Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Gakktu með Guði og uppskerðu hið góða

Gakktu með Guði og uppskerðu hið góða

Gakktu með Guði og uppskerðu hið góða

„Þeir sá vindi, og storm skulu þeir uppskera.“ — HÓSEA 8:7.

1. Hvernig getum við gengið með Jehóva?

ÞAÐ er öruggara að ferðast um hættulegt svæði ef reyndur leiðsögumaður vísar veginn. Það væri viturlegra að fylgja leiðsögumanninum en fara sínar eigin leiðir. Að sumu leyti erum við í þess konar aðstöðu. Jehóva hefur boðist til að vísa okkur veginn gegnum þennan illa heim sem er eins og víðáttumikil eyðimörk. Það er skynsamlegt af okkur að ganga með honum frekar en reyna að stýra skrefum okkar sjálf. Hvernig getum við gengið með Guði? Með því að fylgja leiðsögninni sem hann gefur í orði sínu.

2. Um hvað er fjallað í þessari grein?

2 Í greininni á undan var rætt um hinn táknræna sjónleik sem er að finna í 1. til 5. kafla hjá Hósea. Eins og fram kom getum við lært ýmislegt af þessum köflum sem auðveldar okkur að ganga með Guði. Nú verður fjallað um nokkur aðalatriði 6. til 9. kafla. Byrjum á stuttu yfirliti yfir kaflana fjóra.

Stutt yfirlit

3. Lýstu í stuttu máli efni 6. til 9. kafla hjá Hósea.

3 Jehóva fól Hósea fyrst og fremst að spá í norðurríkinu Ísrael en þjóðin er einnig nefnd Efraím eftir áhrifamestu ættkvíslinni. Í 6. til 9. kafla hjá Hósea kemur fram að þjóðin hafði hafnað Guði og reynst ótrú með því að brjóta sáttmála hans og iðka guðlaus verk. (Hósea 6:7) Hún treysti á bandalög við aðrar þjóðir í stað þess að snúa aftur til Jehóva. Hún hlaut að uppskera hið illa fyrst hún sáði illu. Það var sem sagt komið að því að hún hlyti dóm. En spádómur Hósea inniheldur líka hlýlegan boðskap. Spámaðurinn fullvissaði þjóðina um að hún gæti snúið aftur til Jehóva og hlotið miskunn ef hún iðraðist af öllu hjarta.

4. Hvað lærum við af spádómi Hósea sem fjallað verður um hér?

4 Í þessum fjórum köflum í spádómi Hósea er að finna ýmsar fleiri ábendingar sem hjálpa okkur að ganga með Guði. Lítum á fernt: (1) Sönn iðrun birtist í verkum, ekki aðeins orðum. (2) Það er ekki nóg að færa fórnir til að þóknast Guði. (3) Jehóva sárnar þegar dýrkendur hans snúa baki við honum. (4) Til að uppskera hið góða verðum við að sá góðu.

Hvernig birtist sönn iðrun?

5. Hvað segir í stuttu máli í Hósea 6:1-3?

5 Spádómur Hósea kennir okkur margt um iðrun og miskunn. Við lesum í Hósea 6:1-3: „Komið, vér skulum hverfa aftur til Drottins, því að hann hefir sundur rifið og mun lækna oss, hann hefir lostið og mun binda um sár vor. Hann mun lífga oss eftir tvo daga og reisa oss upp á þriðja degi, til þess að vér lifum fyrir hans augliti. Vér viljum og þekkja, kosta kapps um að þekkja Drottin — hann mun eins áreiðanlega koma eins og morgunroðinn rennur upp — svo að hann komi yfir oss eins og regnskúr, eins og vorregn, sem vökvar jörðina.“

6-8. Hvað var athugavert við iðrun Ísraelsmanna?

6 Hver sagði það sem stendur í þessum versum? Sumir eigna það ótrúum Ísraelsmönnum og segja að þeir hafi gert sér upp iðrun og ætlað að syndga upp á náð Guðs. Aðrir halda því fram að það sé spámaðurinn Hósea sem talar og að hann sé að sárbæna þjóðina um að snúa aftur til Jehóva. En óháð því hver mælti þessi orð snýst málið um það hvort Ísraelsmenn sem heild sneru aftur til Jehóva og sýndu sanna iðrun. Svo var ekki. Jehóva segir fyrir munn Hósea: „Hvað skal ég við þig gjöra, Efraím, hvað skal ég við þig gjöra, Júda, þar sem elska yðar er eins hvikul og morgunský, eins og döggin, sem snemma hverfur?“ (Hósea 6:4) Þetta er dapurleg umsögn um það hve ömurlega þjóð Guðs var á sig komin trúarlega. Elska, tryggð og kærleikur voru nánast horfin — rétt eins og morgundöggin sem gufar fljótt upp þegar sól hækkar á lofti. Fólkið virðist hafa gert sér upp iðrun en Jehóva sá engan grundvöll til að sýna miskunn. Hvað var að?

7 Ísraelsmenn iðruðust ekki af heilu hjarta. Hósea 7:14 segir um vanþóknun Jehóva á fólki sínu: „[Þeir] hrópuðu ekki til mín af hjarta, heldur kveinuðu í rekkjum sínum.“ Sextánda versið bætir við: „Þeir snúa sér, en ekki í hæðirnar,“ það er að segja ekki til háleitrar tilbeiðslu. Menn voru ekki tilbúnir til að snúa aftur til hinnar háleitu tilbeiðslu á Jehóva með því að breyta því sem þurfti til að bæta sambandið við hann. Í rauninni vildu þeir ekki ganga með Guði.

8 Það var annað sem var athugavert við iðrun Ísraelsmanna. Þeir héldu áfram að syndga. Þeir drýgðu alls konar syndir, svo sem fjársvik, morð, þjófnað og skurðgoðadýrkun, auk þess að gera óskynsamleg bandalög við aðrar þjóðir. Í Hósea 7:4 er landsmönnum líkt við „glóandi ofn“ bakara en það vísar sennilega til hinna röngu langana sem brunnu innra með þeim. Verðskulduðu þeir miskunn í ljósi þess hve illa þeir voru á sig komnir trúarlega? Nei, Hósea segir þessu uppreisnargjarna fólki að Jehóva „minnist misgjörðar þeirra“ og ‚vitji synda þeirra‘. (Hósea 9:9) Þeir hljóta enga miskunn.

9. Hvað má læra um iðrun og miskunn af orðum Hósea?

9 Hvað má læra um iðrun og miskunn af orðum Hósea? Hinir trúlausu Ísraelsmenn eru víti til varnaðar og minna á að við verðum að sýna einlæga iðrun til að hljóta miskunn Jehóva. Hvernig birtist slík iðrun? Jehóva lætur ekki blekkjast af orðum eða táraflóði. Sönn iðrun sýnir sig í verkum. Til að hljóta miskunn þarf syndari að snúa algerlega við blaðinu, bæta ráð sitt og halda sig við þann mælikvarða sem hin háleita tilbeiðsla á Jehóva setur fólki.

Það er ekki nóg að færa fórnir til að þóknast Guði

10, 11. Hvers vegna er ekki nóg að færa fórnir til að þóknast Jehóva, eins og Ísrael er dæmi um?

10 Lítum nú á annan lærdóm sem getur hjálpað okkur að ganga með Jehóva: Það er ekki nóg að færa fórnir til að þóknast Guði. Í Hósea 6:6 segir: „Á miskunnsemi hefi ég [Jehóva] þóknun, en ekki á sláturfórn, og á guðsþekking fremur en á brennifórnum.“ Við tökum eftir að Jehóva hefur þóknun á miskunnsemi, það er að segja tryggum kærleika sem á rætur sínar í hjartanu, og á því að við þekkjum sig. En þér er ef til vill spurn hvers vegna versið segir að Jehóva hafi ekki þóknun á „sláturfórn“ og „brennifórnum“. Var þeirra ekki krafist samkvæmt Móselögunum?

11 Í lögmálinu var kveðið á um sláturfórnir og brennifórnir. En það var ekki allt með felldu hjá samtíðarmönnum Hósea. Sumir Ísraelsmenn virðast hafa fært fórnir af skyldurækni til að sýnast guðræknir en hafa stundað synd eftir sem áður. Með því að syndga sýndi fólk að það bjó engin tryggð eða kærleikur í hjarta þess. Það sýndi jafnframt að það hafði hafnað þekkingunni á Guði því að það lifði ekki í samræmi við hana. Hvaða gildi höfðu fórnirnar fyrst menn lifðu ekki rétt og hjartalag þeirra var ekki rétt? Jehóva Guð hafði andstyggð á fórnum þeirra.

12. Hvaða viðvörun til nútímamanna er að finna í Hósea 6:6?

12 Í orðum Hósea er fólgin alvarleg viðvörun til margra kirkjurækinna manna. Þeir færa Guði fórnir með trúarathöfnum sínum. Hins vegar hefur tilbeiðsla þeirra hverfandi áhrif, ef nokkur, á daglega breytni þeirra. Hefur Guð velþóknun á þeim ef hjartað knýr þá ekki til að byggja upp nákvæma þekkingu á honum, fara eftir því sem þeir læra og forðast syndsamlegt líferni? Við skulum ekki ímynda okkur að trúarverkin ein nægi til að þóknast Guði. Hann hefur enga þóknun á mönnum sem reyna að afla sér hylli hans með forminu einu í stað þess að lifa í samræmi við orð hans. — 2. Tímóteusarbréf 3:5.

13. Hvers konar fórnir færum við en hvað ættum við að hafa hugfast varðandi gildi þeirra?

13 Við verðum að hafa hugfast að við þóknumst ekki Guði með því einu að færa fórnir. Sannkristnir menn færa auðvitað ekki dýrafórnir heldur „lofgjörðarfórn fyrir Guð, ávöxt vara, er játa nafn hans“. (Hebreabréfið 13:15) Það er mjög mikilvægt að falla ekki í sömu gildru og syndugir Ísraelsmenn á dögum Hósea. Við skulum ekki láta okkur detta í hug að við getum bætt fyrir syndir með því að færa Guði fórnir. Tökum dæmi. Unglingsstúlka, sem stundaði siðleysi í laumi, viðurkenndi síðar: „Ég varð enn duglegri í boðunarstarfinu því að ég ímyndaði mér að þannig gæti ég einhvern veginn bætt fyrir syndina.“ Þetta er ósköp svipað og hinir þrjósku Ísraelsmenn gerðu. Jehóva hefur því aðeins velþóknun á lofgerðarfórnum okkar að þær haldist í hendur við réttar hvatir og guðrækilega breytni.

Jehóva sárnar þegar dýrkendur hans snúa baki við honum

14. Hvað opinberar spádómur Hósea um tilfinningar Guðs?

14 Það þriðja, sem við lærum af 6. til 9. kafla Hóseabókar, er hvernig Jehóva er innanbrjósts þegar dýrkendur hans snúa baki við honum. Jehóva hefur bæði hlýjar og sterkar tilfinningar. Hann gleðst þegar fólk iðrast synda sinna og honum er mjög annt um það. Hins vegar tekur hann föstum tökum þá sem iðrast ekki. Við gleðjum hann þegar við göngum með honum í trúfesti vegna þess að honum er ákaflega annt um velferð okkar. „Drottinn hefir þóknun á lýð sínum,“ segir í Sálmi 149:4. En hvernig er Jehóva innanbrjósts þegar þjónar hans eru honum ótrúir?

15. Hvernig komu sumir Ísraelsmenn fram samkvæmt Hósea 6:7?

15 Jehóva segir um ótrúa Ísraelsmenn: „Þeir hafa rofið sáttmálann að manna hætti, þar hafa þeir verið mér ótrúir.“ (Hósea 6:7) Hebreska orðið, sem þýtt er „ótrúir“, er notað í Malakí 2:10-16 til að lýsa ótryggð Ísraelsmanna í hjónabandi. Heimildarrit segir um notkun orðsins í Hósea 6:7 að „dregin sé líking af hjónabandi þar sem lýst er persónulegum eiginleikum . . . Um er að ræða persónulegt samband þar sem traðkað hefur verið á ástinni.“

16, 17. (a) Virti Ísrael sáttmála Guðs? (b) Hvað ættum við að hafa hugfast í sambandi við verk okkar?

16 Jehóva leit á Ísrael sem táknræna eiginkonu vegna sáttmála síns við þjóðina. Þegar hún braut ákvæði sáttmálans var það eins og hún væri að drýgja hór. Guð var eins og trúr eiginmaður en fólk hans yfirgaf hann.

17 Hvað um okkur? Guði stendur ekki á sama um það hvort við göngum með honum eða ekki. Við ættum að muna að „Guð er kærleikur“ og að við höfum áhrif á hann með verkum okkar. (1. Jóhannesarbréf 4:16) Við getum valdið Jehóva sársauka og bökum okkur vanþóknun hans ef við tökum ranga stefnu. Ef við höfum þetta hugfast er miklu minni hætta á að við látum undan freistingum.

Hvernig getum við uppskorið hið góða?

18, 19. Hvaða meginreglu er að finna í Hósea 8:7 og hvernig sannaðist hún á Ísraelsmönnum?

18 Snúum okkur nú að því fjórða sem læra má af orðum Hósea — hvernig við getum uppskorið hið góða. Spámaðurinn skrifar um heimsku Ísraelsmanna og auvirðilega ótryggð þeirra: „Þeir sá vindi, og storm skulu þeir uppskera.“ (Hósea 8:7) Hér finnum við meginreglu sem við ættum að hafa skýrt í huga: Það er beint samband milli þess sem við gerum núna og þess hvernig fer fyrir okkur síðar. Hvernig sannaðist þetta á hinum ótrúu Ísraelsmönnum?

19 Ísraelsmenn sáðu illu með því að halda áfram að syndga. Myndu þeir komast upp með það til lengdar? Nei, þeir gátu ekki umflúið dóm Guðs. Hósea 8:13 segir: „Nú mun hann [Jehóva] minnast misgjörðar þeirra og vitja synda þeirra.“ Og í Hósea 9:17 lesum við: „Guð minn mun hafna þeim, því að þeir hafa ekki hlýtt honum, og þeir munu fara landflótta meðal þjóðanna.“ Jehóva ætlaði að draga þá til ábyrgðar fyrir syndirnar. Þeir sáðu illu og hlutu að uppskera hið illa. Dómi Guðs yfir þeim var fullnægt árið 740 f.Kr. þegar Assýringar lögðu tíuættkvíslaríkið Ísrael undir sig og fluttu landsmenn í útlegð.

20. Hvað má læra af reynslu Ísraelsmanna?

20 Það sem Ísraelsmenn fengu að reyna minnir á þau grundvallarsannindi að við uppskerum eins og við sáum. Orð Guðs aðvarar: „Villist ekki! Guð lætur ekki að sér hæða. Það sem maður sáir, það mun hann og uppskera.“ (Galatabréfið 6:7) Ef við sáum illu uppskerum við hið illa. Þeir sem lifa í siðleysi uppskera slæmar afleiðingar þess, svo dæmi sé tekið. Syndarar, sem iðrast ekki, verða ekki gæfuríkir.

21. Hvernig getum við uppskorið hið góða?

21 Hvernig getum við þá uppskorið hið góða? Það má svara þessari spurningu með einfaldri samlíkingu. Ætli bóndinn sái byggi ef hann vill uppskera hveiti? Auðvitað ekki. Hann verður að sá sömu tegund og hann vill uppskera. Ef við viljum uppskera hið góða verðum við að sá hinu góða. Langar þig til að halda áfram að uppskera hið góða — hamingju og lífsfyllingu ásamt voninni um eilíft líf í nýjum heimi Guðs? Þá þarftu að halda áfram að sá hinu góða með því að ganga með Guði og lifa í samræmi við réttlátan mælikvarða hans.

22. Hvað höfum við lært af 6. til 9. kafla hjá Hósea?

22 Við lærum fernt af 6. til 9. kafla hjá Hósea sem getur hjálpað okkur að ganga með Guði: (1) Sönn iðrun birtist í verkum. (2) Það er ekki nóg að færa fórnir til að þóknast Guði. (3) Jehóva sárnar þegar dýrkendur hans snúa baki við honum. (4) Til að uppskera hið góða verðum við að sá góðu. Hvernig geta síðustu fimm kaflar Hóseabókar hjálpað okkur að ganga með Guði?

Hvert er svarið?

• Hvernig birtist sönn iðrun?

• Af hverju er ekki nóg að færa fórnir til að þóknast föður okkar á himnum?

• Hvernig er Guði innanbrjósts þegar þjónar hans snúa baki við honum?

• Hverju verðum við að sá til að uppskera hið góða?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 23]

Hollusta og kærleikur Ísraelsmanna eru horfin rétt eins og morgunskýin.

[Mynd á blaðsíðu 23]

Rangar langanir brunnu innra með Ísraelsmönnum líkt og glóandi ofn.

[Mynd á blaðsíðu 24]

Af hverju hafnaði Jehóva fórnum þjóðar sinnar?

[Mynd á blaðsíðu 25]

Við verðum að sá góðu til að uppskera hið góða.