Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Við höfum fundið Messías“

„Við höfum fundið Messías“

„Við höfum fundið Messías“

„VIÐ höfum fundið Messías!“ „Vér höfum fundið þann, sem Móse skrifar um í lögmálinu og spámennirnir.“ Þessi óvæntu orð eru höfð eftir tveim trúuðum Gyðingum á fyrstu öld. Þeir voru fullkomlega sannfærðir um að hinn fyrirheitni Messías væri loksins kominn. — Jóhannes 1:35-45.

Sannfæring mannanna tveggja er enn merkilegri þegar hún er skoðuð í sögulegu og trúarlegu samhengi. Margir svokallaðir frelsarar höfðu komið fram og gefið fögur fyrirheit. Þeim hafði verið fagnað en vonirnar reyndust skammlífar þegar þeim tókst ekki að standa við stóru orðin og frelsa Gyðinga undan oki Rómverja. — Postulasagan 5:34-37.

Þessir tveir Gyðingar — þeir Andrés og Filippus — efuðust hins vegar aldrei um að þeir hefðu fundið hinn sanna Messías. Og sannfæring þeirra styrktist á næstu árum þegar þeir horfðu með eigin augum upp á kraftaverkin sem þessi maður vann og sáu hann uppfylla spádómana um Messías.

Af hverju trúðu mennirnir tveir og margir aðrir á hann? Af hverju voru þeir sannfærðir um að þarna væri ekki á ferðinni enn einn falsmessías eða svikahrappur? Hvað studdi það með sannfærandi hætti að hér væri Messías kominn?

Þegar Andrés og Filippus sögðust hafa fundið hinn langþráða og fyrirheitna Messías bentu þeir á smiðinn Jesú frá Nasaret. (Jóhannes 1:45) Vandvirkur sagnaritari og samtíðarmaður, Lúkas að nafni, segir að Messías hafi komið fram „á fimmtánda stjórnarári Tíberíusar keisara“. (Lúkas 3:1-3) Fimmtánda stjórnarár Tíberíusar hófst í september árið 28 og því lauk í september árið 29. Lúkas lætur þess einnig getið að „eftirvænting“ hafi verið vakin meðal Gyðinga á þeim tíma því að menn bjuggust við að Messías væri í þann mund að koma. (Lúkas 3:15) Af hverju væntu menn Messíasar á þeim tíma? Könnum málið.

Sönnunargögnin

Þegar á það er litið hve mikilvægu hlutverki Messías átti að gegna er rökrétt að skaparinn, Jehóva Guð, hafi gefið skýrar vísbendingar þannig að vökulir og trúir menn ættu auðvelt með að bera kennsl á hann þegar hann kæmi. Af hverju? Af því að þannig gátu glöggir einstaklingar varað sig á svindlurum sem margir létu vissulega blekkjast af.

Þegar nýr sendiherra gengur á fund stjórnvalda erlends ríkis er þess vænst að hann leggi fram skjöl og skilríki til að staðfesta að hann sé skipaður í embættið. Jehóva lét sömuleiðis skrásetja með löngum fyrirvara hvaða skilyrði Messías þyrfti að uppfylla. Þegar hann birtist myndi hann því bera með sér skilríki, ef svo má að orði komast, til að sanna deili á sér.

Skilyrðin, sem Messías þurfti að uppfylla, voru sett fram í fjölda biblíuspádóma sem höfðu verið skráðir öldum áður. Þar var tiltekið í smáatriðum hvernig Messías kæmi, hvers eðlis þjónusta hans yrði, hvernig hann myndi þjást af hendi annarra og með hvaða hætti hann myndi deyja. Það er einnig athyglisvert að þessir áreiðanlegu spádómar boðuðu upprisu hans, tiltóku að hann yrði upphafinn til hægri handar Guði og lýstu hvaða blessun ríki hans myndi veita mannkyni í framtíðinni. Þannig má segja að spádómar Biblíunnar hafi dregið upp skýra mynd sem gat aðeins verið af einum manni, rétt eins og fingrafar getur aðeins tilheyrt einni ákveðinni manneskju.

Það rættust auðvitað ekki allir Messíasarspádómarnir á augabragði þegar Jesús kom fram á sjónarsviðið árið 29. Til dæmis var ekki búið að taka hann af lífi eða reisa hann upp frá dauðum. En Andrés, Filippus og margir fleiri trúðu samt á Jesú vegna þess sem hann kenndi og gerði. Þeir sáu kappnógar sannanir fyrir því að hann væri Messías. Ef þú hefðir verið uppi á þeim tíma og hefðir getað skoðað sönnunargögnin sjálfur með opnum huga hefðir þú sennilega einnig sannfærst um að Jesús væri Messías.

Samsett mynd

Hvað hefði hjálpað þér að komast að þessari niðurstöðu? Spámenn Biblíunnar höfðu í aldanna rás tiltekið sérstök skilyrði sem Messías þurfti að uppfylla þannig að ekki væri um að villast hver hann væri. Myndin af Messíasi skýrðist smám saman öld fram af öld eftir því sem fleiri spádómar voru bornir fram. Henry H. Halley segir: „Setjum sem svo að nokkrir menn, hver í sínu landi, sem hefðu aldrei hist og aldrei átt nein samskipti hver við annan, myndu ganga inn í herbergi og hver um sig leggja fram stykki úr útskornum marmara, og þegar stykkin væru lögð saman yrði úr þeim fullkomin stytta. Það yrði einungis skýrt með þeim hætti að einhver ein manneskja hefði gert nákvæma lýsingu og sent hverjum manni sinn hluta.“ Síðan spyr hann: „Hvernig er hægt að skýra þessa undraverðu mynd af ævi og starfi Jesú, sem sett er saman af ólíkum riturum á ólíkum tímum, öldum áður en Jesús kom fram, með öðrum hætti en þeim að EINN OFURMANNLEGUR HUGSUÐUR hafi haft yfirumsjón með rituninni?“ Halley kemst að þeirri niðurstöðu að þetta sé „einstætt kraftaverk“.

Þetta „kraftaverk“ hefst í fyrstu bók Biblíunnar. Þar er að finna spádóm með fyrstu vísbendingu um hlutverk Messíasar en auk þess skrásetur ritari bókarinnar að Messías eigi að koma af ætt Abrahams. (1. Mósebók 3:15; 22:15-18) Þar er einnig gefin vísbending um að hann komi af ættkvísl Júda. (1. Mósebók 49:10) Fyrir munn Móse sagði Guð Ísraelsmönnum að Messías yrði talsmaður og frelsari meiri en Móse. — 5. Mósebók 18:18.

Á dögum Davíðs konungs var upplýst í spádómi að Messías ætti að erfa hásæti Davíðs og að ríki hans skyldi vera „óbifanlegt að eilífu“. (2. Samúelsbók 7:13-16) Míka spámaður opinberar að Messías skuli fæðast í Betlehem, ættborg Davíðs. (Míka 5:1) Jesaja sagði fyrir að hann myndi fæðast af mey. (Jesaja 7:14) Malakí spámaður sagði frá því að einhver líkur Elía myndi boða komu hans. — Malakí 4:5, 6.

Í Daníelsbók er að finna fleiri upplýsingar um Messías. Þar er tilgreint nákvæmlega hvaða ár hann eigi að koma. Spádómurinn hljóðar svo: „Vit því og hygg að: Frá því, er orðið um endurreisn Jerúsalem út gekk, til hins smurða höfðingja [þ.e.a.s. Messíasar], eru sjö sjöundir, og í sextíu og tvær sjöundir skulu torg hennar og stræti endurreist verða, þó að þrengingartímar séu.“ — Daníel 9:25.

Artaxerxes (Artahsasta) Persakonungur gaf út „orðið“ um endurreisn Jerúsalem á 20. stjórnarári sínu. Hann tók við völdum árið 474 f.Kr. þannig að 20. stjórnarárið hefur þá verið 455 f.Kr. (Nehemíabók 2:1-8) Það áttu að líða 69 spádómlegar sjöundir (7 plús 62) frá því að skipunin var gefin um endurreisn Jerúsalem þangað til Messías kæmi. Sumar biblíuþýðingar tala um „vikur“ í stað sjöunda. Sextíu og níu vikur samsvara aðeins 483 dögum eða innan við tveim árum. Sé hins vegar fylgt spádómlegri reglu um „dag fyrir ár hvert“ kemur í ljós að Messías átti að koma fram eftir 483 ár eða árið 29 e.Kr. — Esekíel 4:6. *

Margir höfðu komið fram á ýmsum tímum og þóst vera Messías eins og áður er getið. En Jesús frá Nasaret kom fram á sjónarsviðið árið 29. (Lúkas 3:1, 2) Það var það ár sem hann kom til Jóhannesar skírara til að taka skírn. Þá var hann smurður með heilögum anda og varð Messías. Jóhannes skírari var undanfarinn sem líktist Elía og hann kynnti Jesú síðar fyrir Andrési og öðrum lærisveini og kallaði hann „Guðs lamb, sem ber synd heimsins“. — Jóhannes 1:29; Lúkas 1:13-17; 3:21-23.

Ættarskrár auðkenndu Messías

Hinir innblásnu spádómar tengdu Messías við sérstakar Gyðingaættir. Það verður því að teljast rökrétt að alvitur skapari hafi gætt þess að til væru ættarskrár til að staðfesta ætterni Messíasar á þeim tíma þegar hann kom fram.

Cyclopedia McClintocks og Strongs segir: „Lítill vafi leikur á að skrárnar um ættir og ættkvíslir Gyðinga glötuðust þegar Jerúsalem var eytt [árið 70 e.Kr.] en ekki fyrr.“ Sterk rök eru fyrir því að Matteus og Lúkas hafi skrifað guðspjöll sín fyrir árið 70. Þeir hafa því getað flett upp í þessum skrám þegar þeir ættfærðu Jesú. (Matteus 1:1-16; Lúkas 3:23-38) Og þar sem um var að ræða svona feikilega mikilvægt mál hafa margir samtíðarmenn þeirra eflaust viljað sannreyna sjálfir að rétt væri farið með ætterni Jesú.

Gátu spádómarnir ræst á Jesú af tilviljun?

En er hugsanlegt að það sé hrein tilviljun að spádómarnir um Messías skyldu rætast á Jesú? Fræðimaður var spurður álits á því og hann svaraði: „Það er útilokað. Líkurnar eru svo hverfandi að það er hrein fjarstæða. Það hefur verið reiknað út og niðurstaðan var sú að líkurnar á því að aðeins átta spádómar rættust af tilviljun eru einn á móti hundrað milljón milljörðum.“ Síðan brá hann upp dæmi til að lýsa því hve fráleitar líkur þetta væru: „Ef við tækjum þetta marga silfurdali og dreifðum þeim jafnt yfir Texas [sem er 690.000 ferkílómetrar að flatarmáli] yrði lagið tveggja feta djúpt [um 60 sentímetrar]. Við merkjum einn silfurdalinn. Síðan sendum við mann með bundið fyrir augun, látum hann ráfa um allt ríkið og taka upp einn pening. Hvaða líkur ætli séu á því að hann taki upp merkta peninginn?“ Hann svaraði svo spurningunni og sagði: „Líkurnar eru þær sömu og að hver sem er hefði getað uppfyllt aðeins átta af spádómunum [um Messías].“

Á þeim þrem og hálfu ári, sem þjónusta Jesú stóð yfir, uppfyllti hann ekki aðeins átta biblíuspádóma heldur fjölmarga. Áðurnefndur fræðimaður komst því að eftirfarandi niðurstöðu: „Jesú tókst þetta — og engum nema Jesú í allri mannkynssögunni.“

„Koma“ Messíasar

Ljóst er að Messías kom árið 29 þegar Jesús frá Nasaret steig fram á sjónarsviðið. Flestir Gyðingar, og fylgjendur hans sömuleiðis, virðast hafa búist við að hann kæmi sem sigursæll konungur og varpaði kúgunaroki Rómverja af þjóðinni. En Jesús kom fram sem lítillátur lausnari til að þjást fyrir mennina. (Jesaja 53. kafli; Sakaría 9:9; Postulasagan 1:6-8) Hins vegar hafði verið boðað að hann myndi koma aftur síðar og þá afar voldugur og máttugur. — Daníel 2:44; 7:13, 14.

Nákvæm athugun á spádómum Biblíunnar hefur sannfært hugsandi fólk um allan heim um það að Messías hafi komið á fyrstu öldinni og ætti svo að koma aftur síðar. Öll rök hníga að því að endurkoma hans hafi átt sér stað árið 1914. * (Matteus 24:3-14) Það ár var Jesús krýndur ósýnilega á himnum sem konungur Guðsríkis. Innan skamms mun hann losa jörðina við afleiðingarnar af uppreisninni í Eden. Hann stjórnar síðan um þúsund ár til blessunar öllum sem trúa að hann sé hið fyrirheitna sæði og Messías sem „ber synd heimsins“. — Jóhannes 1:29; Opinberunarbókin 21:3, 4.

Vottar Jehóva eru meira en fúsir til að ræða við þig um rökin fyrir þessu og sýna þér með biblíuvísunum hvað stjórn Messíasar getur þýtt fyrir þig og ástvini þína.

[Neðanmáls]

^ gr. 17 Ítarlegri upplýsingar um Daníel 9:25 er að finna í Insight on the Scriptures, 2. bindi, bls. 899-904, og Gefðu gaum að spádómi Daníelsbókar, bls. 186-191. Bæði ritin eru gefin út af Vottum Jehóva.

^ gr. 27 Nánari upplýsingar er að finna í 10. og 11. kafla bókarinnar Þekking sem leiðir til eilífs lífs, gefin út af Vottum Jehóva.

[Skýringarmynd/myndir á blaðsíðu 6]

455 f.Kr., „orðið um endurreisn Jerúsalem“.

29 e.Kr., Messías kemur

483 ár (69 spádómlegar sjöundir) — Daníel 9:25

1914, Messías krýndur á himnum.

Messías kemur bráðlega til að binda enda á illskuna og breyta jörðinni í paradís.