Er þörf á Messíasi?
Er þörf á Messíasi?
ÞÚ SPYRÐ ef til vill hvort þú hafir einhverja þörf fyrir Messías. Það er fullkomlega rökrétt að velta fyrir sér hvort Messías myndi hafa einhver áhrif sem skiptu þig máli.
Sumir virtir heimildarmenn myndu svara afdráttarlaust að þú þarfnist Messíasar rétt eins og allir aðrir. Sérfræðingur í lögum Gyðinga á fyrstu öld skrifaði um hann: „Svo mörg sem fyrirheit Guðs eru, í honum er staðfesting þeirra með jái.“ Þannig lagði hann áherslu á hve mikilvægu hlutverki Messías gegndi í þeirri fyrirætlun skaparans að blessa allar þjóðir jarðar. (2. Korintubréf 1:20, Biblían 1912) Svo þýðingarmikið er hlutverk Messíasar að koma hans og ævi er kjarninn í spádómum Biblíunnar. Biblíufræðingurinn Henry H. Halley segir í handbók sem milljónir manna hafa notað síðastliðin 70 ár: „Gamla testamentið var skrifað til að vekja eftirvæntingu eftir komu [Messíasar] og greiða götu hans.“ En er nauðsynlegt að hann komi? Og af hverju ætti það að skipta þig máli?
Orðið „Messías“ merkir „hinn smurði“ og er samheiti hins þekkta heitis „Kristur“. Alfræðiorðabókin Encyclopædia Britannica (útg. frá 1970) kallar hann „hinn endanlega frelsara“. Hann þurfti að koma vegna þess virðingarleysis sem fyrstu hjónin, þau Adam og Eva, sýndu með verkum sínum. Þau voru sköpuð fullkomin og áttu fyrir sér þá unaðslegu framtíð að lifa endalaust í paradís. En þau glötuðu þessari framtíð. Engill, sem var síðar kallaður Satan djöfullinn, gerði uppreisn og ýjaði að því að skaparinn væri of strangur og að það væri betra fyrir þau að ákveða sjálf hvað væri gott og illt. — 1. Mósebók 3:1-5.
Eva lét blekkjast og trúði lyginni. Adam mat félagsskap eiginkonunnar greinilega meira en hollustu við Guð og gerðist samsekur í uppreisninni sem Satan hafði hleypt af stað. (1. Mósebók 3:6; 1. Tímóteusarbréf 2:14) Og með verkum sínum fyrirgerðu þau ekki aðeins möguleikum sjálfra sín að búa að eilífu í paradís heldur gáfu þau ófæddum afkomendum sínum syndina í arf ásamt afleiðingum hennar sem eru dauði. — Rómverjabréfið 5:12.
Skaparinn, Jehóva Guð, ákvað þegar í stað hvernig hann ætlaði að snúa við þeirri skaðlegu atburðarás sem uppreisnin hafði komið af stað. Hann ætlaði að koma á sáttum með því að byggja á meginreglu sem varð síðar eitt af ákvæðum Móselaganna. Þetta var meginreglan um jafngildi. (5. Mósebók 19:21; 1. Jóhannesarbréf 3:8) Það þurfti að fullnægja þessu lagaákvæði til að lánlausir afkomendur Adams og Evu gætu átt von um eilíft líf í paradís á jörð eins og skaparinn hafði ætlað manninum í upphafi. Þar kemur Messías til skjalanna.
Jehóva felldi dóm yfir Satan í fyrsta spádómi Biblíunnar. Þar segir: „Fjandskap vil ég setja milli þín og konunnar, milli þíns sæðis og hennar sæðis. Það skal merja höfuð þitt, og þú skalt merja hæl þess.“ (1. Mósebók 3:15) Biblíufræðingur bendir á að „saga fyrirheitanna um Messías hefjist með þessari yfirlýsingu“. Annar fræðimaður kemst svo að orði að Guð noti Messías til að „snúa við allri ógæfu syndafallsins“ og veita mannkyni gæfu. — Hebreabréfið 2:14, 15.
Þú gerir þér eflaust grein fyrir því að það vantar mikið upp á að mannkynið búi við gæfu og gengi. Hið rétta er að mannkynið er djúpt sokkið í vonleysi og örvæntingu. Þar af leiðandi segir alfræðiorðabókin The World Book Encyclopedia að „margir Gyðingar vænti þess enn að Messías komi“ til að „bæta úr rangindum og sigra óvini fólksins“. Biblían segir hins vegar að Messías sé þegar kominn. Er ástæða til að trúa orðum hennar? Því er svarað í greininni á eftir.