:8) Biblían ýtir ekki undir sjálfsafneitun heldur hvetur okkur til að njóta þess sem við eigum. Við eigum að „taka hlutdeild“ okkar og gleðjast yfir árangri erfiðis okkar. (Prédikarinn 5:17-20) Í Biblíunni er að finna nokkur dæmi um trúfasta karla og konur sem voru efnuð.

Auðmenn sem þjónuðu Guði

Abraham var trúfastur þjónn Guðs. Hann eignaðist mikinn búpening, silfur og gull og þjóna í hundraðatali. (1. Mósebók 12:5; 13:2, 6, 7) Hinn réttláti Job átti líka miklar eignir — búfénað, þjóna, gull og silfur. (Jobsbók 1:3; 42:11, 12) Þessir menn voru ríkir, jafnvel á nútímamælikvarða, en þeir voru líka ríkir hjá Guði.

Páll postuli kallaði Abraham föður „allra þeirra, sem trúa“. Hann var hvorki nískur né of háður eignum sínum. (Rómverjabréfið 4:11; 1. Mósebók 13:9; 18:1-8) Sömuleiðis sagði Guð að Job væri „maður ráðvandur og réttlátur“. (Jobsbók 1:8) Hann var alltaf reiðubúinn að hjálpa fátækum og þeim sem minna máttu sín. (Jobsbók 29:12-16) Bæði Abraham og Job treystu Guði fremur en ríkidæmi sínu. — 1. Mósebók 14:22-24; Jobsbók 1:21, 22; Rómverjabréfið 4:9-12.

Salómon konungur er annað dæmi. Hann var erfingi að hásæti Guðs í Jerúsalem og honum var ekki aðeins veitt viska heldur líka auðlegð og heiður. (1. Konungabók 3:4-14) Stærsta hluta ævi sinnar var hann trúfastur. En „hjarta hans var ekki einlægt gagnvart Drottni“ á efri æviárum. (1. Konungabók 11:1-8) Saga hans lýsir í rauninni vel þeim tálgryfjum sem fylgja oft efnislegri velmegun. Skoðum nokkrar þeirra.

Velmegun getur verið varasöm

Mesta hættan felst í því að fara að þykja vænt um peninga og það sem hægt er að kaupa fyrir þá. Auðæfi kveikja hjá sumum óseðjandi löngun í meira. Salómon tók eftir þessari tilhneigingu hjá öðrum snemma í stjórnartíð sinni. Hann skrifaði: „Sá sem elskar peninga, verður aldrei saddur af peningum, og sá sem elskar auðinn, hefir ekki gagn af honum. Einnig það er hégómi.“ (Prédikarinn 5:9) Seinna vöruðu bæði Jesús og Páll kristna menn við þessari lævísu ást. — Markús 4:18, 19; 2. Tímóteusarbréf 3:2.

Þegar við fáum ást á peningum í stað þess að líta á þá sem leið til að hrinda hlutum í framkvæmd, getum við auðveldlega fallið fyrir ýmiss konar freistingum og gerst sek um lygar, þjófnað og óheiðarleika. Júdas Ískaríot, einn af postulum Krists, sveik meistara sinn fyrir aðeins 30 silfurpeninga. (Markús 14:11; Jóhannes 12:6) Hjá sumum gengur peningaástin svo langt að þeir fara jafnvel að tilbiðja peningana í staðinn fyrir Guð. (1. Tímóteusarbréf 6:10) Kristnir menn verða því alltaf að vera heiðarlegir við sjálfa sig og spyrja sig hvort þeir þurfi í raun að afla meiri peninga. — Hebreabréfið 13:5.

Því fylgja líka aðrar hættur að sækjast eftir efnislegum gæðum og þessar hættur geta verið mjög lúmskar. Í fyrsta lagi getur ríkidæmi stuðlað að því að fólk treysti of mikið á sjálft sig. Jesús kallaði þetta „tál auðæfanna“. (Matteus 13:22) Biblíuritarinn Jakob benti kristnum mönnum líka á að gleyma ekki Guði þegar þeir gerðu viðskiptaáætlanir. (Jakobsbréfið 4:13-16) Peningar virðast gefa okkur ákveðið sjálfstæði og ef við eigum peninga er stöðug hætta á því að við förum að setja traust okkar á þá en ekki Guð. — Orðskviðirnir 30:7-9; Postulasagan 8:18-24.

Í öðru lagi tekur eftirsókn eftir efnislegum auði oft svo mikinn tíma og krafta frá fólki að það hættir með tímanum að geta sinnt trúnni. David, sem minnst var á áðan, komst að raun um það. (Lúkas 12:13-21) Það getur líka verið mjög freistandi fyrir þá efnameiri að nota eigur sínar aðallega til afþreyingar eða til að sinna eigin áhugamálum.

Getur verið að Salómon hafi fallið frá trúnni meðal annars vegna þess að allar vellystingarnar, sem hann bjó við, hafi sljóvgað dómgreind hans? (Lúkas 21:34) Hann vissi að lög Guðs bönnuðu Ísraelsmönnum að giftast fólki af öðrum þjóðum. Þegar fram liðu stundir var hann samt búinn að safna í kvennabúr sitt um eitt þúsund konum. (5. Mósebók 7:3) Til að þóknast erlendum eiginkonum sínum reyndi hann að fara bil beggja í trúmálum. Eins og minnst var á áður sneri Salómon hjarta sínu að lokum frá Jehóva.

Þessi dæmi sýna greinilega fram á sannleikann í orðum Jesú: „Þér getið ekki þjónað Guði og mammón.“ (Matteus 6:24) En hvernig getur þá kristið fólk ráðið fram úr fjárhagserfiðleikum? Og er einhver von um betra líf í framtíðinni?

Sönn velmegun fram undan

Ólíkt ættfeðrunum Abraham og Job og Ísraelsþjóðinni til forna hafa fylgjendur Jesú fengið það verkefni að gera „allar þjóðir að lærisveinum“. (Matteus 28:19, 20) Að sinna þessu verkefni kostar bæði tíma og krafta sem væri annars hægt að nota til að afla sér fjár. Lykillinn að árangri er því fólginn í því sem Jesús hvatti okkur til að gera: „Leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki.“ — Matteus 6:33.

David gat að lokum komið lífi sínu aftur á réttan kjöl eftir að vera næstum búinn að missa fjölskylduna og trúna. Þegar hann lét biblíunám, bæn og boðunarstarf ganga fyrir á nýjan leik fór allt annað að ganga betur, rétt eins og Jesús lofaði. Sambandið við eiginkonuna og börnin lagaðist með tímanum. Hann fann aftur fyrir gleði og ánægju. En hann þarf enn þá að vinna hörðum höndum. Hann hefur ekki eignast gull og græna skóga. En þessi lífsreynsla kenndi honum verðmæta lexíu.

David hefur verið með bakþanka um ákvörðun sína að flytjast til Bandaríkjanna og hann hefur einsett sér að láta peninga ekki ráða ákvörðunum sínum eftirleiðis. Hann veit núna að það dýrmætasta í lífinu — ástrík fjölskylda, góðir vinir og sambandið við Guð — er ekki falt fyrir fé. (Orðskviðirnir 17:17; 24:27; Jesaja 55:1, 2) Siðferðileg ráðvendni er sannarlega miklu dýrmætari en efnislegur auður. (Orðskviðirnir 19:1; 22:1) David og fjölskylda hans eru ákveðin í að hafa hlutina í réttri forgangsröð. — Filippíbréfið 1:10.

Viðleitni mannanna til að koma á samfélagi þar sem bæði ríkir efnisleg velmegun og gott siðferði hefur misheppnast æ ofan í æ. Hins vegar hefur Guð lofað að ríki sitt muni veita gnægð efnislegra og andlegra gæða til að við getum lifað góðu lífi. (Sálmur 72:16; Jesaja 65:21-23) Jesús kenndi að trúin væri upphafið að sannri velmegun. (Matteus 4:4) Hvort sem við því erum rík eða fátæk efnislega skulum við gefa andlegum málum forgang. Það er besta leiðin til undirbúa okkur fyrir nýjan heim Guðs sem er rétt fram undan. (1. Tímóteusarbréf 6:17-19) Þar mun ríkja sönn velmegun, bæði efnisleg og andleg.

[Neðanmáls]

^ gr. 2 Nafninu hefur verið breytt.

[Mynd á blaðsíðu 5]

Job treysti á Guð, ekki á auðinn.

[Myndir á blaðsíðu 7]

Það dýrmætasta í lífinu fæst ekki keypt fyrir peninga.