Höfuðþættir Jobsbókar
Orð Jehóva er lifandi
Höfuðþættir Jobsbókar
ÆTTFAÐIRINN JOB býr í Úslandi þar sem nú heitir Arabíuskagi. Þetta er á þeim tíma sem mikill fjöldi Ísraelsmanna er búsettur í Egyptalandi. Job er ekki ísraelskur en tilbiður þó Jehóva Guð. Sagt er um hann í Biblíunni: „Enginn er hans líki á jörðu, maður ráðvandur og réttlátur, guðhræddur og grandvar.“ (Jobsbók 1:8) Þetta hlýtur að hafa verið eftir daga Jósefs, sonar Jakobs, en fyrir daga spámannsins Móse sem báðir voru framúrskarandi þjónar Jehóva.
Talið er að það hafi verið Móse sem ritaði Jobsbók. Sennilega fékk hann vitneskju um Job á þeim 40 árum sem hann bjó í Midían en það er ekki fjarri Úslandi. Móse gæti hafa frétt af síðustu æviárum Jobs þegar Ísraelsmenn voru í grennd við Ús, rétt um það leyti sem 40 ára eyðimerkurgöngunni var að ljúka. * Svo fallega er sagan af Job skrifuð að hún er talin bókmenntalegt meistaraverk. En sagan er meira en það. Hún svarar spurningum á borð við: Af hverju þjást góðir menn? Hvers vegna leyfir Jehóva illskuna? Geta ófullkomnir menn verið Guði trúir? Jobsbók er lifandi og kröftug enn þann dag í dag, enda hluti af innblásnu orði Guðs. — Hebreabréfið 4:12.
„FARIST SÁ DAGUR, SEM ÉG FÆDDIST Á“
Dag nokkurn véfengir Satan ráðvendni Jobs frammi fyrir Guði. Jehóva leyfir þá Satan að leggja á Job hverja ógæfuna á fætur annarri. En Job neitar að ‚formæla Guði‘. — Jobsbók 2:9.
Þrír félagar Jobs koma þá til að „votta honum samhryggð sína“. (Jobsbók 2:11) Þeir sitja hjá honum án þess að segja aukatekið orð uns Job rýfur þögnina og segir: „Farist sá dagur, sem ég fæddist á.“ (Jobsbók 3:3) Hann óskar þess að hann væri „eins og börn, sem aldrei hafa séð ljósið“, það er að segja andvanafædd. — Jobsbók 3:11, 16.
Biblíuspurningar og svör:
1:4 — Héldu börn Jobs upp á afmæli? Nei, í frummálinu eru notuð ólík orð um ‚dag‘ og ‚afmælisdag‘. (1. Mósebók 40:20) Í Jobsbók 1:4 er notað orðið ‚dagur‘ sem táknar tímann frá sólarupprás til sólseturs. Hinir sjö synir Jobs virðast hafa haldið sjö daga fjölskyldufagnað einu sinni á ári og skipst á að halda veislu heima hjá sér „hver sinn dag“.
1:6; 2:1 — Hverjir fengu að ganga fram fyrir Jehóva? Meðal þeirra sem fengu að ganga fram fyrir Guð voru eingetinn sonur hans (Orðið), trúir englar og óhlýðnir englar („synir Guðs“), þeirra á meðal Satan djöfullinn. (Jóhannes 1:1, 18) Satan og illu öndunum var ekki úthýst af himnum fyrr en 1914, skömmu eftir að ríki Guðs var stofnsett. (Opinberunarbókin 12:1-12) Með því að leyfa þeim að ganga fram fyrir auglit sitt lét Jehóva allar andaverurnar verða vitni að ögrun Satans og því deilumáli sem var fólgið í henni.
1:7; 2:2 — Talaði Jehóva milliliðalaust við Satan? Biblían er fáorð um það hvernig Jehóva á tjáskipti við andaverur. Míka spámaður sá þó sýn þar sem engill talaði beint við Jehóva. (1. Konungabók 22:14, 19-23) Af því virðist mega ætla að Jehóva hafi talað milliliðalaust við Satan.
1:21 — Hvernig gat Job snúið aftur í ‚móðurskaut‘? Jehóva Guð skapaði manninn „af leiri jarðar“ þannig að ‚móðurskaut‘ hlýtur að vera notað í óeiginlegri merkingu í þessu samhengi og vísa til jarðarinnar. — 1. Mósebók 2:7.
2:9 — Í hvaða hugarástandi kann kona Jobs að hafa verið þegar hún sagði honum að formæla Guði og fara að deyja? Hún hafði orðið fyrir sama missi og maðurinn hennar. Það hlýtur að hafa tekið hana sárt að horfa upp á manninn sinn, sem hafði verið svo heill og hraustur, sleginn andstyggilegum sjúkdómi. Hún hafði misst börnin sín. Ef til vill var hún svo miður sín vegna alls þessa að hún missti sjónar á því sem skipti mestu máli, sambandinu við Guð.
Lærdómur:
1:8-11; 2:3-5. Af dæmi Jobs má sjá að ráðvendni er ekki aðeins fólgin í réttri breytni og orðum heldur útheimtir hún einnig að við þjónum Jehóva af réttu tilefni.
1:21, 22. Með því að vera Jehóva trú í blíðu og stríðu getum við sannað að Satan sé lygari. — Orðskviðirnir 27:11.
2:9, 10. Við ættum að vera staðföst í trúnni líkt og Job var, jafnvel þó að ættingjar séu ekki hrifnir af trúarlífi okkar eða reyni að fá okkur til að gera einhverja málamiðlun eða gefa trúna upp á bátinn.
2:13. Félagar Jobs höfðu ekkert uppörvandi fram að færa um Guð og fyrirheit hans vegna þess að þeir hugsuðu ekki á andlegum nótum.
„LÆT ÉG EKKI TAKA FRÁ MÉR SAKLEYSI MITT“
Kjarninn í ræðum þriggja félaga Jobs er sá að hann hljóti að hafa gert eitthvað illt af sér til að fá svona harða refsingu af hendi Guðs. Elífas gefur tóninn. Bildad fer að dæmi hans en er hvassari í orðum. Sófar bætir svo um betur.
Job kyngir ekki falsrökum gesta sinna. Hann skilur ekki hvers vegna Guð hefur leyft að hann þjáist og reynir allt hvað hann getur til að réttlæta sig. Engu að síður elskar hann Guð og segir: „Þar til er ég gef upp andann, læt ég ekki taka frá mér sakleysi mitt.“ — Jobsbók 27:5.
Biblíuspurningar og svör:
7:1; 14:14 — Hvað er átt við með „herþjónustu“? Slík var kvöl Jobs að honum fannst lífið vera eins og ill og erfið herþjónusta. (Jobsbók 10:17) Tíminn, sem maður hvílir í gröfinni frá dánardegi fram til upprisu, er eins og skyldukvöð þannig að Job líkti honum við herskyldu.
7:9, 10; 10:21; 16:22 — Má skilja þessi orð þannig að Job hafi ekki trúað á upprisu? Job er að tjá sig um nánustu framtíð. Hvað átti hann þá við? Einn möguleikinn er sá að enginn af samtíðarmönnum hans myndi sjá hann eftir það ef hann dæi. Frá þeirra sjónarhóli myndi hann aldrei snúa aftur í hús sitt og enginn þekkja hann framar fyrr en á tilteknum tíma Guðs. Þá er einnig hugsanlegt að Job hafi átt við að enginn geti snúið aftur úr gröfinni af eigin rammleik. Hins vegar er ljóst af Jobsbók 14:13-15 að hann trúði á upprisu.
10:10 — Hvernig hafði Jehóva ‚hellt Job sem mjólk og hleypt hann sem ost‘? Þetta er skáldamál sem lýsir hvernig Job myndaðist í móðurkviði.
19:20 — Hvað á Job við þegar hann segir: „Ég hefi sloppið með tannholdið eitt“? Samkvæmt biblíunni frá 1912 segist Job hafa ‚komist undan með húð tanna sinna eina‘. Nú líta tennurnar ekki út fyrir að hafa neina húð þannig að Job er hugsanlega að segja að hann hafi komist undan svo að segja allslaus.
Lærdómur:
4:7, 8; 8:5, 6; 11:13-15. Við megum ekki álykta í fljótfærni að bágstaddur maður sé að uppskera eins og hann sáði og njóti ekki velþóknunar Guðs.
4:18, 19; 22:2, 3. Við ættum að byggja ráðleggingar á orði Guðs en ekki eigin skoðunum. — 2. Tímóteusarbréf 3:16.
10:1. Biturleikinn blindaði Job þannig að honum datt ekki í hug aðrar hugsanlegar ástæður fyrir þjáningum sínum. Við megum ekki verða bitur þegar við þjáumst, sérstaklega vegna þess að við sjáum í skýru ljósi um hvaða deilumál er að tefla.
14:7, 13-15; 19:25; 33:24. Upprisuvonin getur haldið okkur gangandi í hvaða prófraun sem Satan leggur á okkur.
16:5; 19:2. Við ættum að vera hvetjandi og styrkjandi en ekki skaprauna öðrum með orðum okkar. — Orðskviðirnir 18:21.
22:5-7. Það er tilgangslaust og til tjóns að leiðrétta mann ef ásakanir á hendur honum eru tilhæfulausar.
27:2; 30:20, 21. Við þurfum ekki að vera fullkomin til að vera ráðvönd. Job gagnrýndi Guð ranglega.
27:5. Enginn gat tekið sakleysi Jobs frá honum nema hann sjálfur vegna þess að sakleysi og ráðvendni byggist á kærleika manns til Guðs. Við ættum því að glæða með okkur sterkan kærleika til Jehóva.
28:1-28. Maðurinn veit hvar fjársjóðir jarðar eru geymdir. Slíkt er hugvit hans að hann finnur sér vegi neðanjarðar sem fráneygir ránfuglar geta ekki séð. Sönn speki eða viska er hins vegar byggð á því að óttast Jehóva.
29:12-15. Við ættum að sýna þeim sem eru þurfandi ást og umhyggju.
31:1, 9-28. Job er til fyrirmyndar með því að forðast daður, hjúskaparbrot, efnishyggju og skurðgoðadýrkun, og með því að vera hvorki ósanngjarn né miskunnarlaus í garð annarra.
JOB „IÐRAST Í DUFTI OG ÖSKU“
Ungur maður, sem Elíhú heitir, hefur fylgst með orðræðunni. Nú tekur hann til máls og leiðréttir Job og kvalara hans.
Jehóva svarar úr stormviðrinu jafnskjótt og Elíhú lýkur máli sínu. Hann kemur ekki með neina skýringu á þjáningum Jobs heldur vekur athygli á mikilleik sínum og visku með því að varpa fram ýmsum spurningum. Job viðurkennir að hann hafi ekki talað af skynsemi og segir: „Fyrir því tek ég orð mín aftur og iðrast í dufti og ösku.“ (Jobsbók 42:6) Job er umbunuð ráðvendnin eftir að þrengingum hans lýkur.
Biblíuspurningar og svör:
32:1-3 — Hvenær kom Elíhú á vettvang? Fyrst Elíhú heyrði alla orðræðuna hlýtur hann að hafa fengið sér sæti í heyrnarfæri, einhvern tíma áður en Job tók til máls og batt enda á vikulanga þögn félaganna þriggja. — Jobsbók 3:1, 2.
34:7 — Í hvaða skilningi var Job líkur manni sem „drekkur guðlast eins og vatn“? Meðan Job var sem þjáðastur hafði hann tilhneigingu til að túlka orð þremenninganna þannig að þeir væru að lasta sig þótt þeir væru í rauninni að lasta Guð. (Jobsbók 42:7) Hann tók því við lastinu rétt eins og maður drekkur vatn sér til hressingar.
Lærdómur:
32:8, 9. Menn verða ekki alltaf vitrir með aldrinum heldur þurfa þeir að skilja orð Guðs og þiggja leiðsögn anda hans til að verða vitrir.
34:36. Við sönnum ráðvendni okkar með því að ‚verða reynd æ að nýju‘ á einhvern hátt.
35:2. Elíhú hlustaði vel og glöggvaði sig á kjarna málsins áður en hann opnaði munninn. (Jobsbók 10:7; 16:7; 34:5) Safnaðaröldungar þurfa að hlusta vel, fá að vita allar staðreyndir og skilja til hlítar hvað skiptir máli áður en þeir leiðbeina öðrum. — Orðskviðirnir 18:13.
37:14; 38:1–39:30. Við finnum til smæðar okkar ef við hugleiðum dásemdir Guðs — máttinn og viskuna sem birtist í verkum hans — og við áttum okkur á því að það er mikilvægara mál að upphefja drottinvald hans en að sinna einhverjum hagsmunum sjálfra okkar. — Matteus 6:9, 10.
40:1-4. Við ættum að ‚leggja hönd á munninn‘ ef við finnum fyrir tilhneigingu til að kvarta yfir alvöldum Guði.
40:15–41:34. Nykurinn (flóðhesturinn) og krókódíllinn eru óhemjusterk dýr. Við þurfum einnig að fá styrk frá skapara þessara kraftmiklu dýra til að vera þolgóð í þjónustu hans. — Filippíbréfið 4:13.
42:1-6. Job fékk að „líta Guð“ eða skilja sannleikann um hann þegar hann heyrði orð hans og var minntur á hvernig máttur hans birtist. (Jobsbók 19:26) Þannig leiðrétti hann hugsunarhátt sinn. Ef við erum leiðrétt með hjálp Biblíunnar ættum við að viðurkenna villu okkar fúslega og bæta ráð okkar.
Tileinkum okkur „þolgæði Jobs“
Jobsbók dregur það skýrt fram að þjáningar mannanna eru ekki Guði að kenna heldur Satan. Með því að leyfa illskuna á jörðinni hefur Guð gefið okkur tækifæri til að svara persónulega hvaða afstöðu við tökum í deilunni um drottinvald hans og um trúfesti okkar.
Allir sem elska Jehóva verða reyndir líkt og Job. Frásagan af Job ætti að sannfæra okkur um að við getum staðist. Og hún minnir á að erfiðleikarnir eru ekki eilífir. „Þér hafið heyrt um þolgæði Jobs og vitið, hvaða lyktir Drottinn gjörði á högum hans,“ segir í Jakobsbréfinu 5:11. Jehóva launaði Job trúfestina. (Jobsbók 42:10-17) Við eigum unaðslega von um eilíft líf í paradís á jörð. Við skulum því vera staðráðin í að vera ráðvönd eins og Job. — Hebreabréfið 11:6.
[Neðanmáls]
^ gr. 2 Jobsbók nær yfir meira en 140 ára sögu einhvern tíma á árabilinu 1657 og 1473 f.Kr.
[Mynd á blaðsíðu 16]
Hvað má læra af „þolgæði Jobs“?